27. mars 2020

156. LITLI LUKKU LÁKI

Enn halda hinir óútreiknanlegu tímar áfram sínu striki og eina vitið í stöðunni er að taka þátt í einföldustu forvörn í heiminum - þ.e. að drullast til að halda sig heima! Á þeim vettvangi er því affarsælast fyrir SVEPPAGREIFANN að demba sér aðeins í myndasögufræðin til að dreifa huganum svolítið. En með fjölbreyttari afþreyingu, tilkomu stafrænnar margmiðlunar og ekki síst almennrar leti og áhugaleysis barna og unglinga, hefur áhugi á teiknimyndasögum dvínað mikið á undanförnum áratugum. Helstu kaupendur þessara myndasagna í seinni tíð hafa verið fólk sem nú er komið á miðjan aldur (eða jafnvel orðið háaldrað) og tilheyrði áður þeim kynslóðum sem lásu þessar bækur í æsku en lítil endurnýjun virðist hafa orðið á lesendahópnum. Því hafa útgefendur myndasagna gert ýmislegt til að reyna að glæða áhuga fólks á þessum afurðum sínum á ný. Hluti af þeirri markaðssetningu hefur til dæmis gengið út á að reyna að byggja upp nýjan grunn af lesendum og helstu markmiðin þar þá verið að ná til yngstu markhópanna. Það þótti til dæmis vænleg aðferð að hefja útgáfu á nýjum hliðarseríum þar sem gömlu myndasöguhetjurnar voru yngdar upp og sýndar algjörlega í nýju ljósi. Bernska hetjanna átti sem sagt að laða að þessa nýju lesendur. Það tókst reyndar ekkert sérstaklega og nýjum lesendum fjölgaði lítið. En nokkrar af þekktustu sögupersónunum fengu þetta nýja barndómshlutverk og SVEPPAGREIFINN fjallaði meira að segja aðeins um þær seríur hér á Hrakförum og heimskupörum fyrir tæplega tveimur árum síðan. Myndasögurnar um Lukku Láka eru af mörgum taldar á meðal þeirra bestu sem franska málsvæðið í Evrópu gaf af sér og þær bækur eru til að mynda í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Þannig varð til hliðarserían um Kid Lucky eða Litla Lukku Láka, sem líklega mun aldrei verða gefin út hér á landi, en í dag er þó ætlunin að fjalla aðeins um hana. 
SVEPPAGREIFINN hefur verið nokkuð duglegur við að sanka að sér þessum teiknimyndasögum um Kid Lucky. Gæði þeirra eru reyndar svolítið takmörkuð en síðuhafi hefur þó lúmskt gaman af þeim og hefur því verið að grípa með sér eintök af bókunum þegar hann hefur rekist á þau. Því þótt þessar myndasögur teljist seint til einhverra tímamótaverka þá má ekki gleyma því að þær eru samt auðvitað hluti af Lukku Láka fjölskyldunni. Á alveg sama hátt og myndasögurnar Le Petit Spirou (Litli Svalur) sem íslenskir lesendur fengu elítið smjörþefinn af undir lok tuttugustu aldarinnar. Báðar þessar seríur hafa að geyma efni sem er reyndar ekkert sérstaklega þroskandi en höfundar þeirra telja þær eflaust vera við hæfi þeirra aldurshópa sem komnir eru á hvolpavitsskeiðið. Þá hafa þær að geyma brandara sem eru í hefðbundnu kúk- og pissformi leikskólaáranna og slíkir mannkostir eldast seint af mönnum. Líklega er það einmitt nákvæmlega þetta tiltekna skemmtanagildi sem hinn óþroskaði SVEPPAGREIFI laðast helst að í sögunum. Efni og frásagnarmáti þeirra eiga einnig klárlega að höfða frekar til drengja en stúlkna og sú tilhögun hefði vafalaust geta gengið fullkomlega upp á seinni hluta síðustu aldar. SVEPPAGREIFINN hefur verið nokkuð duglegur að sýna fimm ára dóttur sinni þær myndasögur sem hann var sjálfur að byrja að fletta á hennar aldri og hún er til dæmis þegar byrjuð að glugga aðeins í Tinna bækurnar. En það er nú frekar ólíklegt að hann eigi eftir að ota seríunum um Litla Sval og Litla Lukku Láka eitthvað sérstaklega að henni eða barnabörnunum þegar að því kemur.
Hliðarserían um Litla Lukku Láka var reyndar ekki alveg hið fyrsta sem gert var um Lukku Láka á hans unga aldri. Árið 1995 kom út bók sem nefndist einmitt Kid Lucky en tveimur árum seinna var svo sagan Oklahoma Jim, gefin út en þær fjalla báðar um æsku Lukku Láka. Þessar tvær bækur virðast reyndar ekki tilheyra upprunalegu, frönsku Lukku Láka seríunni en eru samt almennt gefnar út sem venjulegar Lukku Láka bækur í öðrum löndum. Þær eru báðar sagðar vera eftir listamanninn Pearce og handritshöfundinn Jean Léturgie. Síðar kom í ljós að á bak við dulnefnið Pearce voru teiknaratvíeykið umdeilda Yann og Conrad. Sá síðarnefndi hefur í seinni tíð verið þekktastur fyrir að hafa tekið við að teikna Ástríks bækurnar árið 2013 eftir að Albert Uderzo settist í helgan stein. Yann er hins vegar kunnur fyrir aðild sína að bókunum um Gormana, sem allir þekkja, og tvær bækur um Litla Viggó (Gastoon) sem slógu reyndar alls ekki í gegn.
