29. desember 2017

39. JÓLABLÖÐIN HJÁ TINNA TÍMARITINU

Í tilefni jólahátíðarinnar er SVEPPAGREIFINN búinn að vera að dunda sér við það að undanförnu að kanna aðeins hvernig gömlu belgísku myndasögutímaritin (þessi stærstu voru auðvitað Le Journal de Spirou og Le Journal de Tintinfóru að því að koma jólastemningunni til skila hjá lesendum sínum. Í þetta sinn ætlum við því að skoða svolítið Le Journal de Tintin eða Tinna tímaritið eins og við myndum kalla það. En Le Journal de Tintin byrjaði fyrst að koma út í Belgíu í september árið 1946 og frá upphafi var þeirri útgáfu einnig dreift til franska málsvæðisins í Kanada. Stuttu síðar fengu Hollendingar líka sína útgáfu af blaðinu en í Hollandi kallaðist blaðið Kuifje. Fyrsta blöðin af frönsku útgáfunni hófu að koma út árið 1948 og þeim tímaritum var frá upphafi einnig dreift um franska hluta Sviss en frönsku og belgísku útgáfurnar voru í meginatriðum sama blaðið. Þó voru sitthvorar ritnefndirnar sem stýrðu blöðunum og útgáfunúmerin voru ekki þau sömu. Le Journal de Tintin kom út vikulega og þá ávallt á fimmtudögum en þegar mest var kom það út í um 300.000 eintökum á viku. Tinna myndasögutímaritið var að lokum lagt niður í nóvember árið 1988 og hætti þá að koma út. 
Jólaútgáfur þessara myndasögutímarita vöktu ætíð mikla athygli enda voru þau blöð yfirleitt veglegri en venja var og þau troðfull af skemmtilegu efni í tilefni jólahátíðarinnar. Forsíður þeirra voru sérstaklega vandaðar og mikið í þær lagt á fallegan hátt og með árunum hafa þessar glæsilegu jólaútgáfur tímaritanna orðið að eftirsóttum safngripum hjá myndasögunördum. SVEPPAGREIFINN ætlar aðeins að skoða örfáar af þessum forsíðum og um leið að bulla einhverja helvítis vitleysu í kringum þær.

En fyrsta jólablað hins belgíska Le Journal de Tintin (nr. 14/1946) kom fyrir sjónir lesenda sinna þann 26. desember árið 1946 og óhætt er að segja að þar hafi jólaandinn ráðið ríkjum á forsíðunni. Helstu persónurnar úr Tinna bókunum og auk þeirra; Alli, Sigga og Simbó, Blake og Mortimer, ævintýraunglingurinn Corentin og aðal persónurnar úr myndasögunum La légende des quatre fils Aymon, stilla sér á táknrænan hátt í kringum jötu Jesú barnsins og fylgjast þar með framvindu þeirra nafntoguðu viðburða. Það má því segja að Tinni hafi þannig verið viðstaddur tvo af merkilegri atburðum mannkynssögunnar. Hann stóð ekki bara í eldlínunni við að verða fyrsti maðurinn til að stíga fæti sínum á tunglið heldur var hann einnig viðstaddur fæðingu Sússa litla. Auðvitað...
Þessi jólaútgáfa af tímaritinu frá árinu 1946 kom einungis út í Belgíu þar sem franska útgáfan hóf ekki göngu sína fyrr en í lok október árið 1948.

En árið 1958 kom jólablaðið (nr. 51/1958) út þann 17. desember í Belgíu og degi seinna í Frakklandi (nr. 530) en á þeirri forsíðu var heldur betur jólalegt um að litast. Líklega er þetta ein allra sígildasta jólaforsíða Tinna tímaritsins og óhætt er að segja fallegri og hlýlegri verða þær varla. Tinni og Kolbeinn sjást skiptast á jólagjöfum fyrir innan glugga (væntanlega Mylluseturs) en prófessor Vandráður og Skaftarnir sinna sambærilegum hlutverkum í bakgrunninum. Tobbi man eftir smáfuglunum enda beinist athygli hans út um gluggann þar sem rauðbrystingur nartar í matarbita á kuldalegri gluggasillunni. Stofan er ríkulega skreytt og jólatréð setur eins konar punkt yfir i-ið. Afskaplega notalegt allt saman.
Hér er síðan jólablað ársins 1964 (nr. 844) úr frönsku útgáfunni en þessi mynd birtist reyndar einnig framan á kápu bæði franska (nr. 269) og belgíska (nr. 51/1953) jólablaðsins árið 1953 í eilítið öðruvísi útfærslu. Útgáfa belgíska jólablaðsins árið 1964 var hins vegar ekki eins og sú franska í það skiptið. Á myndinni má sjá þá félaga Tinna og Tobba, Kolbein kaftein, prófessor Vandráð og Skaftana á göngu, líklega einhvers staðar í sveitunum nálægt Myllufossi, en ekki kemur þó neitt sérstaklega fram á hvaða ferðalagi þeir eru. Hugsanlega eru þeir á leiðinni heim af helgileiknum frá forsíðunni hér á undan og Tinni hefur gripið með sér lamb úr fjárhúsinu til að hafa í jólamatinn en Kolbeinn einbeitir sér meira að drykkjarföngunum þó hann reyni reyndar að beina athyglinni frá þeim með brauðinu. Tobbi er með jólapakka í kjaftinum (örugglega belgískt konfekt), Vandráður er með allan hugann við dingulinn sinn og Skaftarnir hugsa bara um að standa í lappirnar - eða réttara sagt, að standa í fæturnar.
Og svona í framhjáhlaupi í lokin má SVEPPAGREIFINN líka til með að koma með aðra útgáfu, svona upp á grínið, af nákvæmlega þessari sömu forsíðu. En hana gerði svissneski skopteiknarinn Alain Delaloye og endurbætti 45 árum seinna eða árið 2009. Þarna eru Skaftarnir reyndar týndir en Tinni hefur mestar áhyggjur af því hvort Jósep sé búinn að kveikja á ofninum!
Tobbi er líka nokkuð góður.

