2. desember 2024

232. SJALDGÆF MYNDASAGA Í HÚS

Heldur hefur nú farið lítið fyrir skrifum SVEPPAGREIFANS á bloggsíðu Hrakfara og heimskupara undanfarin misserin eins og einhverjir lesenda hafa væntanlega orðið varir við. Ekki er þó ætlunin að nota enn eitt tækifærið til að afsaka þær misgjörðir en það er aldrei að vita nema einhverjar breytingar kunni að verða á birtingum færslna á vettvangi Greifans hér á síðunni. Það var aldrei hugmyndin að láta alveg staðar numið hér og því má ennþá alveg reikna með að einstaka færslur detti inn þegar tilefni gefast til. Líklega verða þær reyndar frekar í styttri kantinum en af fenginni reynslu er þó best að lofa engu í þeim efnum - viðfangsefni SVEPPAGREIFANS geta nefnilega verið ansi fljót að vinda upp á sig þegar eitthvað áhugavert fellur til. Annars hafa langar færslur með litlu innihaldi löngum verið einkenni þessa myndasögubloggs auk þess sem myndir hafa af augljósum ástæðum verið nýttar vel til að fylla inn í þar sem uppá vantar. Enn er allavega af nógu að taka þó ekki hafi alltaf gefist mikill tími fyrir krassandi myndasöguhugleiðingar að undanförnu.

En tilefni nákvæmlega þessarar færslu má rekja til óvænts en skemmtilegs myndasögufundar, í Góða hirðinum á dögunum, þar sem SVEPPAGREIFINN rakst á nánast óslitið eintak af gamalli teiknimyndsögu sem nefnist Orrustan um Varsjá. Reyndar minntist hann þess að hafa einhvern tímann áður séð hugrenningar um tilvist þessarar bókar en þó aldrei rekist á hana í eigin persónu. Því tók við almennt grams og grúsk um bókina eins og gengur og gerist en það verður að viðurkennast að afar litlar upplýsingar var að finna um þessa teiknimyndasögu á víðáttum veraldarvefsins. Í hinni frábæru myndasögugrúbbu "Teiknimyndasögur" á Facebook, sem síðuhafi hefur verið duglegur að mæra og vitna í hér á síðunni, fann hann nánast engar upplýsingar en þó virtust einn eða tveir fylgjendur hópsins kannast við gripinn og höfðu minnst lítillega á Orrustuna um Varsjá þar. Þar kom þó ekkert meira fram en bara nafn bókarinnar og þar með staðfesting á tilvist hennar en aðrar upplýsingar voru af takmörkuðum toga. SVEPPAGREIFINN gerði einhverju sinni svolitla úttekt á þeim myndasögum sem komið höfðu út á íslensku á áratugunum áður en Tinna- og Ástríksbækurnar byrjuðu að koma fyrir sjónir íslenskra barna en þessa bók var til dæmis hvergi að finna í þeirri samantekt, enda var sá listi yfir forverana engan veginn tæmandi.

Ekkert kemur fram í bókinni sjálfri um útgáfu hennar, ártal, þýðanda eða listamanninn sem teiknaði söguna en eftir svolítið grúsk fann SVEPPAGREIFINN upplýsingar um að myndasaga þessi hafi líklega fyrst komið út árið 1966 hjá Þórsútgáfunni í Hafnarfirði. Sennilega hefur upplag hennar selst upp því sagan var endurútgefin árið 1975 af lítilli bókaútgáfu sem nefndist Bókamiðstöðin. Það fyrirtæki var stofnað af Heimi B. Jóhannssyni prentara árið 1960 en árið 1964 stofnsetti hann einnig prentsmiðju sem tilheyrði sömu bókaútgáfu. Eins og áður segir koma engar nánari upplýsingar fram í bókinni sjálfri og því er ekki ljóst hvort eintak SVEPPAGREIFANS sé fyrsta prentun hennar frá árinu 1966 eða endurprentuninn frá 1975. Síðuhafa grunar þó frekar að um seinni prentun bókarinnar sé að ræða, þó það komi reyndar hvergi fram, en hjá leiti/gegni.is má finna upplýsingar um að í 1966 útgáfunni komi fram titillinn, Heimsstyrjöldin 1, Orrustan um Varsjá. Það bendir því allt til að staðið hafi til að gefa út fleiri slíkar bækur í myndasöguformi og Orrustan um Varsjá hafi verið hugsuð sem sú fyrsta af heilum bókaflokki um Heimsstyrjöldina.

