Það gefst tími fyrir eina stutta og ódýra færslu í dag og því er um að gera að nýta það tækifæri vel. En SVEPPAGREIFINN var fyrir ekki svo löngu síðan að fletta aðeins í gegnum myndasögurnar sínar um þá félaga Palla og Togga þegar á vegi hans varð nokkuð óvæntur glaðningur. Í einni þessara bóka rakst hann á skemmtilegan brandara sem fram til þessa hafði einhverra hluta vegna algjörlega farið framhjá honum. Fremst í bókinni Allt í lagi, frá árinu 1989, rak hann nefnilega augun í stakan myndabrandara sem vakti athygli hans. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður lesið skrýtlur sem byggðar eru á sömu hugmyndinni eða efninu en aldrei hefur það hvarflað að honum að brandarinn væri einnig til með þeim Palla og Togga.
Annars má kannski til gamans geta þess, sérstaklega vegna þess að SVEPPAGREIFINN hefur nú aldrei minnst á það áður, að Fjölvaútgáfan sendi í heildina frá sér níu teiknimyndasögur um þá prakkarana Palla og Togga á sínum tíma. Fyrstu fimm bækurnar í seríunni voru í heldur minna myndasögubroti en hefð var fyrir á Íslandi og komu út á árunum 1977-81 en síðustu fjórar voru í stærra og hefðbundnara broti og voru gefnar út á árunum 1987-89. En þetta vita nú sjálfsagt allir. Það var Ingunn Thorarensen, dóttir Þorsteins í Fjölva, sem sá um að snara þessum myndasögum yfir á okkar ylhýru íslensku.