En látum þetta gott heita í dag og GLEÐILEGT ÁR ...

22. desember 2017

38. JÓL Í MYNDASÖGUM

Nú er orðið ansi stutt í að hin árlega jólahátíð bresti á með öllum sínum hátíðleik og því tilvalið að bjóða upp á einhvers konar jólatengingu í færslu vikunnar. Í öllum kimum dægurmenningarinnar, hvort sem það er í tónlist, kvikmyndum, bókmenntum eða bara fjölmiðlum má finna vettvanga sem reyna að fanga hátíðleikann og stemmninguna á þessum fallega árstíma. Myndasögur eru þar engin undantekning. Það er því ekki seinna vænna að fletta svolítið í gegnum þær teiknimyndasögur sem komið hafa út á íslensku og kanna hvort að þar fyrirfinnist ekki eitthvað sem tengist blessuðu jólaamstrinu.
Eftir að hafa blaðað eilítið í myndasögum heimilisins komst SVEPPAGREIFINN að því að ekki er nú beint um auðugan garð að gresja í bókunum hans um jólatengt efni. Kannski fór eitthvað fram hjá honum en í það minnsta virðist hafa verið lítið um jólaþema í þeim teiknimyndasögum sem komu út á Íslandi á sínum tíma. Það var helst að jólin birtust í einhverri mynd í hinum frábæru bókum um Viggó viðutan. Þær bækur hafa þá sérstöðu að vera byggðar upp á litlum hálfrar- eða einnar síðu bröndurum, sem komu fram í SPIROU tímaritinu, en ekki á heilum sögum. Þetta gerði það að verkum að hægt var að bjóða upp á mjög fjölbreytilega brandara sem hæfðu hverjum árstíma í stað þess að heil saga væri bundin ákveðnum tímaramma. Í bókunum um Sval og Val má einnig finna nokkur dæmi tengdum jólahátíðinni. Byrjum samt á að skoða aðeins hvernig jólaþema birtist í Viggó bókunum.

Í bókinni Skyssur og skammarstrik (Le Lourd Passé de Lagaffe - 1986), sem bókaútgáfan Iðunn gaf út árið 1987, má finna jólabrandara sem birtist í SPIROU blaðinu líklega á árunum 1958-59.
Kúnstir og klækjabrögð (Gare aux gaffes du gars gonflé - 1973) er Viggó bók sem kom út á íslensku hjá Iðunni árið 1988 og hefur að geyma samansafn úr nokkrum af seríunum sem birtust um kappann. Þar á meðal var að finna nokkra brandara þar sem lesendum SPIROU hafði verið gefinn kostur á að senda inn hugmyndir fyrir teiknarann André Franquin. Að minnsta kosti einn þeirra var tengdur jólahátíðinni.
Það má finna nokkra jólatengda brandara í viðbót í Viggó bókunum og í áðurnefndri Kúnstum og klækjabrögðum má finna að minnsta kosti annan jólabrandara til. Auk þess er töluvert jólaþema í gangi í Viggó á ferð og flugi (Un gaffeur sachant gaffer - 1969) en einnig koma fyrir fleiri sambærilegir brandarar í bókinni Viggó bregður á leik (Des gaffes et des dégâts - 1968).
En skoðum aðeins meira en Viggó viðutan. Í Sval og Val bókinni Furðulegar uppljóstranir (La Jeunesse de Spirou - 1987) eftir þá Tome og Janry, sem er einhvers konar samansafn 5 stuttra sagna um yngri ár Svals, má finna litla 6 blaðsíðna sögu sem heitir Einkaþjónn forsetans eða Le Groom du président á frönsku. Þessi saga fjallar um það þegar Svalur lendir í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að leysa forseta Bandaríkjanna (Ronald Reagan?) af þegar hann lokast inni á hóteli á Þorláksmessukvöldi.
Sagan er kannski ekki beint jólasaga en jólastressið er þó undirtónninn og hún birtist upphaflega í aukahefti sem fylgdi tímaritinu SPIROU fyrir jólin árið 1982.

