26. apríl 2019

108. IGNEL IFIL BBÚLGROZ

Bókaflokkurinn um Sval og Val var gríðarlega vinsæll á Íslandi, á síðustu áratugum 20. aldarinnar, þegar SVEPPAGREIFINN var að alast upp og margir af hans kynslóð tóku miklu ástfóstri við þessum bókum. Fyrsta sagan kom út hér á landi, hjá bókaútgáfunni Iðunni, fyrir jólin 1977 og síðan voru þær gefnar út þetta ein til fjórar á ári allt til ársins 1992 þegar hlé var gert á útgáfu bókanna. Froskur útgáfa tók aftur upp þráðinn með seríuna árið 2013 og sögurnar hafa verið að koma út aftur síðustu árin en þó ekki jafn ört og hjá Iðunni á sínum tíma. En allir aðdáendur bókaflokksins um Sval og Val þekkja hinn undarlega og dularfulla karakter Zorglúbb sem kemur fyrir í nokkrum bókanna og er án nokkurs vafa í uppáhaldi hjá mörgum af lesendum seríunnar. SVEPPAGREIFINN ætlar að þessu sinni því aðeins að kíkja á Zorglúbb í færslu dagsins.
Zorglúbb er að mestu leyti sköpunarverk André Franquin en einnig mun belgíski listamaðurinn Greg (Michel Régnier) hafa átt einhvern þátt í sköpun hans. Útgefandinn Dupuis var reyndar ekkert sérstaklega hrifinn af því að fá Zorglúbb inn í seríuna. Sögurnar um Sval og Val væru engar vísindaskáldsögur og Dupuis taldi að Zorglúbb væri of ógnvekjandi fyrir hina ungu lesendur bókanna. Það breytti því þó ekki að Zorglúbb kom fyrst fyrir í sögunni Z fyrir Zorglúbb (Z comme Zorglub) frá árinu 1961 en sú bók er í rauninni fyrri hluti stærri sögu. Seinni hluti hennar heitir Með kveðju frá Z (L'ombre du Z) og kom fyrst út í bókarformi árið eftir. Báðar þessar bækur komu út á íslensku á sínum tíma í þýðingu þeirra Jóns Gunnarssonar og Bjarna Frímanns Karlssonar. Z fyrir Zorglúbb árið 1981 og Með kveðju frá Z árið 1982. Í raun kemur Zorglúbb aðeins fyrir í þremur af bókum Franquins (þriðja sagan var Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac frá árinu 1968)) en í minningunni hefði SVEPPAGREIFINN (sá sem þetta ritar) einhvern tímann verið þess fullviss um að bækur Franquins um Zorglúbb hefðu verið miklu fleiri. Í það minnsta eru allar þessar Sval og Val bækur í töluverðu uppáhaldi hjá honum. Þó þeir Svalur og Valur kynnist fyrst hinum bráðsnjalla Zorglúbb í fyrrnefndum Franquin bókum þá eiga þeir Sveppagreifinn sér nokkra forsögu saman sem fram kemur reyndar töluvert við sögu seinna í seríunni.
En þegar Jean-Claude Fournier tók við bókaflokknum af Franquin var Zorglúbb endurvakinn strax í hans fyrstu sögu Gullgerðarmanninum (Le faiseur d'or - 1970). Það var eðlilegt enda gerist sagan í beinu framhaldi af Svaðilför til Sveppaborgar og Zorglúbb enn gestkomandi hjá Sveppagreifanum. Zorglúbb kemur einnig fyrir í bókinni Tora Torapa, þremur sögum síðar, frá árinu 1973 en sú bók hefur ekki enn komið út á íslenskri þýðingu. Fournier gerði Zorglúbb því aldrei neitt mjög hátt undir höfði í sínum níu bókum en leyfði honum þó aðeins að vera með. Kannski bara svona rétt til að hann gleymdist ekki. Hann var jú orðinn ágætur vinur og samstarfsmaður Sveppagreifans og í sögunni Tora Torapa varð hlutverk hans öllu meira en í Gullgerðamanninum. Í Tora Torapa er Zorglúbb rænt af glæpasamtökunum Þríhyrningnum og því má segja að í sögunni hafi hann tekið fullan þátt í ævintýrum aðalsöguhetjanna. Síðan liðu þrettán ár þar til hann birtist næst í sögu um þá Sval og Val en þá gerðu þeir Tome og Janry bókina, Upprisa Z (Le réveil du Z - 1986), þar sem Zorglúbb sjálfur kemur reyndar lítillega við sögu en dvergvaxið barnabarn hans leikur hins vegar stærra hlutverk í bókinni. Þetta var eina bók þeirra Tome og Janry sem Zorglúbb kemur fyrir í en í sögunum þremur sem þeir Nic og Cauvin höfðu gert, á árunum 1983-84, birtist hann aldrei.
Nú liðu heil 22 ár þar til Zorglúbb sást aftur í seríunni um þá Sval og Val. Árið 2008 kom út sagan Aux sources du Z eftir þá Morvan og Munuera og í þeirri bók eru kynni þeirra Svals, Vals og Zorglúbbs endurvakin svo um munar. Reyndar var þessi 50. saga seríunnar síðasta bók fyrrnefndra höfunda en í næstu sögu Alerte aux Zorkons frá árinu 2010 er Zorglúbb aftur kominn til sögunnar og hefur nú endurheimt hið illa hlutverk sitt. Á þessum tímapunkti höfðu núverandi höfundar bókaflokksins þeir Yoann og Vehlmann tekið við seríunni og þeir héldu uppteknum hætti í næstu sögu á eftir. Framhaldssagan La Face cachée du Z var gefin út árið eftir en Zorglúbb hefur ekki komið að beinum hætti við sögu upprunalegu Sval og Val seríunnar eftir þá bók. Í sögunni Paris-sous-Seine frá árinu 2004 kemur að vísu að nokkru leyti fram forsaga þeirra félaga Zorglúbbs og Sveppagreifans án þess þó að sá fyrrnefndi komi fyrir í bókinni nema á gömlum ljósmyndum.