En þessar tvær bækur úr Lukku Láka seríunni hafa að geyma sitt hvoru heilu söguna og fjalla um bernsku Láka. Kid Lucky segir meðal annars frá því hvernig hinn munaðarlausi ungi Láki þvælist um villta vestrið með gullgrafaranum Old Timer og einnig hvernig Léttfeti kemur til sögunnar. Í Oklahoma Jim kynnist hann síðan Daltón bræðrum í fyrsta sinn. Áður en sú saga var fyrst gefin út kom reyndar upp ágreiningur, á milli listamannanna og útgefandans Lucky Productions, sem gerði það að verkum að samningar voru riftir og tekin var ákvörðun um að bókin færi ekki í sölu. Franska útgáfan af Oklahoma Jim, sem prentuð var í hundrað og fimmtíu þúsund eintökum, var því ekki seld heldur gefin sem aukaeintak með öðrum bókum sem kaupendur versluðu af Lucky Productions. Af þeim sökum er sú útgáfa mjög eftirsótt í dag af söfnurum. En það er önnur saga.
Kid Lucky bókaflokkurinn sjálfur hóf hins vegar göngu sína undir lok nóvember árið 2011 þegar fyrsta bókin í seríunni, Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy, kom út hjá Dargaud útgáfunni. Það er franski listamaðurinn Achdé (Hervé Darmento) sem á heiðurinn af þessari seríu en hann á svo sem ekki langt að sækja Lukku Láka þekkingu sína. Achdé hafði verið lærlingur hjá Morris og tók einmitt við aðalseríunni um Lukku Láka sjálfan árið 2004, eftir að Morris lést árið 2001, og hefur síðan teiknað átta nýjustu sögurnar í upprunalega bókaflokknum. Bókin Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy samanstendur að mestu af einna síðna bröndurum um daglegt líf hins unga Lukku Láka (og æskufélaga hans) í villta vestrinu. Það er ekki ósvipað því formi sem við þekkjum til dæmis úr bókunum um Viggó viðutan og Litla Sval. En þessi fyrsta bók Kid Lucky seríunnar hefst þó á stuttri sex blaðsíðna sögu. Þar segir frá því hvernig kúrekinn Sam finnur brunnar rústir af vagni sem augljóslega hefur orðið fyrir árás indjána og á þeim sömu slóðum finnur hann einnig nokkurra daga gamalt ungabarn. Hann tekur það með sér til heimabæjar síns, Nothing Gulch (allir kannast við Einskisgil), sem er í nágrenninu en þar tekur hinn stjórnsami og ráðríki kráareigandi Martha við barninu. Ungabarnið er að sjálfsögðu Lukku Láki og Martha gengur honum þegar í móðurstað.
Sextíu og fimm árum eftir að kúrekinn knái kom fyrst fram á sjónarsviðið birtust því loksins þau svör um uppruna og fjölskyldu Lukku Láka sem margoft hefur verið spurt um í gegnum tíðina. Nú er Morris, faðir Lukku Láka, auðvitað látinn og því erfitt að spyrja hann hvort þessi nýtilkomni uppruni kúrekans hafi verið í einhverju samræmi við hans eigin hugmyndir. Og kannski voru þær hugmyndir heldur aldrei til hjá honum. Svo má líka vel vera að þetta handrit Achdé hafi verið unnið í fullu samráði við Morris áður en hann lést. Hinar áðurnefndu sögur um Lukku Láka Kid Lucky og Oklahoma Jim, sem fjalla um bernsku Láka, voru unnar undir eftirliti Morris og því má vel vera að hann hafi skilið eftir sig einhverjar leiðbeiningar um uppruna hans. Í þessari sex blaðsíðna örsögu Achdé, í byrjun fyrsta heftisins um Kid Lucky, var því hugsanlegum öllum hugmyndum Morris um uppruna Lukku Láka hent út á hafsauga.
Fyrsta bókin um Kid Lucky gekk það vel að fljótlega var hafist handa við framhald bókaflokksins. Næsta bók seríunnar, Lasso périlleux, kom út árið 2013, Kid Lucky - Statue Squaw árið 2015, Kid Lucky - Suivez la flèche er frá árinu 2017 en nýjasta bókin kom út fyrir jólin 2019 og heitir Kid Lucky - Kid ou double. Achdé hefur því haft þann háttinn á að senda frá sér bók úr Litla Lukku Láka seríunni annað hvert ár en á árunum á móti hafa þá komið út sögur í upprunalega Lukku Láka bókaflokknum. Nú eru því komnar út fimm bækur með Kid Lucky en fyrstu þrjár bækurnar eru allar eins uppbyggðar. Í byrjun þeirra eru fyrst ein sex blaðsíðna saga, þar sem hin eldri útgáfa af Lukku Láka fléttast einnig oft inn í söguna, en afgangurinn af hverri bók samanstendur síðan af einna síðna bröndurum líkt og í fyrsta hefti seríunnar. Í fjórða heftinu, Kid Lucky - Suivez la flèche, er þessu reyndar aðeins öðruvísi háttað en sú bók endar á fimm blaðsíðna jólasögu. SVEPPAGREIFINN er ekki enn svo vel settur að hafa eignast og flett nýjustu bókinni, Kid Lucky - Kid ou double, en reikna má með að uppbyggingu hennar sé háttað á svipaðan hátt og hinum fyrri.
