30. september 2022

215. SVAL OG VAL KÁPUR PETER MADSEN

Í dag ætlar SVEPPAGREIFINN að fjalla eilítið um skemmtilegt efni (að því er honum sjálfum finnst) sem tengir saman hina frábæru Sval og Val seríu annars vegar og hins vegar Goðheima bækurnar dönsku eftir Peter Madsen. Báðir þessir málaflokkar eiga reyndar sinn talsmann, þegar kemur að sérfræðilegri þekkingu á þessum bókum hér á landi, því sagnfræðingurinn Stefán Pálsson er yfirburðarmaður þegar kemur að fróðleik um þær. Það er því alltaf þannig að SVEPPAGREIFINN finnur til svolítils vanmáttar þegar hann fjallar um bækurnar um Sval og Val hér á síðunni og finnst hann vera að ráðast yfir á yfirráðasvæði hans og sérsvið. En hugmyndin að efni dagsins kemur einmitt beint úr smiðju Stefáns þar sem hann vakti athygli á þessari tengingu með færslu í myndasögugrúbbunni Teiknimyndasögur á Facebook fyrir nokkrum árum. Þar greindi hann frá því að höfundur Goðheimaseríunnar, danski listamaðurinn Peter Madsen, hafi á sínum tíma einnig teiknað bókarkápuna á nokkrum af dönsku Sval og Val bókunum á áttunda áratug síðustu aldar.
 
Tekið skal fram að hér er ekki um að ræða nafna hans, morðingjann og kafbátasmiðinn kunna. 
 
En það var árið 1974 sem myndasöguútgáfan Interpresse hóf að gefa út Sval og Val bækurnar í Danmörku en á dönsku hlaut serían heitið Splint og co. eins og margir væntanlega vita. Reyndar voru þetta ekki alveg fyrstu bækurnar úr Sval og Val seríunni, sem komu út í Danmörku, því á árunum 1971 til '75 gaf Interpresse einnig út seríu sem hafði að geyma fjölbreytilegt blandað efni úr belgísk/frönskum teiknimyndasögum. Þessi blandaða safnsería nefndist Trumf serien en alls voru þar um að ræða tuttugu og fjórar númeraðar bækur sem höfðu meðal annars að geyma nokkrar sögur með Tim og Thomas (Tif et Tondu), tvær með Buck Danny og eina með Viggó viðutan svo einhverjar séu nefndar. Bækurnar um Splint og co. voru alls fjórar í Trumf seríunni en flestir af bókaflokkunum sem birtust í henni fengu einnig seinna gefnar út eigin útgáfuraðir í Danmörku. En eins og við Íslendingar þekkjum einnig, af Sval og Val bókunum sem Iðunn hóf að gefa út hérlendis árið 1978, þá voru sögurnar ekki heldur gefnar út í réttri útgáfuröð í Danmörku á þessum tíma. Fyrstu fjórar bækurnar í 1. útgáfu Interpresse, árið 1974, voru þessar:
  1. SOS fra Bretzelburg (Neyðarkall frá Bretzelborg)
  2. Z som Zorglub (Z fyrir Zorglúbb)
  3. I skyggen af Z (Með kveðju frá Z)
  4. Havmysterien (Sjávarborgin)
Þessar fjórar sögur voru að mestu með kápunum úr upprunalegu Sval og Val seríunni, svipaðar bókunum eins og við þekkjum þær á íslensku. Aðeins Í skyggen af Z (Með kveðju frá Z) var öðruvísi, og hafði að geyma frávik með lit og útliti Zorglúbbs í bakgrunninum, en 2. útgáfa bókarinnar, sem kom út árið 1978 hjá Interpresse, var eins og sú íslenska með appelsínugula litnum.

Árið 1975 gaf Interpresse síðan út fjórar bækur í viðbót. Þar voru um að ræða sögurnar; 5. Buddhas fange (Fanginn í styttunni), 6. I Murænens gab (Svamlað í söltum sjó), 7. Arvestriden (Baráttan um arfinn) og 8. bókin var Næsehornets hemmelighed, sem á Wikipedia síðunni um Sval og Val er nefnd Horn nashyrningsins (hún hefur ekki enn komið út á íslensku), en hún hét La corne de rhinocéros á frönsku. Af einhverri ástæðu hafði Interpresse tekið þá ákvörðun að skipta um útlit á tveimur af þessum bókum og fékk hinn kornunga, þá sautján ára gamla, Peter Madsen til að teikna upp fyrir sig nýjar framhliðar á bækurnar Baráttuna um arfinn og Horn nashyrningsins. Hér fyrir neðan má sjá að fyrsta danska útgáfan af sögunni Baráttan um arfinn (það er best að halda sig við íslenska heitið á bókunum) var með öðru sniði en franska bókarkápan hafði verið í upprunalegu útgáfuröðinni.

