20. nóvember 2016

9. FALIN ÁSTARSAGA Í TINNA BÓKUNUM

SVEPPAGREIFINN hefur löngun reynt að vera duglegur við að kynna sér það sem alvöru myndasögunördar úti í heimi hafa fram að færa og eitt af því sem hann hefur afskaplega gaman að er að skoða og fylgjast með spjallsíðum sérfræðinganna. Þar má finna gríðarlega mikinn fróðleik og þrátt fyrir áhuga SVEPPAGREIFANS á viðfangsefninu "teiknimyndasögur" þá verður samt sem áður að viðurkennast að hann veit ósköp lítið um þær, ef tekið er mið af hinum raunverulegu sérfræðingum. En hluti af þessu grúski gengur auðvitað út á það að fræðast. Og þannig nýtast þessir vettvangar til að læra og deila eða miðla því sem hann verður áskynja.

Einn af þeim skemmtilegu og athyglisverðu punktum sem SVEPPAGREIFINN hefur rekist á hjá nokkrum fræðimönnum fjallar um litla dulbúna ástarsögu úr Tinna bókunum. Þessi ástarsaga byrjar á blaðsíðu 45 í bókinni um Leynivopnið en þar eru þeir kumpánar Tinni og Kolbeinn staddir í Genf í Sviss, á leiðinni út á flugvöll í flugrútu Swissair. Kolbeinn hefur losað sig við plástur, sem hann hafði eftir að hafa slasast í sprengingu í Nyon nokkrum blaðsíðum fyrr, og farþegarnir í sætunum fyrir framan þá eru að vandræðast með þennan plástur. Þetta fólk, kona og karl á rúmlega miðjum aldri, þekkjast ekki neitt en með þessum plástravandræðum þeirra hefjast með þeim góð kynni.

Hergé hefur nefnilega ákveðið að halda áfram með þau skötuhjú í sögunni því þau birtast meira seinna í Leynivopninu. Eitthvað eru þau að fikra sig áfram turtildúfurnar því að á blaðsíðu 46 sitja þau saman, í sömu flugvél og Tinni og Kolbeinn, á leiðinni til Szóhód í Bordúríu. Þannig er augljóslega eitthvað í gangi og greinilegt að sitthvað hafi þau haft til að spjalla um.
En svona í framhjáhlaupi verður nú að segjast að ansi er nú rúmt um farþega þessa flugvélar. Á blaðsíðu 49 situr konan reyndar ein að snæðingi í matsalnum á Hótel Zsnörr í Szóhód en SVEPPAGREIFINN gerir ráð fyrir að herramaðurinn sé háttvís og kurteis og sé því ekki að færa sig of mikið upp á skaftið svona í byrjun. Það er jú ennþá árið 1955!
En eitthvað er samt í gangi því að herrann hefur augljóslega boðið henni í Szóhód-óperuhöllina á blaðsíðu 52. Þau ganga fyrir aftan Tinna og Kolbein á leiðinni út úr óperunni og það fer ekki á milli mála að þau eiga margt sameinlegt miðað við þær hrókasamræður sem þar virðast í gangi. Þetta gerist strax að kvöldi sama dags og þau hittast fyrst í flugrútunni.
En ekki hefur Hergé staðist þá freistingu að láta staðar numið þar. Í Kolafarminum frá árinu 1956, sem er næsta bók á eftir Leynivopninu, birtast þau strax á fyrstu blaðsíðu. Tinni og Kolbeinn að koma úr bíói og parið góða röltir út úr bíóhúsinu á sama tíma. Hversu löngu þetta er eftir plástursævintýrið, í rútuferðinni góðu, er erfitt að segja en SVEPPAGREIFINN reiknar þó með að þarna séu þau enn tiltölulega nýbyrjuð að rugla saman reitum sínum.
En í næstu bók þar á eftir, Tinni í Tíbet frá árinu 1958, er nokkur tími um liðinn. Tinni og Kolbeinn eyddu um mánuði í ævintýrinu um Kolafarminn og þegar sagan í Tíbet hefst eru sjálfsagt nokkrir mánuðir í viðbót liðnir. Þeir félagar eru í afslöppun á fjallahóteli í frönsku Ölpunum og grípa í skák eftir kvöldmatinn þegar stutt en fræg atburðarás úr Tinna bókunum hefst. Tinni er þreyttur eftir göngutúr með Tobba í fjöllunum og dottar yfir skákinni en dreymir þá Tsjang vin sinn í miklum hremmingum. Tinni hrópar upp yfir sig nafn hans í örvæntingu og þeytir taflborðinu upp í loftið svo öllum viðstöddum verður bilt við. Þessi stóra mynd er ein sú flottasta í öllum Tinnabókunum og reyndar ein af mörgum listaverkum úr þessari frábæru bók.
En hver önnur en skötuhjúin frægu sitja við næsta borð með sjálfum Vandráði prófessor sér við hlið. Parið er augljóslega orðið það náið að þau eru farin að eyða frítíma sínum saman á notalegu fjallahóteli í Ölpunum. Þá líklega orðin harðgift og ráðsett.
SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki alveg jafn viss og myndasögunördarnir, sem fjallað hafa um málið, um að þarna sé um sama fólk að ræða en margt bendir þó til þess.

