29. nóvember 2019

139. FÁEINAR SPÍTALAFERÐIR HERRA SEÐLANS

SVEPPAGREIFINN hefur einstaklega gaman að myndasögunum um Viggó viðutan og uppátækjum hans eins og margoft hefur komið fram hér á síðunni. Margar stórskemmtilegar aukapersónur er hluti þess sem gera þessa seríu svo skemmtilega og einn af uppáhalds karakterum SVEPPAGREIFANS í bókunum er hinn geðþekki kaupsýslumaður herra Seðlan. Um hann hefur að sjálfsögðu verið ritað hér áður. Samskipti þeirra Viggós og herra Seðlans eru sjaldan á vinsamlegu nótunum en sá síðarnefndi er alveg sérstaklega óheppinn þegar kemur að vafasömum uppátækjum þess fyrrnefnda. Yfirleitt enda viðskipti þeirra á þann hátt að herra Seðlan rýkur á braut í reiðikasti en oftar en ekki lýkur samskiptum þeirra einnig með líkamlegum áverkum. Jafnvel þannig að kaupsýslumaðurinn knái endi á sjúkrahúsi. En fyrsti brandarinn þar sem herra Seðlan verður svo mikið fyrir barðinu á Viggó, að hann endar á spítala, birtist í SPIROU tölublaði númer 1200 sem kom út þann 13. apríl árið 1961. Á þessum tímapunkti hafði herra Seðlan ekki verið mjög áberandi í bröndurunum um Viggó og líklega var þetta ekki nema í fjórða eða fimmta skipti sem hann birtist í blaðinu. Forsögu þess slyss má rekja til einhvers konar pedalastígandi hjólastóls sem Viggó hafði smíðað og var að aka um á gangi skrifstofunnar þegar herra Seðlan var svo óheppinn að verða skyndilega á vegi hans. Í framhaldi af þeim árekstri rúllaði kaupsýslumaðurinn niður stigann á farartækinu og endaði að sjálfsögðu á spítala með brotinn fót.
Á næstu vikum birtist herra Seðlan öðru hvoru aftur og í blaði númer 1212 sem út kom þann 6. júlí sama ár fótbrotnaði hann aftur. Og aftur tengdist það hinum fótstigna hjólastól Viggós. Að þessu sinni hefur Valur gefið Viggó frí af skrifstofunni til að losna við hann og boðar herra Seðlan á sinn fund þar til að skrifa undir samningana. Fyrir vikið Viggó keyrir hann niður við húshornið á leiðinni út og aftur lendir hann fótbrotinn á sjúkrahús en að þessu sinni liggur reyndar Viggó líka slasaður í næsta rúmi. Sá er einnig töluvert lemstraður en þó ekki fótbrotinn líkt og herra Seðlan.
Í SPIROU blaði númer 1487 sem kom út þann 16. október 1966 er Viggó að gera merkilega efnafræðitilraun með nýja sápu sem reyndar er í sterkari kantinum. Líklega þekkja margir þennan brandara úr bókinni Viggó á ferð og flugi sem Iðunn sendi frá sér árið 1982. En afrakstur tilraunar Viggós lendir fyrir slysni á gólfinu sem á örstuttum tíma étur sig í gegnum það og lendir á berum skalla herra Seðlans með sársaukafullum afleiðingum. Og auðvitað endar hann á spítala.
Það verður reyndar að segja Val til hróss að hann er alveg einstaklega duglegur við að heimsækja herra Seðlan á spítalann og færa honum túlípana. En að lokum er hér stakur spítalabrandari sem birtist á forsíðu SPIROU blaðs númer 1638 og kom út þann 4. september árið 1969. Enn á ný er fótbrot ástæða sjúkrahúsvistarinnar en forsögunni að henni má rekja til slyss í rúllustiga sem Viggó er sterklega grunaður um að eiga aðild að ef marka má viðbrögð herra Seðlans. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar áður minnst á þann brandara sem finna má í færslu hér á síðunni.
Auðvitað (auðvitað?) lendir herra Seðlan mjög oft í óheppilegum atvikum í Viggó bókunum með óumflýjanlegum meiðslum og hnjaski - í flestum tilfellum nokkuð alvarlegum. En sjaldnast eru lesendur brandaranna þó það heppnir að fá að sjá endanlegu afleiðingarnar af þeim "slysum". Brandararnir enda oftar en ekki þar sem herra Seðlan liggur sárkvalinn á gólfinu, hoppandi um öskrandi af sársauka af einhverju orsökum eða jafnvel steinrotaður úti á götu. Herra Seðlan endar því klárlega miklu oftar á spítalanum heldur en lesendur Viggó bókanna fá að kynnast.

