13. júní 2023

226. TEIKNIMYNDIRNAR UM TINNA

Tinna bækurnar hafa löngun verið SVEPPAGREIFANUM hugleiknar, líkt og flestar af þeim myndasögum sem hann las sem barn, og í seinni tíð hefur hann gert sér far um að nálgast sem mest af því sem komið hefur út hér á landi um kappann. Það hefur svo sem gengið alveg ágætlega. Stærstur hluti bókanna eru í höfn, fyrir utan örfáar af allra torsóttustu gripunum, og flestar af þeim eru í vel ásættanlegu ástandi. Þá hefur síðuhafi einnig verið duglegur í seinni tíð að viða að sér Tinna bókum á sem flestum og ólíkustu tungumálum og á orðið hið ágætasta safn í þeim flokki. Enn á ný skal það þó áréttað að SVEPPAGREIFINN er alls ekki safnari!

En það eru ekki eingöngu bækurnar sem hann hefur lagt sig fram um að nálgast. Eins og flestir Tinna aðdáendur á Íslandi vita þá gaf myndbandsútgáfan Bergvík út fjölda teiknimynda um blaðamanninn knáa, fyrst í VHS formi á myndbandsspólum en seinna í DVD formi á þartilgerðum geisladiskum. Í fyrrnefndu teiknimyndunum var það Eggert Þorleifsson sem leiklas inn á þættina og gerði það með einstökum hætti. Rödd Tinna sjálfs hljómar til dæmis einhvern veginn mjög hjárænulega í meðförum Eggerts og það er alveg stórkostlegt. SVEPPAGREIFINN átti einhverjar af þessum gömlu VHS spólum á sínum tíma en þegar DVD formið kom til sögunnar skipti hann gömlu spólunum út fyrir diskana. Ef minnið bregst ekki fóru þær þá allar í Góða hirðirinn. Þó spólurnar hafi verið orðnar löngu úreltar og erfiðar viðureignar sér hann samt svolítið eftir því að hafa losað sig við þær söfnunargildisins vegna. Í fyrstu var SVEPPAGREIFANUM ekki alveg ljóst hversu margar af þessum Tinna teiknimyndaþáttum hefðu komið út á VHS formi á sínum tíma en líklegt er að þær hafi verið tíu talsins. Svo virðist sem fyrstu sex spólurnar hafi fengist í gegnum sérstakan klúbb (Íslenski myndbandsklúbburinn) til að byrja með. Þessar sex myndbandsspólur voru gefnar út árið 1988 og árið 1989 bættust við að minnsta kosti fjórar í viðbót á vegum Myndbandasafnsins en seinna fengust þær einnig keyptar í lausasölu. Hugsanlega voru þær þó fleiri. Þær spólur sem SVEPPAGREIFINN veit með vissu að komu út á sínum tíma voru eftirfarandi:

  • Svaðilför í Surtsey - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Krabbinn með gylltu klærnar - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Dularfulla stjarnan - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Leyndardómur Einhyrningsins - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Fjársjóður Rögnvaldar rauða - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Sjö kraftmiklar kristallskúlur - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Fangarnir í Sólhofinu - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Í myrkum mánafjöllum - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Leynivopnið - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Tinni og Hákarlavatnið - (Myndbandasafnið - 1989)

Það má líka endilega benda á skemmtilega villu sem kemur fyrir á myndbandshulstrunum sem tilheyra framhaldssögunni um Leyndardóm Einhyrningsins og Fjársjóð Rögnvaldar rauða. Nöfnum þáttanna hefur nefnilega verið víxlað en það eitt gefur söfnunargildi spóluhulstranna, án nokkurs vafa, aukið vægi þegar fram líða stundir. Því má reikna með að allir sannir Tinna safnarar, sem ekki hafa enn eignast þessa gripi, hugsi sér gott til glóðarinnar og fari að leita uppi þessar gömlu spólur til að fullkomna enn betur söfnin sín. Villurnar má einmitt sjá á hulstrunum hér fyrir neðan.

