18. mars 2022

201. GRAMSAÐ SVOLÍTIÐ Í ÁSTRÍKI GALLVASKA

SVEPPAGREIFINN viðurkennir fúslega að hann hefur engan veginn verið nægilega duglegur við að birta hér færslur um Ástríks bækurnar frábæru. Hvað sem því veldur er ekki gott að segja en auðvitað er löngu kominn tími á að gera einhverja bragabót á því og fylla inn í þær eyður. Fyrir um einu og hálfu ári síðan fjallaði hann aðeins um fyrstu myndaröðina í elstu sögunni, Asterix the Gaul (Ástríki Gallvaska), og nú er kominn tími til að bæta við ýmsum fleiri staðreyndum úr þeirri merkilegu bók. Já og reyndar mörgum öðrum upplýsingum um Ástríks bækurnar almennt. Þannig að færsla dagsins er eiginlega líka einhvers konar bland í poka um Ástrík og ævintýri hans.
Sagan Asterix the Gaul, eftir listamanninn Albert Uderzo og handritshöfundinn René Goscinny, hóf göngu sína í franska myndasögutímaritinu Pilote þann 29. október árið 1959 og sló strax rækilega í gegn. Það verður eiginlega líka að geta þess að það liðu aðeins þrír mánuðir frá því hugmyndin um Ástríks sögurnar fór af stað og þar til hann birtist fyrst á síðum myndasögublaðsins. Asterix the Gaul var síðan gefin út í bókaformi í september 1961 þegar prentuð voru sex þúsund eintök af sögunni í Frakklandi. En á íslensku kom bókin Ástríkur Gallvaski fyrst út hjá Fjölva útgáfunni árið 1974 og var síðan endurútgefin árið 1982. Alls eru nú komnar út 39 bækur í upprunalegu seríunni en sú nýjasta, Astérix et le Griffon, kom út í nokkrum löndum undir lok október árið 2021. Svona litu þeir Ástríkur og Steinríkur út á fyrstu myndinni sem birtist af þeim í Pilote tímaritinu.
Sagan Ástríkur Gallvaski var auðvitað sú fyrsta í seríunni og hún var því að mörgu leyti hálfgert þróunarverkefni þeirra félaga Goscinny og Uderzo. Teiknistíll Uderzo var enn svolítið hrár og útlitslega tóku sögupersónurnar nokkrum breytingum og þroska, til að byrja með, eins og gengur og gerist. Ástríkur sjálfur, og reyndar söguumhverfið allt, var enn í mótun og ýmislegt átti eftir að taka breytingum eftir þessa frumraun. Í þessari sögu virðist sem Gaulverjabæjarbúar fái til dæmis reglulega sopa af kjarnaseiðinu sér til heilsubótar, sem þeir geta síðan nýtt sér til daglegra nota, en í öðrum bókum seríunnar er seiðinu nær eingöngu dreift á meðal þorpsbúa þegar þeir þurfa nauðsynlega á því að halda við að verja bæinn. Þessi tilhögun gerir Ryðríki (sem lítur allt öðru vísi út í hinum bókunum) til að mynda kleift að vinna á steðjanum, í járnsmiðjunni sinni, með berum höndum en í öðrum sögum bókaflokksins notar hann stóreflis slaghamar til verksins. 
Þá virðist hús Sjóðríks vera aðeins fyrir utan þorpið, í jaðri skógarins, en í nokkrum öðrum sagnanna má greinilega sjá hvar kofi hans er auðsjáanlega innan um önnur hús þorpsins. Sjóðríkur lítur einnig út fyrir að vera mjög gamall og hrörlegur í fyrri hluta sögunnar og styðst jafnvel við staf. En eftir að Rómverjar ræna honum á blaðsíðu 23 virðist hann öllu sprækari. Í öðrum sögum virkar hann bara nokkuð vel á sig kominn og sést aldrei aftur með stafinn. Útlit annarra sögupersóna í Ástríki Gallvaska virðist heldur ekki enn almennilega fastmótuð. Þannig kemur Júlíus Sesar fyrir á tveimur mismunandi stöðum í bókinni og þar er hann jafnvel með tvö mismunandi útlit. Uderzo viðurkenndi seinna að hann hefði ekki áttað sig á þessu. Þessar tvær aðkomur Sesars hafi komið fyrir á sitthvorum enda sögunnar og margar vikur hafi liðið á milli þess sem hann teiknaði þessa myndaramma. Auk þess hafi hann verið að drukkna í verkefnum á öðrum vettvangi líka en hann var að vinna að fimm mismunandi myndasögum á sama tíma. Fyrir listamann eins og Uderzo eru slík mistök bagaleg en fyrir myndasögunörda eru þau gersemar.