Það þarf ekki að taka það fram að engin af síðastnefndu bókunum hafa verið gefnar út á íslensku en alls kemur Zorglúbb fyrir í 10 af 55 bókum seríunnar. Og svo má ekki gleyma einni sögu sem reyndar kom aldrei út. Forsagan af því var sú að árið 1998 höfðu þeir Tome og Janry sent frá sér 46. söguna, Machine qui rêve (Draumavélin hefur hún verið þýdd á Wikipedia), en hún hefur verið nefnd umdeildasta bókin í allri Sval og Val seríunni. Sagan þótti mjög byltingarkennd að mörgu leyti og fékk því nokkuð blendnar viðtökur frá aðdáendum bókaflokksins. Jafnvel svo mjög að það hafði að einhverju leyti þau áhrif að þeir félagar Tome og Janry gerðu ekki fleiri sögur um Sval og Val og heil 6 ár liðu þar til næsta bók, Paris-sous-Seine, sem var eftir þá Morvan og Munuera kom út. Tome og Janry höfðu þó í raun hafið vinnu við nýja sögu í seríunni sem nefndist Zorglub à Cuba (Zorglúbb á Kúbu) og var í anda Machine qui rêve en bókin átti að verða sú 47. í röðinni. Átta síður úr sögunni voru tilbúnar en þær voru seinna litaðar og birtar í SPIROU myndasögublaðinu belgíska árið 2011. Að öðru leyti hefur lítið af efni sögunnar verið gert opinbert enda var svo sem ósköp lítið nema handritið af henni tilbúið þegar þeir gáfu verkið frá sér. Öðru hvoru kemur upp orðrómur um að Zorglub à Cuba muni verða gefin út í hliðarseríunni Série Le Spirou de… (Sérstök ævintýri Svals ...) en Tome og Janry hafa hvorki staðfest né neitað þeim sögusögnum.
Þeir Tome og Janry höfðu mikinn hug á að koma Zorglúbb aftur inn í seríuna og í kjölfar hinnar umdeildu Machine qui rêve, þar sem stíll seríunnar hafði breyst meira til nútímalegrar raunsæisstefnu, átti að gera Zorglúbb að miklu meira illmenni en hann hafði hingað til verið þekktur fyrir. Það hefði eflaust verið fróðlegt að upplifa þá þróun og vonandi fær Zorglub à Cuba einhvern tímann tækifæri til birtingar í hliðarseríunni í fullri lengd. En talandi um hliðarseríuna Sérstök ævintýri Svals ... Þar hefur Zorglúbb líka aðeins fengið að njóta sín. Í 2. bók seríunnar, Les Marais du temps frá árinu 2007, leikur hann nokkuð stórt hlutverk og sömu sögu má segja um sögu númer 13 Fondation Z frá árinu 2018. Það er því alla vega ljóst að það er alveg pláss fyrir Zorglúbb hjá höfundum hliðarseríunnar vinsælu.
Hinn eftirminnilegi Zorglúbb er nokkuð margslunginn og flókinn karakter en í seinni tíð hefur hann jafnvel þróast í að verða svolítið ruglingslegur og því orðið erfiðara að átta sig á honum. Sú sýn felst líklega helst í því hversu margir höfundar hafa komið að því að móta hann í gegnum tíðina. Þannig er eiginlega hægt að upplifa Zorglúbb á ólíkan hátt eftir því hver hefur teiknað hann. Franquin skapaði hann auðvitað í byrjun og með frjóu hugmyndaflugi höfundarins festust við hann ákveðin karaktereinkenni sem bara að einhverju leyti hafa fengið að njóta sín áfram. Hann er auðvitað ýmist góður eða slæmur, með mikilmennskubrjálæði, kvikindislegur, hugmyndaríkur, einfaldur og flókinn. Jafnvel stundum allt í senn. En það eru þó ákveðin einkenni sem SVEPPAGREIFANUM  hefur ekki fundist hafa fylgt honum með ólíkum höfundum. Upphaflega hugmynd Franquins af Zorglúbb var innblásin af manni sem hann kannaðist við og starfaði sem deildarstjóri í stórri verslun í Brussel. Sá náungi var afskaplega ræðinn og kunnur fyrir sterkan hreim sem einkenndi orðagjálfur hans. Hann hafði sama stíl og Zorglúbb og var mjög "fyndinn maður" eins og Franquin lýsti honum sjálfur. Það er einmitt þetta "fyndna" við persónuleika Zorglúbbs sem SVEPPAGREIFANUM finnst svolítið skorta í seinni tíð. Það vantar orðið í hann allan þann ýkta fáránleika sem einkenndi hann í byrjun, klaufaganginn hans, biluðu græjurnar og svo framvegis. Í dag er hann orðinn ósköp flatur. Sumir myndasögufræðingar hafa jafnvel velt því fyrir sér hvort hin yngri útgáfa af Zorglúbb sé geðklofi. SVEPPAGREIFINN kunni því eiginlega alltaf betur við kallinn í meðförum Franquins. Þar var hægt að taka Zorglúbb svona hæfilega alvarlega en hann var þó líka afar hrekklaus og klaufskur.
En Zorglúbb er gamall vinur Sveppagreifans frá háskólaárunum í Brussel. Þeir tveir ásamt æskuást þeirra beggja, frú Flanner, höfðu unnið saman að ýmsum vísindarannsóknum löngu áður en þeir Svalur og Valur komu til sögunnar. Síðan slitnaði upp úr vinskap þeirra. Þegar Zorglúbb birtist fyrst í bókinni Z fyrir Zorglúbb kemur þar fram að þeir Sveppagreifinn hafi ekki hist síðan greifinn fékk hann rekinn úr háskólanum. Zorglúbb hafði þá unnið að tilraunum með geisla til að draga tunglið nær jörðinni svo geimfarar yrðu ekki jafn lengi á leiðinni. Hann varð ekki bara að athlægi með hugmyndum sínum heldur kom líka seinna kom í ljós að hann hefði einnig gengið vel á fjárráð háskólans með þessum tilraunum sínum. Í Z fyrir Zorglúbb stefnir hann hins vegar á alheimsyfirráð og reynir með öllum ráðum að fá Sveppagreifann, með alla sína snilligáfu í vísindum, í lið með sér. Þrátt fyrir hið mikla sjálfstraust Zorglúbbs og óumdeilanlegar gáfur hans þá leynist líka svolítið brothætt mynd á bak við snillinginn. Þegar Sveppagreifinn skaut upp í hann lítilli pillu sem leiddi af sér mikla sektarkennd og sálarkvalir þá komu ýmsir brestir í ljós. Zorglúbb reyndist vera bljúg, auðmjúk og einmana sál sem þráði ekki heitar en viðurkenningu hins gamla vinar síns Sveppagreifans. 