Nú skal reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN hafði aldrei horft á Tinna þættina með íslenska talinu að neinu marki. Hann var kominn nokkuð vel á þrítugsaldurinn þegar Ríkissjónvarpið hóf sýningar á Tinna þáttum (árið 1993), þar sem þeir Þorsteinn Backmann og Felix Bergsson skiptu með sér leikröddunum, en á þeim tíma hafði GREIFINN tekið sér nokkurra ára pásu frá þessu myndasögutengda áhugamáli sínu. Tinna þættirnir í Ríkissjónvarpinu entust í nokkra mánuði en ekki minnist SVEPPAGREIFINN samt þess að hafa séð einn þátt af þessari 39 þátta seríu á RÚV. Líklega hefur hann þá talið sig fyrir löngu vera alveg lausan við myndasögubakteríuna en sú þaulsetna nostalgíu-veira náði honum þó aftur fáeinum árum seinna og ekki hefur hann losnað við hana síðan. Þótt teiknimyndirnar hafi ekki endilega vera fremstar í forgangsröð þessa áhugamáls síns minnist hann þess að hafa horft á þættina um tunglferð Tinna á einhverri franskri sjónvarpsstöð á hótelherbergi í Genf fyrir fáeinum árum. Það fannst honum reyndar nokkuð viðeigandi því Hótel Cornavin (úr Tinnabókinni Leynivopninu) var í aðeins nokkurra tuga metra fjarlægð og andi Tinna bókanna sveif þar augljóslega yfir vötnum (væntanlega Genfar-vatni þá).

En það var síðan árið 2006 sem Bergvík hóf að gefa Tinna þættina út á DVD formi sem þá var búið að ryðja VHS spólunum út af markaðnum. SVEPPAGREIFINN stóð alltaf í þeirri meiningu að um væru að ræða sömu þættina og þá sem Eggert Þorleifsson hafði leiklesið inn á VHS hálfum öðrum áratug áður. Þeir hefðu aðeins verið talsettir upp á nýtt og fleiri sögum bætt inn í seríuna. En svo var þó alls ekki. Hér var um að ræða tiltölulega nýja seríu sem framleidd hafði verið á árunum 1991-92 og voru einmitt sömu þættirnir og sýndir höfðu verið á RÚV þrettán árum áður með þeim Þorsteini og Felix. Sú sería var framleidd af Ellipse Program í Frakklandi og Nelvana Limited í Kanada og hafði einmitt að geyma samtals þessa 39 þætti, sem sýndir höfðu verið á RÚV, en hver diskur innihélt ýmist einn eða tvo þætti eftir umfangi hverrar sögu. Alls voru 21 saga framleidd í þessari yngri útgáfu en aðeins Tinni í Sovétríkjunum og Tinni í Kongó voru aldrei búnar til. Svo virðist sem allar þær teiknimyndir hafi komið út hjá Bergvík en í safni SVEPPAGREIFANS má hins vegar finna 23 diska. Þegar hann fór að skoða betur þá diska komst hann að raun um að suma þættina mátti finna með tveimur mismunandi útlítandi hulstrum. Þannig uppgötvaði hann að gömlu þættina, sem Eggert Þorleifs hafði leiklesið inn á VHS spólurnar, mátti einnig finna í DVD formi. Bergvík hafði því endurútgefið þá þætti samhliða hinum en þær útgáfur má þekkja af gulum kili, hulstranna utan af þeim, auk þess sem grár rammi er utan um forsíðumynd þeirra. Samtals eru því til 30 diskar með Tinna sem komið höfðu út hjá Bergvík en auk gömlu þáttanna 8 má þar einnig finna Tinna og Hákarlavatnið. Og líkt og með VHS útgáfuna á eldri þáttunum hefur nöfnum Leyndardóms Einhyrningsins og Fjársjóð Rögnvaldar rauða verið víxlað en á þeim yngri eru titlarnir hins vegar réttir. SVEPPAGREIFINN ráfar eitthvað í að þessir diskar hafi jafnvel fylgt með frægum pylsupökkum frá Sláturfélagi Suðurlands á sínum tíma? Eða kannski misminnir hann.