En bókin Orrustan um Varsjá lætur lítið yfir sér og við fyrstu sýn er nánast útilokað að átta sig á að hér sé um teiknimyndasögu að ræða. Fljótt á litið mætti hæglega ætla að bókin væri aðeins ein af þessum hefðbundnu og venjulegu barna- og unglingasögum sem voru að koma út á þessum árum. Bókin er í sömu stærð og broti og bækur Ármanns Kr. Einarssonar um sögurnar um Óla og Magga, sem margir muna eflaust eftir, og komu út hjá Bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri á svipuðum tíma og hefur yfir að ráða sambærilegri, stífri pappakápu og með viðkvæma og brothættan kjöl sem hafði tilhneigingu til að rifna upp. Ekki ósvipað og myndasögurnar um Prins Valíant sem Ásaþór sendi frá sér á svipuðum tíma. SVEPPAGREIFINN kannaði reyndar ekki til hlítar hvort Orrustan um Varsjá hefði birst á síðum dagblaðanna eins og myndasögurnar um Tarzan höfðu gert áratugina á undan en þær sögur voru jafnan gefnar út í bókaformi eftir að þær höfðu birst í blöðunum. En ef svo hefði verið hefði það klárlega komið fram við hefðbundna Google leit.

En Orrustan um Varsjá er í heild sinni tæplega 100 blaðsíður að lengd og hver opna hefur að geyma frá þremur og upp í sjö myndaramma. Myndirnar eru ólitaðar og notast er við textablöðrur sem ekki var sjálfgefið í myndasögum frá þessum tíma. Bókin Orrustan um Varsjá gerist að sjálfsögðu á fyrstu dögum Síðari heimsstyrjaldarinnar og er sögð frá sjónarhorni þýskra hermanna en það leiðir auðvitað líkum að því að höfundur hennar hafi verið Þjóðverji og sagan er því svolítið lituð af því. Þó ekki komi fram beinn áróður fyrir þýskum nasisma má reikna með að slík saga hefði ólíklega fengið hljómgrunn hjá íslenskum bókaútgefendum. En hér er ekki bara um venjulega stríðssögu að ræða heldur er hún í grunninn ástarsaga þar sem hefðbundinn ástarþríhyrningur kemur við sögu. Það þarf ekki að taka það fram að ansi er þar nú stiklað á stóru enda er sagan sjálf ekki nema 94 blaðsíður. Ekki merkileg bók en óneitanlega frekar sjaldgæf og torfundin myndasaga sem er gaman að vera búið að ná í hús.

17. mars 2024

231. DÆMI UM ÓSMEKKLEGHEIT SVEPPAGREIFANS

Það er orðið ansi langt síðan SVEPPAGREIFINN gaf sér síðast tíma til að setja inn færslu hér á Hrakförum og heimskupörum. Auðvitað eru ýmsar misjafnar ástæður (eða afsakanir) fyrir réttlætingu á því en tímaskortur er ein sú helsta því SVEPPAGREIFINN hefur haft yfirdrifið nóg á sinni könnu undanfarna mánuði. Hann fann sér þó gott tilefni til að bæta úr þessum færsluskorti sínum þegar hann rakst á fyndna en um leið frekar ósmekklega myndasögutengda mynd, af ónefndri bloggsíðu, á hinum margfrægu víðáttum Internetsins. SVEPPAGREIFINN getur jú stundum líka verið svolítið ósmekklegur á köflum og þá sérstaklega þegar hann fær kost á birtingu ódýrrar færslu. En hér er sem sagt um að ræða myndaramma úr Tinnabókinni Leynivopninu sem allir sannir teiknimyndasögulesendur þekkja auðvitað til hlítar. Og gjörið svo vel!