Sem fleiri dæmi má einnig nefna að í byrjun var Steinríkur alls ekkert hugsaður í jafn stóru hlutverki í sögunum og hann varð seinna. Það fer eiginlega ósköp lítið fyrir honum í bókinni Ástríki Gallvaska. Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því að Steinríkur sést til dæmis nánast ekkert í bókinni frá blaðsíðu 20 (fyrir utan tvo myndaramma á blaðsíðu 24) og þar til á síðustu tveimur teikningum sögunnar. Fyrst og fremst áttu sögurnar að fjalla um Ástrík einan og það var upphaflega Sjóðríkur sem var frekar hugsaður sem hans helsta hjálparhella og ráðgjafi. Steinríkur væri þó alltaf besti vinur Ástríks þó hann léki ekki stórt hlutverk í þessari fyrstu bók. Albert Uderzo varð síðan mjög hrifinn af þeirri persónu sem Steinríkur hafði fram að færa og skoraði á René að auka við hlut hans í sögunum. Og strax í næstu sögu, La Serpe d'or (Gullsigðin), eru þeir vinirnir Ástríkur og Steinríkur orðnir óaðskiljanlegt tvíeyki og verða það síðan alla seríuna. Sem fleiri dæmi um breytingar á sögupersónunum má nefna að í Ástríki Gallvaska má sjá að Steinríkur er hárugur á framhandleggjum sínum en það var hann hins vegar hvergi í neinni hinna bókanna.
Steinríkur var upphaflega hugsaður sem einhvers konar andhetja. Hann var hafður mjög feitur og frekar vitgrannur og þannig ætluð sem algjör andstæða við hinn smávaxna og oft skynsama Ástrík. Þessi ýktu útlit þeirra vinanna voru þannig innblásin af leikurunum Stan Laurel og Oliver Hardy sem helst voru auðvitað þekktir hér á Íslandi sem tvíeykið Steini og Olli eða Gög og Gokke eins og þeir kölluðust víst líka. Þess má til gamans geta að Uderzo bætti þeim Laurel og Oliver einnig við, sem rómverskum hermönnum, inn í söguna Obélix et compagnie (Steinríkur hf) árið 1976. Í fyrstu handritsdrögum Goscinnys gerði hann ráð fyrir héraveiðar yrði helsta iðja þeirra Ástríks og Steinríks við mataröflun en þegar til kom fannst Uderzo hérar ekki nægilega ógnvænlegir fyrir svo öflugar persónur. Hann stakk því í staðinn upp á villigöltum, sem hann taldi að hæfðu miklu betur hinum ýktu og sterku sögupersónum, og Goscinny samþykkti það umsvifalaust. Og svona í ennþá meira framhjáhlaupi má líka geta þess, til enn meira gamans, að í fyrstu þrjátíu og átta Ástríks bókunum borðaði Steinríkur hvorki fleiri né færri en heila hundrað og fjóra villigelti!
Alveg frá þessari fyrstu bók unnu þeir Goscinny og Uderzo allar Ástríks sögurnar á sama hátt. Goscinny skrifaði fyrst handritið með því að skrá niður 44 punkta með efnisgreinum sem hver um sig samsvaraði einni blaðsíðu í sögunni. Þá tók Uderzo við og gerði grófar skissur af hverri síðu eftir handritinu. Þeir samræmdu síðan þessi drög og leiðréttu eftir þörfum þar til heilstæð mynd var komin af sögunni en þá gat Uderzo hafist handa við að teikna endanlegu útfærsluna.
Þeir Goscinny og Uderzo hófu fyrst samstarf sitt með sögunum um indjánastrákinn