Achdé er höfundur allra bókanna en þær hafa fengið nokkuð jákvæð viðbrögð frá lesendum eftir að þær hófu að koma út. Kaupendur seríunnar eru reyndar ekki sá markhópur sem stjórnendur útgáfunnar hefðu helst óskað eftir en gömlu lesendur hennar virðast hafa tekið bókunum þokkalega vel. Almennt lítur út fyrir að menn séu nokkuð sáttir við teikningar Achdé, hvort sem það er í Kid Lucky eða upprunalegu seríunni, og heilt yfir þykir stíllinn alls ekki svo langt frá Morris. Sjálfur var Achdé mikill aðdáandi Lukku Láka bókanna í æsku og dreymdi sem barn um að verða myndasöguhöfundur. Þegar hann var spurður hvað hann ætlaði að gera þegar hann yrði orðinn stór þá sagðist hann ætla að teikna Lukku Láka. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki verið mjög hrifinn af teikningum hans, í upprunalegu Lukku Láka seríunni, en viðurkennir þó að þær fara batnandi þó enn eigi hann nokkuð í land með að ná Morris. Achdé er klárlega með hæfileika en SVEPPAGREIFINN gerir kröfur. Við erum jú að tala um Lukku Láka.
Serían um hinn unga Láka er hins vegar í sjálfu sér fín og fyndin. Þarna kemur fram alveg ný sýn á Lukku Láka og bernsku hans, í villta vestrinu, gerð ágæt skil með mörgum skemmtilegum bröndurum. Neðst á hverri blaðsíðu má finna svolítið textabrot þar sem fram kemur ýmis fróðleikur eða útskýringar á einhverju efni sem tengist viðkomandi brandara. En það er eiginlega bara í fyrstu bókinni, í sex síðna sögunni, sem eitthvað nýtt um hann kemur fram. Þar er uppruni hans er gerður upp en einnig skýrt frá því hvers vegna hann kallast Lukku Láki. Afgangurinn af seríunni snýst meira um fyndna heilsíðubrandara sem reyndar eru bara nokkuð vel heppnaðir. Þó efni brandaranna tengist oftar en ekki hinum alræmda kúk- og pisshúmor æskuáranna þá er heilt yfir reynt að miðla ákveðnum boðskap til hins unga markhóp seríunnar. Bókaflokkurinn var auðvitað fyrst og fremst skapaður fyrir börn. Litli Lukku Láki er til dæmis frekar sjaldan með byssu við höndina heldur er hann oftar en ekki vopnaður vígalegri teygjubyssu - sem er auðvitað miklu heilbrigðara. Og í seríunni kemur skýrt fram hvers vegna hann hefur ekki ánetjast áfengi líkt og algengt er með suma kollega hans í villta vestrinu úr upprunalegu seríunni.

20. mars 2020

155. VEIRAN ER BÓK DAGSINS

SVEPPAGREIFINN hefur yfirleitt ekki lagt það í vana sinn að detta í dramatískar hugleiðingar í föstudagsfærslum sínum. En hinir fordæmalausu tímar kalla þó á efni sem hæfa þeim óhugnanlegu vikum sem framundan eru. Það þarf nefnilega að leita rúmlega öld aftur í tímann til að finna sambærilegt ástand hér á landi. Já eða reyndar sem heimurinn allur þarf að glíma við þessar stundirnar. Eflaust munu færslur Hrakfara og heimskupara því að einhverju leyti verða litaðar af þessum víðsjárverðu tímum á næstunni. Allt er það þó gert til að létta áhugafólki um myndasögur (og öðrum) stundirnar og getur vonandi um leið dreift huga þeirra sem á því munu þurfa að halda. Það er því algjörlega við hæfi að benda á Sval og Val bókina Veiran, sem kom út hjá Iðunni árið 1984, og er í uppáhaldi hjá mörgum. Sú bók er auðvitað tilvalin í færslu dagsins.
Veiran, eða Virus eins og hún heitir reyndar á frummálinu, var fyrsta bókin í seríunni sem var eftir hina nýju höfunda Tome og Janry og kom einmitt út í Belgíu þetta sama ár - 1984. Þær voru þó ekki ýkja margar Sval og Val bækurnar sem gefnar voru út á Íslandi sama ár og þær komu út í Belgíu. Þessi myndasaga er að vísu ekki í hópi hinna bestu úr seríunni, að mati SVEPPAGREIFANS, en er þó alveg ágætis bók. Það sem skilur eiginlega mest eftir sig hjá síðahafa, við lestur hennar, er sú merkilega uppgötvun að Sveppagreifinn (hinn eini sanni) dundar sér augljóslega, í frítíma sínum, við að búa til framúrstefnulega snjókarla!
Það er því alveg tilvalið fyrir þá sem eru í sóttkví heima hjá sér eða eru jafnvel þegar orðnir veikir (og hafa heilsu til) að sökkva sér aðeins ofan í lestur seríunnar um Sval og Val. Eða einhverja aðra af þeim fjölmörgu bókaflokkum sem verið var að gefa út hér á landi fyrir um fjörtíu árum. Lestur teiknimyndasagna er ekki bara notaleg afþreying heldur léttir hann líka klárlega marga lund.