Og meira með þeim Sval og Val. Í bókinni Svörtu hattarnir (Les chapeaux noirs - 1950), sem Froskur gaf út árið 2015, má finna þrjár styttri sögur eftir André Franquin sem hann teiknaði á árunum 1949-50. Í einni þeirra, Svalur á Litlupattaeyju (Spirou chez les Pygmées - 1949), eru þeir félagar staddir inni í miðjum frumskógi um hánótt þegar undarlegur jólaandi hellist skyndilega yfir söguna á tveimur blaðsíðum. Þegar sagan hófst í myndasöguritinu SPIROU þann 25. júlí árið 1949 var upphaflega ekki gert ráð fyrir þessum óvænta útúrdúr.
En Charles Dupuis (einn eiganda blaðsins) var sannkristinn maður og óskaði eftir því að einhver jólatenging kæmi inn í söguna í jólablaði SPIROU (nr. 610) sem kom út þann 22. desember árið 1949. Franquin varð við þeirri bón og lét atvikið líta út fyrir að hafa verið draumur en fyrir vikið er þessi hluti sögunnar afskaplega skrítinn. Í sumum útgáfum bókarinnar er þessum tveimur blaðsíðum hreinlega sleppt en í öðrum ekki líkt og er í íslensku útgáfunni. 
Í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis - 1960) eftir Franquin, sem gefin var út á íslensku árið 1978, kom einnig fyrir sambærileg viðbót þegar sagan var birt upphaflega í SPIROU árið 1956. Margir muna eftir því snemma í sögunni þegar þeir Svalur og Valur mæta til bíósýningar Bitlu en eru svolítið seinir fyrir. Þegar þeir hafa komið sér fyrir í sætum sínum kynnir Bitla þá fyrir gestum salarins og uppsker lófaklapp fyrir. En í jólablaði SPIROU (nr. 975), sem kom út þann 20. desember árið 1956, tók sagan svolítið aðra stefnu.
Og enn um Sval og Val, því eina alvöru jólasagan sem komið hefur út á íslensku í myndasöguformi var úr þeim bókaflokki. Árið 1979 kom út á íslensku bókin Gullgerðarmaðurinn en sagan, sem er frá árinu 1969, var sú fyrsta sem franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier teiknaði eftir að André Franquin hætti með bókaflokkinn. Í lok bókarinnar um Gullgerðarmanninn fylgir með sex blaðsíðna jólasaga sem nefnist á íslensku Feluleikur á jólum eða Un Noël clandestin eins og hún heitir reyndar á frönsku. Þessa litlu sögu teiknaði Fournier fyrir jólin sama ár en hún var aðeins önnur í röðinni af þeim sem listamaðurinn gerði um þá Sval og Val.
Þeir félagar Svalur og Valur eru að vísu ekki beinlínis í aðalhlutverkum í jólasögunni Un Noël clandestin. Því sagan, sem gerist á einu kvöldi, segir í megindráttum frá Hinriki litla (Henri) en hann er sonur moldríkra foreldra sem halda hundleiðinlegt jólaboð á aðfangadagskvöld fyrir vini sína heldra fólkið. Hinrik litli er látinn algjörlega afskiptalaus og enginn tekur því eftir þegar hann stingur af úr veislunni, með risatertu í fanginu, og ákveður að kíkja í heimsókn til Jóa gamla bláfátæks og góðhjartaðs vinar síns sem býr einn í kofaræfli niðri við ána. 
Jói gamli (hann heitir Jean-Baptiste í frumútgáfunni) er afar ánægður með að fá Hinrik í heimsókn á aðfangadagskvöld og gefur honum fjarstýrðan bát í jólagjöf sem hann smíðaði sjálfur úr afgangsdóti. En tertan, sem Hinrik kom með, er allt of stór fyrir þá eina svo þeir grípa til þess ráðs að fara á flakk með tertuna til að reyna að deila henni með öðru fólki á aðfangadagskvöld. Þeir fá sér göngutúr í kvöldkyrrðinni og banka handahófskennt upp á hjá fólki í nágrenninu. Það gengur reyndar brösuglega, þar sem ekki eru allir tilbúnir til að fá ókunnuga í heimsókn á þessu kvöldi, þangað til að fyrir tilviljun þeir koma í heimsókn heim til Svals og Vals.
Skömmu áður höfðu þeir Svalur og Valur verið að opna jólagjafirnar sínar en þær höfðu meðal annars haft að geyma lítinn fjarstýrðan Zorbíl frá meistara Zorglúbb og nokkrar torkennilegar krukkur frá Sveppagreifanum. Krukkunum fylgdu ítarlegar leiðbeiningar Sveppagreifans um notkun þeirra um að ef þeim yrði hent í vatn, eftir að búið væri að opna þær, þá mynduðust fallegir flugeldar. Þeir fjórmenningar ákveða að skreppa út til að prófa bátinn í nálægri tjörn og þar gefst einnig tækifæri til að prófa flugeldana.
Un Noël clandestin birtist fyrst í SPIROU blaði númer 1652 þann 11. desember árið 1969 en það var 108 blaðsíðna veglegt jólablað.
GLEÐILEG JÓL

15. desember 2017

37. HVAÐ ER AÐ KOMA ÚT AF MYNDASÖGUM FYRIR JÓLIN?

Nú styttist í jólin og því alveg orðið tímabært hjá SVEPPAGREIFANUM að kanna aðeins og kíkja á hvaða teiknimyndasögur eru að koma út á íslensku fyrir hátíðarnar. Eitthvað verðum við, unnendur þessara skemmtilegu bókmennta, að eiga til að hafa ofan af fyrir okkur í slökun með uppþembdan mallakútinn eftir Hamborgarhrygg og ís hátíðarinnar. Í minningunni var líklega fátt notalegra yfir jólin en náttbuxnadagar í góðum hægindastól, með teppi yfir sér og með kisu og nýjustu teiknimyndasögurnar í fanginu. Og ekki var verra að hafa fáeinar jólasmákökur eða konfekt og Malt og appelsín á kantinum.

Eftir nokkurra áratuga myndasögusvelt eiga íslenskir myndasöguaðdáendur nú aftur kost á að eignast skemmtilegar teiknimyndasögur frá bestu listamönnum slíkra bókmennta í heiminum. Það getum við þakkað aðstandendum Frosks útgáfu sem hafa verið duglegir við að gefa út myndasögur á undanförnum árum. Líklega er magn þeirra engan veginn í þeim mæli sem þekktist hér á árum áður þegar tugir bóka voru gefnar út á ári hverju. En þó ... Froskur útgáfa var að senda frá sér um 10-12 titla á ári fyrstu árin og þeim fer frekar fjölgandi því að á síðasta ári voru þeir líklega 17 talsins. Núna fyrir jólin eru að koma út 16 bækur frá útgáfunni en á árinu 2017 eru líklega samtals hátt í 30 titlar í boði hjá Froski. Þetta er því farið að minna á gullaldarárin og gaman væri ef fleiri forlög sæu sér fært um að taka þátt á myndasöguútgáfunni. En best að skoða það helsta sem er að koma út hjá Froski útgáfu fyrir jólin og fellur undir áhugasvið þessarar myndasögusíðu SVEPPAGREIFANS.


