29. maí 2020

166. ÓVÆNTUR FUNDUR Í PALLA OG TOGGA BÓK

Það gefst tími fyrir eina stutta og ódýra færslu í dag og því er um að gera að nýta það tækifæri vel. En SVEPPAGREIFINN var fyrir ekki svo löngu síðan að fletta aðeins í gegnum myndasögurnar sínar um þá félaga Palla og Togga þegar á vegi hans varð nokkuð óvæntur glaðningur. Í einni þessara bóka rakst hann á skemmtilegan brandara sem fram til þessa hafði einhverra hluta vegna algjörlega farið framhjá honum. Fremst í bókinni Allt í lagi, frá árinu 1989, rak hann nefnilega augun í stakan myndabrandara sem vakti athygli hans. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður lesið skrýtlur sem byggðar eru á sömu hugmyndinni eða efninu en aldrei hefur það hvarflað að honum að brandarinn væri einnig til með þeim Palla og Togga.
Annars má kannski til gamans geta þess, sérstaklega vegna þess að SVEPPAGREIFINN hefur nú aldrei minnst á það áður, að Fjölvaútgáfan sendi í heildina frá sér níu teiknimyndasögur um þá prakkarana Palla og Togga á sínum tíma. Fyrstu fimm bækurnar í seríunni voru í heldur minna myndasögubroti en hefð var fyrir á Íslandi og komu út á árunum 1977-81 en síðustu fjórar voru í stærra og hefðbundnara broti og voru gefnar út á árunum 1987-89. En þetta vita nú sjálfsagt allir. Það var Ingunn Thorarensen, dóttir Þorsteins í Fjölva, sem sá um að snara þessum myndasögum yfir á okkar ylhýru íslensku.