22. nóvember 2019

138. TRÖPPUGANGUR MEÐ LUKKU LÁKA

Í hjarta bæjarins Blois, í miðhluta Frakklands, má finna háar tröppur sem staðsettar eru við Denis-Papin torgið í miðbænum. Alls eru þessar tröppur rúmlega 120 talsins en framan á þær, utan á uppstigið, hefur undanfarin ár verið settar risastórar myndir af þekktum fyrirbærum til kynningar ýmsum viðburðum bæjarins. Í mars síðastliðnum var þar til dæmis sett hin fræga mynd af Mónu Lísu og hún sló algjörlega í gegn. Myndir af þessum tröppum hafa verið alveg sérstaklega vinsælar af Instagram og Twitter notendum enda vettvangurinn einstaklega myndrænn fyrir slíkar myndir. Það eru starfsmenn fyrirtækisins Imprinova, sem staðsett er í Contres, sem hafa veg og vanda að því að koma þessum merkingum fyrir á tröppunum en núna í byrjun nóvember hófu þeir vinnu sína við að fjarlægja myndina af Mónu Lísu og jafnóðum að setja þar nýja mynd í staðinn. 
Móna Lísa vék því smán saman fyrir mynd af Lukku Láka en verkið er unnið á þann hátt að sérstakur renningur með mjórri myndrönd af heildarmyndinni er límdur framan á hverja einustu tröppu. Því næst er hann hitaður með hitabyssu svo hann leggst alveg að steininum og aðlagar sig þannig að múrnum framan á hverri tröppu. Uppröðunin á renningunum er ekki ólík því sem sjá má á auglýsingaflettiskiltum þeim sem staðsett eru á víð og dreif hér um höfuðborgarsvæðið.
Smátt og smátt birtist þar því risastór mynd af þeim Lukku Láka og Léttfeta en auk þeirra má einnig sjá þá Rattata og Jobba Daltón neðst á myndinni. Þegar allir renningarnir hafa verið límdir á sinn stað má þannig sjá heildarmyndina þegar staðið er á réttum stað. En þessir myndarenningar er þannig staðsettar á tröppunum að ekki er hægt að sjá heildarmyndina nema úr nokkurri fjarlægð og í raun alls ekki ofan frá. Þeir sem ekki þekkja til og eru að ganga niður tröppurnar hafa til dæmis ekki hugmynd um tilvist myndarinnar við fætur sér. 
Útkoman er óneitanlega glæsileg en hugmyndin, með þessari risavöxnu Lukku Láka mynd, er að kynna hina árlegu myndasöguhátíð bd BOUM Festival sem hefst í borginni í dag, föstudaginn 22. nóvember, og haldin er núna yfir helgina. Hátíðin er ein sú stærsta sinnar tegundar í Frakklandi en á þessa þriggja daga veislu mæta yfirleitt á milli 20 og 30 þúsund gestir ár hvert. Fyrir nokkrum árum var risamynd af myndasöguhetjunum Boule og Bill sett í sama tilgangi á tröppurnar en ætlunin er að Lukku Láka myndin fái að standa á tröppunum fram yfir áramót ef veður leyfir.
Sú hugmynd rataði í fjölmiðla snemma á árinu að Akureyrarbær væri að kanna þann möguleika að láta setja upp styttu af Tinna við Torfanesbryggju í bænum. Tinni og Kolbeinn kafteinn komu í fjögurra blaðsíðna heimsókn til Akureyrar, í bókinni um Dularfullu stjörnuna, og margir hafa viljað halda því varanlega til haga með minnisvarða af einhverju tagi en ekkert hefur þó enn gerst í þeim málum. SVEPPAGREIFINN veltir því fyrir sér hvort ekki sé hægt að nota þessa tröppulausn þarna norðan heiða. Hann gerir það hér með að tillögu sinni að Akureyrarbær grípi hugmyndina á lofti og setji einhverja fína mynd af Tinna og félögum hans, úr Dularfullu stjörnunni, á kirkjutröppurnar undir Akureyrarkirkju.

Eða ... nei, líklega henta þær tröppur ekki ...