Landlæknir hefur látið hafa það eftir sér að líklegt sé að hápunktur faraldursins hér á Íslandi muni verða skömmu fyrir miðjan apríl. Páskarnir hafa auðvitað verið tímasettir á þeim slóðum í almanakinu (þ.e.a.s. ef þeim verður ekki aflýst eins og Eurovision!) en SVEPPAGREIFINN hefur gert viðeigandi ráðstafanir varðandi þá. Þá ætlar hann að leggja sitt af mörkum við að reyna að stytta fólki stundir en hann hefur nokkuð lengi, með hléum reyndar, verið að dunda sér við að punkta niður skemmtilega áhugavert myndasöguefni. Ætlunin er að birta það hér um páskana.

En ... æji, förum öll varlega.

13. mars 2020

154. FLÁRÁÐUR STÓRVESÍR

Þetta eru skrítnir og víðsjárverðir tímar og hver holskeflan á fætur annarri skellur á íslensku þjóðinni og reyndar einnig afgangnum af heiminum. Þá er lítið annað í stöðunni en að dreifa huganum um lendur myndasöguheimsins og skella á einni föstudagsfærslu. En loksins ætlar SVEPPAGREIFINN að láta verða af því að henda í eina langþráða færslu um Fláráð stórvesír en sú sería er klárlega ein af hans uppáhalds. Líkt og með bækurnar um Ástrík tók það síðuhafa töluvert langan tíma að átta sig á því að bókaflokkurinn um Fláráð, eða öllu heldur Ævintýri Harúns hins milda eins og hann heitir reyndar, hafði einhverra hluta vegna orðið útundan á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN var að vinna að færslu um René Goscinny fyrir nokkrum vikum, þar sem Fláráður kemur einmitt aðeins við sögu, þegar hann uppgötvaði þá ósvinnu. Slík frammistaða er SVEPPAGREIFANUM að sjálfsögðu til mikilla vansa og háborinnar skammar. Það er því kominn tími á að stikla aðeins á stóru með Fláráði stórvesír og félögum hans enda gengur það engan veginn til lengdar að þessi snilldar sería sé höfð úti í kuldanum.
En seint á árinu 1959 höfðu listamaðurinn Albert Uderzo og handritshöfundurinn René Goscinny, ásamt nokkrum félögum sínum, stofnað myndasögutímaritið Pilote í Frakklandi. Strax frá upphafi birtust í blaðinu teiknimyndasögur um Ástrík gallvaska eftir þá félaga og slógu rækilega í gegn. Snemma komu því fram einstakir hæfileikar Goscinny við að setja saman skemmtileg handrit með sögulegum skírskotum. Ástríks sögurnar gerast í hinu forna Rómaveldi en nokkrum árum áður hafði hann einnig byrjað að semja handrit fyrir belgíska listamanninn Maurice de Bevere (Morris) sem fjölluðu um kúrekann snjalla Lukku Láka. Þær sögur gerast að sjálfsögðu í villta vestrinu. Morris hafði þá þegar sent frá sér nokkrar Lukku Láka sögur en með tilkomu Goscinnys urðu þær fljótlega gríðarlega vinsælar. Um René Goscinny hefur SVEPPAGREIFINN fjallað svolítið áður og lesa má um hann hér. Í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldarinnar var Goscinny því orðinn höfundur tveggja af vinsælustu myndasögum Evrópu. En það var augljóslega ekki nóg fyrir hann. Auk ótal annarra verkefna hóf hann nú einnig að semja handrit fyrir franska listamanninn Jean Tabary en þær myndasögur eru sóttar í heim ævintýra 1001 nætur. Þarna urðu til Ævintýri Harúns hins milda (Les aventures du Calife Haroun el Poussah) en þær hófu göngu sína í belgíska myndasögutímaritinu Record og birtust í fyrsta sinn í blaðinu þann 15. janúar árið 1962.
Hinn franski Jean Tabary, sem var reyndar fæddur í Svíþjóð árið 1930, kom að nokkrum myndasöguseríum á ferli sínum en Ævintýri Harúns hins milda urðu þó hans þekktustu verk. Teiknistíll Tabary eru nokkuð auðþekkjanlegar en honum hefur helst verið lýst sem kraftmiklum og taugaveikluðum. Og eins undarlega og það hljómar þá má alveg taka undir þá skilgreiningu. Fyrstu sex sögurnar um Ævintýri Harúns hins milda voru síðan gefnar út saman í bókaformi, af frönsku Dargaud útgáfunni árið 1966, undir heitinu Le Grand Vizir Iznogoud en þær voru allar átta blaðsíður að lengd. Þegar Record teiknimyndablaðið hætti að koma út færðust sögurnar alfarið yfir til Pilote en þar birtust þær allt til ársins 1977. Um það sama leyti hættu sögurnar að koma út í bókaformi hjá Dargaud og Jean Tabary stofnaði sitt eigið útgáfufyrirtæki fyrir bækurnar.