Þessi útfærsla Madsen af kápunni á Baráttunni um arfinn var síðan einnig notuð á norsku og sænsku útgáfunum af bókinni og svo auðvitað þeirri íslensku, eins og lesendur kannast að sjálfsögðu við, þegar sú saga kom út fimm árum seinna. SVEPPAGREIFINN minnist þess einmitt að hafa oft velt fyrir sér framhlið bókarinnar, þegar hann var gutti, vegna þess að það var áberandi hversu teiknistíllinn á kápunni var öðruvísi en inni í sögunni sjálfri. Útlit þeirra Svals og Vals minnti einnig mun meira á hvernig þeir höfðu litið út seinna í seríunni auk þess sem allt annar og ferskari litablær var yfir allri bókarkápunni. Hin sagan, Horn nashyrningsins, fékk einnig útlit frá listamanninum unga sem var töluvert frábrugðið upprunalegu frönsku útgáfunni. 
Franska kápan af bókinni hafði verið tiltölulega látlaus og hófstillt á að líta og þar voru þeir Svalur og Valur hvergi sjáanlegir á myndinni sjálfri þó hausunum á þeim hafi verið plantað neðst í forgrunni hennar á hvítum stafaborða. Með hinni breyttu útgáfu Madsen tókst honum að pimpa bókarkápuna töluvert upp og skapa æsilegt augnablik þar sem þeir félagar koma báðir fyrir í nokkuð spennandi atgangi. Fyrir vikið virtist bókin enn ævintýralegri og áhugaverðari og þá um leið líklega söluvænni en þar með náði Interpresse væntanlega markmiðum sínum. Sama útlit bókarinnar var notað í Noregi og Svíþjóð og líklegt má teljast að íslenska útgáfan hefði hlotið sömu örlög ef af henni hefði orðið.
 
Bækurnar um Sval og Val voru auðvitað mjög vinsælar í Danmörku og þegar Horn nashyrningsins var endurútgefin af Interpresse árið 1978 var Madsen, af einhverri ástæðu, búinn að teikna kápuna upp á nýtt og breyta henni nokkuð.

Í grunninn var myndin nokkurn veginn sú sama en listamaðurinn ungi var þó búinn að lagfæra ýmislegt í nýju útfærslunni. Á nýju kápunni sást til dæmis að Valur var kominn hægra megin á myndina, trjágróðurinn og fjallið í bakgrunninum höfðu verið færð til, Svalur var nú alveg búinn að týna húfunni sinni og auk þess hafði hann hneppt jakkanum frá sér. Þar fyrir utan hafði Madsen einnig skerpt á öllum línum og myndin hafði verið lituð upp á nýtt. SVEPPAGREIFINN eignaðist einmitt 1978 útgáfuna af þessari bók fyrir mörgum árum og fannst alltaf eitthvað gruggugt við andlit Svals framan á bókarkápunni. Og þegar hann fór að grúska í heimildum fyrir þessa færslu kom einnig fram að eitthvað væri líka bogið við útlit Vals. Seinni uppsetningin er því klárlega síðri en engin sýnileg ástæða virðist hafa verið fyrir því að gera þessar breytingar á kápunni. Eldri útfærslan af myndinni var kannski svolítið ljós en það hefði alveg nægt að skerpa aðeins á henni og láta þar við sitja. Á sama tíma og þessi 2. útgáfa af sögunni kom út, árið 1978, var einnig prentuð ný útgáfa af Svamlað í söltum sjó. 1. útgáfan af bókinni á dönsku hafði verið með hina upprunalegu frönsku bókarkápu Franquins, þegar sagan kom út árið 1975, en þegar 2. útgáfan kom út var Madsen búinn að breyta útliti hennar nokkuð eins og sést hér fyrir neðan.
Þarna má sjá að listamaðurinn hefur nýtt grunnhugmyndina úr upprunalegu myndinni að stórum hluta. Madsen hefur dregið þá Val og Gorm nær og teiknað Sval fyrir framan þá en í staðinn hefur hann sleppt köfunarhylkinu þeirra sem var svo áberandi í frumútgáfunni. Í fjarska má hins vegar sjá annan af dvergkafbátum Múrenunnar Jóns Harkans. Valur og Gormur hafa verið afritaðir úr frumútgáfunni en útliti þeirra hefur þó að einhverju leyti verið breytt. Bæði úttlimir og búkur Gorms hafa til dæmis verið styttir og sú tilhögun fer honum reyndar betur. Að öðru leyti er þessi kápa ekki eins vel heppnuð og sú upprunalega. Svalur hefur hins vegar verið teiknaður alveg upp frá grunni en engin mynd innan úr sögunni var notuð til að styðjast við útlit hans. 
 