Oumpah-Pah en þeir voru búnir að vinna saman nokkuð lengi þegar Uderzo áttaði sig á því að hann væri litblindur. Það uppgötvaðist þegar honum varð það á að lita hest grænan og upp frá því fékk hann yngri bróður sinn Marcel Uderzo til að annast þann hluta teiknivinnunnar í Ástríks sögunum. Þessi bróðir hans var einnig flinkur teiknari og hafði starfað og aðstoðað Albert við ýmisleg önnur teikniverkefni sem hann annaðist auk þess sem hann hafði verið í hlutastarfi hjá Dargaud við að hanna ýmsa minjagripi um Ástrík. Margir vilja meina að Marcel Uderzo sé fyrirmyndin að Óðríki hinum söngelska. Marcel sá um litun Ástríks sagnanna allt til ársins 1979 þegar bókin
Astérix chez les Belges var gefin út en hún hefur ekki enn komið út á íslensku. Þeim bræðrum sinnaðist þegar Albert bauð Marcel ekki að ganga til liðs við sig þegar hann stofnaði útgáfufyrirtæki sitt, Éditions Albert René, það ár og þeir töluðust ekki við eftir það. Marcel Uderzo lést í janúar 2021 úr Covid.
En margir lesendur bókarinnar
Ástríks Gallvaska hafa í gegnum tíðina tekið eftir undarlegu fráviki á teikningum sögunnar á einni síðu bókaútgáfunnar. Blaðsíða 35 er nefnilega nokkuð frábrugðin öðrum síðum bókarinnar þar sem teikningarnar eru á einhvern hátt dimmari, þær virka grófari og allar línur innan myndarammanna virðast þykkari en annars staðar. Það er rétt eins og öll blaðsíðan hafi verið teiknuð með breiðari teikniáhöldum. SVEPPAGREIFINN man sjálfur eftir þessari blaðsíðu sem gríslingur en tengdi hana svo sem ekki við neitt sérstakt. Hann taldi alltaf að hér væri um að ræða einhvers konar galla í prentun og væri jafnvel aðeins tengd við það eintak sem til var á hans heimili. En svo var þó aldeilis ekki. Ástæðuna fyrir þessari skrítnu blaðsíðu má finna í ferlinu þegar Asterix the Gaul var undirbúin fyrir prentun í fyrsta sinn árið 1961. Þegar til kom fannst hin upprunalega blaðsíða 35 af sögunni einfaldlega ekki. Þessi blaðsíða hafði auðvitað birst í Pilote blaðinu á sínum tíma (nánar tiltekið þann 16. júní 1960) en frumútgáfan virtist vera týnd. Nú voru góð ráð dýr. Lítill tími var til stefnu og Uderzo upptekinn í öðrum verkefnum víðs fjarri svo ekki gat hann töfrað í snöggheitum fram nýja blaðsíðu upp úr Pilote. En auk þess var tæknin á þeim árum ekki þess eðlis að hægt væri að afrita síðuna sómasamlega upp úr tímaritinu.
Það fór því svo að bróðir hans, Marcel Uderzo, þurfti að teikna þessa blaðsíðu upp úr útgáfu myndasögublaðsins, í fjarveru Alberts, svo bókin kæmist í prentun í tíma. Þetta gerði hann svo sem þokkalega enda var hann ágætlega drátthagur eins og bróðir sinn. Það eina sem setja má út á eru áhöldin sem hann notaði því teiknipenni hans virðist hafa verið með breiðari oddi en sá sem bróðir hans notaði í upprunalegu útgáfunni. Það sést greinilega að allar línur eru þykkari en einnig má sjá að litirnir á blaðsíðu 35 eru á einhver hátt skærari en á síðunum í kring. Blaðsíða 35 í Asterix the Gaul er því eina efnið í öllum Ástríks bókunum, í tíð Alberts Uderzo, sem hann teiknaði ekki sjálfur. SVEPPAGREIFINN hvetur þá lesendur sem eiga eintak af bókinni til að skoða þessa blaðsíðu og sjá muninn. Árið 2006 var Asterix the Gaul tekin algjörlega í gegn, endurteiknuð upp frá grunni og lituð upp á nýtt og í þeirri glæsilegu útgáfu sést engin misfella á blaðsíðu 35 lengur.
 
