29. mars 2018

52. ALVÖRU LISTAVERK Í ÁSTRÍKSBÓK

Það er smá Ástríkur í færslu dagsins enda hafa þær myndasögur, einhverra hluta vegna, verið ansi mikið vanræktar af hálfu SVEPPAGREIFANS á Hrakförum og heimskupörum. Hver er ástæða þess er ekki gott að segja því þær teiknimyndasögur eru alveg úrvals efni og líklega sú sería sem SVEPPAGREIFINN á hvað flestar myndasögurbækur úr en um leið einnig sú sería sem hann á eintök á sem flestum tungumálum. Páskahelgin er auðvitað hafin og þá er reiknað með að hátíðleikinn sé dreginn fram (úr hófi hjá einhverjum) en andlegt framlag SVEPPAGREIFANS til páskahátíðarinnar 2018 er því helgað listagyðjunni.

Flestir hafa líklega einhvern tímann rekið augun í mynd af hinu sígilda og þekkta olíumálverki La Liberté guidant le peuple (Frelsið á götuvíginu) eftir Eugène Delacroix frá árinu 1830 þó hinir sömu þurfi ekki endilega að vera vel að sér í listasögunni. Verkið komst meira að segja nýverið í fréttirnar vegna þess að mynd af því var útilokuð af Facebook vegna nektar. Ekki er ætlun SVEPPAGREIFANS að grafa djúpt í sögu þessa málverks eða þær pælingar sem það stendur fyrir en í meginatriðum var hugmynd listamannsins að verkinu innblásin af þremur stórum og mikilvægum byltingum og almennt er málverkið talið vera eitt helsta tákn um lýðræði Frakklands.
Og svo er það hin stórglæsilega Ástríksútgáfa af verkinu. Þessi mynd birtist í Ástríksbók númer 34 L'anniversaire d'Astérix & Obélix (Afmæli Ástríks og Steinríks) frá árinu 2009 en eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er hér um að ræða tímamótasaga í tilefni 50 ára afmælis kappans. Það þarf varla að taka það fram að þessi bók hefur ekki enn komið út á íslensku. Listamaðurinn Albert Uderzo teiknaði söguna sjálfur og þetta var síðasta sagan sem hann vann en hann er nú orðinn tæplega 91ns árs gamall. Sagan, sem einnig er nefnd Gullna bókin, er frekar óhefðbundin myndasaga og ekki í neinu samræmi við hina eiginlegu tímaröð Ástríks bókanna en almennt féll bókin yfirleitt ekki í kramið hjá aðdáendum seríunnar. Margir líta jafnvel á hana sem einhvers konar aukabók þó hún tilheyri sannarlega bókaflokknum. SVEPPAGREIFINN ætlar svo sem ekki að rekja söguþráð bókarinnar frekar en í henni er ekki aðeins stiklað á stóru um sögu Ástrík, þar sem margar kunnuglegar persónur koma við sögu, heldur er hún einnig tvinnuð við marga atburði úr mannkynssögunni.
En á blaðsíðu 43 birtist þessi óhefðbundna útgáfa af málverkinu La Liberté guidant le peuple og þótt bókin L'anniversaire d'Astérix & Obélix sé ekki beint hápunktur Ástríksbókanna þá er þessi útgáfa Uderzo af verkinu frábær. Þau Steinríkur, Aðalbjörg höfðingjafrú og Ástríkur sjálfur eru í helstu aðalhlutverkum en í forgrunni myndarinnar liggja Rómverjarnir auðvitað eins og hráviði út um allt. Greina má þá Ryðrík, Aðalrík allsgáða þorpshöfðingja og Þrautrík (reyndar bara hægri hendina hans og stafinn) í bakgrunninum og til vinstri sjást hálfhrundar herbúðir frá Rómverjunum. En á upprunalegu myndinni munu þetta vera rústirnar af Notre-Dame dómkirkjunni. Mörg önnur listaverk koma við sögu bókarinnar og má þar til dæmis bæði sjá útgáfu Uderzo af Mónu Lísu eftir Leonardo da Vinci og Ópið eftir Edvard Munch.