En eins og áður hefur verið nefnt gerast þessar sögur á tímum 1001 nætur sem þó eru á nokkuð óljósu tímabili í fortíðinni. Upphaflega, þegar serían fór af stað, var Haroun El Poussah est le calife (kalífinn Harún hinn mildi) aðalsöguhetja sagnanna og ríkti í hinni fornu Bagdad. Það aðalhlutverk hans átti þó eftir að breytast en við komum að því síðar í færslunni. En kalífinn er óttalega meinlaus, góður og hrekklaus náungi, sem vill öllum vel og er því dáður af þjóð sinni og þegnum. Um leið er hann líka einstaklega latur og vill helst eyða öllum sínum tíma í mjúku fleti og þá yfirleitt sofandi. En þegar kalífinn er vakandi fer hans mesti tími í að borða. Það má líka vel sjá á vaxtarlagi hans. Harún hinn mildi er ekki mikið fyrir að fara út úr höll sinni og sést því frekar sjaldan á meðal þegna sinna. Það er helst að hann komi sér úr bælinu þegar góðhjörtuðum þjónum úr hirð hans tekst að sannfæra hann um að grípa í spil af vestrænum toga. Kalífinn Harún er því barnslegur í öllum sínum háttum og einfeldni og það er því ekki laust við að samviskan nagi SVEPPAGREIFANN svolítið þegar hann kallar kalífann heimskan. En það er hann reyndar klárlega.
Helsti ráðgjafi kalífans er stórvesírinn Iznogoud (nafn hans segir auðvitað allt) eða Fláráður eins og hann nefnist á íslensku. SVEPPAGREIFINN er ekki vel að sér (eða nennti öllu heldur ekki að gúggla það) í hinum fornu valda- eða leiðtogastigum múslima og áttar sig því ekki á hvort stórvesírinn sé næstur kalífanum í tign. Fláráður stórvesír er alla vega algjör andstæða Harúns hins milda. Hann er grimmdin uppmáluð, illgjarnt, svikult skrímsli og fullur af öfund. Mildi kalífans, meðvirkni hans, leti og heimska gerir það hins vegar að verkum að Fláráður getur stýrt honum nánast að vild. Og þó ekki. Æðsti draumur Fláráðs er að verða kalífi í stað kalífans og hans helstu frasar í seríunni snúast einmitt um þau mætu orð, "Ég vil verða kalífi í stað kalífans". Slík valdaskipti eru þó ógerleg nema gamli kalífinn falli frá af einhverjum eðlilegum ástæðum en það er reyndar hægara sagt en gert. Í Bagdad ríkir nefnilega í raun lýðræði, sem er að vísu í frumstæðari kantinum, þar sem kalífinn er kosinn til tíu ára í senn. Gallinn er hins vegar sá að kalífinn er sá eini sem hefur kosningarrétt í þeim "lýðræðislegu" kosningum og niðurstöður þeirra eru því alltaf hinar sömu. Þess má geta að frasinn "Ég vil verða kalífi í stað kalífans" er löngu orðinn þekktur sem orðatiltæki yfir metnað í Frakklandi. Og raunar eru til sérstök árleg verðlaun tengd þessum frasa, í franskri poppmenningu, sem veitt eru einstaklingum sem mistekist hefur illa í viðskiptum.
Það sem Harún hinn mildi áttar sig hins vegar ekki á er hve mikið skrímsli stórvesírinn er. Hann hefur ekki hugmynd um hversu mikið Fláráð langar að verða kalífi í stað hans sjálfs og er líklega sá eini í öllu ríkinu sem ekki áttar sig á því. Kalífinn telur Fláráð þvert á móti vera góðan og trygglyndan vin og leggur allt sitt traust á hann og hans ráðgjöf. Þráhyggja Fláráðs fyrir kalífa tigninni er því óendanleg og hinar græðgis- og ofbeldisfullu aðferðir hans til að hljóta völd Harúns einkennast af algjöru vægðarleysi. Og án undantekninga snúast hin sviksamlegu áform Fláráðs úr höndum hans. Rauði þráðurinn í gegnum sögurnar snýst því um þessa valdaáætlanir Fláráðs sem alltaf er þó dæmdar til að mistakast. Hver tilraun Fláráðs á fætur annarri klúðrast og þær enda iðulega á þann hátt að stórvesírinn er kominn í aðstæður sem jafnan eru hálfu verri en þau grimmilegu örlög sem hann sjálfur ætlaði kalífanum í upphafi. Og jafnan gengur kalífinn frá borði hrekklaus sem aldrei fyrr og algjörlega ómeðvitaður um hinar sviksamlegu aðgerðir Fláráðs. 
Það má því með sanni segja að Fláráður stórvesír sé einhver sú grimmasta og verst innrætta teiknimyndahetja sem fyrirfinnst í hinum belgísk/franska myndasöguheimi. Aðeins einu sinni nær kalífinn að átta sig á hinu grimmúðlega innræti stórvesírsins. Í sögunni Une carotte pour Iznogoud sem kom út í samnefndri bók árið 1971 uppgötvar Harún hinn mildi loksins að stórvesírinn er í raun illur náungi og í þeirri sögu er kalífinn sjálfur því aðalsöguhetjan. Dauðskelfdur yfir þeirri uppgötvun fer hann á stjá í leit að gulrót einni sem býr yfir þeim töframætti að sá sem borðar hana (við megum ekki gleyma því að sögurnar gerast á tímum töfra og fljúgandi teppa) verður góð og ástrík manneskja. Eftir langt ævintýri fær Harún hinn mildi gulrótina loksins í sínar hendur og færir kokki sínum til að matreiða fyrir Fláráð. Kalífinn hefur hins vegar enga hugmynd um að kokkurinn hendir sjálfri gulrótinni og notar bara grasið af henni í réttinn. Fláráður er því áfram illur en það veit Kalífinn auðvitað ekki og trúir á ný að stórvesírinn sé orðinn hinn vænsti piltur.
