30. október 2020

177. EITT OG ANNAÐ UM TARZAN BLÖÐIN

Þegar SVEPPAGREIFINN var að byrja að huga að því, fyrir nokkrum árum, að skrifa blogg um eitt af áhugamálum sínum, teiknimyndasögur, þá tók það hann nokkurn tíma að ákveða og þróa með sér hugmyndir um efnið. Þær fransk/belgisku teiknimyndasögur sem gefnar voru út í bókaformi hér á landi á sínum tíma voru auðvitað hugsaðar sem helsta viðfangsefnið en að öðru leyti var hann svo sem ekki með neinar fastmótaðar hugmyndir. Fljótlega var hann þó ákveðinn í að vera einnig svolítið á sveimi í kringum þessar vinsælu myndasögur og fjalla líka um ýmislegt efni sem tengdust þeim og höfundum þeirra. Eitt af því sem SVEPPAGREIFINN var hins vegar alltaf ákveðinn í að skrifa EKKI um voru myndasögublöðin sem hér hafa verið gefin út. Af hverju, er ekki gott að segja en líklega hefur honum fundist það að einhverju leyti fyrir neðan hans virðingu að fjalla um Andrés önd, Gög og Gokke, Köngulóarmanninn og Tarzan. Já og svo ekki sé talað um Syrpurnar frá Disney samsteypunni sem Edda er enn að gefa út. Þær vasabrotsbækur eru orðnar líklega um 330 talsins! Þessar afurðir voru ekki alvöru og honum fannst myndasögublöðin aldrei falla í flokk með hinum eiginlegu (og alvöru) teiknimyndasögum. Sem er auðvitað alrangt. Allt eru þetta auðvitað myndasögur en í fljótu bragði virðist eini munurinn vera sá að annars vegar voru þær gefnar út í blaðaformi og hins vegar komu þær ekki frá franska málsvæðinu í Evrópu. Nú er því kominn tími á að söðla aðeins um og skoða svolítið myndasögublöðin um Tarzan (og auðvitað son Tarzans) sem hin goðsagnakennda Siglufjarðarprentsmiðja gaf hér út á sínum tíma.
En útgáfa þessara Tarzan blaða hóf göngu sína í apríl mánuði árið 1979 þegar fyrstu fjögur blöðin komu út á einu bretti. Það var Sigurjón Sæmundsson, eigandi gamallar prentsmiðju á Siglufirði, sem hafði veg og vanda að þessum myndasögublöðum en Siglufjarðarprentsmiðja hafði einhverjum áratugum áður byrjað að gefa út unglingabækur um Tarzan eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Rice Burroughs. Þær bækur voru nokkuð vinsælar og góð eintök af þeim bókum eru reyndar nokkuð eftirsótt af söfnurum í dag. Sagan segir hins vegar að það hafi ekki verið áhugi Sigurjóns á myndasögum sem hvatti hann til útgáfu Tarzan blaðanna heldur hafi hann einfaldlega vantað eitthvað efni til að gefa út á dauðum tímum þegar útgáfa annarra verka prentsmiðjunnar lá niðri. Á árunum í kringum 1979 hafði verið mikil ládeyða í atvinnulífinu á Siglufirði, eins og reyndar annars staðar á landinu, og Sigurjón hafði því verið að velta fyrir sér ýmsum viðskiptahugmyndum og tækifærum. Hann komst að því að til væru myndasögur um Tarzan í blaðaformi og gekk í það verkefni að útvega útgáfuréttinn af þeim sögum. Sigurjón hafði samband við útgáfuforlagið Atlantis í Stokkhólmi en það fyrirtæki hafði réttinn af blöðunum á Norðurlöndunum og hann fékk leyfi til að gefa þessi myndasögublöð út hér á landi. Tarzan blöðin voru síðan fyrst og fremst seld í áskrift en einnig mun hafa verið hægt að panta heilu árgangana í póstkröfu eftir á. Þessa innpökkuðu árgangapakka hefur á undanförnum árum enn verið hægt að nálgast á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda sem haldinn er undir stúkunni á Laugardalsvelli í byrjun hvers árs. Tarzan blöðin voru að jafnaði ekki að finna í hefðbundnum, virðulegum bókabúðum. Þau var hins vegar oft hægt að kaupa í litlum sjoppum, bensínstöðvum og í gömlu kaupfélögunum úti á landi þar sem reyndar fékkst yfirleitt allt milli himins og jarðar.
Hasarblöð á íslensku höfðu fram til þessa verið algjörlega óplægður akur og það var því þessum fyrrverandi bæjarstjóra og heiðursborgara Siglufjarðar að þakka að nú varð breyting á. Útgáfan á Tarzan blöðunum varð fljótlega að nokkurs konar heimilisiðnaði því Sigurjón og fjölskylda hans komu að öllum þáttum og rekstri þessarar útgáfu. Eiginkona Sigurjóns, Ragnheiður Jónsdóttir, annaðist til dæmis áskrifendur blaðanna og sá einnig um að innheimta áskriftargjöldin auk annarra verkefna. Sonur Sigurjóns, Jón Sæmundur Sigurjónsson, hefur sagt frá því í viðtali hvernig hann minnist þess þegar faðir hans var að þýða sögurnar, ýmist úr ensku eða sænsku, oft langt fram eftir kvöldi. Hann hafi síðan setið við tölvuna og pikkað inn textann, prentað út þessar þýðingar, klippt textann niður í strimla og límt þær að lokum inn á talblöðrurnar á myndunum. Handavinnan við þetta allt saman var mjög tímafrek en þótt það væri Siglufjarðarprentsmiðja sem gæfi blöðin út, að nafninu til, voru þau þó ýmist prentuð í Ungverjalandi eða Finnlandi eftir aðstæðum. Í gegnum tíðina hefur mörgum verið tíðrætt um einkennilegar þýðingar eða frasa í þessum sögum. Jón Sæmundur hefur einmitt tekið undir það og gefið á því eðlilegar skýringar. Eftir að hafa setið löngum stundum við tölvuna hafi Sigurjón faðir hans oft verið orðinn ansi lúinn, enda hann þá kominn nokkuð á áttræðisaldurinn, og beinar afleiðingar þess hafi einfaldlega verið skrautlegri þýðingar. Þegar hann var óþreyttur komst efnið hins vegar ágætlega frá honum og oft kryddaði hann sögurnar með skemmtilegum húmor sem líklega engum öðrum hefði dottið í hug. Sem dæmi um það greinir Jón Sæmundur til dæmis frá því að einhverju sinni hafi komið fyrir tannlæknir í sögunum sem hann minnti að hafa heitið Wilson eða eitthvað í þá áttina. Sigurjón hafi hins vegar heimfært þennan tannlækni upp annan slíkan sem bjó á Siglufirði og nefndi hann án hiks Jonna! Og þar með var Jonni tannlæknir á Siglufirði gerður ódauðlegur í Tarzan blöðunum.