Fjórða og síðasta Sval og Val bókarkápan sem Peter Madsen teiknaði fyrir Interpresse var af sögunni Hrakfallaferð til Feluborgar en hún var 12. bókin í dönsku útgáfuröðinni. Þessi saga hafði einmitt verið ein af fjórum Sval og Val bókum sem höfðu áður tilheyrt hinni blönduðu Trumf seríu, og kom út árið 1973, en sú útgáfa hafði að geyma upprunalegu frönsku bókarkápuna. Framhliðin sem Madsen teiknaði er hins vegar kunnugleg.

Það er óhætt að segja að mikill munur sé á bókarkápu Madsens og upprunalegu útgáfu Franquins. Kápan sem Franquin teiknaði er, vægast sagt, full af látum sem gefur vísbendingu um hasarfullt innihald sögunnar. Útfærsla Madsen er hins vegar alveg í hina áttina og vísar til dulúðlegra og spennuþrungna atburða en báðar þessar bókarkápur gefa svo sem alveg rétta mynd af sögunni. Þessi danska útgáfa af Hrakfallaferð til Feluborgar kom út árið 1977 en það var einmitt sama ár og bókin kom út hér á landi. Bókarkápan með þessu útliti var aðeins gefin út í Danmörku og á Íslandi en aldrei í Noregi og Svíþjóð. Það er því kannski ástæða til að benda þeim á sem eiga Hrakfallaferð til Feluborgar á íslensku að passa alveg sérstaklega vel upp á hana upp á framtíðina að gera. 

Hvers vegna Interpresse fór þessa leið að láta hinn unga listamann teikna framhliðarnar upp á nýtt er nokkuð óljóst en svo virðist sem stjórnendum útgáfunnar hafi ekki fundist upprunalegu kápurnar nægilega áhugaverðar. Það sem einkennir helst hinar fjórar bókarkápur Madsen, umfram Franquin, er hvernig hann dregur aðalpersónurnar nær og stækkar þannig að þær séu meira áberandi í forgrunninum. Stjórnendur Interpresse hafi einnig viljað fá Madsen til að fanga betur titil sagnanna með teikningum sem hæfðu þeim betur. Hlutverk Madsens hafi því í raun verið að gera þær söluvænni eins og áður hefur verið nefnt. Ekki er ljóst hvort Dupuis útgáfan hafi vitað af þessum útfærslum á sínum tíma eða þá hvort Interpresse hafi fengið leyfi fyrir þeim en belgíska útgáfufyrirtækið veit klárlega af þeim í dag. Allar bókakápurnar sem Peter Madsen teiknaði fengu seinna sín upprunalegu útlit, þegar þær voru endurútgefnar hjá Interpresse og síðar hjá Carlsen Comics og Egmont, en margar af dönsku Sval og Val bókunum fengu reyndar einnig seinna óhefðbundnar bókarkápur með myndarömmum unnum innan úr sögunum sjálfum.