15. nóvember 2019

137. HÖRÐUR STÝRIMAÐUR - ÆVIÁGRIP

Þó að SVEPPAGREIFINN lifi kannski ekki eingöngu og hrærist í heimi hinna stórskemmtilegu teiknimyndasagna barnæsku sinnar þá er ekki laust við það að þessar bækur poppi ennþá aðeins upp í hausnum á honum stöku sinnum. Hann heldur jú einu sinni úti þessu myndasögubloggi sínu. Hugmyndir um færslu vikunnar detta inn á hinum ólíklegustu augnablikum utan dagskrár og þá þarf hann að vera duglegur að punkta hjá sér þau inngrip svo þau ekki gleymist. Margar af þessum hugmyndum koma upp úr engu og stundum þarf honum ekki nema að detta í hug einhver ómerkileg sögupersóna úr bókunum til að komið sé efni í færslu. Ein er sú persónan, úr myndasöguhillum heimilisins, sem búin er að vera SVEPPAGREIFANUM eitthvað hugleikin síðustu vikurnar og hann hefur nú þörf fyrir að deila hér. Hver sé ástæða þessarar hugleikni er reyndar ekki alveg fullkomlega ljós en eitthvað poppaði þessi sögupersóna upp í huga hans nú á haustmánuðum. Hörður heitir þessi fígúra og er kunnur sem stýrimaður úr Tinna bókunum. Að öðru leyti er Hörður ekki þekktur af neinu öðru en illmennsku og óþverraskap af flestum toga.
Hörður stýrimaður birtist fyrst í sögunni Vindlum Faraós en alls kemur hann fyrir í einum fjórum Tinna bókum. Hann er ein af þeim fáu aukapersónum seríunnar sem koma það snemma fyrir að Hergé var ekki einu sinni búinn að kynna þá Kolbein og Vandráð til sögunnar. Í íslensku útgáfunni af Vindlum Faraós, sem kom út 1972, nefndist Hörður reyndar Allan Thompson líkt og í upprunalegu útgáfunum sem gefnar voru út í Belgíu. En árið 1973 kom út á íslensku Krabbinn með gylltu klærnar og þar heitir manngarmurinn allt í einu Hörður og hann hefur síðan fengið að halda því nafni til streitu. Ástæða þessa misræmis er reyndar óljós en líklegt er að annað hvort hafi þýðendur Tinna bókanna, þeir Þorsteinn Thorarensen og Loftur Guðmundsson, gleymt að samræma aðgerðir þeirra sín á milli eða þeir hafi hreinlega ekki áttað sig á því að þarna væri um sama manninn að ræða. Í nýrri útgáfum af Vindlum Faraós á íslensku (2. og 3. útgáfu) hefur þetta misræmi ekki verið leiðrétt og sömu sögu má segja af bókinni sem gefin var út í litla brotinu (4. útgáfu) árið 2013.
Hörður spilar svo sem ekkert sérstaklega stóra rullu í bókinni um Vindla Faraós en þó nógu mikla til að vekja á sér athygli. Þar stjórnar hann snekkju einni, Sírenu, sem foringi ópíum smyglhringsins KIH-OSKH Faraós á en sá bófi er hinn grískættaði Roberto Rassópúlos. Allir lesendur Tinna bókanna kannast auðvitað mæta vel við þann glæpaforingja. Rassópúlos kemur einmitt nokkrum sinnum fyrir í Tinna bókunum og í þremur þeirra er Hörður ein helsta undirtylla Grikkjans. Í sögunni Vindlum Faraós bregður Herði í raun aðeins fyrir í einu atriði en Rassópúlos leikur hins vegar svolítið stærra hlutverk í bókinni. Þarna er Hörður reyndar sagður vera skipstjóri en í Tinna bókunum er hann oftar en ekki titlaður stýrimaður. Í upprunalegu, svarthvítu útgáfunni af Vindlum Faraós, sem gefin var út árið 1934, kom Hörður stýrimaður ekkert við sögu en Hergé bætti hlutverki hans inn í söguna þegar bókin var seinna endurteiknuð og lituð árið 1955.
Í Krabbanum með gylltu klærnar er Hörður töluvert meira áberandi og stór hluti af hans aðkomu í bókinni snýst í rauninni um það að kynna Kolbein kaftein til sögunnar inn í bókaflokkinn. Í sögunni er Kolbeinn auðvitað skipstjóri flutningaskipsins Karaboudjan og stýrimaðurinn Hörður er þar í raun undirmaður hans. En þar sem Kolbeinn er ansi hallur að flöskunni, þarna í upphafi ferils síns, snúast hlutverk þeirra algjörlega við og Hörður hefur kafteininn gjörsamlega í vasanum. Hörður heldur Kolbeini stöðugt blindfullum, með því að skammta honum reglulega viskíflöskum í klefa sinn, svo að á meðan getur stýrimaðurinn sjálfur ráðstafað skipinu eins og honum sýnist og hentar best. Þannig notar Hörður Karaboudjan til að smygla heróíni milli Evrópu og Bagghar í Marokkó án nokkurrar vitundar hins sídrukkna skipstjóra Kolbeins kafteins.