Næstu árin fylgdu fleiri myndasögublöð á íslensku í kjölfarið og þar má helst nefna léttara efni, eins og með Tomma og Jenna, Gög og Gokke og Alf, sem einnig varð nokkuð vinsælt. En af hasarhetjunum komu seinna út Súpermann, Leðurblökumaðurinn, Hulk og Köngulóarmaðurinn en það er reyndar önnur saga. Tarzan blöðin nutu hins vegar strax nokkuð mikilla vinsælda. Þetta fyrsta útgáfuár 1979 komu út tuttugu og fimm blöð en hvert tölublað kom út i um það bil þrjú til fjögur þúsund eintökum. Seinna þetta ár hóf einnig Sonur Tarzans göngu sína hjá Siglufjarðarprentsmiðju en þau myndasögublöð voru af svipuðum toga og urðu líka nokkuð vinsæl. Líklega var það þó þannig að Sonur Tarzans höfðaði meira til yngri kynslóðanna en sjálf Tarzan blöðin til þeirra eldri. Síðarnefndi hópurinn þekkti betur upprunalegu sögurnar um Tarzan og litu því frekar niður til Son Tarzans sem þeim þótti heldur léleg eftirlíking. Alls komu út fimm tölublöð af Syni Tarzans, sem fjölluðu um unglingspiltinn Kórak, á árinu 1979. Útgáfan á þeim blöðum varð heldur stopulli en Tarzan blöðunum en einstaka saga með syni Tarzans birtust þó einnig í aðalheftunum um Tarzan. Fyrstu þrjú árin komu út tuttugu og fimm Tarzan blöð á ári en næstu þrjú ár fækkaði þeim niður í tólf. Árið 1985 komu aðeins fimm blöð út og árið 1986 voru þau eingöngu orðin tvö en í þeim tveimur blöðum voru einungis sögur sem komið höfðu út áður. Smán saman lognaðist hin vinsæla útgáfa myndasögublaðanna um Tarzan því alveg niður. 
Útgáfa á öðrum myndasögum fyrirtækisins hélt reyndar eitthvað áfram en sala þeirra hafði þó dregist mikið saman árin á undan. Allra síðustu myndasögublöðin, sem Siglufjarðarprentsmiðjan sendi frá sér, voru um Leðurblökumanninn og geimveruna Alf árið 1992 en eflaust muna margir eftir þáttum um hann á árdögum Stöðvar 2. Siglufjarðarprentsmiðjan óð í skuldum og lenti í töluverðum fjárhagskröggum en fyrirtækið var þó starfrækt allt til árins 2005 þegar prentsmiðjustjórinn Sigurjón Sæmundsson lést. Alls voru gefin út hjá prentsmiðjunni hundrað og átján tölublöð af Tarzan og fimmtíu blöð af Syni Tarzans en einnig komu út þó nokkur bunki af aukablöðum og heftum af ýmsu tagi. Þannig voru gefin út fimm þykkari aukaútgáfur af Tarzan blöðunum, auk fimm sambærilegra Kórak blaða, tólf stór Tarzan hefti og tvö í viðbót um Son Tarzans. Þessi hefti tilheyrðu ekki hinum tölusettu eintökum úr hefðbundnu útgáfuseríunni. Alls komu út 192 hefti með Tarzan og Kóraki en ekki má gleyma einni lítilli vasabrotsbók um Tarzan sem var í sama broti og bækurnar um Ísfólkið og Morgan Kane. Þessi bók, sem er 128 blaðsíður að lengd, er afar fáséð og líklega má líkja tilurð hennar við hina sjaldgæfu Lukku Láka bók, Á léttum fótum. Til stóð að fleiri sambærilegar bækur kæmu út hjá útgáfunni en ólíklegt er að fleiri en ein slík hafi verið gefin út. Sennilega eru frekar fáir sem vita af þessari bók, og hún virðist hafa farið fram hjá mörgum, en bókin er þó nokkuð eftirsótt af íslenskum myndasögusöfnurum. Þessa vasabrotsbók er afar erfitt að nálgast, ólíkt flestum þeim Tarzan heftum sem komu frá Siglufjarðarprentsmiðju, en bókin poppar þó alltaf einhvers staðar óvænt upp annað veifið.