Hergé var duglegur við að lauma vinum og kunningjum inn í sögurnar um Tinna og teikna þá inn í hin ýmsu hlutverk. Þar var helst um að ræða teiknara af vinnustofu listamannsins en þeir sjást við mörg tækifæri í bókunum. Sérfræðingarnir sem velt hafa sér upp úr þessum skötuhjúum telja margir þeirra að þarna sé um að ræða par úr vinahópi Hergés, þó ekki sé endilega neitt staðfest í þeim málum. Tilgáturnar eigi að vísa til ákveðins fólks, tengt fjölskyldu Hergés, sem á að hafa kynnst við einhvers konar sambærilegar aðstæður. En það skiptir svo sem litlu máli, aukasagan leynda er alveg jafn skemmtileg fyrir vikið.

8. september 2016

8. ALLI, SIGGA OG SIMBÓ

Hergé, höfundur Tinna bókanna, teiknaði fleira en bara þær bækur. Margir þekkja sögurnar um Palla og Togga og Alla, Siggu og Simbó, sem komið hafa út á íslensku, en löngu áður hafði Hergé einnig teiknað sögur um skátann Toto sem var eins konar forveri Tinna. SVEPPAGREIFINN ætlar núna aðeins að kíkja á Alla, Siggu og Simbó.
Fjölvi var búinn að gefa út allar Tinna bækurnar þegar kvikmyndabækurnar tvær, Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og bláu appelsínurnar, komu út fyrir jólin 1978. Á sama tíma komu frá útgáfunni tvær nýjar bækur í bókaflokki, sem fæstir íslenskir unnendur Tinna þekktu. Þessar bækur voru um systkinin Alla og Siggu og gæludýrið þeirra, hinn eldklára apa Simbó.
Sögurnar um Jo, Zette og Jocko, eins og þau heita á frummálinu, voru einnig eftir höfund Tinna, belgann Hergé, og voru hugsuð sem eins konar mótvægi við hinn sjálfstæða einstakling, Tinna sem skorti alla tengingu við eðlilegt fjölskyldulíf. Árið 1935 óskaði Faðir Courtois, sem var forsvarsmaður fyrir hið kaþólska franska barnatímarit Coeurs Vaillants, eftir því við Hergé að hann myndi teikna nýja teiknimyndaseríu fyrir blaðið. Coeurs Vaillants hafði í hverri viku birt sögurnar um Tinna og Faðir Courtois hafði alltaf haft gaman af þeim en hann langaði þó til að fá sögur þar sem klassískt fjölskyldugildi væri meira í heiðri haft og þannig hugsuð í anda kaþólskrar trúar. Hergé varð við þeirri beiðni og skapaði fyrir blaðið þessa frönsku vísitölufjölskyldu með apa. Systkinin Jo og Zette Legrand (eða Alli og Sigga Leifs í þýðingu Þorsteins Thorarensens) voru því aðalsöguhetjurnar, í þessum nýju sögum, ásamt foreldrum sínum og apanum Jocko. Sögurnar birtust síðan einnig í Le Petit Vingtiéme, sem var tímaritið sem Tinni birtist fyrst í.