Þessi fyrstu alvöru kynni af Herði sýna samviskulausan, kaldrifjaðan og hörkulegan náunga sem vílar sér ekki við að beita óþverraskap og ofbeldi af ýmsu tagi. Eins og áður segir kynnast þeir Tinni og Kolbeinn í sögunni, verða samferðarmenn það sem eftir er bókaflokksins, og sameinast um að reyna að koma höndum yfir þennan útsjónarsama glæpamann. Það er að segja á þeim stundum sem Kolbeinn er allsgáður. Stýrimaðurinn Hörður er hins vegar stórhættulegur og hikar ekki, með öllum ráðum, við að reyna að koma þeim fyrir kattarnef.
Líkt og fyrr segir leikur Hörður nokkuð stórt hlutverk í sögunni en undir lok hennar tekur Tinni stýrimanninn höndum og færir hann Sköftunum til varðveislu. Væntanlega hefur Hörður því setið af sér dóm fyrir þessa glæpi sína í Krabbanum með gylltu klærnar og verið laus sinna mála þegar hann kemur við sögu í sínu næsta ævintýri. Betrun hans hefur þó augljóslega haft lítið að segja því Hörður leggur fyrir sig nýja glæpi í bókinni um Kolafarminn. Í þeirri sögu stýrir hann flutningaskipinu Ramónu og enn starfar hann fyrir glæpaforingjann Roberto Rassópúlos.
Þeir Kolbeinn hittast því á ný þegar Gorgonsóla markgreifi, sem í rauninni er Rassópúlos í dulargervi, lætur færa þá um borð í Ramónu eftir að hafa bjargað þeim (gegn vilja hans) af fleka á Rauðahafinu. Í Kolafarminum telur Hörður sig enn hafa vald yfir Kolbeini með því að gauka að honum viskíflösku og sýnir honum þannig á hrokalegan hátt augljóslegt óþverraeðli sitt. Kolbeinn lætur sér reyndar fátt um finnast enda búinn að vera tiltölulega edrú meira og minna allan bókaflokkinn síðan Krabbinn með gylltu klærnar var og hét. Hann svarar Herði fullum fetum og lætur stýrimanninn fá það óþvegið með hefðbundnum blóts- og skammaryrðum að hætti hússins.
Hörður hefur þarna auðvitað harma að hefna eftir að þeir Tinni og Kolbeinn höfðu komið honum í fangelsi og í Kolafarminum reynir hann enn og aftur að koma þeim félögunum fyrir kattarnef. Hann skilur þá eftir um borð í skipinu, sem hann áformar að sprengja í loft upp, en þeir félagar sleppa naumlega undan illverkum stýrimannsins. Sjálfur flýr Hörður ásamt áhöfn sinni í björgunarbáti og er í lok sögunnar bjargað. Væntanlega hefur hann þar aftur fengið dóm fyrir athæfi sitt þó það komi reyndar hvergi fram í bókinni. Síðasta sagan sem Hörður kemur fyrir í er Flugrás 714 til Sydney en hún var næstsíðasta bókin um Tinna sem Hergé kláraði og meginsagan gerist raunar á aðeins um tveimur sólarhringum. Þessi bók er jafnframt sú eina sem þeir félagar, Hörður stýrimaður og Rassópúlos, sjást eyða saman í illverkum sínum. Í sögunum Vindlum Faraós og Kolafarminum eru þeir einungis í fjarskipta- eða símasamskiptum en í Flugrás 714 til Sydney fá lesendur betur að kynnast því hvernig þeirra persónulegu sambandi er háttað.
Hvernig leiðir þeirra Tinna, Kolbeins, Harðar og Rassópúlosar liggja saman í þessari bók er eiginlega hrein tilviljun. Það er auðvitað engan veginn eðlilegt hvernig Tinna er fyrirmunað að ferðast um heiminn án þess að rekast á þá kumpána einhvers staðar að glæponast. En að þessu sinni er Hörður hægri hönd Rassópúlosar, og um leið ein af undirtyllum hans, sem rænir einkaþotu milljarðamæringsins Carreidas. Og fyrir einskæra tilviljun eru þeir Tinni og Kolbeinn, ásamt prófessor Vandráði, einnig um borð í vélinni. Ætlun þeirra Rassópúlosar og Harðar er að lenda þotunni á lítilli eyju, Púla-púla Bomba í Súndíska hafinu, með Carreidas og knýja hann til að afsala sér auðæfum sínum. Allir eru þeir teknir til fanga en auðvitað bjarga Tinni og félagar málunum.
Lengi vel stóð SVEPPAGREIFINN í þeirri meiningu að Hörður stýrimaður kæmi fyrir í einni Tinna bókinni í viðbót. En það mun þó ekki vera rétt. Í sögunni um Leyndardóm Einhyrningsins bregður fyrir misindismanni einum sem svipar, að mati SVEPPAGREIFANS, nokkuð til Harðar. Þarna er um að ræða atvik á blaðsíðu 35 þar sem þeir Fuglsbræður, Starri og Þröstur, hafa sent tvo skósveina sína til að ræna Tinna af heimili sínu að Labradorgötu í Brussel.