15. maí 2020

165. TÓBAK OG ANNAR ÓÞVERRI Í MYNDASÖGUM

Það væri líklega verið að bera í bakkafullan lækinn að ætla að fara að skrifa færslu hér um brottnám frægustu sígarettu Íslandssögunnar, úr munni Bubba Morthens, enda eru Hrakfarir og heimskupör enginn vettvangur fyrir slíkar pælingar. En SVEPPAGREIFINN getur þó ekki sleppt því að nota tækifærið til að hnýta svolítið í þá sem eru viðkvæmir fyrir að horfa á sígarettur á ljósmyndum. Það skal þó tekið fram að SVEPPAGREIFINN hefur aldrei reykt og er heldur ekki neinn sérstakur forvarnapredikari þó honum finnist illþefjandi sígarettureykur reyndar afskaplega hvimleiður. En verst af öllu finnst honum eiginlega að til skuli vera svo smásmugulegt fólk sem er tilbúið að leggjast í þá lágkúru að klaga eða kæra þá klassík sem þessi áðurnefnda, frábæra ljósmynd er. Hér eru augljóslega á ferðinni einhvers konar sjálfskipaðar forræðishyggjulöggur og ... og ... fýlupúkar! Það er eiginlega varla hægt að vera ómerkilegri. Þarna er nefnilega aðeins um að ræða töff og sígilda mynd sem lýsir ekki bara ímynd Bubba á þeim tíma heldur einnig tíðarandanum og kemur tóbaksvarnarlögum hreint ekkert við.
En færsla dagsins er þessu þó tengd. Ja, reyndar með þeirri von um að hinir kæruglöðu ómerkingar fari ekki að snúa sér næst að hinum hættulegu bókakosti íslenskra myndasögunörda. Ef tekið er mið af hinum stórkostlega glæp, að birta mynd af manni með sígarettu í kjaftinum, er ekki óvarlegt að ætla að fjölmargar myndasögur hljóti að vera komnar á töluvert mikið hættusvæði. Fjöldi kunnra sögupersóna úr teiknimyndasögum, sem við þekkjum, hafa í gegnum tíðina stundað þann ósið að vera að púa tóbak af einhverju tagi í tíma og ótíma. SVEPPAGREIFINN hefur áður í færslu hér týnt til fáein atvik þar sem drykkjumenning innan teiknimyndasagna var gerð að umfjöllunarefni en nú er ætlunin að týna til nokkra reykingamenn úr myndasöguhillunum.
Kunnastur þessara reykingastrompa er klárlega sjálfur Lukku Láki og það var einmitt af hans völdum að SVEPPAGREIFINN ákvað að henda í þessa færslu. Lukku Láka fræðingurinn kunni Sverrir Örn Björnsson birti í síðustu viku, á hinni frábæru Lukku Láka grúbbu sinni á Facebook, skemmtilega ábendingu um þetta efni. Þar bendir hann einmitt á ritskoðun Borgarleikhússins á títtnefndri ljósmynd og ber saman við það þegar Morris endurskapaði Lukku Láka án sígarettnanna. Sú ákvörðun var þó reyndar tekin af höfundinum sjálfum og var ætluð til að opna á möguleika á frekari landvinningum Láka í Ameríku. En þegar Lukku Láki kom fyrst til sögunnar í SPIROU tímaritinu árið 1946 sást hann þar fljótlega með sígarettu í kjaftinum og þar var hún allt til ársins 1983 þegar grasstrá kom í hennar stað. Hann var svo sem ekkert einn um að reykja í seríunni. Flestar persónur bókaflokksins reyktu og það þarf ekki nema að opna einhverja Lukku Láka bók frá því fyrir 1983 til að sjá einhverja sögupersónu hennar með sígarettu í munnvikinu.
En það var ekki aðeins Lukku Láki sem var að staðaldri með sígarettu í munnvikinu í þeim myndasögum sem við íslenskir myndasögulesendur vorum að lesa. Flestar af þessum teiknimyndasögum voru teiknaðar á tímum þar sem reykingar voru stór hluti af menningu heimsins. Flest fullorðið fólk reykti og almennt þótti ekki nein ástæða til að vera að fela slíkan ósóma fyrir börnum og hvað þá í bókmenntum ætluð þeim. Meira að segja persónur í barnabókum Enid Blyton reyktu. Þetta breyttist þó þegar langt var orðið liðið á 20. öldina og almenn viðurkenning og vitundarvakning kviknaði um skaðsemi tóbaks. Líkt og Lukku Láki voru þeir félagarnir Sammi og Kobbi til dæmis að staðaldri með sígarettu uppi í sér. Þessar myndasögur gerast einnig flestar í Ameríku, eins og Lukku Láka bækurnar, en sögusvið þeirra eru þriðji og fjórði áratugur 20. aldarinnar í Chicago. Þarna eru bókstaflega allir reykjandi og það er því fullkomlega eðlilegt að sjá þá Samma og Kobba gera það líka. Í þessum bókum reykja þeir báðir sígarettur en Kobbi á það hins vegar líka til að grípa í vindil ef vel liggur á honum.
Sömu sögu má segja um Blástakk liðsforingja. Hann reykir að sjálfsögðu einnig en reyndar skal það tekið fram að heldur er hann hófstilltari í þeim efnum en margur annar. Í það minnsta er Blástakkur ekki neinn stórreykingamaður eins og flestir virðast vera í þeirri seríu. Líkt og var með Lukku Láka bækurnar gerast þessar bækur í villta vestrinu og þar voru sígarettur og vindlar einhvers konar staðalbúnaður hjá mörgum af hinum ódönnuðu persónum seríanna. 