En ástæðu þess að SVEPPAGREIFINN ákvað að skrifa færslu um þessar gömlu Tinna teiknimyndir má rekja til þess að undanfarnar vikur hefur níu ára dóttir hans verið að dunda sér við að lesa Tinna bækur gamla mannsins og sýnt auk þess einnig áhuga á að horfa á teiknimyndirnar í gömlum DVD spilara heimilisins. Tinna diskunum hefur þannig verið skellt nokkuð reglulega í spilarann að undanförnu og síðuhafi hefur því ekki komist hjá því að gjóa augunum stöku sinnum á skjáinn til að fylgjast með spennandi atburðarásinni. Um leið hefur hann auðvitað notað tækifærið til að fræða dótturina svolítið, með bráðnauðsynlegum og föðurlegum upplýsingum, um þessar sígildu og um leið merkilegu myndasögur. Það verður að viðurkennast að sú litla er furðulega móttækileg fyrir þeirri upplýsingagjöf, þannig að SVEPPAGREIFINN er augljóslega að gera eitthvað rétt í uppeldinu. Það sem hefur þó helst komið honum á óvart, með þessu öðru auga glápi, er hve sumir þættirnir sem hann hefur rekist á, úr eldri seríunni, eru langt frá upprunalegu sögunum. Sumar þeirra eru nánast óþekkjanlegir. Hann tók eftir því að söguþráðurinn til dæmis bæði í Leynivopninu og Dularfullu stjörnunni eru allt annars eðlis en í bókunum sjálfum. Er einhver sem kannast til dæmis við þá atburðarás sem kemur fyrir í sýnishorninu hér að neðan?

Í þessum þætti af Dularfullu stjörnunni er það prófessor Vandráður en ekki prófessor Viðutan sem fer með þeim Tinna og Kolbeini í loftsteinaleiðangurinn á norðurslóðir auk þess sem Skaftarnir eru einnig með í för. Skip leiðangursins heitir Sirius (sem kemur þá úr sögunni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða) en ekki Aurora og kafbátur reynir að sökkva því með tundurskeytum. Vandráður stekkur í fallhlíf úr flugvél (með Tobba í fanginu) niður á loftsteininn á meðan Tinni stendur í stórræðum á öðrum vettvangi og Kolbeinn kafteinn bjargar þeim öllum að endingu úr annarri flugvél. Heildarmyndin af sögunni heldur sér reyndar að mestu leyti en er krydduð með margvíslegum hætti. Í eldri þáttunum minna stíll og hreyfingar sögupersónanna um margt á þann takt sem fylgdi teiknimyndunum um Bleika pardusinn, sem margir muna eftir úr Ríkissjónvarpinu, og voru gerðir á svipuðum tíma. Hvað varðar fleiri dæmi um frjálslegar atburðarásir í þessum Tinna þáttum má einnig nefna að í Í Myrkum mánafjöllum (sem hefur reyndar að geyma báðr sögurnar úr tunglferðabókunum) lendir Tobbi í þeim óheppilegu aðstæðum að lokast óvart inni í tilraunaeldflaug, sem fer síðan með hann til tunglsins, en Tinni og félagar hans ákveða í skyndi að fara einnig til tunglsins að bjarga honum! Það er ansi ólíkt upprunalegu sögunni.

Þessir eldri Tinna þættir voru framleiddir á árunum 1957 til 1964 af Belvision Studios sem var stofnað af Raymond Leblanc og tveimur félögum hans. Leblanc var einmitt einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Tinna tímaritsins eins og margir líklega vita. Alls voru þessir þættir átta talsins og þeir voru því allir hluti af VHS útgáfu Bergvíkur sem Eggert Þorleifsson las inn á á sínum tíma. Bergvík notaði reyndar tækifærið og gaf einnig út bíómyndina Tinna og Hákarlavatnið með þessum þáttum, þar sem Raymond Leblanc var sjálfur leikstjóri, en um þá mynd fjallaði SVEPPAGREIFINN um fyrir ekki svo löngu og má lesa hér. En þar að auki fylgdi með, þessari VHS útgáfu Bergvíkur, kvikmyndin Tintin et le temple du soleil (Fangarnir í Sólhofinu) sem Belvision framleiddi árið 1969 og var leikstýrð af Eddie Lateste. Þá mynd skipti Bergvík reyndar í tvennt og gaf út á tveimur spólum sem Sjö kraftmiklar kristallskúlur og Fangarnir í Sólhofinu. En þegar þessir Tinna þættir (8 stk) voru sýndir vikulega í sjónvarpi í Belgíu á sínum tíma voru þeir klipptir niður í 5 mínútna langa framhaldsþætti og urðu þannig að 104 þáttum. Þar var lopinn teygður allsvakalega þar sem þeir hófust á tveggja mínútna upprifjun úr þættinum á undan og í kjölfarið komu síðan heilar þrjár mínútur af nýju efni. Það er ólíklegt að seinni tíma áhorfendur hefðu látið bjóða sér upp á slíkt fyrirkomulag. Í síðari útfærslum höfðu þættirnir verið klipptir saman svo þeir mynda eðlilega heild eins og við þekkjum af fjölföldun Bergvíkur.