Annan þeirra tók SVEPPAGREIFINN, á sínum yngri árum, ítrekað í misgripum fyrir Hörð og það var ekki fyrr en hann var kominn vel á fullorðinsaldur að hann áttaði sig á þeirri villu sinni. Sem var auðvitað með algjörum ólíkindum vegna þess að þennan ólukkans náunga svipar ekki einu sinni til Harðar. Stýrimaðurinn Hörður kemur víða við í Tinna sögunum en glæpamannaflóra bókanna er þó ekki það ófrumleg að hann þurfi bæði að vera undirtylla Rassópúlosar og Fuglsbræðra. SVEPPAGREIFINN er reyndar kunnur fyrir hina einstöku ómanngleggni sína en það væri þó fróðlegt að vita hvort fleiri aðdáendur Tinna bókanna hafi nokkuð farið þessa sömu villu vegar. 
Útlitslega ber Hörður það algjörlega með sér að vera hörkutól, enda með alveg einstaklega harðneskjulegt yfirbragð. Hergé hefur heppnast ákaflega vel með persónusköpun hans og maður trúir því staðfastlega að þessi karakter gæti alveg verið til. Þó kallast svolítið á tveir persónuleikar úr elstu og yngstu bókunum. Það er nefnilega athyglisvert hvernig Hörður breytist í meðförum Hergé á þeim 36 árum sem líða á milli þess sem hann birtist í fyrstu sögunni (Vindlar Faraós) árið 1932 og þeirrar síðustu (Flugrás 714 til Sydney) árið 1968. Í eldri sögunum virðist hann fyrst og fremst vera samviskulaus hrotti sem vílar sér ekki við að beita líkamlegu ofbeldi ef á þarf að halda. Seinna, sérstaklega í Kolafarminum, þróast hann meira yfir í hávaðasaman, sjálfsumglaðan og hrottalegan yfirgangssegg en líklega er gáfnafar hans þó ekki samkeppnishæft við digurbarkalegan hávaðabelginn. En í síðustu sögunni þar sem hann kemur fyrir, Flugrás 714 til Sydney, er Hergé einhvern veginn búinn að lita hann sem óttalegan væskil og eiginlega sem hálfgerðan trúð, undirgefinn Rassópúlosi. Það er eiginlega búið að blása allt púður úr kallgreyinu. Í það minnsta getur SVEPPAGREIFINN ekki litið á hann sömu augum. Hörður er þannig gerður klaufalegur bæði í orði og á borði og er engan veginn sami maðurinn og í fyrri bókunum. Í Vindlum Faraós var Hörður stýrimaður jafnvel allt að því töffari. Sömu sögu má reyndar einnig segja um Rassópúlos. Í fyrri sögunum er yfir honum ákveðin reisn en í Flugrás 714 til Sydney er Rassópúlos orðinn að hálfgerðu viðrini - sem er þar að auki klæddur eins og fífl.
Hörður er líka frekar ófríður en það er oftar en ekki einkenni glæpamanna í teiknimyndasögum. Það er jafnvel eitthvað við hann sem minnir eilítið á knattspyrnuþjálfarann Gaua Þórðar í útliti en líklega er Hörður þó töluvert hávaxnari. Hörður reykir mikið og er í rauninni oftar en ekki með sígarettu eða vindil í kjaftinum. Í eldri bókunum er hann ævinlega með kaskeitið sitt á hausnum og í drapplitaða frakkanum sínum sem er ekkert ósvipaður frakka Tinna en seinna er uppbrett skyrta í svipuðum lit í uppáhaldi. Samkvæmt Wikipedia er Hörður bresk/bandarískur að þjóðerni og heitir Allan Thompson í upprunalegu seríunni eins og áður hefur verið minnst á. Í ensku útgáfunni er eftirnafni hans hins vegar sleppt og þar nefnist hann aðeins Allan til aðgreiningar frá Sköftunum en þeir heita auðvitað Thomson og Thompson í þeim þýðingum. Ekki er með vissu vitað hver var fyrirmyndin að Herði en sagan segir að Hergé hafi hitt breskan hermann á skrifstofa dagblaðsins Libération árið 1944 sem hugsanlega gæti hafa verið hugmyndin að honum.
Síðustu kynni lesenda Tinna bókanna af Herði stýrimanni koma fyrir á blaðsíðum 58 og 59 í Flugrás 714 til Sydney en þar er hann staddur í gúmmíbáti ásamt þeim félögum sínum úr glæpaflokknum; Rassópúlosi, Spæli, Páli Pumpu og Hans Búmm. Skyndilega birtist yfir þeim fljúgandi diskurinn sem hafði bjargað Tinna og félögum hans af eldfjallaeyjunni Púla-púla Bomba og skilur þá eftir í bátnum en tekur bófahópinn hins vegar með. Hver endanleg örlög Harðar stýrimanns urðu kemur þó aldrei fram en þó er vitað að Hergé gerði ráð fyrir honum í sögunni Tintin et l'Alph-Art (Tinni og leturlistin) sem hann náði ekki að klára áður en hann lést árið 1983. Því má gera ráð fyrir að þeim glæpamönnunum hafi verið skilað aftur til jarðar á einhvern góðan stað.

