21. ágúst 2020

172. Í LEIT AÐ AFRÍSKUM TINNA STYTTUM

Flestir muna líklega eftir því þegar margs konar afrískir munir úr dökkum viði fóru að birtast í sölu hér á landi fyrir um þrjátíu árum. Í Kolaportinu var til dæmis varla hægt að þverfóta fyrir slíku dóti og þannig er það líklega enn þann dag í dag. Mest voru þetta handunnir skrautmunir af ýmsu tagi. Mikið af einhvers konar galdragrímum af öllum stærðum og gerðum, geisladiskastandar, alls kyns styttur og jafnvel húsgögn. Þetta þótti allt ægilega fínt og framandi og mörg íslensk heimili fengu á stuttum tíma einhvers konar afrískt yfirbragð, jafnvel þó eina tenging heimilanna við Afríku kæmi í gegnum Kolaportið. Mörgum árum seinna fóru þessir sömu gripir að fylla nytjamarkaði landsins og SVEPPAGREIFINN viðurkennir meira að segja að hafa sjálfur fjárfest í slíku timburverki í Góða hirðinum fyrir nokkrum árum. Þar var um að ræða einhvers konar galdrakall, um 70 sentimetra á hæð, sem var orðinn grár af vanrækslu eftir langvarandi útiveru og vosbúð. Kallinn frískaðist þó verulega við hálfan lítra (útvortis) af baneitruðum fúavarnarvökva ættuðum frá Kjörvara. En galdrakarlinn góði fékk síðan fast heiðurssæti við sumarbústað fjölskyldunnar austur í sveitum og stendur þar blýsperrtur vörð um sólpallinn. Hann heitir Mundi.
Á ferðum sínum erlendis á undanförnum árum hefur SVEPPAGREIFINN oft og margsinnis rekist á sambærilegt dót á hinum margvíslegustu tegundum útimarkaða. Þar má jafnan sjá ýtna sölumenn, af afrískum uppruna, að reyna að selja fjölbreytilegan varning sinn í básum sínum innan um annað sambærilegt skran. Fyrir nokkrum árum var hann til dæmis á ferðinni í borginni Locarno sem er í suðurhluta Sviss en hún er ekki langt frá ítölsku landamærunum. Þarna var fjölskyldan nýkomin til borgarinnar og var að arka frá lestarstöðinni, í gegnum miðbæinn, með ferðatöskur sínar og annað plássfrekt dót á leið upp á hótel sem staðsett var uppi í miðri fjallshlíð fyrir ofan borgina. Í miðbænum var starfrækt einhvers konar farandsmarkaðstorg og þar rak SVEPPAGREIFINN augun í lítinn bás sem einmitt hafði að geyma slíkan afrískan viðarvarning. Og innan um galdragrímur og berbrjósta konustyttur rakst hann skyndilega á heilan hóp af úttálguðum tréfígúrum úr Tinna bókunum. SVEPPAGREIFINN bókstaflega hoppaði hæð sína af kæti og hugsaði sér virkilega gott til glóðarinnar þegar fjölskyldan yrði búin að losa sig við farangur sinn upp á hóteli og fá sér einhvern bita. Eftir að því var lokið strunsaði GREIFINN því af stað með fjölskylduna á eftir sér en kom þá að galtómum kofanum! Búið var að pakka saman öllum markaðnum og hann hreinlega með öllu horfinn af yfirborði jarðar. SVEPPAGREIFINN hélt þó áfram í vonina og næstu dagana dvaldi fjölskyldan í borginni og fylgdist reglulega með því hvort götumarkaðurinn birtist aftur en það gerðist því miður aldrei.
Næstu árin hafði SVEPPAGREIFINN því sérstaklega auga með afrískum viðarvarningi á slíkum markaðstorgum og í sama tilgangi voru hefðbundnir flóamarkaðir einnig skannaðir ítarlega með þess konar vörur í huga. Fyrir rúmlega ári síðan rakst hann svo á um tveggja metra langan Tinna, á markaði í borginni Ascona í Ticino héraðinu í Sviss, innan um nokkra gíraffa og prúðbúna herramenn. Stærð fígúrunnar gerði það reyndar að verkum að nær ómögulegt var að ferðast með kvikindið og því var tekin sú ákvörðun að fjárfesta ekki í Tinna að sinni. En á þessu svæði fóru hjólin reyndar aðeins að snúast. Ascona er staðsett við Maggiore vatnið og á öðrum markaði, sem staðsettur var í bæ á nálægum slóðum við vatnið, fann síðuhafi fleiri fígúrur úr Tinna bókunum. Fæstar þeirra voru þó nægilega áhugaverðar til að SVEPPAGREIFINN freistaðist til að kaupa þær en hann var þó greinilega kominn á ákveðna slóð. Á enn einum götumarkaðnum rakst hann síðan á brúnklæddan Tinna sem hélt á Tobba í fanginu. Sá var um 80 sentimetrar á hæð og óþarflega valtur á fæti enda hafði nefið á honum augljóslega fengið að kenna á því eftir slæma byltu.