Hergé gerði ekki margar sögur með þeim systkinum og fannst hann alltaf vera of bundinn eða háður fjölskylduþemanu og hætti fljótlega með þær. Í Tinna sögunum gat hann alltaf valið sér aukapersónur að vild (Kolbein, Vandráð, Tsjang eða hvern sem var) til að byggja upp sögurnar á hvern þann hátt sem hann vildi. En það gat hann aldrei gert hjá Alla, Siggu og Simbó.
Eftir að sögurnar höfðu fyrst birst í áðurnefndum tímaritum á árunum 1936-39 varð einhver bið á að þær kæmu út í bókaformi. Alls voru þetta þrjár sögur sem Hergé kláraði með Alla, Siggu og Simbó en tvær þeirra voru það langar að þær rúmuðu tvær bækur hvor. Í heildina komu sögurnar þrjár því út í fimm bókum. Bækur númer eitt og tvö voru Le Testament De Mr Pump og Destination New York og komu fyrst út í því formi árið 1951. En það voru einmitt einu bækurnar sem komu út á íslensku í þessum flokki og mynduðu heila sögu. Þær nefndust á íslensku, Erfðaskrá auðkýfingsins og Kappflugið til New YorkÞótt þessar sögur teldust þær fyrstu í bókaflokknum þá höfðu bækur númer þrjú, Le "Manitoba" Ne Répond Plus, og númer fjögur, L'Éruption du Karamako, samt verið fyrstu sögurnar sem birtust í tímaritunum. Þessar tvær bækur mynduðu einnig heila sögu og komu út í bókaformi árið 1952. Fimmta bókin hét La Vallée Des Cobras og kom út árið 1956.
Síðan hafði Hergé reyndar verið kominn af stað með eina sögu í viðbót, sem nefndist Le Thermozéro, en hún kláraðist þó aldrei hjá honum. Reyndar var upprunalega hugmyndin að Le Thermozéro ætluð fyrir sögu um Tinna en Hergé ákvað að hún hentaði betur Alla, Siggu og Simbó. Bob de Moor fékk það verkefni að ljúka við söguna en vegna tímaskorts varð ekkert úr því. Þetta var árið 1960 og hann var önnum kafinn við verkefni tengdum endurteiknun á Tinna bókinni Svaðilför til Surtseyjar enda hluti af teiknarateymi Hergés.