8. nóvember 2019

136. ZORGLÚBB KEMUR VÍÐA VIÐ

SVEPPAGREIFINN á sína letidaga og einn þeirra ku víst vera þennan föstudaginn. Diggir lesendur Hrakfara og heimskupara vita eflaust hvað það þýðir en fyrir þá hina, sem ekki eru jafn kunnugir háttum síðuhafa, er rétt að upplýsa um að það þýðir að færsla dagsins er bæði í styttri og ódýrari kantinum. En forsaga hennar snýst sem sagt um það að dóttir SVEPPAGREIFANS er í fimleikum í fimleikasal Glímufélagsins Ármanns í Laugardalnum á laugardagsmorgnum og Greifynjan móðir hennar fylgir henni þar jafnan eftir í gegnum súrt og sætt. Helsta aðkoma SVEPPAGREIFANS að þeim efnum er hins vegar að vera til taks og sækja þær mæðgur eftir æfingu er veður gerast válynd. Sú varð einmitt raunin í eitt sinn nú í haust og á meðan krílahópurinn var að klára sínar stórglæsilegu og tignarlegu æfingar, niðri á gólfinu í fimleikasalnum, ráfaði sá gamli um ganga félagsheimilisins og skoðaði meðal annars veggi byggingarinnar. Á þeim mátti bæði sjá myndir af fræknum fimleikahetjum glímufélagsins og skápa með fornum verðlaunagripum en einnig hafði gömlum fimleikabúningum verið stillt þar upp í þartilgerðum sýningarkössum. Einn þessara kassa skar sig svolítið úr og vakti sérstaka athygli SVEPPAGREIFANS.
Ekki fæst betur séð en að hinn dularfulli vísindamaður Zorglúbb hafi þarna átt einhvern hlut að máli þó ólíklegt megi reyndar teljast að hann hafi sjálfur einhvern tímann klæðst þessari múnderingu. Hans eiginn fatastíll er ólíkt látlausari og efnismeiri eins og við þekkjum auðvitað öll. SVEPPAGREIFINN er þess þó fullviss um að Zorglúbb hafi að einhverju leyti komið að ötulu starfi fimleikadeildar Glímufélagsins Ármanns í Laugardalnum.