Ekki fékk sá Tinni heldur ferðalag til Íslands í vinning. Það var þess vegna ekki fyrr en SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans hafði siglt yfir Maggiore til borgarinnar Luino, sem er Ítalíu megin við vatnið, að hann rakst loksins á það sem hann hafði verið að leita eftir. Í Luino er þekktur flóamarkaður sem reyndar er kunnur um allar Evrópu fyrir stærð sína en er þó að sama skapi ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Alla vega ekki fyrir SVEPPAGREIFANN. Þarna kennir auðvitað ýmissa grasa en mest af því tengist þó matvörum og ýmis konar fatnaði og smávörusölu. Markaðurinn er risastór, með meira en þrjúhundruð og fimmtíu sölubása og hefur verið starfræktur á þessum stað í næstum því fimmhundruð ár. Þrengslin og mannmergðin voru engan veginn að skapi SVEPPIGREIFANS en þarna fann hann þó nokkra bása með afrísku handverki úr tré. Nokkrir þeirra höfðu að geyma styttur eða fígúrur úr Tinna bókunum og þær voru flestar um 30 til 40 sentimetrar á hæð en einnig voru til stærri fígúrur sem voru sambærilegar þeim sem SVEPPAGREIFINN hafði áður rekist á. Tinni og Tobbi, Skaftarnir og prófessor Vandráður voru þar mest áberandi en Kolbein kaftein virtist hins vegar vera svolítið erfiðara að finna.
Á flóamarkaðnum í Luino var því auðvitað ekki hjá því komist að fjárfesta loksins í einum útskornum timbur-Tinna í afrískum stíl. Fyrir valinu varð um það bil 30 sentimetra stór útgáfa, af þessari þekktustu myndasöguhetju Belga, þar sem Tobbi er einnig haganlega skorinn út úr sama viðarkubbi. Fígúran er nokkuð gróf, líkt og aðrar sambærilegar afrískar styttur, og er máluð í heldur sterkari litum en lesendur Tinna bókanna eiga að venjast. En styttan sómir sér engu að síður vel innan um aðra teiknimyndasögutengda muni síðuhafa og vonandi eiga fleiri slíkir gripir eftir að bætast við síðar henni til samlætis. Ef minni SVEPPAGREIFANS svíkur ekki þá átti styttan að kosta heilar 50 evrur, sem honum þótti dýrt á ítölskum flóamarkaði, en með prútti tókst honum að lækka verð hennar niður í 30. Hinn afrískættaði sölumaður hefur þó án nokkurs vafa stórgrætt á skærgrænum Íslendingnum og örugglega verið hinn hæstánægðasti með söluna.
En annað þessu tengt fyrst byrjað er að fjalla um Tinna styttur hér á Hrakförum og heimskupörum. Nýlega rakst SVEPPAGREIFINN nefnilega á gamla grein í einhverjum erlendum fréttamiðli þar sem kíkt er í heimsókn í lítinn skúr sem staðsettur er við bakgötu í höfuðborginni Kinshasa í Lýðveldinu Kongó. Þangað væru líklega margir aðdáendur Tinna bókanna einnig til í að koma í heimsókn. Þessi skúr er vinnustofa og verkstæði kongóska handverks- og listamannsins Auguy Kakese en hann hefur, síðastliðin fimmtán ár, haft fjölda manns í vinnu hjá sér við að framleiða styttur af mörgum persónum Tinna bókanna. Fígúrurnar eru allar unnar í höndunum en í gegnum tíðina hefur hann látið framleiða þúsundir slíkra fígúra og selt vestrænum ferðamönnum sem koma til borgarinnar. En eins og allir líklega vita hefur Lýðveldið Kongó sterka tengingu við Tinna. Þó bókin Tinni í Kongó sé umdeild hefur sagan þó alltaf höfðað sterkt til meginþorra íbúa landsins. Almennt eru Kongóbúar frekar stoltir af þessari tengingu og þrátt fyrir að sagan sé stútfull af fordómum og ranghugmyndum hefur hún alltaf verið nokkuð vinsæl í Afríku. Auguy Kakese vill til dæmis sjálfur meina að um 75% kongósku þjóðarinnar hafi lesið bókina og þetta er sú Tinna bók sem almennt er langerfiðast að nálgast í Kongó - hún sé alltaf uppseld. 