Í kjölfar mikils hnekkis sem hann hlaut, við það að lenda fyrir eigin Zorgeislum (Með kveðju frá Z og Svaðilför til Sveppaborgar) og verða að smábarni á ný, gerðist hann síðan vinur og bandamaður aðalsögupersónanna. Hann varð að einhverju leyti blíðari og stórmennskudraumar hans milduðust - í bili að minnsta kosti. Einhvern tímann lýsti Franquin Zorglúbb einmitt sem snillingi með mikilmennskubrjálæði á háu stigi og með gríðarlegt sjálfstraust. Svo miklu reyndar að hann talaði til dæmis ætíð um sjálfan sig í þriðju persónu. Á sama hátt hefur hann gríðarlega mikla þörf fyrir að koma nafni sínu að öllum hans verkum og borgirnar hans Zorumbía, Zorcity, Zorborg, Zorville, Zorkaupstaður, Zornes og Zorvogur bera þess allar merki. Einnig má nefna Zormenn (hermenn Zorglúbbs), Zorgeisla, Zorbílinn, Zorþyrluna og Zorflaugina en tungumálið sem þeir tala nefnist einfaldlega zorska. Og sem dæmi um hina ýktu sjálfhverfu Zorglúbbs má nefna lag hans "Yndislegi Zorglúbb minn" sem hann lætur lúðrasveit sína leika á hátíðarstundum. Zorglúbb hefur alla þá hæfileika sem snillingur á vísindasviðinu þarfnast og gat nýtt þá til góðs fyrir allt mannkynið en einhverra hluta vegna var hann of upptekinn í byrjun af eigin verðleikum og kaus því frekar að nýta hæfileikana til vafasamra og illra athafna. Þó var Zorglúbb ekki illri en svo að hann gætti þess jafnan að enginn skaðaðist og aldrei dó neinn af hans völdum. Hann varð jú einnig að hugsa um heiður sinn. Þeim Sval, Val og Sveppagreifanum tókst þó að koma í veg fyrir hinar illu fyrirætlanir en eins hjálpaði honum ekki hinn meðfæddi, barnslegi fáránleiki hans sem oftar en ekki kallar á taugaveiklislegar, klaufalegar og fljótfærnislegar yfirsjónir. Hin illu áform Zorglúbbs breyttust því á stuttum tíma úr ógnvekjandi alheimsyfirráðum í leikhús fáránleikans.
Í þeim yngri ævintýrum seríunnar þar sem Zorglúbb kemur við sögu fá þó vísindahæfileikar hans betur að njóta sín. Hann gerir auðvitað sín fljótfærnislegu mistök en snilli hans hefur þó gert honum kleift að koma sér upp leynilegri bækistöð á bakhlið tunglsins þar sem hann hefur enn drauma um heimsyfirráð. Með öðrum orðum, hann virðist aftur vera orðinn illur. Og þannig er staða hans í dag út frá upprunalegu Sval og Val seríunni.
En útlitslega er Zorglúbb í raun sannkallað fagurfræðilegt glæsimenni. Klæðnaður hans er til dæmis að öllu leyti óaðfinnanlegur og samræmist fullkomlega klæðaburði þeirra helstu fyrirmenna sem báru af á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar. Hann er ósjaldan í vönduðum, bláum jakkafötum sem fara honum afar vel og oftar en ekki klæddur svartri, hvít skinnfóðrari slá eða skikkju yfir og með hanska. Ákaflega vel til hafður alltaf. Zorglúbb er líklega um 180 sentimetrar á hæð, beinn í herðum og samsvarar sér afar vel í vexti. Hann er um 45 til 50 ára gamall, með svartar svipsterkar augabrúnir og snyrtilegan skeggkraga í sama lit. Hann er sköllóttur yfir háhöfuðið en með svartan hárflóka aftan til á hnakkanum. Zorglúbb er svolítið langleitur í andliti, hann hefur langt nef og er stundum eilítið dapurlegur til augnanna. Í seinni tíð hefur hann gjarnan sést reykjandi og þá iðulega með vandað munnstykki. Hann er smekkmaður á bíla og notar gjarnan svartar glæsibifreiðar á borð við Citroen DS við störf sín. Það hefur aldrei komið fram hvort nafn Zorglúbbs sé skírnarnafn hans eða ættarnafn. Sjálfur sagði Franquin, þegar hann var spurður, að hann vissi það í raun ekki. Það væri ekki vandamál sem þeir Greg hefðu nokkurn tímann velt sér upp úr eða rætt eitthvað. Zorglúbb hét bara Zorglúbb. 
Og nú er svo komið að Zorglúbb þykir orðið það merkilegt fyrirbæri að hann er kominn með sinn eigin bókaflokk. Í júní 2017 kom nefnilega út fyrsta sagan í nýrri sjálfstæðri seríu sem nefnist La Fille du Z (Dóttir Z) og fjallar einmitt um, eins og nafn bókarinnar gefur nefnilega sterka vísbendingu um, dóttur Zorglúbbs. Sú er reyndar dóttir þeirra Zorglúbbs og frú Flanner sem minnst var á fyrr í þessari færslu. Höfundur bókarinnar er Spánverjinn Jose-Luis Munuera sem var auðvitað helmingur tvíeykisins Morvan og Munuera sem gerðu fjórar sögur í upprunalegu Sval og Val seríunni á árunum 2004-08. En sagan La Fille du Z segir frá því hvernig Zorglúbb reynir með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Zandra, hin sextán ára dóttir hans, hitti kærasta sinn hinn sárasaklausa André. Zorglúbb hikar ekki við að senda vélmenni sín til að vernda dóttur sína en eins og gefur að skilja fellur slík afskiptasemi í frekar grýttan jarðveg hjá Zöndru. Inn í söguna fléttast svo hefðbundin mikilmennskubrjálæðisbarátta og vísindaskáldsagnaboðskapur í anda Zorglúbbs. La Fille du Z er því annars vegar einhvers konar sambland af daglegu og hversdagslegu lífi Zorglúbbs sem föðurs og hins vegar saga tengd önnum hans við alheimsyfirráð.
Önnur bókin í þessari seríu kom síðan út í september árið 2018 en hún nefnist L'apprenti méchant sem myndi líklega vera þýtt sem Vondur nemi eða eitthvað á þá leið á íslensku. En þó að þessi Zorglúbb sé kominn svolítið langt frá Zorglúbbi Franquins virðist nýja serían samt vera mjög áhugaverð og fær almennt lofsamlega dóma. Þar er hlutur höfundarins Munuera auðvitað stærstur og þessi nýja sýn hans á hinum dularfulla Zorglúbb er virkilega vel heppnuð. Alla vega ... SVEPPAGREIFINN eignaðist La Fille du Z þegar hún kom út fyrir tæplega tveimur árum og getur ekki beðið eftir að fjárfesta í L'apprenti méchant.