Mörgum ungum og kröfuhörðum lesendum hinna amerísku hasarblaða þótti reyndar ansi lítið til íslensku Tarzan blaðanna koma. Eðlilega fannst mörgum þýðingarnar á blöðunum nokkuð einkennilegar, eins og áður hefur verið minnst á, og sérstaklega þóttu hinar alíslensku nafngiftir margra sögupersónanna hallærislegar og óvandaðar. Þá hafa sumir einnig gert grín að sérkennilegum upphrópunum sem sögupersónur láta út úr sér í tíma og ótíma í hita leiksins. "Úh-oh!" og fleira sambærilegt hafa margir eflaust getað tengt við upphrópanirnar "Gisp!" úr dönsku Andrés blöðunum. Sjálfsagt hafa þessi blöð því af mörgum verið talin nokkuð hallærisleg að sumu leyti og líklega hefur sú skoðun verið réttmæt. Blöðin hafa án nokkurs vafa ekki fallið í kramið hjá öllum og líklega síst hjá þeim börnum og unglingum sem á þessum tíma voru sjálf byrjuð að versla ofurhetjublöð í áskrift og lesa þau á ensku. En hins vegar voru Tarzan blöðin klárlega líka frábær vettvangur fyrir þá krakka sem ekki höfðu kynnst amerísku hasarblöðunum áður. Með Tarzan fengu þau tækifæri til að kynnast þessum blöðum fyrst á íslensku og nota þau síðan sem stökkpall seinna fyrir vandaðri hasarblaðaútgáfur á ensku. Þessi blöð eru því í raun mjög skemmtilegt framlag til myndasöguútgáfunnar á Íslandi og reyndar þykir SVEPPAGREIFANUM nokkuð vænt um þessi blöð þó þau hafi til dæmis ekki alltaf verið vel teiknuð. Tarzan blöðin (og Sonur Tarzans) er jaðarefni sem hann hefur mikinn húmor fyrir, án þess að ætla að gera lítið úr því, og var bráðnauðsynlegt framlag í útgáfusögu íslensku myndasöguflórunnar. Sumir fíluðu ekki Tinna, Sval og Val eða Lukku Láka en gleyptu í sig Tarzan og seinna hinar ofurhetjurnar. Siglufjarðarprentsmiðja á því klárlega heiður skilinn fyrir þetta merkilega menningaframtak, til íslenskrar myndasöguútgáfu, þótt ekki hafi það fallið í kramið hjá alveg öllum. 
SVEPPAGREIFINN er reyndar á þeirri skoðun, eins og kemur fram snemma í þessari færslu, að ekki sé hægt að staðsetja þetta efni með þeim teiknimyndasögum í bókaformi sem voru hvað vinsælastar hér en tilheyri frekar einhvers konar jaðarútgáfu. Nú skal það tekið fram að SVEPPAGREIFINN átti í æsku þó nokkurn bunka af þessum blöðum. Líklega voru þetta um þrjátíu, fjörutíu blöð sem hann minnist þess að hafa keypt flest í hinni stórkostlegu Safnarabúð sem rekin var um árabil á Frakkastígnum á milli Laugavegar og Hverfisgötu. SVEPPAGREIFINN hafði lúmskt gaman að Tarzan blöðunum þau þótt ekki sé þetta beint eitthvað úrvals efni. Hann minnist þess að hafa flett reglulega í gegnum þennan bunka sinn, ásamt félögum sínum, af ýmsum tilefnum á unglingsárunum og þar voru jafnvel gripnir frasar upp úr blöðunum sem notaðir voru á hæðnislegan hátt við hentug tækifæri. Í einu þessara blaða um kappann má lesa sögu þar sem Tarzan er einu sinni sem oftar að eltast við einhvern bófaflokk og þarf nauðsynlega að stökkva upp í þyrlu sem er að stinga af með einhverja misindismennina. Hann nær að klifra inn í þyrluna, en hún er þá komin á fleygiferð upp í háloftin og baráttan heldur því áfram um borð í opinni þyrlunni á flugi. Tarzan nær þó að taka flugmanninn úr umferð á einhvern hátt en það gerir það auðvitað að verkum að þyrlan er skyndilega orðin stjórnlaus. Hún tekur því að snúast um uppi í háloftunum en Tarzan ýtir þá meðvitundarlausum flugmanninum til hliðar, sest sallarólegur í flugmannssætið og segir við sjálfan sig, "Heppni að ég lærði að fljúga þyrlu!" Þessi frasi hefur allt til dagsins í dag verið notaður af SVEPPAGREIFANUM og félögum hans við mörg hátíðleg tilefni.
Tarzan er mikil hetja. Það fer ekki framhjá lesendum þessara blaða. Og það þarf ekki nema að líta eitt augnablik framan á forsíðu nokkurra blaðanna til að átta sig á hvers konar svakalegt heljarmenni þar er að verki. Á þeim sést Tarzan til dæmis kyrkja risavaxinn krókódíl nánast með handakrikanum, Tarzan að berjast við kyrkislöngu sem er á stærð við strætó, Tarzan að verjast þungvopnuðum glæpamönnum berhentur og svo framvegis. Á einni blaðakápunni er hann jafnvel að berjast við einhvers konar fornsögulega flugeðlu frá risaeðlutímanum. Og alltaf skal maðurinn vera með hníf í hendinni, hvort sem hann er að sveifla sér á milli trjánna í frumskóginum eða á sundi. Í blöðunum virðist honum vera sérstaklega uppsigað við krókódíla og Tarzan er líklega eina manneskjan í allri veröldinni sem getur siglt báti í glóandi hraunstraumi. Tarzan kemur því sannarlega víða við og ávallt er hann jafn einbeittur og reiðilegur á svipinn. Hann virðist vera algjörlega laus við húmor eða gleði og virkar allt að því fráhrindandi. Honum til varnar virðist hann þó ekki eiga sjö dagana sæla með þetta erfiða líf í endalausri baráttu sinni við krókódíla, risaeðlur og ljón. Og svo ekki sé minnst á allar ættbálkaerjurnar og veiðiþjófana sem hann þarf einnig að kljást við. Þá er Tarzan vel að sér í ýmsum tegundum náttúrulækninga. Hann kann að verjast eitrunum með þar til gerðum seiðum, búa um sár með sérstökum tegundum græðandi laufblaða, er auk þess með innbyggða eðlishvöt sem varar hann við hættum en þess utan virðist hann sjálfur vera ósærandi. Hann kann bæði apa- og fílamál og er í raunar fær um að nota öll dýr frumskógarsins sem farartæki eftir þörfum. Þá á Tarzan auðvitað soninn Kórak og kærustunni Jane bregður einnig einstaka sinnum fyrir í blöðunum. Hún virðist þó vera duglegri en Tarzan að heimsækja siðmenninguna því hún er ýmist ljóshærð eða dökkhærð í þeim sögum sem hún birtist.