Eins og með elstu sögurnar um Tinna voru sögurnar um Alla, Siggu og Simbó ekki gallalausar. Í Le "Manitoba" Ne Répond Plus er svörtum ættflokki stillt upp sem algjörum villimönnum og þeim systkinum haldið föngnum og fóðruð sem tilvonandi máltíð fyrir mannætur. Allt í anda ævintýrsins um Hans og Grétu. Ættflokkurinn er teiknaður á mjög niðrandi og fordómafullan hátt og minnir óneitanlega á hina umdeildu Tinna í Kongó sem farið hefur fyrir brjóstið á mörgum í gegnum tíðina. Það gekk reyndar svo langt að reynt var að fá lögbann á bókina fyrir ekki svo löngu síðan.
Í Le Testament De Mr Pump (Erfðaskrá auðkýfingsins) valda Alli og Sigga minni háttar umhverfisslysi með því að setja gat á bensíntunnu á eyju þar sem þau neyðast til að nauðlenda flugvél. Bensínið flæðir um fjöruna en þau systkini skeyta minnst um það enda enn langt í framandi umhverfisvakningu eða náttúruvernd. 
Og í Destination New York (Kappflugið til New York) fara þau Alli og Sigga á selveiðar með hinum grænlenska Irjúk. Í sögunni um Tinna í Kongó var Hergé einmitt á svipuðum nótum, nema að hann var miklu stórtækari. Tinni hamfletti þar apa (kannski frænda Simbós) til þess eins að bjarga Tobba frá öðrum öpum. Hann stráfelldi heila antilópuhjörð fyrir mistök og í upprunalegu útgáfunni boraði hann gat í lifandi nashyrning, stakk þar í dínamítsstöng og sprengdi hann í loft upp! Í seinni útgáfum lét hann sér nægja að stökkva honum á flótta með slysaskoti. Kannski var bara eins gott að á þessum tíma voru ekki komin fram á sjónarsviðið samtök eins og Greenpeace og Sea Shepherd.
Svo má auðvitað má líka finna Íslandstengingu í bókunum um Alla, Siggu og Simbó en það er eitthvað sem kítlar alltaf svolítið hégómagirnina hjá þjóðrembingssinnuðum Íslendingum. Í Destination New York (Kappflugið til New York) fá heimamenn staddir á Dyrhólaey athygli á einni mynd á blaðsíðu 5. Hergé mundi því alveg eftir okkur frá því að hann lét Tinna koma við á Akureyri í Dularfullu stjörnunni.
Aftan á Tinna bókunum má sjá hina sígildu mynd af sögupersónum úr bókum Hergés en Alli, Sigga og Simbó birtust þó aldrei í bókunum um Tinna, ólíkt þeim Palla og Togga. Hins vegar má til dæmis sjá Kolbeini kafteini bregða fyrir í Erfðaskrá auðkýfingsins þar sem hann sést á mynd í stofunni hjá fjölskyldu Leifs Grandvara og er þar augljóslega fjölskylduvinur eða ættingi.

12. ágúst 2016

7. TINNI Í HINUM FJÓRU FRÆKNU

Einhverjir lesenda hérna hafa eflaust einhvern tímann haft eitthvað um Hin fjögur fræknu bækurnar að segja. En bókaútgáfan Iðunn gaf út þessar bækur undir lok áttunda áratugar síðustu aldar og fram undir þann tíunda. Ekki er SVEPPAGREIFINN reyndar neitt sérlega hrifinn af þeirri bókaseríu og heilt yfir finnst honum reyndar varla hægt að finna þynnri eða bragðdaufari súpu á myndasögumatseðlinum. En það geta hreinlega ekki allar myndasögur verið skemmtilegar og svo er smekkur fólks víst jafn misjafn eins og það er margt. Þrátt fyrir allt hefur SVEPPAGREIFINN þó lagt sig fram um að nálgast þessar bækur á jafnréttisgrundvelli við aðrar myndasögur sem komið hafa út á Íslandi. Hann á því stærstan hluta þess bókaflokks, einhversstaðar uppí myndasöguhillunum, af hreinni skyldurækni en enn vantar þó einhverjar bækur upp á.

Þessar sögur voru eftir teiknarann Francois Craenhals og handritshöfundinn Georges Chaulet sem báðir voru franskir en áður höfðu þó sögur Chaulets verið gefnar út af Casterman útgáfunni nokkrum árum fyrr. Fyrsta sagan í myndasöguflokknum hét Les 4 As et le Serpent de mer (Hin fjögur fræknu og sæslangan) og kom út árið 1964 en sama ár komu einnig út bækurnar Les 4 As et l'Aéroglisseur (Hin fjögur fræknu og loftfarið) og Les 4 As et la Vache sacrée (Hin fjögur fræknu og Búkolla). Íslenska útgáfuröðin er þó allt öðruvísi. Um síðastnefndu bókina ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að nöldra um að þessu sinni.
Bók þessi kom út í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1981 og skilur nú ekki mikið eftir sig. Þó hafa bæði áhugafólk og sérfræðingar bent á, að um það bil tíu fyrstu bækurnar í seríunni séu alls ekki svo slæmar. Þessi saga er númer 3 í röðinni en alls komu út 43 bækur út með Hinum fjórum fræknum og sú síðasta árið 2007.