ÁSTRÍKUR - Ástríkur og Gotarnir
Ástríkur og Gotarnir eru á listanum en þessi bók kom út hjá Fjölva í þýðingu Þorsteins heitins Thorarensen árið 1977 og er náttúrulega löngu orðin uppseld, týnd og tröllum gefin. Bókin hefur auðvitað fengið nýja íslenska þýðingu eða uppfærslu hjá Froski útgáfu og er algjörlega ómissandi í safn allra íslenskra myndasögusafnara. Sagan, sem er eftir þá René Goscinny og Albert Uderzo, heitiAstérix chez les Goths á frönsku og birtist fyrst í franska teiknimyndaritinu Pilote á árunum 1961-62 en kom fyrst út í bókaformi árið 1963. Ástríkur og Gotarnir er þriðja bókin í upphaflegu frönsku seríunni og fjórða Ástríks bókin sem Froskur útgáfa gefur út á íslensku. Alls eru Ástríks bækurnar nú orðnar 37 talsins og þar af hafa 23 þeirra verið gefnar út á íslensku, langflestar í boði bókaútgáfunnar Fjölva.


GOÐHEIMAR - Brísingamenið
Ný bók úr Goðheimasafninu, Brísingamenið eftir danska listamanninn Peter Madsen er að koma út og ástæða fyrir aðdáendur þessa vinsæla bókaflokks að gleðjast yfir því. Þetta er áttunda sagan í seríunni og hún hefur ekki komið út áður á íslensku en fimm fyrstu bækurnar í bókaflokknum höfðu verið gefnar út áður hjá Iðunni, með hléum, á árunum 1979-89. Þær voru síðan endurútgefnar á árunum 2010-15 og eftir það hafa komið út ein ný bók á ári. Brísingamenið er frá árinu 1992 en alls eru Goðheimabækurnar nú orðnar fimmtán talsins. Það væri frábært ef Froskur útgáfa myndi klára að gefa út allar bækurnar fimmtán.


INKAL - INKAL Seinni hluti
Seinni hluti vísindaskáldmyndasögunnar Inkal, eftir Moebius og Alexander Jodorowsky, er að koma út núna um jólin en fyrri hluti hennar var einmitt gefinn út fyrir jólin 2016. Þessi myndasaga er eiginlega ein sú allra fyrsta sem kemur út á íslensku sem er ekki er ætluð börnum og unglingum en SVEPPAGREIFINN man í fljótu bragði aðeins eftir bókinni um Birnu og ófreskjuna sem þannig er einnig háttað með. Efni þessara fullorðins myndasagna er þó gjörólíkt. Inkal sagan, sem er frá árinu 1980, er líklega ein af allra stærstu myndasögum þessa bókmenntageira og er eiginlega ómissandi fyrir unnendur alvöru teiknimyndasagna. Og þó að bækurnar séu aðeins tvær þá eru þær samtals um 300 blaðsíður og kosta auðvitað sitt. En þær eru algjörlega þess virði og þetta er virkilega metnaðarfull útgáfa sem er eiginlega skyldueign í hillur áhugafólks um myndasögur.


LUKKU LÁKI - Makaval í Meyjatúni
Froskur útgáfa heldur áfram að gefa út Lukku Láka bækurnar, eftir 33ja ára hlé á íslensku, og nú fyrir jólin kemur út ný bók úr þessari vinsælu seríu annað árið í röð. Þetta er sagan Makaval í Meyjatúni eða La Fiancée de Lucky Luke en hún kom upphaflega út árið 1985 og er númer 53 í upprunalegu seríunni en Morris (Maurice de Bevere) og handritshöfundurinn Gay Vidal eru skrifaðir fyrir bókinni. Alls hafa nú komið út 35 Lukku Láka bækur á íslensku úr opinberu seríunni og það er vonandi að enn verði framhald á útgáfu þessa bóka fyrir hina fjölmörgu aðdáendur bókaflokksins hér á landi.


STRUMPARNIR - Geimstrumpurinn
Ný strumpabók er komin út og að þessu sinni er það bókin Geimstrumpurinn frá árinu 1970 eða Le Cosmoschtroumpf eins og hún heitir nú á frummálinu. Í bókinni er líka önnur saga sem nefnist Veðurstrumpuvélin og ef SVEPPAGREIFANN misminnir ekki birtist sú saga einnig í bókinni um Galdrastrumpinn sem kom út hjá Iðunni árið 1980. Geimstrumpurinn er eftir Pierre Culliford (Peyo) og þetta er sjötta bókin í opinberu frönsku seríunni en samtals eru þær nú orðnar 35 talsins. Peyo lést reyndar árið 1992 en sonur hann Thierry Culliford tók við keflinu af föður sínum og hefur samið síðustu 20 sögurnar. Sú nýjasta kom út í ágúst síðastliðnum. Þetta er annað árið í röð sem Froskur útgáfa sendir frá sér strumpabók en alls hafa nú komið út 10 bækur um Strumpana á íslensku.