Evrópskir ferðamenn, sem koma til Kinshasa, hafa því verið duglegir að sækja sér minjagripi úr smiðju Kakese en þá er hægt að nálgast á ýmsum sölustöðum sem dreifðir eru víðsvegar um borgina. Gripirnir eru reyndar nokkuð misjafnir að stærð og umfangi en sumir ferðamannanna eru tilbúnir að borga morðfjár, allt að 200.000 krónur, fyrir margar af þessum gullfallegu tréstyttum. Þær eru mjög vandaðar og ekki í þeim sama stíl og hinar hefðbundnu Tinna styttur sem SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að eltast við. Flestar þessara styttna eru af Tinna sjálfum og sýna hann við ýmis tækifæri í ævintýrum sínum en helstu meðreiðarsveina hans úr bókunum má líka finna þar. Og vegna þess að þær eru handgerðar eru að sjálfsögðu engar af styttunum eins.
Eins og sjá má á þessum myndum eru hillur vinnuskúrsins í Kinshasa troðfullar af þessum frábæru styttum. Það lítur því út fyrir að næsti viðkomustaður myndasögunörda eftir Covid, hvenær sem það verður, verði hin Tinna-væna höfuðborg Lýðveldisins Kongó - Kinshasa.
Annars er eiginlega ekki hjá því komist, svona undir lok þessarar færslu, að minnast aðeins á það að fyrir um ári síðan voru SVEPPAGREIFANUM gefnar tvær nokkuð merkilegar styttur úr leir sem gerðar voru af hæfileikaríkri leirlistakonu. Þessi listakona vissi af myndasöguáhuga SVEPPAGREIFANS og færði honum tvö sérunnin verk af tveimur af uppáhalds sögupersónum hans úr hinum belgíska hluta myndasöguheimsins. Hér er um að ræða stílfærðar styttur af þeim Tinna og Viggó viðutan og óneitanlega þykir SVEPPAGREIFANUM vænt um þessa fallegu skúlptúra. 
Og úr því að farið er að nefna leirlistaverk af myndasögupersónum er ekki úr vegi að minnast einnig á skemmtileg verk sem listamaðurinn Fannar Þór Bergsson, eða LeiraMeira eins og hann kallar sig, hefur verið að vinna að og selja. SVEPPAGREIFINN rak einmitt augun í færslu sem hann setti inn á Facebook-grúbbuna Teiknimyndasögur þar sem hann vekur athygli á verkum sínum og heimasíðu. Fannar Þór leirar hinar ýmsu fígúrur eftir pöntunum og það er tilvalið að hafa samband við listamanninn í gegnum heimasíðuna hans Leirameira.com ef einhvern langar að eignast styttu af uppáhalds myndasögupersónunni sinni eða til gjafa. Frábært framtak og skemmtilegt.

7. ágúst 2020

171. MEÐ ÞEIM VERRI

Það eru eflaust einhverjir sem hafa áttað sig á því að SVEPPAGREIFINN heldur úti bloggsíðunni Hrakförum og heimskupörum þar sem hann sérhæfir sig í umfjöllunum um þær teiknimyndasögur sem komið hafa út á íslensku. Þar fer hann stundum hamförum við að kryfja hina ólíkustu kima þessa áhugamáls síns og kemur þar jafnan nokkuð víða við. Í fæstum tilfellum er þó eitthvað vit í því sem hann lætur frá sér. Yfirleitt reynir SVEPPAGREIFINN að fjalla um þessi nördalegu áhugamál sín á sem hlutlausastan hátt en þó kemur einnig fyrir að hann láti tilfinningarnar ráða. Þannig á hann það auðvitað til að hrósa því sem honum finnst vel gert og er í uppáhaldi en einnig getur hann skammast eða nöldrað út af efni sem honum finnst ekki undir neinum kringumstæðum vera neitt vit í. Slíkt mat er þó að sjálfsögðu mjög afstætt og ber ekki að taka af mikilli alvöru enda er smekkur fólks afar ólíkur og misjafn. Einhvern tímann snemma á ferli Hrakfara og heimskupara tók hann til dæmis saman færslu sem fjallaði um það sem hann taldi vera nokkrar af verstu myndasögunum í eigu SVEPPAGREIFANS og í annað skipti taldi hann sig (reyndar af svolítilli illgirni) hafa fundið út hver væri alversta myndasagan sem gefin hefði verið út á Íslandi. Bókin Hin fjögur fræknu og geimskutlan hlaut þann vafasama heiður hjá síðuhafa og á þeim tímapunkti hafði hann ekki grun um að þann botn væri mögulega hægt að botna. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN reyndar að fullyrða að honum hafi tekist að finna myndasögu sem er enn verri en áðurnefnd Hin fjögur fræknu bók en óneitanlega er hann nú búinn að finna afar slaka bók.