Hinn hæfileikaríki Peter Madsen, sem var mikil aðdáandi André Fraquins, var þarna bara rétt nýskriðinn upp úr grunnskóla en var augljóslega mjög efnilegur listamaður. Sem barn hafði hann mikið skoðað dönsku myndasögublöðin, sem höfðu meðal annars að geyma sögur með Andrési önd og Tinna, en fyrsta teiknimyndasagan sem hann segist þó hafa lesið almennilega var Sval og Val bókin Gormahreiðrið eftir Franquin. Hún var þá ekki enn komin út á dönsku (kom fyrst út í Trumf seríunni árið 1973) en svo heillaður var hann af teikningum og söguheimi Franquins að hann stautaði sig í gegnum alla bókina á frönsku með orðabók sér til stuðnings. Madsen lærði þannig í rauninni frönsku sem barn við að lesa Gormahreiðrið. Löngu seinna greindi hann frá því í viðtali að á sínum tíma hefði hann verið mjög stoltur af því að hafa orðið þess aðnjótandi að hafa fengið að teikna þessar bókarkápur og jafnvel vonast eftir því að Franquin sjálfur myndi vilja skoða þær. Ekki hefur komið fram hvort Madsen hafi orðið að ósk sinni en síðar, þegar hann skoðaði þessar forsíður sínar, fannst honum þær bara vandræðalegar. Franquin var þá látinn og Madsen vonaði innilega að listamaðurinn hefði aldrei fengið tækifæri til að skoða þessar teikningar. 

Bókakápurnar fjórar teiknaði Peter Madsen á árunum 1975 - '77 en árið 1979 kom út fyrsta sagan úr Goðheima seríunni hjá Interpresse en þá var hann aðeins tuttugu og eins árs gamall. Í dag er Madsen orðinn sextíu og fjögurra ára og alls urðu Goðheima bækurnar fimmtán talsins en sú síðasta kom út árið 2009. Ellefu fyrstu sögurnar hafa nú verið gefnar út á íslensku og sú tólfta er væntanleg núna fyrir jól. Það lítur jafnvel út fyrir að allar bækurnar fimmtán muni koma út hér á landi. Það yrði þá í fyrsta sinn sem íslenskt bókaútgáfufyrirtæki næði að klára að senda frá sér heila myndasöguseríu síðan Fjölva tókst að ljúka við að gefa út allar Tinna bækurnar.

16. september 2022

214. FRANQUIN OG KÓNGURINN KALLI

Það fór víst ekki fram hjá mörgun að hún Elísabet Englandsdrottning dó í síðustu viku (blessuð sé minning hennar). SVEPPAGREIFINN getur svo sem varla sagt að sá atburður hafi hreyft mikið við honum en viðurkennir þó að veröld án Bretadrottningar er vissulega Bretadrottningu fátækari. Sonur hennar Kalli Bretaprins er því loksins orðinn kóngur yfir ríki sínu og þetta er að sjálfsögðu í fyrsta sinn sem SVEPPAGREIFINN upplifir þá lífsreynslu að hafa kóng þarna niðurfrá. Elísabet gamla hafði ríkt í 70 ár á sínum heimaslóðum (sem reyndar ná nokkuð víða) og var krýnd sem drottning í febrúar árið 1952. Þetta var á svipuðum tíma og gullöld fransk/belgíska myndasögunnar var að komast á gelgjuskeiðið þó vissulega hafi verið lítið um tengingar þar á milli. Bresk börn og ungmenni misstu nánast alveg af þessum stórkostlegu menningaverðmætum handan Ermasundsins og einbeittu sér frekar að Paddington, bókum Enid Blyton og öðrum breskum barnaafþreyingum sem skrifari kann ekki að nefna. Ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess að hafa rekist á Elísabetu Englandsdrottningu, eða aðra úr konungsfjölskyldu hennar, í einhverjum af þessum frönsku og belgísku myndasögum en vissulega hefði alveg mátt krydda einhverjar þeirra sagna sem gerðust á Bretlandseyjum með aðkomu drottningarinnar. Ástríkur í Bretalandi (Astérix chez les Bretons) gerðist til dæmis 2000 árum of snemma til að hægt hefði verið að réttlæta veru hennar í þeirri myndasögu. En þessir frábæru belgísku listamenn vissu þó alveg af meðlimum konungsfjölskyldunnar hinum megin við sundið. André Franquin var margt til lista lagt og dundaði sér til dæmis við það að rissa upp Kalla Bretaprins (sem nú er auðvitað orðin Kalli kóngur) þó ekki hafi hann þó fengið viðeigandi hlutverk í myndasögum hans. 