SVALUR OG VALUR - Sveppagaldrar í Sveppaborg
Þá er ný bók með Sval og Val að koma út en það er sagan Sveppagaldrar í Sveppaborg eftir André Franquin. Þessi saga heitir Il y a un sorcier à Champignac á frummálinu og var fyrsta Sval og Val bókin sem kom út í fullri lengd. Hún birtist fyrst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU á árunum 1950-51 og kom svo einnig út í bókaformi seinna árið. Þessi bók markar nokkur tímamót í sögunum um Sval og Val því að í henni er Sveppagreifinn kynntur fyrst til sögunnar en auk þess kemur Sveppaborg og nágrenni hennar einnig fyrir í fyrsta sinn. Þessari bók er SVEPPAGREIFINN (þ.e. sá sem þetta skrifar) búinn að bíða eftir í íslenskri þýðingu í næstum 40 ár og hún mun pottþétt fara á óskalistann fyrir jólin.


VIGGÓ VIÐUTAN - Vandræði og veisluspjöll
Og að síðustu má nefna nýja bók með snillingnum Viggó viðutan en það er sú þriðja úr bókaflokknum sem Froskur útgáfa sendir frá sér. Þessi bók nefnist Vandræði og veisluspjöll eða Le bureau des en gros og er númer 5 í opinberu seríunni en samtals eru bækurnar um Viggó orðnar 19 talsins. Árið 1980 kom út hjá Iðunni bókin Viggó - Vikadrengur hjá Val og var með sömu mynd á kápunni en ekki er þó um sömu bók að ræða. Viggó bækurnar sem voru að koma út á íslensku á sínum tíma voru ekki endilega með "réttu" forsíðumyndirnar á kápunum og innihaldið var reyndar einnig oft á tíðum svolítið úr ýmsum áttum og alls ekki í tímaröð. Froskur útgáfa er hins vegar núna að gefa bækurnar út í réttri tímaröð og með "réttu" kápunum samkvæmt opinberu röðinni.

Stór hluti þeirra heimilda sem birtist í þessari færslu er unninn úr visku fjölmargra þeirra fróðu og stórskemmtilegu meðlima hinnar frábæru Facebook grúbbu, Teiknimyndasögur.

12. desember 2017

36. SVALUR OG VALUR Í BÍÓ

Best að henda í eins og eina snöggsoðna aukafærslu í tilefni þess að von er á Giljagaur í nótt ...

En SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á bíómyndir með þeim teiknimyndahetjum sem við íslenskir lesendur þekkjum og nægir þar að nefna mynd um Litla Sval (Le Petit Spirou) sem frumsýnd var núna í september og svo aðra um Steina sterka (Benoit Brisefer: Les taxis rouge) sem sýnd var í bíó árið 2014.
En nú er loksins að verða einhver hreyfing á bíómyndinni um Sval og Val sem unnið hefur verið að um nokkurn tíma. Og ekki nóg með það, heldur er nú búið að frumsýna stiklu úr myndinni sem sjá má hér.
Myndin verður frumsýnd þann 21. febrúar 2018.

8. desember 2017

35. FRÆGT MÁLVERK Í TINNABÓK

Tinna bókin Leyndardómur Einhyrningsins, frá árinu 1943, markar heilmikil tímamót í þessum vinsæla bókaflokki því það er nefnilega í þessari bók sem óðalssetrið Myllusetur kemur fyrst við sögu. Þar höfðu hinir alræmdu forngripasalar, bófarnir Starri og Þröstur, aðsetur sitt og þjónninn Jósep birtist í fyrsta sinn í þessari bók. Í sögunni starfar hann fyrir þá Starra og Þröst og er alls ómeðvitaður um þá glæpastarfsemi sem þeir stunda. Um miðbik bókarinnar er Tinna rænt af öðrum undirtyllum þeirra bræðra og honum haldið föngnum í kjallara Mylluseturs í nokkrar blaðsíður en með hjálp níðþungs viðardrumbs tekst honum að flýja úr prísundinni. Sagan mallar áfram með viðeigandi æsingi á köflum og í seinni hluta hennar skiptir hún ekki bara um gír, heldur líka umhverfi. Tinni og Kolbeinn fara í fjársjóðsleit í framhaldsbókinni Fjársjóði Rögnvaldar rauða og í þeirri bók verða einnig merkileg tímamót. Jú, Vandráður prófessor er kynntur til sögunnar.

Undir lok bókarinnar um Fjársjóð Rögnvaldar rauða hafa þeir Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður fest kaup á Myllusetri á nauðungaruppboði. Tinni og Kolbeinn gera sér ferð niður í kjallarann, þar sem Tinna hafði verið haldið föngnum í fyrri bókinni, og þar niðri má sjá nokkuð merkilegan hlut. Þarna fara þeir félagar hirðuleysislegum höndum um málverk eitt sem er til í raun og veru.

Hergé hefur hér laumað inn í söguna málverkinu Portrait of Madame Mole Raymond frá árinu 1786 sem er eftir franska listmálarann Elisabeth Vigée Le Brun en hún var einnig þekkt sem Madame Le Brun. Portrait of Madame Mole Raymond er kannski ekki eitt af þekktustu málverkum listasögunnar en er þó í dag á Louvre safninu fræga í París.
Hergé var reyndar nokkuð duglegur við að setja inn málverk í Tinna sögurnar, bæði myndir sem skapaði sjálfur og eins verk sem þekkt voru fyrir. Portrait of Madame Mole Raymond var einmitt ein af þeim. Hann fékkst sjálfur við að mála á eldri árum og nokkur dæmi eða hugmyndir um abstrakt list hans má til dæmis finna í Tinna og Pikkarónunum. Í bókinni Tintin et l'Alph-Art sem Hergé vann að er hann lést stóð einmitt til að söguþráðurinn tengdist þessu áhugamáli hans.