19. apríl 2019

107. TINNI OG BLÁU APPELSÍNURNAR

Föstudagurinn langi í dag og þess vegna er færsla dagsins svona hæfilega löng og um leið líka hæfilega áhugaverð. En fyrir um það bil ári síðan skrifaði SVEPPAGREIFINN svolítla færslu um fyrstu bíómyndina sem gerð var um Tinna í fullri lengd. Þarna var um að ræða myndina Tintin et Le mystère de la Toison d'Or frá árinu 1961 en hún var reyndar gefin út í dvd formi hér á landi árið 2012 og nefndist þá Tinni og Tobbi - á valdi sjóræningjanna. SVEPPAGREIFINN hendir stundum þessari mynd (reyndar hefur hann ekki enn eignast íslensku útgáfuna) í dvd spilarann sinn og leyfir henni að rúlla með sínu franska tali og sömu sögu má einnig segja um aðra Tinna mynd sem hann á - Tintin et les oranges bleues eða Tinni og bláu appelsínurnar frá árinu 1964. Um þá mynd ætlar SVEPPAGREIFINN einmitt að fjalla aðeins um í þessari færslu en hún var gerð í kjölfarið af Tintin et Le mystère de la Toison d'Or sem hafði notið töluverðra vinsælda í bíóhúsum.
Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af tilurð þessarar myndar má rekja aftur til ársins 1978 þegar kvikmyndabókin Tinni og bláu appelsínurnar var gefin út af bókaútgáfunni Fjölva ásamt annarri nokkuð sambærilegri bók sem nefndist Tinni og Hákarlavatnið. Á þessum tíma hafði Fjölvi lokið við að gefa út hinar hefðbundnu Tinna bækur og var að hamast við að senda frá sér ýmsar aðrar bækur sem tengdust þeim sögum og höfundinum Hergé. Auk áðurnefndra kvikmyndabóka um Tinna má þar til dæmis einnig nefna einhverjar bækur um Palla og Togga og tvær sögur úr bókaflokknum um Alla, Siggu og Simbó. Kannski mætti líta á þessar teiknimyndasögur allar sem einhvers konar afganga og þær seldust líklega aldrei neitt sérstaklega vel. Til dæmis komu aldrei út fleiri bækur um Alla, Siggu og Simbó frá Fjölva en alls eru bækurnar í þeirri seríu fimm talsins. Aftan á bókakápum einhverra af íslensku Tinna bókunum má sjá að Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og bláu appelsínurnar eru kvikmyndabækur númer 1 og 3. Og því má reikna með að Fjölva útgáfan hafi gert ráð fyrir að Tintin et Le mystère de la Toison d'Or yrði seinna meir kvikmyndabók númer 2. Sú bók var hins vegar aldrei gefin út hjá Fjölva útgáfunni og SVEPPAGREIFINN var ekki almennilega meðvitaður um þá bíómynd fyrr en löngu seinna eða eftir að Internetið kom til sögunnar. Tinni og bláu appelsínurnar kom fyrst út í bókaformi í Belgíu árið 1965 en þannig er hún byggð upp á hefðbundum sögutexta og skreytt með ljósmyndum úr bíómyndinni.
Og svo má kannski líka geta þess til gamans að tiltölulega auðvelt er að nálgast ónotuð eintök af Tinna og bláu appelsínunum, ólíkt öðrum Tinna bókum á íslensku, því enn poppa upp heilu bunkarnir af bókinni á hinum ýmsu bókamörkuðum. Síðast rakst SVEPPAGREIFINN á góða hrúgu af bókinni á bókamarkaði Félags bókaútgefenda, undir stúkunni við Laugardalsvöll, á 690 krónur. Það væri því líklega ekki vitlaust fyrir einhvern óðan safnara að hamstra nokkra tugi eintaka af bókinni, svona til framtíðar, því ósköp lítil hætta er á að hún verði nokkurn tímann gefin út aftur á Íslandi.
En hugmyndin að Tintin et les oranges bleues kviknaði, eins og áður segir, í kjölfarið af vinsældum fyrstu myndarinnar. Myndin var gerð í samvinnu franskra og spænskra framleiðenda og Tintin et les oranges bleues ber þess líka töluverð merki þar sem hún gerist að stórum hluta á Spáni. Leikstjóri hennar var hinn franski Philippe Condroyer og þetta var hans fyrsta bíómynd en myndin hlaut einnig spænska titilinn Tintin y las naranjas azules. Myndin er sjálfstæð og líkt og Tintin et Le mystère de la Toison d'Or er hún ekki gerð upp úr neinni bóka Hergé um Tinna. Handritið gerði André Barret en þó í samvinnu við leikstjórann Condroyer, Rémo Forlani, René Goscinny (sem við þekkjum auðvitað sem handritshöfund Ástríks- og Lukku Láka bókanna) og Jacques Bergier sem annaðist vísindalega ráðgjöf. Þann síðastnefnda fjallaði SVEPPAGREIFINN ekki fyrir svo löngu um. Bergier var nefnilega fyrirmynd Hergé að stjörnufræðingnum Sigmiðli Transvaldurr í Tinna bókinni Flugrás 714 til Sydney og einnig prófessor Sprtschk í Sval og Val bókinni Le voyageur du Mésozoïque en sú saga hefur reyndar ekki enn verið gefin út á íslensku. Þeir Barret og Forlani höfðu einnig gert handritið að fyrri myndinni Tintin et Le mystère de la Toison d'Or. Tintin et les oranges bleues var síðan frumsýnd þann 18. desember árið 1964 en ekki fyrr en þann 10. apríl árið 1966 á Spáni.
En hlutverk Tinna var eins og í fyrri myndinni í höndum hins belgíska Jean-Pierre Talbot en hann var orðinn tvítugur þegar þessi mynd var gerð. Talbot varð seinna þekktur sem hinn eini sanni Tinni en Hergé hafði mikið dálæti á honum í því hlutverki. Þetta voru þó einu kvikmyndahlutverkin sem hann tók að sér um ævina en seinna sneri hann sér að kennslu og varð frumkvöðull að ýmsum málefnum er varðar heilsu og heilbrigðu líferni. Jean-Pierre Talbot er í dag orðinn 75 ára gamall og enn í fullu fjöri. Hlutverk Kolbeins kafteins í Tintin et les oranges bleues var hins vegar í höndum hins franska Jean Bouise. Hann var þá þegar orðinn vel þekktur leikari í Frakklandi og hafði að mestu leikið á sviði en þegar hann hætti störfum í kringum árið 1990 átti hann að baki rúmlega 60 leikhúshlutverk og tæplega 70 hlutverk í bíómyndum. Bouise lék til að mynda bæði í hinum þekktu myndum Le Grand Bleu (The Big Blue) og Nikita í leikstjórn Luc Besson. Jean Bouise er orðinn rétt tæplega níræður að aldri og auðvitað löngu sestur í hinn fræga helga stein.