En fyrst ... SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst aðeins á það hér hvaða bækur myndasöguhillur hans hafa meðal annars að geyma. Uppistaða þeirra bóka er að sjálfsögðu mest íslenskar teiknimyndasögur en það safn er þó ekki alveg tæmandi. Í hillurnar vantar fáeinar myndasögur sem SVEPPAGREIFINN hefur ekki lagt mikið á sig við að nálgast en eru samt til á sérstökum bókalista hans sem dreginn er fram við þar til gerð tækifæri. Þetta er ein og ein myndasaga sem hann grípur með sér, þegar hann sér þær, ef bækurnar eru vel með farnar og ódýrar. Flóknara er það ekki og svipaða sögu má eflaust heyra frá öðrum aðilum sem safna myndasögum. Á þessum lista eru núna til dæmis ein eða tvær bækur með Hinum fjórum fræknu, ein Goðheima bók og bókin um Alla Kalla svo einhverjar þeirra séu nefndar. Og svo eru á listanum reyndar líka myndasögurnar um Trilla og Silla, Stjána bláa og Bleika pardusinn. Síðarnefndu bækurnar átti SVEPPAGREIFINN aldrei sem barn og hafði reyndar aldrei gerst svo forvitinn (eða hugaður) að fletta í gegnum þær. Þær bækur voru allar gefnar út af Fjölva útgáfunni og komu út á árunum 1979-80. Þarna var Þorsteinn Thorarensen hjá Fjölva búinn að senda frá sér allar Tinna bækurnar og var nú að einbeita sér að því að koma Lukku Láka bókunum út á færibandi. Myndasöguútgáfan á Íslandi var einmitt að ná hápunkti á þessum árum og helstu útgefendurnir voru að prófa sig áfram með efni í þessu vinsæla bókaformi. Bókaútgáfan Iðunn náði að landa vinsælum seríum eins og Sval og Val, Viggó viðutan, Strumpunum og Hinriki og Hagbarði og Fjölva útgáfan fór því að prófa sig meira áfram með myndasögur sem komu ekki frá fransk/belgíska svæðinu. Trilli og Silli, Stjáni blái og Bleiki pardusinn tilheyra einmitt þeim bókum. Þessar teiknimyndasögur hafa verið nokkuð lengi á hinum áðurnefnda lista SVEPPAGREIFANS og fyrir fáum vikum rakst hann einmitt á ódýrt og ólesið eintak af Bleika pardusinum en sú bók heitir einfaldlega Bleiki pardusinn leikur lausum hala. Það er einmitt hún sem er umfjöllunarefni dagsins.
Nú er það yfirleitt svo að þær myndasögur sem bætast í safn SVEPPAGREIFANS, og teljast ekki á meðal hinna vinsælustu eða bestu, fara jafnan óskoðaðar á sinn stað í hillurnar. Í augum eigandans eru þessar afgangsbækur einfaldlega bara nauðsynlegur hluti af safninu hans og teljast því sjaldnast áhugaverðar til lestrar. Það kemur þó fyrir stöku sinnum að ein og ein myndasaga er gripin löngu seinna af handahófi úr hillunum og gluggað í þær í rólegheitunum. Þannig gerðist það til dæmis með hina arfaslöku teiknimyndasögu Hin fjögur fræknu og geimskutlan. Bleiki pardusinn leikur lausum hala fór þó aðra leið. Bókin lenti efst í stafla af myndasögum, sem átti eftir að ganga frá, og blasti því við SVEPPAGREIFANUM við óvænta tiltekt. Hann greip því bókina til handagagns og er nú ekki aðeins búinn að fletta í gegnum þessa myndasögu heldur tók hann sig einnig til og hreinlega las bókina. Og svo aftur sé komið inn á það sem nefnt var í upphafi þessarar færslu þá er það þessi bók, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem telst þessi slaka myndasaga sem þar var minnst á. Það er þó kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að þessi bók sé jafningi hinnar verstu bókar (með fullri virðingu fyrir Hinum fjórum fræknu) en ansi er hún léleg.