Sjálfsagt hefur þetta pár Franquins verið aðallega til gamans gert, enda svo frábær listamaður stöðugt með tól sín og tæki við hendina, og hæfileikar hans voru slíkir að honum hefur varla orðið skotaskuld úr að teikna eins og eina eða tvær myndir af prinsinum á fáeinum andartökum. Kalli var (og er auðvitað) líka þannig útlítandi að góðir skopteiknarar ættu ekki að eiga í neinum erfiðleikum með að rissa upp stórkostlega ýktar myndir af honum.

Hér fyrir neðan má einnig sjá blað, með nokkrum fleiri skissum Franquins, þar sem Díönu prinsessu bregður jafnvel fyrir. Hún er reyndar ekki í alveg jafn ýktum hlutföllum og Kalli garmurinn enda ólíkt fríðari ásýndum en þessi fyrrverandi eiginmaður hennar og barnsfaðir. Ekki kemur fram hvenær þessar myndir voru teiknaðar en rétt er að nefna að Díana prinsessa lést aðeins rúmlega átta mánuðum á eftir André Franquin. Bæði létust þau á hinu herrans ári 1997.

Það skal tekið fram að þessar teikningar er að finna í einu af frábærum safnritum þar sem myndir André Franquin er að finna. Þessi bók heitir Tronches a gogo og er hluti af lítilli bókaröð þar sem hinum ýmsu þemum úr safni listamannsins er safnað saman í nokkur skemmtileg hefti í litlu ítölsku broti. Í þessari bók má finna skissur frá listamanninum sem voru mjög ólíkar þeim stíl sem hann var sem þekktastur fyrir. Franquin gat svo sannarlega teiknað meira en bara Sval og Val og Viggó viðutan. Þessar myndir eru gerðar með mismunandi tækni og spanna allt frá skopmyndum, portrettmyndum eða jafnvel eftir ljósmyndum úr tímaritum. Tronches a gogo var gefin út árið 2004 og fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast þessa bók má geta þess að hún er enn fáanleg en upplag hennar var aðeins í 4000 númeruðum eintökum. Það var Marsu Productions sem gaf út þessa bók.

2. september 2022

213. HIÐ ERLENDA TINNA SAFN SVEPPAGREIFANS

Í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS má finna nokkuð fjölbreytt úrval af teiknimyndasögum. Og einnig ekki. Þar má nefnilega einnig finna töluverðan fjölda af mjög einhæfum safnkosti sem samanstendur af teiknimyndasögum sem eru meira og minna nánast allar þær sömu! Þarna er síðuhafi að sjálfsögðu að tala um Tinnabækurnar sínar tuttugu og þrjár sem finna má á nokkuð mörgum mismunandi tungumálum. Um þær ætlar hann að eyða nokkrum orðum í færslu dagsins.

Ástæða þess að SVEPPAGREIFINN ákvað að ráðast í þessa ákveðnu færslu sína núna var einfaldlega sú að um miðjan ágúst áskotnaðist honum fyrsta Tinna bókin sín á pólsku. Hér er um að ræða hina frábæru bók Kierunek księżyc sem allir þekkja að sjálfsögðu sem Eldflaugastöðina eða Ferðina til tunglsins eins og hún heitir víst í nýjustu íslensku þýðingu Frosks útgáfu. Það var pólskur vinnufélagi SVEPPAGREIFANS sem kom með þessa frábæru gjöf færandi hendi, úr mánaðarlöngu sumarfríi sínu í heimalandinu, og að sjálfsögðu kann síðuhafi honum sínar bestu þakkir. 

Þrátt fyrir að SVEPPAGREIFINN eigi töluverðan bókakost í myndasöguformi, í hillum sínum, hefur það margoft komið fram hér á Hrakförum og heimskupörum að hann líti ekki á sig sem safnara. Teiknimyndasögurnar eru aðeins nauðsynlegur hluti af þessu áhugamáli hans og Tinnabækurnar eru þar auðvitað engin undantekning. Það var reyndar alveg óvart sem þessar Tinnabækur allar fóru að safnast saman í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Einhvern tímann fyrir líklega um tuttugu árum var honum gefinn fullur kassi af teiknimyndasögum, með bókum af ýmsum toga og í allavega ásigkomulagi, en þar mátti meðal annars finna fjórar eða fimm myndasögur um Tinna á dönsku. Síðuhafi var svo sem ekkert að ómaka sig sérstaklega við að losa sig við þessar aukabækur en á þeim tíma var aðaláhersla hans lögð á að eignast allar þær teiknimyndasögur sem gefnar höfðu verið út á íslensku. Dönsku bækurnar fóru því með öðrum myndasögum niður í kassa, voru geymdar þar í nokkur ár og eiginlega hálfgleymdust. Bækurnar voru bara skemmtileg viðbót við hinar Tinna bækurnar og voru ekki ætlaðar til neins sérstaks brúks. Með tímanum bættist jafnt og þétt í myndasögusafnið en allt fór þetta samt jafnóðum niður pappakassa enda voru búsetuúrræði SVEPPAGREIFANS með frumstæðari hætti hér fyrr á árum þar sem búslóð hans var þá oft meira og minna öll í kössum inni í geymslum. Ein og ein Tinna bók á erlendum tungumálum bættust þó við af margvíslegum ástæðum en þær voru aðallega á sænsku og ensku.