Árið 1979, þegar fyrstu Tarzan blöðin komu út, voru myndasögublöð á íslensku auðvitað töluvert framandi því enn voru þá fjögur ár í að fyrstu Andrés blöðin litu hér dagsins ljós. Það var því einnig framandi að sjá baksíður Tarzan blaðanna sem fyrst um sinn höfðu að geyma upplýsingar um hvernig gerast mætti áskrifandi og þar mátti einnig sjá hvernig næsta tölublað liti út. Seinna fóru baksíðurnar svo að geyma ýmsan misáhugaverðan fróðleik sem þó var alls ótengdur sjálfri söguhetjunni Tarzan. Þar voru til dæmis birtar myndir og fróðleikur um þekktar persónur úr mannkynssögunni en einnig heimsfrægar íþróttastjörnur frá ýmsum tímum. Hver kannast til dæmis ekki við sænska skautahlauparann Eric Heiden, knattspyrnumennina Gunnar Gren, Gunnar Nordahl og Nissa Liedholm (hann spilaði með Valdimarsvik í Svíþjóð!), hjólreiðamanninn Eddy Merckx og hlaupakonuna Lindu Haglund? Líklega enginn. Augljóslega var þessi þjóðlegi fróðleikur ættaður beint frá Atlantis útgáfunni sænsku og átti lítið erindi við íslensk ungmenni en þýðingarnar á þessum greinum voru hins vegar svo hræðilegar að unun var að lesa. Framan á Tarzan blöðunum mátti einnig finna skemmtilega hluti. Áberandi og litríkum upphrópunum í fyrirsagnarstíl var ætlað að vekja athygli óharðnaða lesendanna, æsa þá upp í að opna virkilega þetta blað og lesa það helst hið snarasta. Lýsingarorðið "spennandi" var þó líklega ofnotað.
Á forsíðum blaðanna voru auðvitað einnig tíundaðir titlarnir á þeim sögum sem hvert hefti hafði að geyma og ekki vantaði dramatíkina á þá. Pigmearnir sem hurfu, Vondi svefninn, Guðinn frá dimmu hliðinni á mánanum, Spjót og demantar og Tennur ógnanna eru dæmi um það. Þessir áhugaverðu titlar bera bæði vísbendingar um að í blöðunum væri að finna stórkostleg bókmenntaverk og um leið afar slæmar þýðingar á þeim. Það var líklega nákvæmlega af þessari ástæðu sem SVEPPAGREIFANUM þótti svo vænt um þessa jaðarblaðaútgáfu um Tarzan. Stundum var konungur apanna kominn langt út fyrir bæði verksvið sitt og sögusvið en maður kippti sér ekkert upp við það. Ef minnið bregst ekki var frumskógarmaðurinn Tarzan jafnvel í einhverju blaðanna farinn að berjast við áhafnameðlimi kafbáts. En Tarzan blöðin lifa og SVEPPAGREIFINN skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hafa endurnýjað kynni sín við þessi frábæru blöð. Undanfarin ár hefur hann verið að grípa þessi Tarzan hefti þegar hann hefur komist í tæri við góð og ódýr eintök og á nú á ný orðið einhverja tugi af þessum blöðum. Hann er ekki óður safnari en á þó án nokkurs vafa eftir að fylla betur upp í heildarmyndina áður en yfir líkur. Og þannig er það sjálfsagt hjá fleirum. Einhverjir sem tilheyra þeim kynslóðum sem flettu þessum gersemum í æsku hafa sjálfsagt reynt að kynna Tarzan blöðin fyrir afkomendum sínum og þau hafa jafnvel verið gerð ódauðleg í barnabókaflóru Íslendinga. Í unglingabókinni Brynhildur og Tarzan eftir Kristjönu Bergsdóttur, frá árinu 1997, leitar aðalsögupersónan djúpt í þessi blöð og á bókarkápu sögunnar má jafnvel sjá ákveðinn virðingarvott þar sem útlit Tarzan blaðanna fær einhvers konar heiðurssess. Tarzan blöðin hafa því augljóslega skilið heilmikið eftir sig og munu lifa áfram.

Þökk sé Siglufjarðarprentsmiðju fyrir Tarzan blöðin.

16. október 2020

176. INNRI KÁPAN Í TINNA BÓKUNUM

SVEPPAGREIFINN mun vera einn af þeim sem ólust upp við að hafa Tinna bækurnar við hendina í æsku. Hann tilheyrir einmitt þeirri kynslóð barna sem biðu í ofvæni eftir næstu Tinna bók frá Fjölvaútgáfunni og man vel eftir þeirri tilfinningu sem fylgdi því að vera búinn að eignast nýjan slíkan dýrgrip. Eflaust eru margir sem geta deilt þessum sömu upplifum úr sinni bernsku. Bókunum var flett fram og til baka og í flestum tilfella voru þær bókstaflega lesnar upp til agna með tíð og tíma. Sjálfur man SVEPPAGREIFINN einnig vel þá tilfinningu þegar hann var að handfjatla þessar myndasögur í kjallaranum í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Og upplifa spenninginn við það að grandskoða kápuna á þeim Tinna bókum sem hann var þá að sjá í fyrsta skipti. Enn þann dag í dag getur hann endurupplifað þær minningar með því einu að rýna í þessar bókakápur. Hann man eftir Dularfullu stjörnunni, Vindlum Faraós og Svaðilför í Surtsey sem "gömlum bókum" og Leynivopninu og Svarta gullinu sem nýjum, áhugaverðum og spennandi. Á þeim tímapunkti vissi hann ekki einu sinni af tilvist bóka eins og Flugrás 714 til Sydney eða Bláa lótusinum. Upplýsingaflæðið var ekki mikið, enda þá enn áratugir í Internetið. Í bæjarferðinni í Mál og menningu gat verið erfitt að velja og oftast bauð fjárhagurinn ekki upp á nema eina eða í mesta lagi tvær myndasögur í einu. Þá þurfti að velja og hafna og stefna frekar á einhverjar hinna bókanna næst, ef ekki var þá komin enn ein ný bókin í viðbót til að glepja einfaldan huga hins unga SVEPPAGREIFA. En þetta hafðist nú samt að endingu og allar Tinna bækurnar náðust inn.