Fláráður stórvesír og kalífinn Harún hinn mildi eru þó ekki alveg einu aðalpersónur seríunnar. Þriðja hjólið undir vagninum birtist í formi aðstoðarmanns Fláráðs, hins trygglynda þjóns, en sá er reyndar í mestu uppáhaldi SVEPPAGREIFANS af þessari kostulegu þrenningu. Hann heitir Dilat Laraht á frönsku en í íslensku útgáfunni hefur hann hlotið nafnið Fáráður og er í raun voðalega ljúfur náungi. Fláráður fer reyndar illa með hinn trygga Fáráð og vílar ekki fyrir sér að hóta honum eða jafnvel fórna fyrir málstað sinn. Og fyrir vikið virðist þjónninn hinn mesti einfeldningur. En svo er þó alls ekki. Fáráður hefur oft hin bestu ráð undir rifi hverju en sjaldnast launar hinn grimmlyndi stórvesír þjóni sínum ráðin og tryggilyndi sitt. Harún hinn mildi, Fláráður stórvesír og Fáráður þjónninn hans eru einu söguhetjur seríunnar sem koma fyrir í næstum öllum sögum hennar. Nánast engum öðrum persónum bókaflokksins sést bregða þar fyrir oftar en einu sinni. Í raun eru flestar sögurnar byggðar upp á sömu formúlunni. Í byrjun þeirra er Fláráður uppfullur af græðgislegum hugmyndum um að verða kalífi og í framhaldinu af því opnast möguleiki af einhverju tagi um að láta þann draum rætast. Hann reynir (með efasemdarfullum stuðningi Fáráðs) af öllum mætti að framkvæma þessi valdaskipti, sem síðan mistakast hrapallega, með afar slæmum afleiðingum fyrir þá félaga. Sögurnar enda því ætíð á þann veg að stórvesírinn og þjónn hans eru fastir í hvers kyns óleysanlegum aðstæðum. Þeir eru galdraðir til fjarlægra landa, seldir í þrældóm, fastir í martröð, breytt í froska, steyptir í gull og allt þar á milli. En alltaf byrjar samt næsta saga frá nýjum núllpunkti eins og ekkert hafi í skorist. Eflaust er til hugtak yfir þessa tegund sögugerðarinnar en SVEPPAGREIFINN er ekki bókmenntafræðingur og kann því ekki nein skil á forminu.
Eins og áður hefur verið getið hét serían upphaflega Les aventures du Calife Haroun el Poussah eða Ævintýri Harúns hins milda. En snemma varð þó ljóst að kalífinn sjálfur væri engan veginn nógu mikill karakter til að vera þungamiðja seríunnar. Til þess væri persóna Fláráðs allt of sterk enda féll kalífinn tiltölulega snemma í skugga hins grimmlynda stórvesírs. Heiti seríunnar var því breytt í Les aventure du grand vizir Iznogoud, eða Ævintýri Fláráðs stórvesírs eins og hún héti þá á íslensku, og síðan hefur bókaflokkurinn verið kenndur við hann. Slík aðalsöguhetjuskipti eru reyndar mjög óvenjuleg og varla eru önnur hliðstæð dæmi til um þess háttar aðgerðir í belgísk/franskri myndasöguhefð. Það eru að vísu til dæmi um sterkar myndasögupersónur sem hafa verið teknar til hliðar úr seríum og búinn til nýr hliðarbókaflokkur um þær. En það er hins vegar mjög óvenjulegt að skipt hafi verið um aðalpersónur í miðri seríu. Svo ekki sé minnst á þegar hin nýja aðalpersóna er andhetja og í raun grimmilegt illmenni af allra verstu tegund.
Alls komu út þrjátíu bækur í upprunalegu seríunni. Til að byrja með höfðu bækurnar að geyma þetta fjórar til sex sögur hver en aðeins voru sögurnar mismunandi að lengd. René Goscinny samdi handritið að fyrstu fjórtán bókunum, sem að jafnaði eru taldar bestu bækur seríunnar, en hann lést árið 1977. Hans sögur voru fullar af kímni og uppfullar af ýmis konar orðaleikjum á frönsku sem erfitt hefur reynst að fylgja eftir við þýðingar á öðrum tungumálum. Eftir fráfall Goscinny tók Jean Tabary þá sjálfur til við að semja handritin að sögunum en við það breyttist serían töluvert. Orðaleikirnir og húmorinn héldu sér en sögurnar urðu lengri og hver þeirra fyllti nú heila bók (44 bls) líkt og í mörgum öðrum myndasöguseríum. En sjálf handritin urðu aldrei eins sterk að gæðum og hjá Goscinny enda algjörlega óframkvæmanlegt að reyna að feta í fótspor hans. Sjálfur lést Tabary árið 2011 en þá var hann búinn að teikna fyrstu tuttugu og sjö bækurnar. Sonur hans Nicolas Tabary, sem einnig er myndasöguteiknari, tók þá við seríunni og teiknaði þrjár sögur til viðbótar. Sú síðasta kom út árið 2015 en ekki hefur SVEPPAGREIFINN heimildir um hvort fleiri bækur séu væntanlegar. Bækurnar þrjátíu um Fláráð stórvesír hafa alls að geyma um áttatíu sögur en þar af eru rúmlega sextíu þeirra gerðar eftir handritum Goscinny.