Það var síðan fyrir nokkrum árum sem SVEPPAGREIFINN rakst, einhverra hluta vegna, á Tinna í Tíbet á arabísku í Góða hirðinum. Bókin fannst honum það merkileg að hann keypti hana að sjálfsögðu og fjallaði meira að segja svolítið um hana í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum nokkrum mánuðum seinna. Þetta var líklega fyrsta erlenda Tinna bókin sem SVEPPAGREIFINN greiddi sjálfur fyrir en fram til þessa hafði hann eingöngu hirt þær útlendu Tinnabækur sem honum hafði boðist gefins. Eftir þetta fór hann að huga alvarlega að því að eignast fleiri bækur úr seríunni á sem flestum tungumálum og var þá helst með einhverja ákveðna sögu í huga. Hann hefur stundum rekist á bloggfærslur frá erlendum Tinna sérfræðingum og söfnurum sem hafa einbeitt sér að einhverri sérstakri teiknimyndasögu á sem flestum tungumálum og hefur jafnvel séð hjá þeim myndir þar sem íslenskum Tinna bókum hefur brugðið fyrir þeirra á meðal. SVEPPAGREIFINN hefur þó aldrei komið því almennilega í verk að safna einhverri einni tiltekinni sögu en á nú nokkrar af Tinna bókunum á fimm til sex mismunandi tungumálum. Þá hefur hann örugglega einnig minnst á það hér á síðunni að fyrir mörgum árum var honum komið í sambandi við erlendan aðila sem var að safna Ástríki í Bretalandi á sem flestum tungumálum. Sem betur fer var SVEPPAGREIFINN hyggnari en svo að bjóða honum eintakið sitt.

En eftir að Tinni í Tíbet á arabísku var komið í myndasöguhillurnar SVEPPAGREIFANS fór hann að vera meira vakandi fyrir ódýrum, erlendum Tinna bókum á þeim nytjamörkuðunum sem hann rak nef sitt inn í. Þegar hann var erlendis fór hann að grípa með sér bækur sem hann rak augun í á flóamörkuðum og verslunum með notaðar myndasögur og fljótlega var hann einnig kominn með eintök á frönsku, þýsku, spænsku og hollensku. Smám saman vatt erlenda safnið því upp á sig og við bættust einnig fleiri bækur á dönsku og sænsku án þess þó að hann væri að sækjast eitthvað sérstaklega eftir þeim. Eins merkilegt og það er virðist enga norska Tinna bók hafa rekið á fjörur hans frá því þessi eftirgrennslan hófst. Lengi stóð hann reyndar í meiningu um að hann ætti þær nokkrar en við frekari athugun kom í ljós að þær voru allar á dönsku. Enn vantar honum einnig finnska bók en slíkt innlegg er eiginlega alveg bráðnauðsynlegt þó væri ekki nema vegna hinna frábærlega sjónrænu útlistingu á titlum bókanna á því merkilega tungumáli. Tinna bækurnar; Kultasaksinen rapu, Tuhatkaunon Tapaus, Seikkaailu punaisella merellä, Päämääränä kuu og Tintti kuun kamaralla myndu klárlega allar sóma sér vel í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Þá væri einnig mjög gaman ef alla vega önnur af þeim tveimur Tinna bókum sem út komu á færeysku enduðu í hillum hans. Þessar tvær bækur komu út á árunum 1987-88 og heita Hin gátuføra stjørnan (Dularfulla stjarnan) og Tignarstavur Ottokars (Veldissproti Ottokars). Það væri aldeilis frábært að eignast þær.