1. desember 2017

34. VERSTU MYNDASÖGUR SVEPPAGREIFANS

Eins og líklega svo margir, sem gaman hafa af því að fletta myndasögum, á SVEPPAGREIFINN sínar uppáhalds teiknimyndasögur. Reyndar ætti hann kannski ekkert sérstaklega auðvelt með að raða þeim upp í ákveðinni röð þar sem það er engin ein myndasögusería sem hann heldur mest uppá. Hins vegar gæti hann auðveldlega sett upp TOPP 5 lista yfir uppáhalds teiknimyndasöguhetjurnar sínar óháð röð. En það er önnur saga og bíður betri tíma. En núna ætlar hann, þvert á móti, hins vegar að fara alveg í hina áttina og skoða aðeins þær myndasögur (sem komu út á íslensku) sem honum þykir hvað minnst til koma - það er að segja þær verstu. Sú úttekt er ekki byggð á neinni vísindalegri rannsóknarvinnu heldur eingöngu á hans persónulega mati og smekk.
En hvað teljast vera slæmar myndasögur? Líklega getur verið svolítið erfitt að skilgreina verstu myndasögurnar þar sem huglægt mat eða jafnvel smekkur fólks er afskaplega misjafn. Teljast sögurnar vera illa teiknaðar? Eru þær illa samdar? Eða bara leiðinlegar? Og svo má lengi telja. Líklega safnast þarna saman sittlítið af hverju af fyrrnefndum atriðum. Í þessari úttekt ætlar SVEPPAGREIFINN alla vega að velja sinn persónulega TOPP 5 lista og um leið að skýra og færa líka kannski svolítil rök fyrir sínu persónulega mati. Allt er þetta auðvitað til gamans gert og ber ekki að taka mjög alvarlega. Og svo mesta hlutleysis sé gætt er þeim raðað upp í stafrófsröð.

BENNI FLUGMAÐUR
SVEPPAGREIFANUM finnst bækurnar um Benna flugmann ekki góðar teiknimyndasögur. Best að koma því strax að. Þær eru reyndar svo lélegar að það var meira að segja töluverðum erfiðleikum bundið að nálgast upplýsingar um herlegheitin á Netinu. Þessar sögur hafa þá sérstöðu að þær voru búnar að vera þekktar hér á landi í nokkra áratugi áður en fáeinar Benna bækur komu út í myndasöguformi í kringum 1980. Bókaútgáfan Norðri hafði gefið út nokkrar "drengjabækur" með Benna á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og þær voru síðan endurvaktar snemma á þeim níunda, hjá Bókhlöðunni, með nokkrum bókum í viðbót. SVEPPAGREIFINN las meira að segja eitthvað af þeim bókum í æsku
Fjölvaútgáfan sendi síðan frá sér þrjár myndasögur um Benna á árunum 1979 til 1983 en þetta voru bækurnar; Tígrisklóin (1979), Geimstöð Hjalta (1980) og Flugvélahvarf yfir Kalahari (1983). Og það verður að segjast eins og er að líklega hefði átt að sleppa þessum myndasögum og láta "drengjabækurnar" duga. Þessar teiknimyndasögur eru svo frámunalega lélegar og illa teiknaðar að það hálfa væri nóg. Upphaflegu sögurnar eru eftir Englendinginn William Earl Johns en hann skrifaði bækurnar undir höfundarnafninu Captain W. E. Johns. Myndasögurnar þrjár, sem Íslendingar þekkja, eru byggðar á þessum sögum en mun fleiri bækur eru þó til í seríunni. Það voru tveir sænskir teiknarar sem komu að þessum þremur bókum sem komu út hjá bókaútgáfunni Fjölva. Bjorn Karlstrom teiknaði Tígrisklóna og Geimstöð Hjalta en Stig Stjernvik sá um að koma Flugvélahvarfi yfir Kalahari í bók. Að mati SVEPPAGREIFANS er bók Stjernvik alveg þokkalega sæmileg en sögur Karlstrom öllu verri.
Höfundurinn hefur tileinkað sér einstaklega stirðbusalegan teiknistíl sem lítur út fyrir að vera heimatilbúinn og er engan veginn að henta myndasöguforminu. Það vantar alla mýkt í teikningarnar og því er afskaplega erfitt að staðsetja stílinn en hann kemur augljóslega ekki úr belgísk/franska myndasöguumhverfinu sem við þekkjum svo vel. Stíllinn gæti hugsanlega helst hentað til að sýna ljótt, slasað fólk í skyndihjálparleiðbeiningum. Tónninn í litavali þessa myndasagna er líka alveg sérstaklega einhæfur og pirrandi og svo virðist sem höfundurinn hafi annað hvort verið óeðlilega hrifinn af brún/appelsíngulum tón eða hreinlega verið litblindur. Kannski er SVEPPAGREIFINN, líkt og aðrir íslenskir myndasöguneytendur, svo vel mataður og ofdekraður af vinsælustu og bestu belgísk/frönsku myndasögunum að allt annað virkar sem hjóm eitt.