Eitt er það líka annað sem SVEPPAGREIFINN man vel eftir. Hluti af því að lesa Tinna bækurnar, spjaldanna á milli, fólst meðal annars í því að skoða ljósbláröndóttu opnurnar með myndunum innan á bókakápunum og velta því fyrir sér úr hvaða sögu hver mynd væri upprunnin. Og það sem er honum eiginlega minnistæðast er að hann skuli enn muna eftir því að fæstar myndanna, úr þessum opnum, hafi verið með eins ramma. Oft hefur hann rekist á gömul eintök af Tinna bókunum þar sem búið er að krota eða lita eitthvað ofan í þessar myndir en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að hafa sem barn nokkurn tímann unnið slík helgispjöll sjálfur á sínum bókum. Hins vegar man hann eftir því að hafa reynt að herma eftir, eða teikna í gegn, einhverjar af þessum myndum Hergés með reyndar afar lítt minnisverðum árangri. En á þessum tímapunkti er alla vega orðið nokkuð ljóst að innri kápusíðurnar muni verða umfjöllunarefnið í færslu dagsins.
Það þarf líklega ekki neinn snilling til að átta sig á því að myndirnar á opnunum tveimur komu til sögunnar á einhverjum ákveðnum tímapunkti í útgáfu Tinna bókanna. Þessi útfærsla, sem við hér uppi á Íslandi þekkjum best, hefur af augljósum ástæðum ekki fylgt bókunum frá upphafi seríunnar. Þær myndir voru alls ekki fyrsta útgáfan af innri kápunni. Forveri þeirra hafði verið notuð í rúm tuttugu ár áður en okkar útgáfa sást fyrst en sú myndaröð samanstóð af hvítum myndum teiknuðum á dökkbláum grunnfleti. Þegar Froskur útgáfa hóf endurútgáfu á Tinna bókunum síðastliðinn vetur, með hinum frábæru tunglferðarbókum, kom einmitt í ljós að þær bækur prýddu þessar eldri útfærslu á innri kápunum í fyrsta sinn hér á landi. Gaman að sjá það.
En fyrstu Tinna sögurnar, sem höfðu að geyma eldri útgáfuna, voru bækurnar Skurðgoðið með skarð í eyra og fyrsta endurteiknaða útgáfan af Tinna í Kongó sem gefnar voru út hjá Casterman útgáfunni árið 1937. Eins og sjá má af þessum myndum koma nokkrar þeirra jafnvel úr upprunalegu Tinna sögunum, þ.e. útgáfunum áður en þær voru endurteiknaðar. Þessi eldri útgáfa hafði því aðeins að geyma teikningar úr fyrstu fjórum Tinna sögunum. Þessari útfærslu af innri bókakápunni kynntust fyrstu kynslóðir þeirra sem söfnuðu og lásu Tinna bækurnar en sama opnan var notuð bæði fremst og aftast í bókunum allt til ársins 1958. Til gamans má geta þess að þann 24. maí árið 2014 var upprunalega teikning Hergés af þessari opnu seld á uppboði fyrir 2,65 milljónir evra. Það munu víst gera um hátt í 400 milljónir íslenskra króna ef einhvern langar að vita það.
En 21 ári og 12 bókum seinna var ákveðið að breyta til. Með útgáfu bókarinnar Kolafarmsins, sem kom út í bókaformi á frönsku í júlí árið 1958, birtist loks þessi kunnuglega útgáfa af innri bókakápunni sem við Íslendingar þekkjum einmitt svo vel. Sú útfærsla er reyndar miklu betur kunn, út um allan heim, hjá öllum þeim kynslóðum sem fæddar eru eftir miðja 20. öldina. Það er aðeins nú á síðustu áratugum sem gamla útgáfan hefur verið dregin aftur fram í sviðsljósið og notuð bæði í viðhafnarútgáfum af Tinna bókunum og þeim allra nýjustu - eins og hjá Froski. Í yngri útfærslunni eru opnurnar settar upp sem veggir með mörgum myndum, af sögupersónum bókanna, hver í sínum ramma. Þessar myndir eru teiknaðar með útlínunum einum í dökkbláum lit en veggurinn á bak við er hins vegar röndóttur í tveimur mismunandi ljósbláum litum. Myndaraðirnar eru samsettar úr teikningum, sem raðað er upp í 141 mismunandi myndaramma, þar sem á fremri opnunni eru myndirnar 69 en 72 á hinni aftari. Myndirnar, sem eru nokkuð misjafnar að stærð, sýna aðallega sögupersónurnar úr bókum seríunnar en þar má reyndar líka finna mynd af Skurðgoðinu fræga og einnig eitt nútímamálverk sem þó kemur ekki fyrir í neinni bókanna. Þetta verk teiknaði Hergé um það leyti sem nýrri opnan var gerð opinber, þegar hann fékk áhuga á nútímalist, og ef grannt er skoðað sýnir það Kolbein kaftein í nýstárlegum formum.
Seint á sjötta áratug 20. aldarinnar fékk höfundurinn Hergé einmitt mikinn áhuga á framandi listum og málaði jafnvel sjálfur verk í þeim anda. Það má vel sjá áhrif þessa áhuga í síðustu bókum hans í Tinna seríunni. En alls eru þarna á opnunum 12 myndir af Tinna. Tobbi, Kolbeinn og Vandráður prófessor sjást síðan á 6 þeirra hver en aðrar af söguhetjum bókaflokksins fá heldur minna rými eða athygli. Helstu bófar seríunnar fá auðvitað einnig sínar myndir eins og aðrir en annars miðast fjöldi og stærð myndanna oftast við aðkomu eða vægi persónanna í bókunum. Á sama hátt virðist útlit eða umfang margra myndarammanna sjálfra stýrast af stétt eða stöðu þeirra sem á myndunum eru. Konungar og prinsar fá íburðamikla og vandaða myndaramma á meðan rammar fátækra og snauðra persóna eru mjög látlausir og einfaldir. Litli svarti, leiðsögudrengurinn Kókó úr Tinna í Kongó  fær til dæmis ekki einu sinni ramma utan um sína mynd og sömu sögu má reyndar einnig segja um nokkrar aðrar sambærilegar, stéttalágar persónur. 