Með tímanum fóru síðan hinar erlendu Tinna bækur smám saman að hrúgast inn, jafnt og þétt, án þess þó að lagt hafi verið eitthvað sérstaklega mikið í að eignast þær. Ja, eiginlega ekki fyrr en eftir að covid tímabilið hófst. Fjölskylda SVEPPAGREIFANS átti þá ekki þann sama kost og áður að ferðast til útlanda en tvær til þrjár utanlandsferðir á ári höfðu áður dugað ágætlega til kaupa á teiknimyndasögum þótt Tinna bækurnar hafi aldrei haft þar neinn sérstakan forgang. Með faraldrinum gafst GREIFANUM þó tækifæri til að prófa sig áfram á nýjum slóðum og fullnægja myndasögukaupaþörf sinni með því að fara að panta sér áhugaverðar bækur að utan. Á þeim tíma tók það póstþjónustuna í heiminum reyndar svolítið langan tíma að koma pökkum sínum á lokaáfangastað en það var samt oft biðarinnar virði. Á þessum vettvangi hafði hann nokkrum sinnum rekist á Tinna á framandi tungumálum og freistaðist þá til að panta sér fáeinar bækur. Hann gætti þess þó ávallt að eyða ekki neinum svívirðilegum upphæðum í þessar myndasögur og keypti til dæmis enga Tinna bók sem kostaði meira en 6 til 8 evrur. Þessi vettvangur gaf honum kost á að kaupa Tinna bækur á kínversku, rússnesku og spænsku. Í safni hans má nú einmitt finna fjórar kínverskar Tinna bækur og þrjár þeirra eru í minna broti og reyndar einnig í mjúkspjalda formi. Aðeins bókin 月球探险 er í þeirri hefðbundnu stærð sem við þekkjum. 

Þá fór hann að biðla til vina og ættingja, sem leið áttu um framandi lendur, um að grípa með sér Tinna bækur eftir því sem aðstæður leyfðu. Þannig var einmitt pólska bókin hans til komin og fóstursonur hans gaukaði einnig að honum þriggja Tinna sagna safnhefti á ítölsku í sumar. Sú bók telur reyndar ekki alveg til jafns við upprunalegu Tinna bækurnar en telst samt með. Í þessum töluðum orðum telur Tinna bóka safn SVEPPAGREIFANS að því er virðist heilar hundrað þrjátíu og tvær teiknimyndasögur. Stór hluti þeirra telur auðvitað íslenskar bækur því metnaður góðra myndasögueigenda (og kannski pínulitilla nörda) er að sjálfsögðu fólginn í því að eiga allar þær útgáfur af Tinna bókunum sem komið hafa út á Íslandi frá upphafi og helst auðvitað í sem allra besta ásigkomulagi. Þessar íslensku bækur telja nú í heildina áttatíu bækur en SVEPPAGREIFINN á þó ekki nema sextíu og tvær af þeim. Íslensku Tinna bækurnar koma mjög hægt inn þar sem framboð þeirra er orðið ansi takmarkað en auk þess hefur síðuhafi ávallt lagt sig fram um að halda fjárveitingunum, til þessara bókakaupa sinna, innan skynsamlegra og eðlilegra marka. Hann myndi til dæmis aldrei borga 25 - 30.000 fyrir Tinna í Sovétríkjunum - sem hann á reyndar fyrir. Erlendu Tinna bækurnar hans eru hins vegar orðnar sjötíu og þær koma töluvert hraðar inn.

Það sem kom SVEPPAGREIFANUM kannski mest á óvart var það að hann á hvorki meira né minna en sautján af þessum tuttugu og þremur Tinna bókum á dönsku. Hann hefur ekki verið að leggja sig neitt fram við að eignast sögurnar eitthvað sérstaklega á dönsku en af einhverjum ástæðum hafa þær bækur safnast mest fyrir hjá honum. Næst á eftir koma þrettán bækur á ensku og tólf á sænsku en af öðrum eru heldur færri. SVEPPAGREIFINN á því núna Tinna bækur á þrettán mismunandi tungumálum og stefnan er að sjálfsögðu sett á að fjölga þeim enn meir með tíð og tíma. Svo er bara spurningin hversu duglegur hann verður við áframhald þessarar undarlegu iðju.