Það var hinn franski Georges Wilson sem tekið hafði að sér hlutverk Kolbeins í fyrri myndinni en af öllu leikaraliðinu voru aðeins tveir leikarar sem léku í báðum þessum Tinna myndum. Auk Jean-Pierre Talbot var það bara Max Elloy í hlutverki Jóseps sem hafði leikið í Tintin et Le mystère de la Toison d'Or. Af helstu öðrum persónum Tinna bókanna koma bæði Skaftarnir og prófessor Vandráður fyrir í báðum þessum bíómyndum en Vaíla Veinólínó kemur ný til sögunnar í Tintin et les oranges bleues. Þá er allt umhverfi myndanna tveggja líka frekar ólíkt en tökur fóru að miklu leyti fram á Spáni í yfirgefnu klaustri í nágrenni Valencia. 
Sagan um Tinna og bláu appelsínurnar segir í fljótu bragði frá því að prófessor Vandráður hefur sent frá sér bók þar sem hann hvetur vísindamenn til að berjast gegn hungursneyð í heiminum. Í kjölfarið fær hann senda bláa appelsínu frá spænskum kollega sínum, Anténor Zallaméa, en ávöxtinn á að vera hægt að rækta í þurrustu eyðimörkum og þar með að bjarga lífi milljóna manna. Um nóttina er appelsínunni hins vegar stolið og þeir félagar, Tinni, Tobbi, Kolbeinn og Vandráður, ákveða að drífa sig til Valencia á Spáni til að hitta vísindamanninn Zallaméa en honum hefur þá verið rænt og fljótlega fer Vandráður sömu leið. Þeir Tinni og Kolbeinn leita því allra leiða til að finna hina færu vísindamenn aftur og njóta aðstoðar ungra spænskra vina sinna.
Þessi mynd þótti mjög döpur og stóðst engan veginn þær væntingar sem til hennar voru gerðar eftir fyrri myndina. Sú var reyndar ekkert meistaraverk en hún var þó þess virði að tekin var sú ákvörðun að ráðast í gerð annarrar. Handritið að Tintin et les oranges bleues þótti nokkuð hallærislegt og slakt og engan veginn í þeim anda sem einkenndi sögurnar um Tinna. Bara hugmyndin um bláar appelsínur virtist nægja til að gera myndina óáhugaverða og aðdáendur Tinna tengdu myndina aldrei við ímynd hans. Til að mynda virðist hún ekki einu sinni hafa komið til greina til sýninga í kvikmyndahúsum á Íslandi sem þó buðu oft upp á æði lélegt efni. En raunar eru hinar bláu appelsínur algjört aukaatriði í þessari bíómynd. Myndin fjallar minnst um bláu appelsínurnar og atburðarás hennar er komin langt út fyrir það efni löngu áður en hún er einu sinni hálfnuð. Tintin et les oranges bleues þótti því allt að því flopp og hinu slaka handriti var kennt um að ekki var ráðist í gerð fleiri Tinna bíómynda. Og til að undirstrika hina hroðvirknislega vinnu við myndina mátti sjá í henni nokkur klaufaleg mistök sem hjálpuðu ekki til. Í atriði þar sem þeir Tinni og Kolbeinn leita aðstoðar Vaílu Veinólínó má til dæmis sjá hvar skuggi hljóðnemans blasir við á nokkuð áberandi stað. Gerðar höfðu verið áætlanir um þriðju myndina um Tinna sem gerast átti í Indlandi og koma átti út árið 1967 en þær hugmyndir voru snarlega blásnar út af borðinu. Hergé hafði alltaf verið nokkuð ánægður með Tintin et Le mystère de la Toison d'Or en skiljanlega var hann ekki sáttur við Tintin et les oranges bleues. Á vef IMDb fær myndin til dæmis ekki nema 4,8 í einkunn af 10. Ýmislegt var þó gert til að koma myndinni betur til skila og sem dæmi var hluti tónlistarinnar úr myndinni gefin út á hljómplötu. Hergé sjálfur kom til aðstoðar og teiknaði veggspjald sem notað var við að auglýsa myndina og sú sama mynd prýddi einmitt líka umslagið utan af plötunni. Ekki er þó einu sinni víst að það hafi hjálpað neitt til.
Tintin et les oranges bleues var aldrei teiknuð upp í hefðbundnum myndasögustíl af Hergé Studios, frekar en Tintin et Le mystère de la Toison d'Or, en löngu seinna (árið 2004) var þó gerð þokkaleg og auðvitað alveg kolólögleg sjóræningjaútgáfa af sögunni. Nú er vitað um að minnsta kosti tvær ólöglegar útgáfur af Tintin et les oranges bleues í myndasöguformi sem eru mjög sjaldgæfar og erfitt er að nálgast en önnur þeirra var til dæmis aðeins gefin út í 50 eintökum.
Því miður virðist Tintin et les oranges bleues ekki vera aðgengileg í heilu lagi á YouTube en hér fyrir neðan má alla vega sjá smá bút úr henni sem reyndar er eitthvað búið að fikta í.
Ókei bæ.

12. apríl 2019

106. HLIÐARSERÍUR SVALS OG VALS

SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á hliðarseríuna Série Le Spirou de… eða Sérstök ævintýri um Sval... eins og hún myndi líklega vera kölluð á íslensku. En sá bókaflokkur var settur á laggirnar til að brjóta aðeins upp hina gömlu ímynd af Sval og Val og um leið til að höfða til eldri lesenda sagnanna. Sala á bókunum úr upprunalegu Sval og Val seríunni hefur minnkað um meira en helming frá því að seint á 20. öldinni og reyndar hefur myndasögusala almennt dregist mikið saman síðustu áratugina. Við munum hvernig myndasöguútgáfan lognaðist smán saman út hér á landi á síðustu áratugum 20. aldarinnar og útgáfa þeirra hætti síðan alveg að standa undir sér. Froskur útgáfa kom reyndar sterk inn löngu seinna og hefur reynt að vera dugleg við að að matreiða þetta skemmtilega efni í íslenska lesendur á ný en sú útgáfa er nánast að borga með sér. Líklega er það í flestum tilfellum við, þessir gömlu myndasögulesendur, sem erum að kaupa bækurnar frá Froski bæði fyrir okkur sjálf en einnig til gjafa fyrir yngri kynslóðirnar. Við trúum því augljóslega að það efni sem við kunnum að meta í okkar æsku höfði líka til yngri kynslóðanna í dag. En ástæðu þessa áhugaleysis á teiknimyndasögum má að sjálfsögðu rekja til aukins framboðs á ótal öðru afþreyingarefni fyrir börn og unglinga. Heilt yfir eru allar bækur auðvitað á hröðu undanhaldi í heimi þeirra kynslóða sem hafa verið í meiri samskiptum við símana sína heldur en lifandi fólk. Myndasögur nútímans eru því ekki lengur sniðnar að áhuga barna og unglinga heldur oft á tíðum látnar höfða meira til okkar hinna eldri. Almennt eru það nefnilega gömlu lesendurnir og nördarnir sem eru helsti markhópur og kaupendur myndasagna í dag.