Það vekur svolitla athygli að ungfrú Vaíla Veinólínó fær aðeins eina mynd af sér á opnunum tveimur og þau Irma og Ívar Eltiskinn enga. Skýringuna á því má auðvitað rekja til þess að þessar opnur voru teknar í notkun árið 1958, eins og áður var minnst á, en eins og gefur að skilja vantar þar þá myndir úr fjórum síðustu sögum seríunnar. Myndir úr bókunum Tinni í Tíbet (1960), Vandræði Vaílu Veinólínó (1963), Flugrás 714 til Sydney (1968) og Tinni og Pikkarónarnir (1976) birtust því ekki á þessum opnum og var aldrei bætt í hópinn eftir að þær komu út. Af þessari sömu ástæðu má þar til dæmis ekki heldur finna myndir af sjerpanum Terka, Páli Pumpu, Carreidas, Döggu hans Alkasars og Magnsteini múrarameistara svo einhverjar persónur séu nefndar. En alls hafa þessar tvær opnur að geyma myndir af 115 mismunandi einstaklingum og þar af eru 21 þeirra nafnlausir. Flestar myndanna koma af persónum bókarinnar Vindlar Faraós eða 15 talsins og 11 koma úr Föngunum í Sólhofinu en fæstar þeirra eru úr Tinna í Kongó og Svaðilför í Surtsey eða 4 úr hvorri sögu. Og svo kemur auðvitað engin sögupersóna úr síðustu fjórum bókunum eins og áður var getið.
En þessar innri kápur hafa ekki bara verið viðloðandi sjálfar Tinna bækurnar þó upphafið megi rekja til þeirra. Hið sígilda útlit opnanna hafa orðið mörgum hugmyndaríkum listamönnum innblástur og ýmsir hafa dundað sér við að nýta sér þessa þekktu fyrirmyndir í gegnum tíðina við að útbúa sín eigin tilbrigði við stefið. Sumt af þessu efni tilheyrir myndasögum þar sem listamennirnir hafa vottað Hergé virðingu sína ýmist með innri bókakápunum einum eða heilu bókunum. En annað tengist oft skemmtilegum útgáfum þar sem handlagnir einstaklingar hafa eingöngu verið að leika sér svolítið með hugmyndina. Margt af því er einnig nokkuð skemmtilegt.
Og svo ekki sé talað um nýtingu opnanna í hönnunarlegu tilliti fyrir heimilið. SVEPPAGREIFINN fjallaði einmitt einu sinni um veggfóður, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem var í boði fyrir aðdáendur Tinna bókanna og selt var fyrir líklega mörgum áratugum. Að líkindum var þetta betrekk ætlað barnaherbergjum sjöunda eða áttunda áratugs 20. aldarinnar en hætt er við að margir aðdáendur Tinna í dag væru til í að eiga nokkrar rúllur af þeim gersemum fyrir myndasöguherbergið sitt. Og líklega myndu allra hörðustu aðdáendurnir og safnarar bókaseríunnar vilja veggfóðra öll helstu rými heimili síns með þessum myndarömmum.
Og svo er best að ljúka þessari skrautlegu færslu með sýningarrými úr Château de Cheverny kastalanum í Loire Valley í Frakklandi en hann var líklega helsta fyrirmynd Hergé að Myllusetrinu í bókunum um Tinna. Þarna var í gangi sýning, fyrir nokkrum árum síðan (og er kannski enn), tileinkuð seríunni um Tinna og hluta kastalans var meðal annars breytt í þekkt sögusvið úr bókunum. SVEPPAGREIFINN fjallaði til dæmis um baðherbergið að Myllusetri í færslu hér á síðunni fyrir fáum árum. En margir sögulegir munir tengdir bókunum voru til sýnis þarna í Château de Cheverny og eitt rýmið var til að mynda skreytt með myndarömmum úr þessum sígildu opnum. Hér má sjá hluta af þeim veggjum en inn í marga myndarammanna er búið að skipta út myndum og bæta inn þekktum augnablikum í lit úr Tinna bókunum í staðinn. Aldeilis gaman að þessu.

2. október 2020

175. SLÚÐURKERLINGARNAR Í SVEPPABORG

Myndasögurnar um Sval og Val eru í uppáhaldi hjá mörgum enda bækurnar frábærar. Margir af kynslóð SVEPPAGREIFANS, og árunum þar um kring, þekkja þessar sögur til hlítar og ylja sér enn við bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma. Þær bækur voru eftir þá André Franquin, Jean-Claude Fournier og tvíeykið Tome og Janry en seinna tóku aðrir við keflinu sem íslenskir myndasögulesendur kynntust þó ekki fyrr en Froskur útgáfa hóf aftur útgáfu á sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur margoft talað fyrir aðdáun sinni á belgíska listamanninum André Franquin og í færslu dagsins verður þar engin undantekning gerð á. Nú er nefnilega ætlunin að taka aðeins fyrir nokkuð skemmtilegt bakgrunnsefni sem kom reglulega fyrir í Sval og Val bókum Franquins og þeir Tome og Janry endurvöktu síðan seinna í einni sinna sagna. Sveppaborg er sviðsmynd margra bókanna um Sval og Val en þær sögur Franquins sem gerast þar eru einmitt í einna mestu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Það er nefnilega þetta vinalega og afslappandi andrúmsloft Sveppaborgar sem þessi frábæri listamaður nær að draga svo vel fram í sögum sínum. Lesendur bókanna fá að kynnast ýmsum íbúum þessa litla sveitaþorps og andinn sem þar ríkir minnir SVEPPAGREIFANN einmitt á andrúmsloft sem hann sjálfur upplifir í litlu fjallaþorpi, í franska hluta Sviss, þar sem hann dvelur reglulega. Í báðum af þessum vinalegu þorpum má finna gömul falleg hús með hellulögðum götum, lítil sem engin bílaumferð er þar, allir íbúarnir þekkjast, allir heilsast og eldri húsmæður stinga saman nefjum á næsta götuhorni eftir innkaupaferð dagsins.