Næst skulum við færa okkur eilítið frá hinu villta ameríska vestri og skoða sögur hinum megin Atlandsála sem gerast í samtíma höfunda þeirra. Ónytjungurinn og snillingurinn Viggó viðutan var fyrstu árin oft ýmist með sígarettu í munninum eða að dunda sér við að kveikja í eins og einni. Hann birtist fyrst á síðum SPIROU snemma árs 1957 og oftar en ekki reykjandi en stundum voru reykingar hans líka nauðsynlegur hluti brandaranna því þær tengdust þá á einhvern hátt hrakförum hans og slysum. Einu sinni smíðaði hann jafnvel sérstaka reykingavél sem var auðvitað, eins og gefur að skilja, töluvert hollari fyrir þá sem notuðu hana en hina sem reyktu á hefðbundinn hátt. Hins vegar mengaði vélin líklega meira en hinn venjulegi reykingamaður og hún var því mjög óhollustuvæn sökum óbeinna reykinga. Þegar frá leið minnkuðu reykingar Viggós þó töluvert og síðustu árin var hann eiginlega alveg hættur þessum leiðinlega ósið.
Samstarfsfélagar Viggós á skrifstofunni, þeir Valur, Eyjólfur og Snjólfur, voru einnig miklir tóbaksnotendur. Snjólfur reykti venjulegar sígarettur en þeir Valur og Eyjólfur tróðu sér gjarnan í pípu til að totta á milli þess sem þeir kveiktu sér einnig í hefðbundnum líkkistunöglum. Og þegar herra Seðlan birtist á skrifstofunni þá voru gjarnan dregnir fram dýrir vindlar og púaðir til hátíðarbrigða. Sjálfur Svalur var hins vegar miklu heilbrigðari í hugsun og reykti ekki. Þó man SVEPPAGREIFINN eftir einni undantekningu í bókinni Svamlað í söltum sjó. Þarna hefur hann verið tekinn höndum af Jóni Harkan og er haldið föngnum neðansjávar í sokknu skipsflaki. Þar þiggur hann sígarettu frá misindismanninum til að vinna tíma og óhætt er að segja að sú ráðstöfun hafi verið snjöll því líklega bjargaði sú töf (og sú sígaretta) lífi Svals.
Af öðrum þeim persónum sem tengjast aðalsöguhetjunum úr seríunni um Sval og Val má einnig nefna sjálfan Zorglúbb þó hann sjáist reyndar afar sjaldan reykjandi. En þegar það gerist stundar hann ósið sinn jafnan vopnaður forláta munnstykki. Líklega eru hinar stopulu reykingar Zorglúbbs þó frekar tengdar ímynd hans en fíkn því þessar munnstykkjareykingar fitta svo vel við hið óaðfinnanlega og vel til hafða útlit hans.
En eina reykingatengingu við Sval og Val í viðbót er auðvitað ekki komist hjá að nefna. Bækurnar um Litla Sval eru flestum kunnar og margir muna þar eflaust eftir stórreykingamanninum og íþróttakennaranum herra Sporta. En þessar bækur ganga auðvitað mest út á bernskubrek Svals og fikt með tóbak er að sjálfsögðu hluti æskuáranna eins og svo margir hafa eflaust brennt sig á á eigin skinni. Litli Svalur og vinir hans eru að sjálfsögðu alvöru karlar í krapinu og víla það ekki fyrir sér að vefja sínar sígarettur sjálfir og púa þær síðan af miklum myndarskap.
Og úr því að SVEPPAGREIFINN er farinn að týna til bernskubrek í myndasöguformi er ekki hægt að sleppa þeim Palla og Togga sem unnu ýmis afrek á æskuslóðum höfundar Tinna í Belgíu. Flesta þessara stuttu sagna eða brandara teiknaði Hergé með hléum á árunum 1930 - 40 en eitthvað birtust þeir síðan stopult eftir það. Á þessum tíma og slóðum dunduðu þeir Palli og Toggi sér við ýmis skammarstrik, eins og gengur og gerist, og þar voru fikt við reykingar vissulega nauðsynlegur hluti þeirra afreka. Í þessu tilfelli voru það reyndar pípureykingar.
Tinna bækurnar eru auðvitað ekki undanþegnar þeim ósið sem reykingarnar eru. Auðvitað reyktu margir þar eins og í öðrum myndasögum frá svipuðum tíma og þar fer Kolbeinn kafteinn að sjálfsögðu fremstur í flokki. Pípureykingar Kolbeins tengjast auðvitað mest sjómannsímynd hans og það er sjaldgæft að hann sjáist í bókunum án þess að vera að vera með pípu sína við hendina.
Tinni sjálfur var auðvitað algjör hetja, heilbrigðin uppmáluð og snerti því hvorki vín né tóbak eins og sannri fyrirmynd sæmir. Og þó ... Tinni var ekki alveg reyklaus eins og margir myndu líklega ætla. Líkt og Svalur í bókinni Svamlað í söltum sjó þá fórnaði Tinni einnig þessari ímynd sinni í neyð. Þetta gerðist í Bláa lótusinum, þegar hann dulbjó sig sem hershöfðingja með forláta vindil upp í sér en það má reyndar alveg deila um hversu mikið neyðartilfelli þar var um að ræða.
En nú er alla vega búið að fjalla svolítið um reykingar í teiknimyndasögum og það er þá ekki eftir.