Áðurnefnd Série Le Spirou de… er því meira hugsuð fyrir fullorðna og þá kannski sérstaklega þær kynslóðir sem lásu Sval og Val bækurnar í bernsku. Alls hafa nú verið gefnar út 14 bækur í Belgíu úr þessari hliðarseríu. Þarna er um að ræða bókaflokk þar sem einstakir listamenn og handritshöfundar hafa fengið tækifæri til að semja sjálfstæðar sögur um ævintýri þeirra Svals og Vals. Eðlilega teljast bækurnar ekki til aðalseríunnar enda sögurnar með öllu ótengdar upprunalegu ævintýrunum. Margir þeirra höfunda sem hafa spreytt sig á Série Le Spirou de… hafa til dæmis tekið þann kostinn að láta sögur sínar fjalla um bernsku eða alla vega yngri ár Svals og eins er mjög breytilegt á hvaða tímum hver bók  fjallar um. Árin í kringum Síðari heimsstyrjöldina hafa til dæmis verið mjög vinsælt sögusvið hjá höfundum bókanna í seríunni en í rauninni virðist tiltölulega allt vera leyfilegt. Tímaflakk er nokkuð áberandi í þessum bókum og það hefur til að mynda gefið höfundum þeirra tækifæri bæði til að hoppa inn í þann tíma sem þeim hentar en um leið til að tengja sögurnar við atvik og persónur úr upprunalegu seríunni. Það þarf líklega ekki að taka það fram að þessar bækur hafa ekki enn verið gefnar út á íslensku.
En það var í janúar árið 2006 sem belgíska bókaútgáfan Dupuis hóf útgáfu á nýrri seríu sem skyldi fjalla um þá Sval og Val á þennan alveg nýjan hátt. Samið var við þrjú ný höfundateymi sem fengu það hlutverk eða tækifæri að tjá sig í raun á þann hátt sem þeim sýndist og þannig var lagður grunnurinn að þremur fyrstu sögunum í bókaflokknum. Þessi fyrsta bók í Série Le Spirou de... var samin af þeim Fabien Vehlmann og Yoann Chivard en svo vel þótti þeim takast með viðfangsefni sitt að fáum árum seinna voru þeir fengnir til að taka við upprunalegu Sval og Val bókaröðinni. Þar Yoann og Vehlmann gerðu því 51. söguna sem kom út árið 2010 og nefnist Alerte aux Zorkons og síðan hafa þeir félagar haldið utan um upprunalegu seríuna sem aðalhöfundar.
  • 1) En þessi fyrsta saga Série Le Spirou de... nefnist hins vegar Les Géants pétrifiés (Steinrisarnir á ísl. samkv. Wikipedia) og á nokkuð meira sammerkt með upprunalega bókaflokknum en aðrar sögur úr hliðarseríunni. Hún gerist í nútímanum og að miklu leyti í hinu þekkta umhverfi upprunalegu bókanna en að öðru leyti er sagan sjálfstæð. Þó nokkuð er því um tengingar á milli seríannna og margar persónanna úr Sveppaborg og nágrenni koma fyrir í bókinni. Kannski hafa þeir Yoann og Vehlmann ekki alveg áttað sig á þeim möguleikum sem frelsi bókaflokksins bauð upp á en sagan er alveg ágæt.
  • 2) Næsta saga í Série Le Spirou de... hefur hins vegar ekki alveg þessa sömu tengingu. Bók númer tvö nefnist Les Marais du temps (Mýri fortíðarinnar) og kom út árið 2007 en höfundur hennar er Frank Le Gall. Hann sá bæði um handritsgerð og teikningar sögunnar. Þessi saga gerist að stórum hluta í París fortíðarinnar og eðli málsins samkvæmt kemur þar tímaflakk að sjálfsögðu heilmikið við sögu. Les Marais du temps er í drungalegri kantinum og útlitslega gæti hún alveg hafa komið úr smiðju Charles Dickens.
  • 3) Þriðja sagan heitir Le Tombeau des Champignac (Grafhvelfingar Sveppaborgar) og er eftir þá Yann Pennetier handritshöfund og listamanninn Fabrice Tarrin en þessi bók kom einnig út árið 2007. Þó sagan sé sjálfstæð gæti hún tæknilega hafa komið úr upprunalegu Sval og Val seríunni en hún gerist í nútímanum líkt og fyrsta bókin úr bókaröðinni. Höfundarnir sækja mikið af hugmyndum og efni sögunnar úr smiðju André Franquins og Bitla leikur til dæmis stórt hlutverk í bókinni. Þar kemur jafnvel við sögu meint ástarsamband Bitlu og Svals.
  • 4) Le Journal d'un ingénu (Dagbók hrekkleysingja) er fjórða sagan en SVEPPPAGREIFINN er afskaplega hrifinn af þessari bók eins og hann hefur áður minnst á í færslu hér. Sagan er eftir franska (hann á reyndar spænska foreldra) listamanninn Émile Bravo en hún var gefin út árið 2008 og hefur fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Þarna kvað við svolítið nýjan (líka kannski pínu grámóskulegan) tón í þessari seríu en sagan fjallar um Sval og ævintýri hans í byrjun Seinni heimsstyrjaldarinnar og meðal annars hvernig þeir Valur kynntust. Margar vísanir eru í Tinna bækurnar í þessari sögu en Bravo er mikill aðdáandi þeirra bóka.