Og það er einmitt þar sem ætlunin er að grípa aðeins niður í þetta fyrrnefnda bakgrunnsefni. Hér er nefnilega um að ræða tvær slúðrandi húsmæður sem sjást reglulega í bakgrunninum í þeim Sval og Val bókum Franquins sem gerast í Sveppaborg. Þetta eru þó ekki einu leyndu bakgrunns- eða hliðarpersónurnar sem sjást í bókum listamannsins því svipaða sögu má einnig segja um ungan pilt, Le Petit Noël (Jóli litli), sem bregður líka aðeins fyrir í sögunum. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á hann áður í færslu hér. En kjaftakerlingarnar tvær frá Sveppaborg sjást einnig reglulega í seríunni þó ekki séu þær mjög áberandi. Líklega hafa því fæstir lesendur Sval og Val tekið eftir þeim þó þeir hafi flett þessum myndasögum sínum ótal sinnum í gegnum tíðina.
Þessar tvær eldri konur birtust fyrst í sögunni Le prisonnier du Bouddha (Fanginn í styttunni - 1981) sem kom út í bókaformi árið 1960. Þar sjást þær stinga saman nefjum sínum lengst til vinstri á  fyrstu mynd sögunnar (hér fyrir ofan) en í þessum sama myndaramma sést einnig áðurnefndur Jóli litli, í forgrunni myndarinnar, þar sem hann kemur gangandi í áttina að ritfangaverslun bæjarins. Þessari mynd var að sjálfsögðu fyrst og fremst ætlað að vera upphafsrammi sögunnar og sýna daglegt líf á götum þessa vinalega sveitaþorps. Þarna er Jóli litli í sendiferð fyrir borgarstjórann, laus hundur í leit að matarbita, hefðbundnir íbúar Sveppaborgar ýmist á röltinu um hellulagðar göturnar eða fólk að hitta nágranna sína og spjalla aðeins saman á næsta götuhorni - einmitt eins og konurnar tvær eru að gera. Ekkert af þessu skiptir máli fyrir söguna sjálfa annað en til að sýna andrúmsloftið í þessu rólega sveitaþorpi. Þetta er því í raun bara sviðsmynd fyrir upphaf hennar. Annars er líka ekki hjá því komist að nota tækifærið og benda einnig á það í leiðinni hve þessi fyrsti myndarammi Fangans í styttunni er glæsilega uppbyggður.
Næsta bók seríunnar var sagan Z comme Zorglub (Z fyrir Zorglúbb - 1981) en í henni eru kerlingarnar tvær þó hvergi sjáanlegar. Samt gerist sagan að stórum hluta í Sveppaborg og í nágrenni hennar, við höll Sveppagreifans, en leiða má líkum að því að Franquin hafi ekki ætlað þessum tveimur húsmæðrum neitt frekara hlutverk í seríunni. Þær voru jú í fyrstu líklega bara ætlaðar sem hluti af bakgrunni upphafsmyndar bókarinnar á undan. Slúðurkerlingarnar tvær birtast þó aftur strax í næstu sögu þar á eftir, L'ombre du Z (Með kveðju frá Z - 1982) frá árinu 1962, sem er í raun seinni hluti Z fyrir Zorlúbb og gerist því í beinu framhaldi af henni. Hér koma þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn aftur til Sveppaborgar (bls 4) eftir heimkomuna frá Zorumbíu og þá blasa við þeim lamaðir íbúar bæjarins eftir bæjarrúnt R-200 (Njarðar lögregluþjóns) sem enn gengur þá laus í nágrenninu. Á myndinni hér fyrir ofan má einmitt sjá kerlingarnar tvær á meðal þeirra sem orðið hafa fyrir Zor-geislum Njarðar. Glöggir lesendur geta þarna eflaust líka þekkt hundinn sem gengur laus á fyrstu myndinni í Fanganum í styttunni og minnst var á hér ofar í færslunni. Líkt og kjaftakerlingarnar tvær bregður honum einnig reglulega fyrir í þeim bókum um Sval og Val sem gerast í Sveppaborg. En hvað konurnar varðar þá koma þær fyrir á heilum fjórum myndarömmum í þessari sögu, Með kveðju frá Z, og því orðið nokkuð ljóst að þær eru komnar til að vera.
Næst koma þær fyrir á blaðsíðu 19 í bókinni. Þetta gerist degi seinna og þarna hafa þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn gert stórátak í að endurlífga borgarana og allt virðist vera fallið aftur í ljúfa löð. Helstu íbúar Sveppaborgar hittast því úti á götu til að fara yfir og ræða atburði síðustu daga og slúðurkerlingarnar tvær eru þar engin undantekning. Þær hafa eflaust haft um nóg að spjalla í þetta skiptið. Strax á næstu síðu birtast þær síðan á ný. Tíminn hefur liðið nokkuð og aldrei þessu vant er hlaupið hratt yfir sögu því að á þeirri mynd eru liðnir nokkrir mánuðir frá þessum eftirminnilegu atburðum. Þarna sést í forgrunninum þegar glæsibifreið Zorglúbbs, Citroen DS árgerð 1962, keyrir skyndilega í gegnum bæinn og auðvitað sjást kjaftakerlingarnar tvær stinga saman nefjum, þar sem þær skiptast á slúðursögum, lengst til hægri á myndinni.