Myndasögurnar um Bleika pardusinn sem komu út á Íslandi voru raunar tvær og þetta er fyrri bókin. Hin heitir Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki og eftir því sem SVEPPAGREIFINN best veit er þá bók ekki að finna í myndasöguhillum heimilis hans. Ekki enn þá að minnsta kosti. Svolítið ósamræmi er með brot þessara tveggja bóka því Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem kom út árið 1979, er harðspjaldaútgáfa en Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki er hins vegar í mjúku kiljubroti, sambærilegu Ástríks bókunum, og kom út árið 1980. Fjölva útgáfan hefur áttað sig á því, eftir að fyrri bókin kom út, að líklega væri ekki réttlætanlegt að kosta mjög miklu til bókar númer tvö í seríunni. Sú ráðstöfun virðist hafa verið eðlileg og sanngjörn því ekki komu fleiri bækur út hér á landi með Bleika pardusinum. Þessar bækur eiga því ósköp litlar tengingar við þær teiknimyndasögur sem verið var að gefa út hér á landi á þessum árum. Þær eru miklu meira í ætt við myndasögublöðin með Gög og Gokke eða Tomma og Jenna sem Siglufjarðarprentsmiðjan var að gefa út á svipuðum tíma. Snöggsoðnar, stuttar, einfaldar og fjöldaframleiddar sögur, unnar upp úr teiknimyndum og ætlaðar frekar ungum lesendum, en með afskaplega takmörkuðum gæðum. 
Líkt og áður kom fram eru þessar myndasögur ekki af fransk/belgíska málsvæðinu. Bækurnar um Bleika pardusinn, Stjána bláa, Denna dæmalausa, Köttinn Felix og Trilla og Silla eru auðvitað byggðar á þessum amerísku teiknimyndum sem allir þekkja en koma þó frá sitthvorum framleiðslufyrirtækjunum vestan hafs. Upprunalegu sögurnar um Bleika pardusinn birtust í sérstökum Pink Panther blöðum, á sjöunda og áttunda áratuginum í Bandaríkjunum, sem nefndust ýmist The Pink Panther and the Inspector eða bara The Pink Panther en útgáfufyrirtækið Gold Key Comics gaf þau út þar. Til Íslands virðast þær koma í gegnum samstarf við sænska útgáfufyrirtækið Semic Press sem gáfu sögurnar út undir heitinu Rosa Pantern þar í landi. Í íslensku bókunum tveimur hefur þessum sögum verið safnað saman, átta í hvorri bók, og í því formi voru þær einnig gefnar út á nágrannalöndunum og eflaust víða. Svo vinsælar voru þessar myndasögur reyndar á Norðurlöndunum að Semic Press framleiddi sínar eigin sögur með leyfi Gold Key Comics og svo virðist sem það séu einmitt þær útgáfur sem birtust í íslensku bókunum tveimur. Ýmsir höfundar komu að þessum myndasögum en fyrir íslensku útgáfunum eru einfaldlega skrifaðir Mirisch og Geoffrey sem er í raun bara hluti af amerísku framleiðslufyrirtæki og því ekki beinir höfundar.