  • 5) Næsta bók heitir Le Groom Vert-de-Gris (Á valdi kakkalakkanna) og er númer fimm í ritröðinni Série Le Spirou de... Handritið er eftir Yann Pennetier en Olivier Schwartz teiknaði söguna sem kom út árið 2009. Aftur er Síðari heimsstyrjöldin sögusviðið en þó á allt annan hátt en í Le Journal d'un ingénu. Félagarnir Svalur og Valur fá báðir alveg ný og ólík hlutverk í bókinni en þar leika þeir stóra rullu gegn þýska hernámsliðinu í Brussel. Valur sem sveimhuga glaumgosi en Svalur sem njósnari andspyrnuhreyfingarinnar. Í bókinni má finna fullt af vísunum í aðrar þekktar, belgískar myndasöguseríur en sagan birtist á íslensku í myndasögublaðinu Neo Blek árið 2011.
  • 6) Sjötta bókin Panique en Atlantique (Uppnám á Atlandshafi) frá árinu 2010 er eftir þá Lewis Trondheim og Fabrice Parme en sú saga er mjög ólík öllum hinum bókunum í seríunni hvað teiknistíl varðar. Þarna er eiginlega um að ræða Svalur og Valur í einhvers konar Ren & Stimpy stíl. Sagan gerist að miklu leyti á skemmtiferðaskipi og prófessor Sprtschk, sem margir muna eftir bókinni úr Le voyageur du Mésozoïque í upprunalegu seríunni, kemur meðal annars við sögu.
  • 7) Sagan La Femme léopard (Hlébarðastúlkan) er sú sjöunda í seríunni en fjögur ár voru þarna liðin frá því næsta saga á undan kom út. Sagan er eftir þá Yann og Schwartz og er sjálfstætt framhald af sögunni Le Groom Vert-de-Gris sem þeir höfðu gert fimm árum áður. Enn er sögusviðið Brussel en að þessu sinni skömmu eftir að Síðari heimsstyrjöldinni lauk. Aftur fara höfundarnir þá leið að tengja þekktar belgískar myndasöguseríur við sögu sína en að þessu sinni eru það mest Tinna bækurnar sem vísað er í. 
  • 8) La Grosse tête (Stórhöfði) er áttunda bókin í bókaflokknum en hún kom út árið 2015. Handritshöfundarnir Makyo (Pierre Fournier) og Toldac og teiknarinn Téhem gerðu þessa sögu en kápa bókarinnar er augljós vísun í Sval og Val bókina La Mauvaise tête eftir Franquin, frá árinu 1957, sem er í uppáhaldi hjá mörgum en hefur ekki enn komið út á íslensku.
  • 9) Og enn eru fetaðar nýjar slóðir í níundu sögu seríunnar. Bókin Fantasio se marie (Valur í hnapphelduna) frá árinu 2016 er að öllu leyti eftir Belgíumanninn Benoit Feroumont og óhætt er að segja að þar kveði við algjörlega nýjan tón. Brúðkaup Vals, móðir Svals og galdrar eru meðal þess sem kemur við sögu Fantasio se marie en margir vilja líka meina að bókin sé ákaflega feminísk.
  • 10) Þetta sama ár 2016 kom einnig út tíunda bókin La Lumière de Bornéo (Ljósið frá Bornéo) eftir Frank Pé og Ziorou og enn á ný kjósa höfundarnir að leyfa viðfangsefninu að fara út á enn eina ystu brúnina. Svalur er sestur í helgan stein og hefur snúið sér að málun og garðyrkju en auðvitað gengur slík slökun ekki til lengdar. Sagan er mjög falleg á allan hátt enda lituð af umhverfisvernd og hefur til að mynda hlotið verðlaun úr þeirri átt. Bókin er með fullt af ýmsum vísunum úr upprunalegu seríunni.
  • 11) Ellefta saga seríunnar Le Maître des hosties noires (Meistari svartagaldursins) sem kom út árið 2017 er þriðja bók þeirra Yann og Schwartz í bókaflokknum en hún er beint framhald bókarinnar La Femme léopard. Enn fara þeir félagar þá leið að vísa í aðrar myndasöguseríur frá Belgíu og að þessu sinni einblína þeir á margar af sögupersónum Hergés.
  • 12) Tólfta bókin í seríunni kom líka út árið 2017 en sú saga er eftir handritshöfundinn Yves Sente og listamanninn Laurent Verron og nefnist Il s'appelait Ptirou (Hann var kallaður Ptirou). Grunnhugmyndin að þessari bók byggir á upprunalegu fyrirmynd skaparans Rob-Vel að Sval en sagan fjallar því ekki beint um hann.  Þessi bók er mjög góð og, að mati SVEPPAGREIFANS, sú saga í seríunni sem er hvað flottust teiknuð.
  • 13) Fondation Z (Grunnur Z) er þrettánda bókin í Série Le Spirou de... og kom út vorið 2018. Handritið að sögunni er eftir Denis-Pierre Filippi og Fabrice Lebeault sá um teikningarnar. Hér koma við sögu gamlir kunningjar eins og Zorglúbb og Sammi frændi en sagan er framúrstefnulegur vísindaskáldskapur í þróaðri kantinum þar sem geimverur og fleira framandi kemur við sögu. Einhvers konar Svalur í Sci-Fi. Bókin er að sögn mjög flott og forvitnileg en bara engin Sval og Val bók.
  • 14) Og nýjasta afurð þessarar hliðarseríu heitir L'espoir malgré tout og er eftir Émile Bravo. Sagan kom út október 2018 og er sjálfstætt framhald af Le Journal d'un ingénu en höfundurinn er búinn að teikna um 330 blaðsíðna framhald sem stendur til að gefa út í fjórum bindum á næstu tveimur árum. Þarna heldur Bravo áfram að spinna þeim Sval og Val saman við hernámsárin í Belgíu og hann gleymir ekki að viðhalda Tinna tengingunum úr fyrstu sögunni. SVEPPAGREIFINN getur ekki beðið eftir að fá þessa bók (og auðvitað allar framhaldsbækurnar fjórar) í hendurnar en líklega verður þó ekki hægt að kveða upp endanlega dóm um þennan hluta seríunnar fyrr en síðasta heftið er komið út.
