28. október 2022

217. STRUMPAREDDING

Þessi ódýra myndasögutengda færsla er til þess eins að uppfylla skyldu SVEPPAGREIFANS um blogg dagsins. Strumparnir eiga því sviðið á Hrakförum og heimskupörum þennan föstudag.


14. október 2022

216. SVOLÍTIÐ ÚR SMIÐJU BOB DE MOOR

Snöggsoðin færsla í dag eins og stundum hefur gerst undanfarnar vikur. En þennan föstudaginn birtir SVEPPAGREIFINN mynd sem listamaðurinn Bob de Moor teiknaði árið 1991. De Moor var, eins og flestir eflaust vita, einn af helstu aðstoðarmönnum Hergé við gerð sagnanna um Tinna og margir aðdáendur bókanna hefðu viljað að hann hefði tekið við af listamanninum þegar hann lést árið 1983. Ekkert varð þó úr því vegna útgáfurétts rétthafans Moulinsart á efninu. Reyndar hefði de Moor líklega aldrei náð að teikna mjög margar Tinna bækur, hefði hann fengið til þess tækifæri, ef miða á við hve sögurnar urðu stopular á síðustu árum Hergé. Því þó Bob de Moor hafi ekki verið orðinn mjög aldraður maður þá lést hann árið 1992 sextíu og sjö ára að aldri.

En mynd dagsins talar sínu máli og sýnir á skoplegan hátt hvernig listamaðurinn hefur séð fyrir sér uppruna sjálfs skurðgoðsins í sögunni um Skurðgoðið með skarð í eyra.

Reyndar lýsir SVEPPAGREIFINN yfir furðu sinni á því hversu lítið af trjákurli, af þessum glæsilega rauðviði, er að finna undir rótum trésins miðað við umfang útskurðsins. Eðlilegast væri líklega að Arúmba indjáninn stæði í spænum upp í hné ef allt væri með felldu. En hann má alla vega alveg vera ánægður með handverkið sitt.