FALUR

Teiknimyndasögurnar um fótboltafélagið Fal er sér kapítuli fyrir sig en bækurnar hafa töluverða sérstöðu í útgáfu myndasöguflórunnar á Íslandi. Þær voru einu myndasögurnar sem gefnar voru út hjá bókaútgáfunni Erni og Örlygi og eru hollenskar að upplagi. Sögurnar eru eftir þá Toon van Triel og John le Noble sem myndu líklega ekki teljast með færustu eða drátthögustu listamönnum álfunnar í bransanum en reyndar standa fáar teiknimyndasögur þeim að sporði í húmor og skemmtilegheitum. Og í raun er SVEPPAGREIFINN aðdáandi þeirra og getur, í fljótu bragði, aðeins nefnt bækurnar um Viggó viðutan sem virkilega fyndnari. En það er auðvitað bara smekksatriði. Kosturinn við þessa vitleysu er þó sá að líklega þurfa lesendur ekki að hafa neina grunnþekkingu eða áhuga á fótbolta til að hafa gaman af bókunum. Hins vegar er með ólíkindum hversu bækurnar um Fal eru illa teiknaðar og það dregur óneitanlega töluvert úr gæðum þeirra. Og reyndar svo mikið að sögurnar teljast eiginlega ómissandi á þessum lista yfir verstu myndasögurnar.
Teiknistíllinn er einstakur og ólíkur öllu því sem myndasöguaðdáendur á Íslandi eiga að venjast. Stíllinn er einhvers konar sambland af Herramönnunum og fígúrunum sem setja saman húsgögnin í IKEA leiðbeiningabæklingunum en minnir samt eiginlega helst á teikningar argentínska snillingsins Mordillo - nema að sá gaur er virkilega alvöru listamaður. Sögurnar eru hroðvirkislega samdar (SVEPPAGREIFINN er ekki einu sinni viss um að þessar sögur séu yfir höfuð samdar!) og einfaldar í grunninn. Það voru aðeins gefnar út þrjár bækur úr þessum bókaflokki á Íslandi á sínum tíma (1979-81) en í heildina eru sögurnar orðnar 35 talsins. Þær síðustu komu út árið 1998. Bækurnar eru gríðarlega vinsælar í Hollandi og sama má reyndar líka segja um íslensku útgáfuna. Í heimalandinu hafa meira að segja verið gefin út frímerki þeim til heiðurs. 
Bækurnar hafa verið ófáanlegar hér á landi í mörg ár og eru afar eftirsóttar hjá þeim sem safna teiknimyndasögum. Það hefur jafnvel heyrst að menn séu tilbúnir að borga þó nokkruð marga þúsund kalla fyrir sæmilega góð eintök af bókunum og það er allt að því slegist um sögurnar þar sem til þeirra næst. SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um þessa seríu hér.

HIN FJÖGUR FRÆKNU

Já, úff... hvað skal segja? Það verður strax að viðurkennast að SVEPPAGREIFANUM þykir afskaplega lítið til bókanna um Hin fjögur fræknu koma og er nánast í nöp við þær myndasögur. Það er eiginlega alveg sama hversu miklar staðalímyndir aðalpersónur bókanna hafa að geyma, þær eru eiginlega allar einhvern veginn ótrúlega flatar og litlausar. Meira að segja hundinum Óskari tekst ekki einu sinni að brjóta upp leiðindin með athugasemdum sínum eða tilburðum. Hans eina hlutverk virðist að vera með hrakspár um komandi atburði og benda lesendum á hið augljósa og fyrirsjáanlega. Til samanburðar má benda á að helstu fylgisveinar Tinna og Lukku Láka (þ.e. Tobbi og Léttfeti) eru notaðir til að fylla upp í tómarúm sinna myndasagna og koma oft með nauðsynleg innlegg eða athugasemdir í umræðuna. Og þeir eru undantekningalaust fyndnir. Hlutverk hundsins Óskars, í bókunum um Hin fjögur fræknu, virðist hins vegar eitt snúast um það að vera leiðinlegur!
Í heildina eru bækurnar um Hin fjögur fræknu orðnar 43 talsins og þar af komu 26 þeirra út í íslenskri þýðingu. Höfundar bókanna, teiknarinn Francois Craenhals og handritshöfundurinn Georges Chaulet, voru kannski ekki endilega lélegir listamenn en þeir náðu samt ekki að gera þessar myndasögur samkeppnishæfar af neinu viti. Þrátt fyrir að hafa jafnvel notið aðstoðar Tinna í einni sögunni af viðleitni sinni við að lyfta bókunum upp á hærra plan. SVEPPAGREIFINN fjallaði um það hérTeikningar Craenhals eru ekki að hjálpa til. Persónur bókanna hafa ekki þessa mýkt í hreyfingum eða limaburði sem eru svo áberandi í sögum til dæmis Peyos, Hergés og Franquins. Þetta gerir það að verkum að oft á tíðum virka sumir í bókunum mjög stífir og klunnalegir. Og svo virðast andlit margra persónanna hreinlega koma úr sitthvorum teiknistílnum - eiginlega ekkert samræmi þar á milli.
Sögurnar eru óþægilega einfaldar og virðast í fljótu bragði aðeins ætlaðar börnum yngri en 10 ára. Og íslenskum myndasögulesendum til huggunar, þá má geta þess að allra verstu bækurnar úr þessum bókaflokki hafa ekki komið út á íslensku... ennþá. En það má alls ekki líta á skoðun SVEPPAGREIFANS sem einhvern allsherjar dóm yfir bókunum um Hin fjögur fræknu. Þær hljóta að njóta einhverra vinsælda miðað við þann fjölda af bókum sem komið hafa út með þeim. Og SVEPPAGREIFINN þekkir meira að segja til eins aðila sem hefur gaman af bókunum og það er ekki slæmur maður.