En óhætt er að segja að bækurnar fjórtán séu jafn ólíkar og þær eru margar og það er einungis í framhaldssögum Yann og Schwartz annars vegar og Émile Bravo hins vegar þar sem einhverja samsvörun má finna. Allar hinar sögur seríunnar fara í raun hver í sína áttina bæði hvað varðar efni og stíl en heilt yfir er þarna um að ræða frábæran hóp listamanna með mismunandi smekk og áherslur. SVEPPAGREIFINN hefur á undanförnum árum verið að dunda sér við að eignast þessar bækur og hefur verið duglegur við að minnast á það hér, á Hrakförum og heimskupörum, lesendum eflaust til hinnar mestu leiðinda og armæðu. Hann er nú þegar orðinn svo vel búinn að hafa eignast átta bækur af þeim fjórtán sem komið hafa út í seríunni. Sjö af þessum bókum eru á þýsku og ein á frönsku en mikið mun SVEPPAGREIFINN gleðjast ef þessar bækur munu einhvern tímann verða gefnar út á íslensku. Hann reyndar hvorki talar né les reiprennandi þýsku en myndasögur eru nú einu sinni þannig gerðar að tiltölulega auðvelt er að rekja sig áfram eftir myndmálinu þar sem þýskukunnáttunni sleppir. Þá hjálpar það mikið að vita söguþráðinn nokkurn veginn fyrirfram, hafa yfir svolítilli þrjósku og þolinmæði að ráða, hafa Google Translate á hliðarlínunni og ekki skemmir að eiga eiginkonu sem talar lýtarlaust bæði þýsku og frönsku. Þegar svo er háttað eru SVEPPAGREIFANUM ansi margar leiðir færar í myndasöguheiminum.
Og úr því að SVEPPAGREIFINN er byrjaður að fjalla aðeins um ævintýri Svals er ekki úr vegi að velta sér aðeins upp úr upprunalegu seríunni og framtíð hennar. Eins og áður var vikið að hefur orðið mikill samdráttur í sölu teiknimyndasagna og Sval og Val bækurnar hjá Dupuis útgáfunni eru þar engin undantekning. Nýjasta sagan í bókaflokknum La Colère du Marsupilami (Hefnd Gormsins) eftir þá Yoann og Vehlmann hefur ekki selst í nema um 60.000 eintökum á meðan Sval og Val bækurnar voru að seljast í 120-150.000 eintökum á níunda áratuginum. Á sama tíma hefur heyrst að Le Journal d'un ingénu eftir Émile Bravo úr hliðarseríunni hafi selst í um 100.000 eintökum. Það er því eðlilegt að Dupuis hugsi sinn gang. Upprunalegu Sval og Val bækurnar hafa alltaf verið hugsaðar fyrir börn og unglinga en sá aldurshópur er hreinlega alveg hættur að kaupa þessar bækur. Töluverður hringlandaháttur hefur verið hjá útgáfunni varðandi seríuna að undanförnu og virðast stjórnendur þar á heimili ekki vera hreinlega alveg með framhald hennar á hreinu. Til stóð að 56. hefðbundna Sval og Val bókin (La Dernière Aventure de Spirou) kæmi út í október 2018 en enn hefur sú bók þó ekki litið dagsins ljós. Í þessari enn óútkomnu bók mun vera að finna samansafn af stuttum sögum en sú fyrsta af þeim nefnist Boulevard du Crépuscule og birtist í SPIROU teiknimyndatímaritinu í lok maí 2018. Spurningar hafa því vaknað um hvort að dagar hinnar upprunalegu seríu um Sval og Val séu taldir eða hvort hún hafi hreinlega verið sett aðeins á bið. Sú umræða hefur svo sem komið upp áður. Í gegnum tíðina hefur nokkrum sinnum verið gert alveg tveggja til þriggja ára hlé á milli bóka og frá síðustu bók Tome og Janry og til fyrstu bókar Morvan og Munuera liðu til dæmis sex ár.
Í einhverri viðleitni sinni við að breyta til og bjarga þeim Sval og Val hefur Dupuis nú tilkynnt um nýjan bókaflokk um þá félaga sem ætlunin er að höfði til ungs fólks. Þarna er um að ræða aðra sjálfstæða hliðarseríu sem nefnist Supergroom og fjallar um hvernig þeir félagar pluma sig í amerískum ofurhetjustíl. Þessi nýja sería hefur jafnvel verið nefnd í gríni "Hinir belgísku X-man" en sambærilegar myndasögur (til dæmis frá MARVEL) hafa aldrei slegið almennilega í gegn á belgísk/franska málsvæðinu. Hugmyndin er því að gera svolítið grín að slíkum myndasögum. Eins og áður segir er þarna á ferðinni eins konar ofurhetjusögur, í anda amerískra hetjusagna, þar sem hinn grímuklæddi Svalur sinnir tilfallandi verkefnum sínum í hefðbundnum en fyndnum ofurhetjustíl. Þeir Yoann og Vehlmann hafa verið að vinna að þessu verkefni en það tengist einnig 80 ára afmæli Svals sem haldið var upp á á síðasta ári. Einhverjar hugmyndir voru jafnvel um að bækurnar úr seríunum kæmu út til skiptis, ein úr upprunalegu seríunni og ein úr Supergroom, annað hvert ár en sú hugmynd ku vera dottin upp fyrir. Forsmekkinn að þessari nýju hliðarseríu má sjá í bókinni Les folles aventures de Spirou sem Dupuis útgáfan sendi frá sér árið 2017. SVEPPAGREIFINN minntist lítillega á þessa bók í færslu fyrir tæplega ári síðan en í Les folles aventures de Spirou má finna safn stuttra sagna um Sval og Val sem þeir Yoann og Vehlmann höfðu verið að dunda sér við að semja áður en þeir tóku yfir aðalseríuna. Tvær af sögunum sex sem eru í bókinni tengjast þessari Supergroom seríu.
Þarna er um að ræða algjörlega nýja nálgun á Sval og Val og líklega þarf að leita allt aftur til tíma Morvan og Munuera, með Manga tilraunina sína, til að finna sambærileg straumhvörf á teiknistíl sagnanna þótt ýmislegt hafi reyndar gengið á í teiknistílum hinnar hliðarseríunnar. Gert er ráð fyrir að Supergroom sögurnar verði ekki gefnar út í hinu hefðbundna belgísk/franska bókaformasniði heldur verði þær í heldur minna broti og þykkari eða um 80 blaðsíður að lengd. Yoann og Vehlmann hafa verið að skemmta sér í nokkurn tíma að þessum nýju myndasögum og svo virðist sem að ekki standi til að neinir aðrir listamenn komi að þeim - í bili að minnsta kosti. Hér er um að ræða þrjár sögur, alla vega til að byrja með, og áætlað hafði verið að fyrsta bókin í Supergroom kæmi út í janúar 2019 og hinar tvær sögurnar í eðlilegu framhaldi eftir birtingu þeirra í SPIROU. Áðurnefndur hringlandaháttur Dupuis útgáfunnar hefur þó gert það að verkum að enn bólar lítið á bókum úr þessari seríu.