Og svona í lokin er rétt að minnast á það að nánast engin kvenmaður sést í gervallri sögunni. Það er aðeins á blaðsíðu 6 (síðasta mynd í næstneðstu röð) sem sést í konu með vasa eða krukku á höfði og síðan á blaðsíðu 15 (miðjumynd í næstefstu röð) þar sem kona hellir úr vatnsfötu yfir einhvern náunga sem lagst hefur til svefns upp við hús hennar. Bæði þessi atvik eru hálf falin í bakgrunninum og þarf í raun að leita þeirra til að átta sig á þeim. Á blaðsíðu 47 uppgötvar Sesar síðan að tveir Gallar, þeir Ástríkur og Seiðríkur, hafi staðið svo illilega uppi í hárinu á rómverska heimsveldinu að hann ákallar sjálfa Kleópötru sér til friðþægingar. Það er í fyrsta sinn sem kona er nefnd á nafn í Ástríks bók og það er því ljóst að Asterix the Gaul er afskaplega karllæg saga.

4. mars 2022

200. VIGGÓ OG STJÁNI Í BAÐI

Ja hérna hér ... það er víst komið að 200. færslu SVEPPAGREIFANS og í tilefni af þeim áfanga er tilvalið að skella hér inn eins og einni myndasögutengdri færslu svona til tilbreytingar. En efni dagsins má að mestu leyti rekja til Viggó bókarinnar Hrakfara og heimskupara, sem bloggsíða SVEPPAGREIFANS sækir sér einmitt nafn sitt til, en það var bókaútgáfan Iðunn sem gaf þessa myndasögu út árið 1979. Á blaðsíðu 22 í þeirri ágætu bók er að finna frábæran brandara úr smiðju André Franquins sem SVEPPAGREIFINN er hreinlega búinn að elska síðan hann las bókina fyrst fyrir rúmlega fjörtíu árum síðan. Þessi brandari birtist fyrst í 1796. tölublaði SPIROU tímaritsins sem kom út þann 14. september árið 1972 og meðal annars efnis, sem íslenskir lesendur gætu kannast við og birtist einnig í því ágæta tölublaði, má nefna einnar síðu strumpabrandara sem kemur fyrir á blaðsíðu 42 í bókinni Strumpastríð. Og nú fer örugglega einhver að fletta honum upp.

En aftur að bókinni um Viggó viðutan. Þarna er um að ræða brandarann þegar þeir Viggó og Júlli í Skarnabæ eru búnir að vera að standa í einhverjum framkvæmdum, að því er virðist heima hjá Júlla, og Viggó leyfir sér þann munað að skella sér í bað á eftir til að skola af sér mestu málninguna og önnur óhreinindi. Júlli bregður sér frá, Viggó slakar á og sofnar að sjálfsögðu í baðinu og framhaldið þekkja auðvitað allir sannir Viggó aðdáendur. Frábær brandari alveg hreint.