1. nóvember 2019

135. ÞEKKTIR EINSTAKLINGAR Í LUKKU LÁKA

Íslenskir myndasögulesendur þekkja vel sögurnar um Lukku Láka en á þessu ári fagnaði serían um kappann 70 ára afmælinu sínu. Belgíski listamaðurinn Morris (Maurice de Bevere) á mestan heiðurinn af kúrekanum knáa en hinn afkastamikli, franski handritshöfundur René Goscinny var hans helsta stoð og stytta um árabil. Saman gerðu þeir sögurnar um Lukku Láka að einni vinsælustu myndasöguseríu veraldar. Fyrstu tvo áratugina eða svo birtust sögurnar í belgíska myndasögublaðinu Le Journal de Spirou en á tímaritinu störfuðu margir af bestu listamönnum þess tíma úr belgísk/franska myndasöguheiminum. Og í mörgum af þeim myndasögum, sem birtust í blaðinu, mátti finna dæmi um einkahúmor eða innanhúsbrandara höfundanna þar sem þeir skutu á og teiknuðu skopmyndir af hvorum öðrum, inn í sögurnar, en einnig af þekktum persónum og þá helst frægum kvikmyndastjörnum. Auðvitað eru sögurnar líka fullar af þekktum persónum úr mannkynssögunni og ekki þarf nema að nefna fáar þeirra sem leika mjög stór hlutverk. Billy the kid (Billi barnungi), Roy Bean (Hrói Grænbaun), Sarah Bernhardt (Sara Beinharða) og Calamity Jane (Svala Sjana) eru dæmi um það, svo ekki sé minnst á sjálfa Daltón bræður. Einnig bregður öðrum kunnum samtíma persónum fyrir í sögunum í smærri hlutverkum en reyndar verður að taka fram að sögusvið Lukku Láka bókanna er svolítið teygjanlegt í tíma. En á meðal þessara persóna má til dæmis nefna Abraham Lincoln, Mark Twain, Gustave Eiffel og Scott Joplin.
Það var ekki bara Morris sem var duglegur við þessa iðju því eftir hans dag hafa seinni tíma höfundar seríunnar tekið hann sér til fyrirmyndar og viðhaldið þessari skemmtilegu hefð. Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að skoða fáein dæmi með kunnum einstaklingum sem hafa verið teiknaðir inn í sögurnar um Lukku Láka í gegnum tíðina. En það var strax í fyrstu sögunni La Mine d´or de Dick Digger (Gullnáman - 1979) frá árinu 1947 sem Morris bauð upp á kunnuglegt andlit. Þar var um að ræða gamlan vin og samstarfsmann hans, af SPIROU tímaritinu, listamanninn André Franquin. Sá var reyndar ekki orðinn neitt sérstaklega kunnur á þeim tíma en allt áhugafólk um belgísk/franska myndasöguheiminn þekkir í dag þennan frábæra listamann sem auðvitað er frægastur fyrir verk sín um Viggó viðutan og Sval og Val svo einhverjir séu nefndir. Í Gullnámunni fær Franquin hlutverk rómantísks söngvara sem í íslensku útgáfunni raular vögguvísuna Bí bí og blaka eftir Sveinbjörn Egilsson. Morris teiknaði marga fleiri vini sína af listasviðinu í nokkrum öðrum sögum um Lukku Láka en Franquin var þó líklega þeirra frægastur.
Í upprunalegu, frönsku útgáfunni af bókinni La Mine d´or de Dick Digger er önnur saga sem nefnist Le Sosie de Lucky Luke eða Tvífari Lukku Láka en sú saga hefur ekki komið út hér á landi. Í íslensku útgáfunni er hin saga bókarinnar Arizona (Arizóna) frá árinu 1951. En í Le Sosie de Lucky Luke kemur André Franquin aftur fyrir en þar er hann hins vegar í hlutverki frekar drykkfelds skerfara.
Næsta dæmi, sem SVEPPAGREIFINN tekur fyrir, kemur úr bókinni Lucky Luke contre Joss Jamon (Óaldarflokkur Jússa Júmm) frá árinu 1958 en þar má finna tvo þekkta einstaklinga. Sá fyrri hét Jean Gabin og var þekktur franskur kvikmyndaleikari og svo sem engin ástæða til að vera að velta honum neitt meira fyrir sér en hinn var hins vegar sjálfur René Goscinny sem þarna hafði verið handritshöfundur að Lukku Láka í nokkrar bækur. Persónan sem Morris teiknaði sem Goscinny var einn af bófum Jússa Júmm og nefnist Pete I'lndécis.
Í sögunni Les Cousins Dalton (Daldónar, ógn og skelfing Vestursins - 1978), frá árinu 1958, má sjá einn af mörgum WANTED! dreifimiðum Lukku Láka bókanna þar sem auglýst er eftir eftirlýstum bófum og ræningjum villta vestursins. Á þessu tiltekna spjaldi er lýst eftir byssubófa sem nefnist Red Beard Yvan en þar má hins vegar sjá mynd af andliti handritshöfundarins og listamannsins Yvan Delporte. Hann var einna helst kunnur fyrir aðkomu sína að nokkuð mörgum af þekktustu sögupersónum teiknimyndablaðsins Le Journal de Spirou, eins og Viggó viðutan og Strumpunum, en auk þess gegndi hann hlutverki ritstjóra tímaritsins um langt skeið.