Hér á landi komu út fjórar bækur á sínum tíma úr þessum bókaflokki en íslenska serían heldur sig við upprunalega heitið og nefnist Ævintýri Harúns hins milda. Það var bókaútgáfan Iðunn sem sendi frá sér þessar myndasögur en Jón Gunnarsson annaðist þýðinguna á öllum bókunum fjórum. Fyrsta bókin Fláráður stórvesír kom út hér á landi árið 1978 en það er jafnframt einnig fyrsta bókin í upprunalegu seríunni. Að öðru leyti fylgdi íslenska útgáfuröðin ekki þeirri upprunalegu en hinar fjórar Fláráðs bækur sem út komu hér á landi voru:
  1. Fláráður stórvesír - 1978 (1. Le Grand Vizir Iznogoud - 1966)
  2. Allt á hvolfi - 1979 (8. Le jour des fous - 1972)
  3. Fláráður geimfari - 1980 (5. Des astres pour Iznogoud - 1969)
  4. Galdrateppið - 1980 (9. Le Tapis magique - 1973)
Líkt og hjá líklega flestu áhugafólki um teiknimyndasögur, sem gefnar voru út á Íslandi á sínum tíma, má finna þessar fjórar bækur í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Í heildina má þar finna sennilega ellefu bækur úr seríunni á nokkrum mismunandi tungumálum. Þessar bækur er á þýsku, dönsku og sænsku en alls munu vera þarna níu af fyrstu ellefu bókunum úr upprunalegu seríunni. Fyrir þá sem áhuga hafa á að nálgast og lesa bækurnar um Fláráð stórvesír þá hafa einhverjar þeirra (flestar af eldri bókunum) verið gefnar út á öllum Norðurlöndunum nema finnsku. Og þá má einnig geta þess að nokkur hluti þeirra er til á bæði ensku og þýsku. En sögurnar um Fláráð stórvesír hafa ekki bara notið vinsælda í bókaformi heldur hafa einnig verið gerðar um þær teiknimyndir. Eins og raunin hefur reyndar líka orðið um nokkuð margar vinsælar myndasöguseríur. Á árunum 1995 til 2010 voru framleiddir 52 tíu mínútna þættir með Fláráði af Canal+ til sýninga á sjónvarpsstöðvum sínum. Af fjölda þeirra að dæma mætti ætla að þættirnir hafi notið nokkurra vinsælda. SVEPPAGREIFINN hefur fáeinum sinnum rekist á dvd með þessum þáttum á ferðum sínum erlendis en látið það alveg vera (ennþá) að fjárfesta í slíkum gersemum. Á YouTube finna finna fjölda þessara þátta í alveg ágætum gæðum og meira að segja á ensku.
Og svo má auðvitað ekki gleyma bíómyndinni. Að sjálfsögðu var kvikmyndin Iznogoud gerð en hún var frumsýnd í bíóhúsum í Frakklandi í febrúar árið 2005. Leikstjóri hennar var Patrick Braoudé og aðalhlutverkin voru í höndum þeirra Michaël Youn sem lék Fláráð, Jacques Villeret tók að sér hlutverk kalífans og Arno Chevrier var þjónninn Fáráður. Ekki getur SVEPPAGREIFINN státað sig af því að þekkja neitt til leikstjóra myndarinnar eða leikara hennar enda virðist sem þessi bíómynd hafi ekki beint slegið í gegn á sínum tíma. Iznogoud fékk hreinlega afleita dóma og var rökkuð niður af gagnrýnendum en í mars árið 2015 var myndin í sautjánda sæti á lista AlloCiné yfir verstu kvikmyndir allra tíma. Á IMBb vefnum fær hún 3,7 í einkunn af 10 og staðfestir því líklega aðra dóma um myndina. Sú staðreynd vekur óneitanlega um leið upp löngun SVEPPAGREIFANS til að sjá þessi ósköp. Hér fyrir neðan má sjá bíómyndina Iznogoud í fullri lengd en lesendur verða að láta sér nægja arabískan texta ef þeir treysta sér ekki í frönskuna.
SVEPPAGREIFINN hefur því ekki enn gefið sér næði til að horfa á myndina en mun klárlega gera það við tækifæri. Það er nefnilega fátt betra til afþreyingar en slæmar bíómyndir og ef ekki er tilefni til þess núna þá mun það aldrei verða. Næstu vikur munu verða erfiðar hjá mörgum og þá er ekki um annað að ræða en að taka hlutunum með stillingu og hugsa vel um sjálfa sig og sína nánustu. Megi ónæmiskerfið vera með okkur öllum!