Hins vegar má auðvitað alltaf deila svolítið um hvernig slíkur atburður á að geta gerst og er þá eiginlega alveg sama frá hvaða sjónarhorni það er litið. Fæstar manneskjur, sem hafa yfir einhverri örlítilli skynsemi að ráða, færu líklega að geyma marga poka af sementi á heimasmíðaðri bráðabirgðahillu fyrir ofan baðker. Það sést greinilega hvernig hillunni er lauslega haldið uppi með priki sem skorðað er af við innri brún baðkarsins og þetta getur ekki endað öðruvísi heldur en að Viggó reki fót sinn í spýtuna þannig að hún láti undan og hillan hrinur niður. Þá færi heldur enginn að láta renna í bað fyrir sig vitandi af öllu sementinu fyrir ofan baðið, hvort sem það væri tryggilega fest eða ekki, enda myndi rakinn og gufan úr baðinu skemma sementið. 

Og fleira gengur alls ekkert upp ef farið er að skoða hlutina svolítið á eðlilegan og raunsæislegan hátt. Þegar níu eða tíu sementspokar falla niður í baðkar úr meters hæð, sem manneskja liggur ofan í, þá kemst hún ekki hjá því að vakna - alveg sama hversu fast hún sefur. Þyngd pokanna og umfang þeirra kallar á ansi mikinn gusugang og læti auk þess sem þyrlast upp gríðarlegt ryk af slíkum hamförum. Ekki sést hins vegar eitt rykkorn á vettvangi uppákomunnar eða þar í kring. Rúmmál sementsins er einnig í því magni að það eitt myndi duga til að fylla baðið án vatns og myndi hugsanlega ná að þeyta mest öllu vatninu upp úr baðinu með krafti sínum. En löngu síðar vaknar Viggó og uppgötvar þessar óvæntu og óþægilegu aðstæður. Hann nær að lyfta sér upp úr baðkerinu og reynir síðan að skríða á fjórum fótum í áttina að símanum. Viggó hlýtur að vera gríðarlega mikið heljarmenni því það gæti aldrei nokkur maður náð að lyfta sér upp úr baði með svona steypuklump fastan á líkamanum. Til þess er risastór klumpurinn allt of stór og þungur. 

Fljótt á litið gæti steypumassinn virðst vera um einn til einn og hálfur rúmmetri að stærð og það er enginn sem gæti lyft klumpi af slíkri stærðargráðu. SVEPPAGREIFINN er enginn sérfræðingur í eðlisþyngd steinsteypu en fljótt á litið myndi hann giska á að klumpurinn gæti verið á þriðja tonn að þyngd! Neibb, þetta gengur alls ekkert upp. En brandarinn er samt frábær! Það sem SVEPPAGREIFANN langaði samt aðallega að koma á framfæri, með þessari færslu, er að benda á annan mjög sambærilegan brandara sem hann rakst á í gömlu eintaki af tímaritinu Vikunni sem kom út þann 13. júní árið 1974. Eins og flestir eflaust muna birti Vikan myndasögur í blaði sínu til langs tíma og þeirra á meðal voru hin nafntoguðu Stína og Stjáni sem áttu fastan sess í hugum lesenda blaðsins í áratugi - þar á meðal SVEPPAGREIFANS. En hér má einmitt sjá svo til þennan sama brandara sem heimfærður hefur verið upp á heimilisaðstæður hjá þeim Stínu og Stjána

Ekki er gott að segja til um hvor brandaranna sé eldri en líklega varð þó brandari Franquin til á undan því Stínu og Stjána brandarinn, sem heitir reyndar Blondie á frummálinu og var eftir bandaríska listamanninn Chic Young, er skráður 1973 á miðjumyndinni í næstneðstu röð. En Viggó brandarinn birtist hins vegar í október árið 1972 eins og áður sagði. Líkindi þessara tveggja brandara eru slík að Young hlýtur að hafa fengið kjarna hans lánaðan úr SPIROU blaðinu þó ekki séu þeir alveg nákvæmlega eins. Til gamans má geta að SVEPPAGREIFINN vinnur einmitt að smá færslu um myndasögurnar um Stínu og Stjána úr Vikunni og mun vonandi birta hér á síðunni á einhverjum af næstu mánuðum. Stefnan er sett á að klára hana einhvern tímann ef næði gefst.