En á blaðsíðu 36 í bókinni um Hin fjögur fræknu og Búkollu dregur til tíðinda í þessum undarlegu ævintýrum Hinna fjögurra frækna. Þar er Búffi reyndar einn á ferðinni um sveitavegi Frakklands, með "heilaga" kýr á röltinu, þegar grænleitur bíll, augljóslega í æðisgengnum bílaeltingarleik, með nokkrum þungvopnuðum bófum og misindismönnum brunar framhjá honum.
Það er víst alveg óhætt að segja að þessi illmenni kalli ekki allt ömmu sína, eins glæpamannslega sem þeir líta út. Og augljóslega við öllu búnir, þar sem þeir allir, fyrir utan bílstjórann, eru vopnaðir hríðskotabyssum í viðbragðstöðu og með allan vara á sér. Búffi hneykslast eitthvað á aksturslagi glæpamannanna og augnabliki seinna birtist sjálfur Tinni, á rauðum sportbíl, í alveg kolvitlausum bókaflokki. Og auðvitað er Tobbi ekki langt undan. Eftir að SVEPPAGREIFINN hafði rýnt í myndirnar af Tinna, fór hann að velta fyrir sér hvort höfundar bókarinnar hefðu ekki örugglega fengið leyfi Hergés eða útgáfufélags Tinnabókanna um að fá að nota hann í sögunni. 
Tinni er teiknaður í bókinni á óaðfinnanlegan og lítarlausan hátt og SVEPPAGREIFINN fannst jafnvel ástæða til að hrósa teiknaranum Francois Craenhals fyrir hve vel hefði tekist til með að teikna hann. Það er nefnilega ekki á hvers manns færi að geta stælt teiknistíl annarra listamanna. Það kom því SVEPPAGREIFANUM skemmtilega á óvart að Francois og Georges hefðu ekki aðeins fengið leyfi Hergés fyrir Tinna í sögunni heldur sá Hergé, í eigin persónu, sjálfur um að teikna hann. Hergé sá reyndar aðeins um að teikna Tinna og Tobba á þeim myndum sem þeir birtast en Craenhals teiknaði afganginn af myndunum - þ.e. bílinn, bakgrunnana og auðvitað Búffa. Francois Craenhals og Hergé voru góðir vinir en Craenhals var alltaf mikill aðdáandi hans og var alla tíð mjög stoltur yfir því að hafa fengið tækifæri til að hafa þetta flaggskip myndasagnanna á 20. öldinni, Tinna, sem gest. 

Og svo má kannski til gamans geta þess, fyrir þá sem hafa áhuga á bílum, að bifreiðin glæsilega sem Tinni þeysist um á í þessum æsispennandi eltingarleik, er hvorki meira né minna en Alfa Romeo Giulietta Spider.
Einhvern tímann ætlar SVEPPAGREIFINN að velta sér eitthvað upp úr bílum í Tinnabókunum og henda hér inn færslu um þá. En það er seinni tíma vandamál.

2. júní 2016

6. FRÁBÆR FÓTBOLTAMYND Í VIGGÓ BÓK

Viggó viðutan er auðvitað algjörlega frábær myndasögupersóna og höfundur hans André Franquin var alveg hreint stórkostlegur listamaður sem gat á einhvern ótrúlegan hátt fangað mikilvægt augnablik í einni mynd en um leið fyllt hana með alveg helling af smáatriðum án þess þó að það hefði nokkur áhrif á heildarmyndina. Þetta átti alveg sérstaklega við á skrifstofunni hjá Viggó þar sem óreiðan og ruslið fékk að njóta sín. 