Belvision hóf starfsemi sína reyndar árið 1954 og fyrsta tilraun fyrirtækisins til að festa Tinna á filmu í teiknimyndaformi fólst í tveimur svart/hvítum þáttum sem framleiddir voru á 16 millimetra filmur. Þeir þættir voru byggðir á sögunum um Veldisprota Ottókars og Skurðgoðinu með skarð í eyra og er ekki að finna í því safni teiknimyndaþátta á VHS sem Bergvík gaf út á sínum tíma. Hergé sjálfur kom persónulega ekkert að þessum þáttagerðum, enda þá önnum kafinn við söguna Kolafarminn (Coke en stock), og óskaði því eftir að Bob de Moor hefði yfirumsjón með þeim. Þessir tveir svart/hvítu þættir þóttu mjög frumstæðir. Þeir voru í einhvers konar hreyfimyndastíl og því engan veginn sambærilegar við það efni sem best kom frá Ameríku á sama tíma. Þættirnir voru viðvaningslega gerðir og metnaðarlausir og því þótti ekki réttlætanlegt að halda áfram þessari teiknimyndagerð í sama formi. Reyndar skal það tekið fram að þessa þætti er almennt mjög erfitt að nálgast og svo vandfundnir eru þeir að þá er til dæmis hvergi að finna í heild sinni á Netinu. 

 

Hér að neðan má sjá dæmi um frumstæða vinnu þessara svart/hvítu þátta. Á þessum tveimur myndarömmum sést hvernig einungis framhandleggir Tinna færast en að öðru leyti er enginn annar munur á myndunum. Þessi tilfærsla á höndunum gerir það að verkum að önnur hendi hans skyggir aðeins á öxl Múskars XII konungs Sýldavíu þrátt fyrir að þeir standi hvor á móti öðrum. 

Eftir nokkra uppstokkun á framleiðslunni litu hinir frönskumælandi sjónvarpsáhorfendur því augum nýja þætti sem þeir voru heldur sáttari með þó ekki yrðu þeir þó fleiri en átta talsins í það skiptið eins og áður sagði. Þessir þættir voru heldur nútímalegri, enda í lit og festir á 36 millimetra filmu, en auk þess voru þeir að einhverju leyti aðlagaðir fyrir amerískan markað. Almennt séð er heimili Tinna til dæmis staðsett í New York í þáttunum en ekki Brussel. Í þessum átta þáttum drekkur Kolbeinn kafteinn kaffi og lætur Viskíið alveg eiga sig en reykir þó pípu. Prófessor Vandráður heyrir eðlilega, Skaftarnir eru bræður og hafa nákvæmlega eins yfirvaraskegg og í sumum þáttanna er Tobbi með rauða hálsól. Hergé hafði sjálfur ekki komið beint að framleiðslu þessa þátta og varð eðlilega mjög ósáttur þegar hann uppgötvaði hve langt þeir voru komnir frá upprunalegu sögunum hans. Yngri þættirnir, sem framleiddir voru á árunum 1991-92, voru hins vegar alveg í anda upprunalegu sagnanna og almennt þykja þeir þættir hafa heppnast nokkuð vel. Að endingu má geta þess að Hergé sjálfur kemur fyrir og er teiknaður inn í alla þættina 21 í jafn mörgum mismunandi hlutverkum.