Sagan En remontant le Mississippi (Fúlspýt á Fúlalæk) birtist á síðum SPIROU á árinu 1959 og hefur að geyma að minnsta kosti eitt dæmi um þekkta persónu. Þarna er um að ræða hlutverk byssubófans Pistol Pete en reyndar eru ekki allir á eitt sáttir um hver sé fyrirmyndin að honum. Ýmist eru þeir báðir nefndir til sögunnar amerísku kvikmyndaleikararnir James Coburn og Lee Marvin en í bókinni Allt um Lukku Láka er Coburn einn nefndur. SVEPPAGREIFINN þekkir auðvitað báða þessa leikara en sjálfur er hann kunnur fyrir ómanngleggni sína og verður því að viðurkenna að hann treystir sér ekki til að meta um hvorn leikarann gæti verið að ræða.
Næsta skal nefna söguna Billy the kid (Billa barnunga) frá árinu 1961. Í þeirri sögu kemur fyrir ritstjóri nokkur er nefnist Valli Vamban (Josh Belly) og margir muna eftir en hann stýrir dagblaði Lumputanga sem kallast Lumpulúðurinn. Fyrirmyndin að Valla Vamban er enginn annar en Paul Dupuis hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu sem einmitt gaf út SPIROU blaðið sem sagan birtist fyrst í.
Í Lukku Láka sögunni Le 20e de cavalerie (20. riddaraliðssveitinni - 1977), sem birtist fyrst í SPIROU tímaritinu árið 1964, leikur hinn röggsami Skarpgeir ofursti (Colonel McStraggle) stórt og eftirminnilegt hlutverk eins og flestir muna, enda bókin í uppáhaldi hjá mörgum. En það er önnur saga. Skarpgeir mun vera skopstæling af bandaríska kvikmyndaleikaranum Randolph Scott sem lék meðal annars í fjölda vestrakvikmynda á fjórða, fimmta, og sjötta áratug síðustu aldar.
Chasseur de primes (Mannaveiðarinn) var fyrsta Lukku Láka sagan sem birtist í franska myndasögutímaritinu Pilote en hún var gefin út í bókaformi árið 1972. Andi spagettívestranna svífur yfir vötnum í bókinni og það var því vel við hæfi að bandaríski leikarinn Lee Van Cleef fengi stórt hlutverk í sögunni sem hinn ísmeygilegi mannaveiðari Elliot Belt. Hann var, ásamt Clint Eastwood, holdgervingur þessara tegunda kúrekamynda sem oftar en ekki höfðu yfir að ráða miklum hetjum sem gjarnan klæddust skósíðum og skítugum frökkum.
Sagan Calamity Jane (Svala Sjana - 1978), sem fyrst birtist í SPIROU tímaritinu á árunum 1965-66, hefur að geyma fyrirmyndir að tveimur frábærum kvikmyndaleikurum. Þar skal fyrst nefna mjög skemmtilega persónu sem nefnist Róbert Geiroddssen (Robert Gainsborough) og er siðameistari sem Lukku Láki fær að láni frá mannasiðaháskólanum í Houston (Hóstaborg) til að kenna Sjönu heldri kvenna siði. En Róbert er eftirmynd breska leikarans David Niven sem allir muna auðvitað eftir og er reyndar alveg sniðinn fyrir hlutverkið. Hinn leikarinn, sem teiknaður er inn í söguna, mun vera sjálfur Sean Connery en hann tekur að sér hlutverk kráareigandans og vopnasalans Ágústs Ostran (August Oyster) sem ku reyndar vera aðal bófinn í bókinni.
Næsta skal nefna söguna La Diligence (Póstvagninn), sem hefur því miður ekki enn komið út á íslensku, en í henni kennir ýmissa grasa. Þar kemur fyrir bandaríski leikarinn John Carradine, en hann er fyrirmyndin að fjárhættuspilaranum Cat Thumbs í sögunni, og svo bregður fyrir Alfred Hitchcock á tveimur myndarömmum þar sem hann tekur að sér hlutverk barþjóns. 
Árið 1986 kom út bókin Le Ranch maudit sem hefur að geyma fjórar styttri sögur um Lukku Láka en titilsagan er eftir franska listamanninn Michel Janvier. Þessi saga hefur að geyma nokkrar persónur sem þekktar fyrirmyndir eru af. Breski leikarinn Christopher Lee tekur að sér hlutverk fasteignasala, Groucho Marx (einn Marx bræðra) er veiðimaðurinn "Crazy" Buffalo, aftur er Alfred Hitchcoch í hlutverki barþjóns og að síðustu skal nefna franska söngvarann og kyntröllið Serge Gainsbourg sem timbraða fyllibyttu. Hér á landi var Gainsbourg einna þekktastur fyrir stunulagið fræga, Je t'aime… moi non plus, sem hann "flutti" ásamt bresku söngkonunni Jane Birkin.
Í bókinni La Belle Province, sem var fyrsta Lukku Láka sagan sem listamaðurinn Achdé (Hervé Darmenton) teiknaði, má finna fyrirmynd sem tengja má betur við nútímann. Það er eðlilegt enda kom þessi bók út á árinu 2004. Þarna er um að ræða kanadísku söngkonuna Céline Dion sem fær reyndar svolítið á baukinn í sögunni en einnig kemur þar fyrir hinn (miklu eldri) moldríki eiginmaður hennar og umboðsmaður, René Angélil, sem lést árið 2016.
Og að lokum skal nefna söguna La Corde au cou sem kom út árið 2006 en í þeirri bók er aftur leitað í smiðju gömlu kvikmyndastjarnanna og þar koma reyndar engar smá stjörnur við sögu. Í afturhvarfi til gömlu vestramyndanna má finna þá Kirk Douglas og John Wayne í hlutverki vagnekla peningavagns og þar spila þeir félagar bara nokkuð stóra rullu. Í þessari sömu sögu bregður leikkonunni frægu Elizabeth Taylor einnig fyrir á einum myndaramma.