6. mars 2020

153. ÞEGAR HERGÉ LÉST

Síðastliðinn þriðjudag, þann 3. mars, voru liðin þrjátíu og sjö ár síðan belgíski listamaðurinn Georges Remi, eða Hergé eins og hann kallaði sig, féll frá sjötíu og fimm ára að aldri. Hergé var auðvitað kunnastur fyrir hinar víðfrægu Tinna bækur sínar en hann kom einnig að nokkrum öðrum seríum sem þó náðu ekki jafn útbreiddum vinsældum. Samtals hafa Tinna bækurnar nú selst í rúmlega tvö hundruð og fimmtíu milljónum eintaka. Fyrir tveimur árum tók SVEPPAGREIFINN saman nokkuð ítarlega færslu um líf og störf þessa merka listamanns en hana má lesa með því að smella hér. DV var eini íslenski prentfjölmiðillinn sem greindi frá andláti Hergé á sínum tíma en miðvikudaginn 9. mars árið 1983 birtist þessi litla grein í blaðinu á blaðsíðu níu.
Hergé var búinn að vera heilsulítill síðustu árin og reglulega þurft á blóðgjöfum að halda. Í febrúar hafði hann verið lagður inn á sjúkrastofnun og þar fór heilsu hans stöðugt hrakandi en þann 24. febrúar féll hann í dá og komst aldrei aftur til meðvitundar. Hann lést því, eins og áður segir, fimmtudaginn 3. mars um klukkan tíu um kvöldið. Hergé naut gríðarlegrar virðingar fyrir ævistarf sitt út um allan heim en ekki síst í heimalandi sínu Belgíu og einnig Frakklandi. Fjölmiðlar um víða veröld greindu auðvitað frá andláti hans og margir þeirra birtu fréttir þess efnis á forsíðum sínum. Franska dagblaðið Libération birti þannig stóra mynd af Tinna framan á blaði sínu. Það blað er í raun þekkt fyrir að votta þekktu fólki sérstaklega virðingu sína við fráfall þess með einhverju hætti á forsíðum sínum. Á meðal kunnra einstaklinga sem þannig hafa verið heiðraðir má nefna; David Bowie, Muhamed Ali, Leonard Cohen og Díönu prinsessu. Þegar André Franquin lést þann 5. janúar árið 1997 birtist til dæmis risamynd af sorgmæddum Viggó viðutan framan á blaðinu.
Libération gekk reyndar skrefi lengra en aðrir fjölmiðlar í virðingaskyni fyrir Hergé og tileinkaði hinum látna snillingi allar blaðsíður sínar, sunnudaginn 6. mars árið 1983, fyrir nákvæmlega þrjátíu og sjö árum. Eins og áður var nefnt birtist framan á blaðinu risastór mynd af Tinna en þar á forsíðunni gat að líta kunnuglegan svartan bakgrunn með kringlótti, svarthvítri mynd og fyrirsögn þar fyrir ofan þar sem stóð með stórum hvítum stöfum, "FRANCE, RFA VOTES EN 'STOCK".
Í grunninn var þarna verið að vísa í bókakápuna af Tinna bókinni Kolafarminum (Coke en stock) en hin kringlótta mynd kemur hins vegar úr sögunni um Tinna í Tíbet (Tintin au Tibet). Í þeirri bók (á blaðsíðu 44) hafði Tinni örmagnast og Tobbi situr yfir honum og spangólar á hjálp. Í talblöðru Tobba framan á Libération hefur hins vegar verið settur inn textinn, "Tintin est mort" sem myndi þýða á íslensku, "Tinni er dáinn". Og það voru orð að sönnu. Þegar Hergé dó þá dó Tinni með honum. En stjórnendur Libération blaðsins létu sér þó ekki bara nægja að minnast Hergé með mynd á forsíðu sinni. Inni í sjálfu blaðinu helgaði það honum efni á öllum fjörtíu blaðsíðum dagsins með mjög eftirminnilegum hætti. Öllum fréttum, greinum, auglýsingum, veðri og jafnvel sjónvarpsdagskrám dagsins, sem birtust í Libération þennan dag, fylgdu eingöngu myndir við hæfi úr Tinna bókunum. Fyrirsögnin á forsíðunni "FRANCE, RFA VOTES EN 'STOCK" tengdist þannig yfirvofandi Bæjar- og sveitarstjórnarkosningum í Frakklandi og á opnunni, sem sést hér fyrir neðan, var til dæmis verið að fjalla um þingkosningar í Vestur Þýskalandi sem þá voru einmitt nýafstaðnar. Með öllu þessu efni fylgdu, eins og áður segir, kunnuglegar Tinna myndir.
Slík virðing fyrir Hergé, þar sem fjölmiðill heiðraði minningu hans með sambærilegum myndbirtingum, fengi því miður aldrei að viðgangast í dag. Erfingjar Hergés halda því til streitu að höfundarréttarlög séu virt og því virðist vera fylgt svo fast eftir að mörgum þykir reyndar nóg um. Í dag yrði dagblaðið Libération því eflaust lögsótt fyrir svo hryllilega glæpsamlegan verknað.
En það má einnig geta þess til gamans að fyrir fáum árum stóð Libération fyrir endurútgáfu á þessu blaði fyrir þá sem áhuga hefðu á því. Hvert eintak var selt á "hóflegu verði" fyrir aðeins tuttugu og níu evrur að viðbættum sendingarkostnaði og rauk út eins og vel heitar lummur. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort þessi útgáfa af blaðinu sé enn fáanleg en fyrir þá sem áhuga hafa, virðist tiltölulega ósjaldan poppa upp eitt og eitt eintak af upprunalegu útgáfunni á eBay og fleirum sambærilegum vettvöngum. Spurning að skella sér á eintak?