SVEPPAGREIFINN á sér nokkrar uppáhaldsmyndir úr bókunum um Viggó og mun örugglega verða duglegur að deila þeim hér, sjálfum sér og öðrum til ánægju og yndisauka. Fyrsta myndin sem hann ætlar að birta er þó ekki af skrifstofunni hjá Sval, heldur af knattspyrnuvellinum. Í einum brandaranum, í bókinni Viggó Hinn óviðjafnanlegi, liggur Viggó sofandi fram á skrifborðinu (eins og svo oft) og dreymir fallega drauma um eigin hæfileika og getu á hinum ýmsu íþróttasviðum. Þarna dreymir hann meðal annars um afrek á hlaupabrautinni, hjólreiðakeppnum og hnefaleikum en á einni myndinni á draumur um leynda knattspyrnuhæfileika hug hans allan. Eða eins og segir í textanum með myndinni, "... Varnarmenn fyllast skelfingu, þegar Viggó geysist fram ...JÁ OG MARK! ÞRUMUSKOT! Hann er örugglega orðinn besti leikmaður Evrópu!...", um leið og hann neglir tuðrunni með óskiljanlegu utanfótarskoti upp í blávínkilinn. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega flott mynd.
Ekki er SVEPPAGREIFINUM vel kunnugt um hversu mikill áhugamaður Franquin var um knattspyrnu en hann teiknaði þó fáeina aðra fótboltatengda brandara um Viggó þar sem hann var oftar en ekki í marki hjá áhugamannaklúbbi sem nokkrir félagar hans af skrifstofunni léku einnig með. En einnig má finna sögur um Sval og Val eftir Franquin þar sem fótbolti kemur við sögu. Franquin teiknaði þennan brandara árið 1972 og hefur líklega verið undir áhrifum af blómatímabili nágranna sinna frá Hollandi. Hollensk lið einokuðu Evrópukeppni Meistaraliða (eins og hún hét þá) á þessum árum og Ajax frá Amsterdam vann þessa keppni þrjú ár í röð með Johan heitinn Cruyff í aðalhlutverki. SVEPPAGREIFINN fær ekki betur séð en að Viggó sé einmitt klæddur í búning Ajax á myndinni.

Þarna má einmitt líka sjá á ljósmyndurunum, við hliðina á markinu, hvernig Franquin dundaði sér við smáatriðin en uppáhald SVEPPAGREIFANS í þessari mynd er þó að sjálfsögðu áhorfandinn fyrir ofan leikmann númer fjögur.
SVEPPAGREIFINN mun halda áfram að birta úrval af uppáhaldsmyndunum sínum úr myndasögusafninu sínu í náinni framtíð ...