Enn á ný birtast þær í Með kveðju frá Z og að þessu sinni á blaðsíðu 28. Núna virðast kerlingarnar þó ekki vera búnar að versla en eru þó líklega á leiðinni í innkaupaleiðangur. Innkaupatöskurnar eru tómar og netpokinn, sem sú með hattinn er ætíð vopnuð með, er sennilega enn í töskunni hennar. Þarna birtist Zorglúbb skyndilega á eldsneytislausri Zor-flugu og stefnir beint á kjaftakerlingarnar. Í íslensku útgáfunni af sögunni öskrar Zorglúbb upp yfir sig "Geta þessar kjaftakerlingar ekki flutt sig til?!!" en í upprunalegu frönsku útgáfunni kallar hann hins vegar eitthvað á þá leið, "Ó, nei! Ég mun lenda á þessum fáránlega hlut!!" og á þá auðvitað við styttuna af borgarstjóranum. Það má því gera ráð fyrir að það sé einungis í íslensku þýðingunni af Með kveðju frá Z þar sem minnst er á konurnar tvær í allri Sval og Val seríunni og bent á tilvist þeirra.
Slúðurkerlingarnar tvær koma næst fyrir í bókinni Panade à Champignac (Svaðilför til Sveppaborgar - 1979) sem gefin var út í bókarformi árið 1968 en sú saga gerist að megninu til í Sveppaborg eins og nafn hennar gefur augljóslega til kynna. Sú saga hefst reyndar á ritstjórnarskrifstofu SVALS blaðsins en þeir félagar Svalur og Valur drífa sig í sveitina snemma í bókinni og koma til Sveppaborgar neðst á blaðsíðu 7. Valur bregður sér inn í ritfangaverslunina og á einni myndinni má einmitt sjá nokkurn veginn sama sjónarhornið og sést á fyrsta myndarammanum úr Fanganum í styttunni sem nefnd var efst í þessari færslu. Á myndinni má aftur þekkja ritfangaverslunina, sömu húsin, skiltið og jafnvel Jóli litli er á ferðinni líkt og á hinni myndinni. Og ... lengst til vinstri á myndinni sést einmitt glitta í aðra kjaftakerlinguna þar sem hún stendur á sama götuhorninu og áður og er þar augljóslega að spjalla við vinkonu sína sem er þó reyndar í hvarfi.
Á næstu blaðsíðu sést síðan önnur mynd þar sem sjónarhornið er sýnt alveg úr hinni áttinni en á þeirri mynd sjást kerlingarnar tvær, lengst til hægri, stinga saman nefjum líkt og svo oft áður.
Svaðilför til Sveppaborgar, ásamt aukasögunni Aparnir hans Nóa (Bravo les Brothers), voru síðustu sögur Franquins um þá Sval og Val en eftir þetta sneri hann sér nær eingöngu að Viggó viðutan. Franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier tók nú við keflinu og teiknaði næstu níu bækur í seríunni fram til ársins 1979 en kjaftakerlingarnar tvær komu ekkert við sögu í hans tíð. Í sögum Fourniers kemur Sveppagreifinn heldur minna við sögu og þar af leiðandi eru þeir Svalur og Valur ekki mikið á ferðinni í Sveppaborg. Eins komu þær heldur ekkert við sögu tvíeykisins Nic og Cauvin en árið 1984 kom út fyrsta saga Tome og Janry um Sval og Val. Alls gerðu Tome og Janry fjórtán bækur um þá félaga og Sveppaborg kemur nokkuð við sögu í eldri sögum þeirra en það er aðeins í sögunni Le Rayon noir frá árinu 1993 sem kerlingarnar sjást á ný. Bókin hefur ekki komið út á íslensku en hefur verið nefnd Blökkugeislinn þegar hún hefur komið til umræðu Sval og Val sérfræðinga hérlendis. Á blaðsíðu 10 í bókinni sjást þær, í bakgrunninum á einni myndanna, stinga saman nefjum við aðalgötuna í Sveppaborg. Þarna hefur fangaflutningabíll lent í árekstri og nokkrir íbúar Sveppaborgar, með borgarstjórann og Kristján Dýrfjörð í forgrunni, fylgjast með.
Sennilega hafa þeir Tome og Janry ekki verið búnir að uppgötva eða hreinlega ekki áttað sig á tilvist kvennanna tveggja í seríunni fyrr en á þessum tímapunkti. En skömmu síðar verður Svalur óvart fyrir geislum nýjustu uppfinningar Sveppagreifans, sem þá er nýfarinn að heiman, en tækið gerir það að verkum að fólk breytir um litarhaft og verður dökkt á hörund. Hann lendir síðan í vandræðum með að útskýra fyrir lögreglu að hann sé ekki með stolin skilríki þegar myndin í blaðamannaskirteininu passar ekki við útlit hans. Svalur rétt missir af Sveppagreifanum (bls 18), sem er á leiðinni með áætlunarbílnum til kollega síns í borginni, en Greifinn gæti útskýrt fyrir lögreglunni hver hann er í raun og veru. Aftast í rútunni má sjá hvar Sveppagreifinn hefur komið sér fyrir en í sætunum fyrir framan hann sitja kjaftakerlingarnar tvær og skiptast á slúðursögum.
Og undir lok bókarinnar Le Rayon noir birtast konurnar tvær svo í þriðja sinn í sögunni. Eftir heilmikið ævintýri, þar sem þetta tæki Sveppagreifans, Don Vito Cortizone og hálfgert stríðsástand með kynþáttafordómum koma helst við sögu, nær hið afslappaða og rólega andrúmsloft aftur yfirhöndinni í Sveppaborg. Lífið á götum bæjarins kemst aftur í réttar skorður og á blaðsíðu 46 eru kerlingarnar tvær enn á ný mættar á götuhorninu sínu til að slúðra um helstu mál Sveppaborgar. Í fyrsta sinn eru konurnar þó ekki of uppteknar við að stinga saman nefjum sínum heldur virðast þær þarna loksins gefa sér aðeins tíma til að líta svolítið upp og fylgjast með því sem er að gerast í kringum þær. Og þarna eru þær augljóslega búnar að versla ...