1. maí 2020

164. ZORGLÚBB AUGLÝSIR BÍL

Best að bjóða upp á eina stopula færslu í léttari kantinum þann 1. maí enda ekkert annað í boði á svona notalegum degi. En þessi færsla er annars vegar tileinkuð hinum undarlega og vel til hafða vísindamanni Zorglúbb en hann er auðvitað þekktastur fyrir aðkomu sína að sögunum um Sval og Val auk þess sem hann hefur í seinni tíð eignast sinn eiginn bókaflokk. En hins vegar er þessi færsla tileinkuð frönsku bílategundinni Renault Dauphine Gordini sem framleidd var á árunum 1956-67. Þessi bíll var meðal annars mótsvar Renault bílaverksmiðjanna við smábílunum Volkswagen Bjöllu, Fiat 500 og Austin Mini sem voru vinsælustu og ódýrustu bílarnir á þeim tíma. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið gaman af að fletta í gegnum gömlu SPIROU teiknimyndablöðin og það var einmitt þar sem hann rakst á tengingu milli þessara tveggja ólíku hlutaðeigenda. Í SPIROU blaði númer 1160 sem kom út þann 7. júlí árið 1960 mátti nefnilega finna auglýsingu, í meðförum André Franquin, þar sem Dauphine Gordini og vísindamaðurinn Zorglúbb leiða saman hesta sína. 
Hér er Zorglúbb að vekja athygli lesenda SPIROU tímaritsins á leik sem blaðið stóð fyrir undir yfirskriftinni TOUTE LA FRANCE og myndi líklega þýðast sem FRAKKLAND ALLT á íslensku. Þessi leikur hóf göngu sína í tímaritinu fáeinum vikum áður og gekk út á það að þátttakendur hans þurftu að safna saman tíu vísbendingum sem birst höfðu í næstu tíu blöðum á undan. Þeir þurftu síðan svolítið að leggja höfuð sín í bleyti við það en saman áttu þessar vísbendingar að gefa ákveðna niðurstöðu sem gilti sem lokasvar sem þeir síðan sendu blaðinu. Leikurinn var afar flókinn og ekki á færi allra að finna út lausn hans og SVEPPAGREIFINN ætlar ekki að reyna að útskýra út á hvað hann gekk. En að lokum var síðan dregið úr sendum lausnum. Heildarverðmætin yfir vinninga þessa leiks námu yfir 35.000 frönkum en aðalvinningurinn var einmitt eintak af hinum áðurnefnda bíl Dauphine Gordini frá Renault. Í heildina voru vinningarnir yfir þúsund talsins en auk bílsins má þar nefna tíu stereo græjur, átta transitor útvörp og þrjátíu vindsængur. Hér fyrir ofan má sjá hvar Zorglúbb þrumar yfir lýðnum á zorsku og hvetur lesendur blaðsins til að taka þátt í leiknum - það sé ekki of seint. Fyrir neðan Zorglúbb stendur síðan Valur og tekur undir hvert orð hans. Með öðrum orðum má því eiginlega segja að Zorglúbb sé að auglýsa bíl! Helstu stjörnur SPIROU blaðsins voru dregnar fram til að auglýsa leikinn og Viggó viðutan var til dæmis á meðal þeirra. Hann var reyndar sjálfur ákveðinn í að taka þátt í þessum leik og hljóta bílinn í verðlaun en Valur var ekki jafn sannfærður, með hrakfarir hans í huga, um að það væri heppilegt.
En þessi bíll Dauphine Gordini var svo sem ekki merkilegt farartæki en hann var sparneytinn og eflaust nokkuð hagkvæmur kostur á sínum tíma þó erfitt sé að bera tegundina við smábíla dagsins í dag. Á þessum ellefu árum sem Dauphine Gordini var í framleiðslu seldust um tvær milljónir eintaka af bílnum en hann var einnig fáanlegur í eins konar lúxus- og sportútgáfum. Bíllnn var þriggja gíra, með vélina aftur í og hún var sko ekkert slor. Heil 38 hestöfl (reyndar undir lokin eftir nokkurra ára þróunarvinnu) og Dauphine Gordini var aðeins rúmlega þrjátíu sekúndur upp í 60 mílna hraða! Reyndar er alveg óhætt að taka undir það að smábíllinn Renault Dauphine Gordini verði seint talinn samboðinn hinum fágaða og nýtískulega stíl Zorglúbbs. Hans hugmyndafræði, gagnvart þeirra tíma farartækjum, var víst algjörlega á hinum enda skalans.
Annars eru áhrif hinnar illræmdu Kórónuveiru óðum að minnka hér uppi á Klakanum og senn hyllir undir langþráðar tilslakanir hinnar heilögu þrenningar Almannavarna. Reyndar virðast margir halda að þeir séu yfir það hafnir að fara eftir tilmælum yfirvalda og eru löngu byrjaðir að hunsa það sem flestir aðrir myndu flokka undir almenna skynsemi. En vonandi er þetta versta búið núna.