6. mars 2016

5. SNILLDIN MEÐ FÓTBOLTAFÉLAGIÐ FAL

SVEPPAGREIFINN má til með að minnast aðeins á stórkostlegar hollenskar teiknimyndasögur, sem komu út á íslensku seint á áttunda áratug síðustu aldar og fjölluðu um leiki og störf fótboltafélagsins Fals. Bækurnar sem komu út hér á landi voru alls þrjár og voru fyrstu þrjár bækurnar úr flokknum en ungur menntaskólanemi Ólafur Garðarsson, sem rakst á þessar bækur á ferðalagi í Austurríki, sá um að snara sögunum yfir á íslensku fyrir Örn & Örlyg. Þetta voru einu teiknimyndasögurnar sem sú bókaútgáfa gaf út en annars einokuðu aðallega Iðunn og Fjölvi íslenska myndasögumarkaðinn á þessum tíma, utan þess sem Setberg gaf út bækurnar um Steina sterka. Bækur númer eitt (Fótboltafélagið Falur) og þrjú (Falur á Íslandi) þýddi Ólafur úr þýsku en bók númer tvö (Falur í Argentínu) þýddi hann beint úr hollensku. Sú bók kom víst aldrei út í þýskri þýðingu og neyddist Ólafur því til að stauta sig fram úr hollensku frumútgáfunni með hjálp orðabókar. Þær myndasögur sem verið var að gefa út á Íslandi á þessum árum voru langflestar belgískar eða franskar og voru því prentaðar í samvinnu við útgáfur á hinum Norðurlöndunum en þessar hollensku bækur höfðu þá sérstöðu að vera eingöngu prentaðar fyrir Örn og Örlyg á Ítalíu. Og heimildir herma reyndar að Fals bækurnar hafi aldrei verið gefnar út á hinum Norðurlöndunum. Fals bækurnar seldust vel á Íslandi en þó varð ekki framhald á útgáfu þeirra. Ólafur Garðarsson var önnum kafinn og sneri sér að öðrum hlutum en hann lagði síðar stund á lögfræði og gerðist löngu seinna umboðsmaður margra af bestu knattspyrnumönnum Íslands. Það má því kannski segja að sú reynsla sem hann öðlaðist með þýðingu á Fals bókunum hafi komið honum að góðum notum við sölur á leikmönnum seinna.
Höfundur þessa bóka heitir Toon van Driel en upphaflega hugmyndin að sögunum kom frá grínistanum John le Noble. Saman voru þeir því skrifaðir fyrir bókunum og kölluðu sig einfaldlega Joop & Toon. Fyrstu þrjár bækurnar komu út árið 1978 en frá árinu 1973 höfðu fyrst birst reglulega, í dagblaðinu Algemeen Dagblad, brandarar um Fal (á frummálinu FC Knudde).
Eins og áður segir komu þrjár af þessum myndasögum út á gullaldartímabili útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi og voru það þrjár fyrstu sögurnar í þessum flokki en í heildina eru þær víst orðnar vel á fjórða tug talsins í dag. Myndasögur þessar þóttu með eindæmum fyndnar og vitlausar en reyndar um leið alveg óskiljanlega illa teiknaðar. Sögurnar þrjár hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár og eru gríðarlega eftirsóttar af íslenskum aðdáendum sem muna enn eftir uppátækjum liðsmanna fótboltafélagsins.
Stjörnur liðsins voru af margvíslegum toga og hetjur eins og Fauti fantur, Marínó-Marínó Sólbrendó og Baldvin Veitvel voru á meðal mikilvægustu leikmanna liðsins. Fauti fantur þótti nokkuð harðfylginn á velli, eins og nafnið bendir líklega svolítið til, og var almennt ekki beint talað um hann sem skarpasta hnífinn í skúffunni en það átti reyndar við um flesta aðra leikmenn fótboltafélagsins Fals. Aðeins Baldvin Veitvel taldist "gáfaður" enda var hann heili liðsins.
Marínó-Marínó Sólbrendó var keyptur frá Suður Amerísku liði (eins og nafnið gefur til kynna) en eina markmið hans á vellinum virtist hafa verið að passa upp á hárgreiðsluna sína. Hann hefur því verið langt á undan sinni samtíð og eflaust fyrirmynd margra kunna knattspyrnumanna sem seinna komu fram á sjónarhornið.
Sem aðra leikmenn liðsins má nefna fyrirliðann Berta, Dagsson markvörð og tvíburana Jóa ljón og Sela en Fals liðið var einnig svo vel búið að hafa til aðstoðar sálfræðinginn dr. Sigmund Svefnþurfi, st. bernharðshundinn Snata (hans hlutverk í bókunum var reyndar svolítið óráðið) og svo auðvitað kínverjann Lin Pí-anó sem annaðist þvottinn á búningunum.