En hvað varðar hina lélegu teiknimyndasögu, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, þá er það afskaplega döpur bók og hreint með ólíkindum að Fjölvi skuli hafa látið draga sig út í þá útgáfu. Fjölvi hafði gert mjög vel með útgáfum sínum á bæði Tinna, Lukku Láka og Ástríks bókunum og metnaður útgáfunnar á öðru efni hefði því kannski átt að liggja í svolítið hærri gæðaflokki. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins velt fyrir sér ástæðunum en líklega hefur Iðunn verið búin að tryggja sér alla bestu bitana frá belgíska myndasögusvæðinu á þessum tíma. Útgáfa Fjölva á þessum B-vörum sínum hafi aðeins verið örvæntingafull tilraun til að reyna að hanga í keppinautunum. Fjölvi var auðvitað enn að gefa út Lukku Láka bækurnar en Iðunn hafði samt klárlega tekið forystuna á hinum litla íslenska myndasögumarkaði á þeim árum. Það var Þorsteinn sjálfur sem þýddi bókina Bleiki pardusinn leikur lausum hala og líklega er það textameðferðin sem er mest að trufla hinn nöldurgjarna SVEPPAGREIFA. Allur texti bókarinnar, hvort sem hann kemur fyrir í talblöðrunum, titlum hinna átta sagna eða einföldum skýringartexta, er settur upp á þann hátt að hann virkar mjög fráhrindandi - alla vega fyrir SVEPPAGREIFANN. Textinn er í einhvers konar óútskýranlegum orðaleikjum, bundnu máli eða ljóðaformi, sem hugsanlega má skilgreina sem nokkurs konar þulur eða hreinlega í rappstíl og er afskaplega truflandi. Hvort Þorsteinn ákvað sjálfur að setja textann upp á þennan hátt eða hvort hann var bein þýðing úr upprunalegu bókinni skal ósagt látið en hvimleiður er hann - þ.e.a.s. textinn!
Nú skal það reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN er auðvitað ekkert eins og fólk er flest. Hann er til dæmis gæddur þeim einkennilegu eiginleikum að vera mjög torlæs á ljóð og kvæði og hefur jafnvel skilgreint eða greint sig með einhvers konar ljóðblindu - hvað sem það nú er. Kannast einhver við hugtakið eða sambærilega greiningu? Hann les reyndar mikið en við lestur hleypur hann ávallt yfir allt sem heitir ljóð eða kvæði í bókunum. Í sögunum um Harry Potter sleppti hann til dæmis öllum kvæðum og í Hringadróttinssögu hljóp hann jafnvel yfir heilu blaðsíðurnar á löngum köflum án þess að líta einu sinni á þær. Það þarf víst ekki að taka það fram að ekki er til ein einasta ljóðabók á heimili hans og hann fær nánast ofnæmisviðbrögð við það eitt að sjá gömlu bláu Skólaljóðin. Með öðrum orðum, SVEPPAGREIFINN skilur ekki ljóð og það er líklega helsta ástæða þess hve hann lætur þessa hvimleiðu Bleika pardus bók fara svona í taugarnar á sér. Hann gat hreinlega ekki einbeitt sér að bókinni. Sjálfsagt eru þó einhverjir aðrir lesendur bókarinnar sem hafa gaman af þessari uppsetningu textans en, eins og klárlega kemur fram í framgreindu máli, er textaformið SVEPPAGREIFANUM hins vegar engan veginn að skapi.
Eins og áður segir eru sögurnar í Bleiki pardusinn leikur lausum hala átta talsins en þær eru reyndar mislangar. Ein þeirra er til dæmis bara fjórar blaðsíður að lengd og önnur átta blaðsíður en hinar eru allt þar á milli. Þessar stuttu sögur eru auðvitað mjög einfaldar, enda ætlaðar ungum lesendum, og eru líklega að einhverju leyti byggðar á hinum sígildu teiknimyndum um Bleika pardusinn sem SVEPPAGREIFINN hafði reyndar nokkuð gaman að í æsku. Í grunninn fjalla þær allar um stutt ævintýri Bleiks þar sem hann leikur jafnan aðalhlutverkið gegn litla kallinum (sem byggður er á persónu Inspector Clouseau) en sá gegnir mörgum misjöfnum hlutverkum í bókunum. Allar sögurnar byggjast því á heppni Bleika pardusins og þá um leið óheppni þess litla
SVEPPAGREIFINN var í svolitlum vafa um hvort hann ætti yfir höfuð að vera nokkuð að fjalla um þessa bók í Hrakförum og heimskupörum. Bókin tilheyrir ekki hinum hefðbundna fransk/belgíska myndasögupakka, sem naut hvað mestra vinsælda á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar, heldur er hún meira í ætt við amerískar afþreyingamyndasögur fyrir börn. En þetta er víst samt myndasaga, sem kom út á íslensku, og þar með hefur hún unnið sér inn rétt til þátttöku þótt ekki teljist hún beint til áhugasviðs síðuhafans. Ætli SVEPPAGREIFINN eigi þá ekki líka einhvern tímann á næstunni eftir að fjalla um útgáfur Siglufjarðarprentsmiðjunnar, sem mokuðu út myndasögublöðunum um nokkurra ára skeið, með Tarzan og Son Tarzans fremsta í flokki. Enn er alla vega af nægu en misáhugaverðu efni að taka í myndasöguforminu til að fjalla um.