SIGGI OG VIGGA
SVEPPAGREIFINN verður að byrja á því að gera svolitla játningu varðandi bækurnar um Sigga og Viggu og viðurkenna kæruleysisleg vinnubrögð. Hann sem sagt las ekki þessar bækur spjaldana á milli, við undirbúning færslunnar, líkt og hann gerði við stærstan hluta hinna seríanna á listanum. Hann á þessar tíu bækur sem komu út í íslenskri þýðingu á sínum tíma og las þær allar þegar hann eignaðist þær fyrir fyrir mörgum árum síðan. En að þeim lestri loknum tók hann þá ákvörðun að dæma teiknimyndasögurnar um Sigga og Viggu til eilífðar útskúfunar. Í framhaldi af því var tekin sú skynsamlega ákvörðun að þær yrðu ekki dregnar fram nema í neyð á tyllidögum. Og vissulega er tilefni til þess núna í tengslum við þennan Topp 5 lista yfir verstu teiknimyndasögur SVEPPAGREIFANS. Auðvitað dró hann fram bækurnar og fletti örlítið í gegnum þær en hann las þær ekki. Þessar bækur eru bara svo ótrúlega mikið rusl. Og það er eiginlega með algjörum ólíkindum að tæplega 370 sögur hafi verið gefnar út í þessum bókaflokki.
Sögurnar um Sigga og Viggu eru í eins konar fantasíuanda, þar sem ferðast er um í tíma og rúmi, og þær eru eiginlega jafn óskiljanlegar eins og þær eru vitlausar. Álfar, geimverur, drekar, hafmeyjar og þekktar manneskjur úr mannkynssögunni birtast jafnt sem verur úr grísku goðafræðinni og allt þar á milli. Og auðvitað er meira að segja ferðast til Íslands í bókunum oftar en einu sinni. SVEPPAGREIFINN á einhvern tímann eftir að fjalla um það.
Bækurnar tíu, sem allar komu út á íslensku á einu bretti, koma héðan og þaðan úr seríunni (af þessum tæplega 370 sögum) og engar tvær í röð. Þessar tíu bækur eru handahófsdreifðar frá seríunúmeri 76 (útgefin 1969) til 206 (útgefin 1993) og það er því algjörlega útilokað að reyna að fá eitthvað samhengi í heildarmyndina. Sögurnar eru hollenskar og í minningunni voru þessar myndasögur reyndar sæmilega teiknaðar og vandaðar þrátt fyrir fyrrnefndan útskúfunardóm. SVEPPAGREIFANN minnti meira að segja að það hafi verið eitthvað Hergé handbragð á þeim. En við það eitt að glugga aðeins í bækurnar á ný hurfu allar vonir um að þessar sögur hefðu kannski ekkert verið svo ofboðslega slæmar. Þær voru því líklega alveg jafn lélegar og SVEPPAGREIFANN hafði minnt.

STRUMPARNIR
Líklega kemur það einhverjum á óvart að sjá sjálfa strumpana á þessum lista yfir verstu myndasöguseríur SVEPPAGREIFANS en það er fullkomlega eðlilegt ef mið er tekið af allri skynsamlegri rökhugsun. Strumpasögurnar eru teiknaðar fyrir markhóp sem samanstendur líklega af börnum á aldrinum 3-10 ára og þar sem SVEPPAGREIFINN tilheyrir ekki lengur áðurnefndum hópi þá höfða þessar bækur afskaplega illa til hans. Líklega falla þær einfaldlega ekki lengur inn í þessa hefðbundu teiknimyndasöguflokka. Þær eru of barnalegar til þess. Því er þá kannski ekki rétt að segja að Strumpabækurnar séu slæmar, frekar að þær höfði ekki til SVEPPAGREIFANS. Það verður reyndar þó að taka það fram að títtnefndur SVEPPAGREIFI er mikill aðdáandi listamannsins Pierre Culliford (Peyo) og þá sérstaklega bókanna um Hinrik og Hagbarð.
Strumparnir eru hins vegar engan veginn að heilla þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir þeirra og bækurnar 35 (þar af 10 á íslensku) staðfesta reyndar þær vinsældir. Strumparnir eru bláir á lit, ca 40 cm tvífætlingar, flestir í hvítum sokkabuxum og með húfu, berir að ofan og búa í sveppum. Tungumál þeirra er afskaplega einkennilegt og allt að því óþolandi og nafngiftir strumpanna einkennast af hæfileikum þeirra. Yfirstrumpur, Gleraugnastrumpur, Smíðastrumpur, Kraftastrumpur og svo framvegis. Gleraugnastrumpur fékk reyndar seinna einhverra hluta vegna uppfærslu á sínu nafni og heitir í dag Gáfnastrumpur en það gerði ósköp lítið fyrir seríuna.
Strumparnir eru frekar einhæfir og karakterlausir og það er helst Kjartan galdrakarl sem skilur eitthvað eftir sig í bókunum. Sögurnar eru þokkalega vel teiknaðar og vandaðar, þó Peyo hafi alltaf litið á sig sem lélegan listamann, en þær eru einfaldar og um leið frumlegar og líklega er það nákvæmlega það sem gerir þær svona vinsælar. Grunntónninn eða boðskapurinn í sögunum, sérstaklega þeim eldri, snýst um þessi gömlu gildi þar sem allir eiga að vera góðir við hvern annan og vera ekki með fordóma. Peyo teiknaði fyrstu 16 sögurnar en eftir að hann lést árið 1992 tók sonur hans, Thierry Culliford, við. Í tíð Peyo voru sögurnar ósköp daprar en eftir að sonur hans tók við urðu bækurnar loksins verulega slæmar. Það er því mat SVEPPAGREIFANS að Strumpasögurnar eigi fullkominn tilverurétt á þessum lista.

Og þannig var það. Svona lítur sem sagt út TOPP 5 listi SVEPPAGREIFANS yfir þær myndasöguseríur sem honum þykja hvað verstar. Auðvitað hafa komið miklu fleiri myndasögur út á Íslandi sem eru virkilega slæmar en SVEPPAGREIFINN tók þá ákvörðun einblína aðeins á þær seríur sem alla vega þrjár bækur eða fleiri hafa komið út með. Það eru nefnilega til nokkrar virkilega slæmar seríur í viðbót þar sem einungis hafa verið gefnar út ein eða tvær bækur af hér á landi. Dæmi um það eru; Bleiki pardusinn, Pésli panda og Stjáni blái. Látum þetta duga í dag.