Falur á Íslandi var ansi frjálsleg á köflum og farið með ýmsar íslenskar "staðreyndir" á undarlegan hátt en um leið má alveg viðurkenna að glöggt er gests augað. Þar er til að mynda minnst á að Íslendingar eigi svo mikið af heitu vatni (hverirnir) að þeir geti sprautað því upp í loftið að vild en einnig er nefnt að verðbólgan sé 800% (bókin er teiknuð á miklum verðbólgutímum) og öllum sé sama. Reyndar verður að taka tillit til þess að þýðandi bókanna, Ólafur Garðarsson, hefur viðurkennt að hafa verið nokkuð frjálslegur við þá vinnu.
Í þeirri bók var leikmönnum Fals ráðlagt, af þjálfara liðsins, að búa sig vel undir ferðina til Íslands og eins og sjá má af myndunum hér fyrir neðan tóku liðsmenn þeim ábendingum nokkuð alvarlega.
Í bókinni Falur í Argentínu var liðið sent á HM í Argentínu (1978) í fjarveru hollenska landsliðsins og auðvitað unnu þeir keppnina þar. Fyrir mótið var þjálfarinn reyndar gagnrýndur harðlega fyrir hvað hann þótti linur.
SVEPPAGREIFINN bendir öllum á að verða sér úti um eintök af þessum bókum því það er margt vitlausara sem hægt er að eyða tíma sínum eða aurum í. Sagt er að forfallnir íslenskir Fals aðdáendur hafi borgað 5000 kall fyrir góð eintök af bókinni. Sjálfsagt má finna eitt og eitt eintak í hinum og þessum geymslum og háaloftum landsmanna en annars má einnig eflaust, með smá þolinmæði, finna gömul og slitin eintök í Kolaportinu eða Góða hirðinum - bestu bókabúðinni í bænum. Góða skemmtun!

18. febrúar 2016

4. STEINI STERKI Í SVAL OG VAL BÓK

Þeir sem gluggað hafa í Sval og Val bókina Tora Torapa eftir Fournier, (hún hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu) hafa vafalaust tekið eftir því að Steina sterka bregður fyrir snemma í bókinni. Þarna sitja saman í biðsal á flugvelli þeir félagar Svalur og Valur, auk Ító Kata og Sveppagreifans, þegar íðilfögur flugfreyja leiðir Steina sterka þar fram hjá en flugfreyja þessi er ekki heldur einhver aukvisi í belgísk/franska myndasögubransanum.
Þarna er á ferðinni flugfreyjan Natasha sem var nokkuð vinsæl myndasögupersóna í Belgíu á sínum tíma en fyrstu ævintýrin um hana komu út snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Sögurnar eru enn að koma út og eru nú orðnar 22 talsins en höfundur þeirra er belgíski teiknarinn Franqois Walthéry. Steina sterka þekkja íslenskir teiknimyndasöguaðdáendur miklu betur en alls hafa 14 sögur komið út með þeim kappa og þar af 6 bækur á íslensku. Höfundur þeirra bóka var snillingurinn Peyo (Pierre Culliford) sem þekktastur var fyrir Strumpasögurnar sívinsælu en hann skapaði einnig þá Hinrik og Hagbarð sem við Íslendingar könnumst líka nokkuð vel við. Reyndar voru sögurnar um Hinrik og Hagbarð frumraun Peyo á myndasögumarkaðnum og Strumparnir aðeins aukapersónur sem komu fyrir í einni sögunni en eftir að hann teiknaði fyrstu sjálfstæðu Strumpasöguna slógu þeir í gegn og eftir það var ekki aftur snúið. Peyo lést á aðfangadag jóla árið 1992, 64ra ára gamall, en sonur hans Thierry Culliford tók þá við keflinu og hefur séð um að teikna Strumpasögurnar áfram allt til dagsins í dag. Peyo kom eitthvað að handritsgerð bókanna um Natöshu og vann til dæmis einnig með Franquin að Sval og Val bókinni Svaðilför til Sveppaborgar en þeir höfðu báðir unnið saman hjá SPIROU blaðinu. Þessi belgísk/franski myndasöguheimur er því allur meira og minna samtengdur og samofinn á einhvern hátt.