22. mars 2018

51. 35 ÁR FRÁ DAUÐA HERGÉ

Í byrjun mánaðarins, nánar tiltekið laugardaginn 3. mars, var þess minnst víða um heim að 35 ár voru liðin síðan belgíski listamaðurinn Hergé (Georges Prosper Remi), höfundur Tinna-bókanna, lést 75 ára að aldri. SVEPPAGREIFANUM finnst reyndar einstaklega ósmekklegt að tala um dánarafmæli en í tilefni tímamótanna ætlaði hann aðeins að stikla á stóru um ævi þessa merka manns, hvernig líf þeirra Tinna var samtvinnað og hvernig Tinni dó í rauninni með höfundi sínum. Til stóð að birta þessa færslu í þar síðustu viku en þetta verk SVEPPAGREIFANS óx heldur betur í höndum hans því þessi "litla samantekt" um Hergé endar líklega sem tólf binda ævisaga um listamanninn.
En hinn belgíski Georges Prosper Remi fæddist þann 22. maí árið 1907 í Etterbeek sem er einskonar útborg af Brussel í Belgíu. Foreldrar hans, Alexis Remi og Elisabeth Dufour, voru af kaþólskri millistétt en þau störfuðu bæði við fatagerð, hann sem klæðskeri en hún sem saumakona. Móðir Georges var frekar heilsulítil og átti alla tíð við geðræn vandamál að stríða en árið 1912 fæddist þeim þó annar sonur sem skírður var Paul. Þessi fyrstu ár fjölskyldunnar einkenndust af fjölmörgum flutningum og hann lýsti oft æskuheimili sínu sem leiðinlegu og tilbreytingarlausu. Eflaust hefur einhver séð Georges eftir á sem efnilegt listamannsefni því hann hafði ríka þörf fyrir að hleypa út óbeislaðri orku sinni og sjálfur telur hann sig hafa verið óþolandi barn. Æskuheimili var frekar efnalítið og fátækt. Þar fór lítið fyrir menningu af einhverju tagi og það voru ekki einu sinni keyptar bækur á heimilið enda þótti það sóun á fé. Þannig kynntist til dæmis Georges Remi ekki sögum Jules Verne eða Charles Dickens fyrr en hann var kominn á fullorðins aldur og fyrsta bókin sem hann keypti fyrir eigið fé var Skytturnar þrjár eftir franska rithöfundinn Alexandre Dumas. Einhverju sinni var Georges litla fengið blað og blýantur í von um að þar fengi hann eitthvað af útrás sinni svalað og það virtist bera árangur. Hann undi sér vel við að teikna og eyddi miklum tíma við þetta nýja áhugamál sitt. Georges var mjög forvitinn og með einstakt sjónminni en þeir eiginleikar hans komu sér báðir vel seinna. Elsta þekkta teikning hans er á bakhlið póstkorts þar sem hann hefur teiknað mynd með bláum trélit af gufulest, lestarverði og bíl. Þessi mynd er líklega frá árinu 1911 þegar hann var fjögurra ára gamall.
6 ára gamall hóf hann grunnskólanám í Athenée skólanum í bænum Elsene en eftir að fyrsta skólaári hans lauk í ágúst 1914 var Fyrri heimsstyrjöldin hafin og Þjóðverjar lögðu strax undir sig stóran hluta af Belgíu. Í skólanum í Elsene var börnunum haldið rækilega við efnið og það var helst að Georges fengi útrás fyrir sköpunarþörf sína með teikningu en það var þó ekki alltaf vinsælt á meðal kennaranna. Sérstaklega ekki þegar hann var að teikna þýsku hermennina. Hann var samt ágætur námsmaður og var með góðar einkunnir í öllum greinum nema reyndar teikningu! Georges hafði þó lítinn áhuga á lærdómnum og þegar hann var 13 ára hóf hann nám í hinum ramm-kaþólska Collège Saint-Boniface skóla í Brussel. Þar hundleiddist honum og það var ekki fyrr en hann gekk til liðs við skátaflokk skólans sem hann fór að njóta sín betur. Í skátunum fékk hann viðurnefnið "Forvitni refur" og árið 1923, þegar hann var orðinn 16 ára, fékk hann birtar sínar fyrstu teikningar í tímaritinu Le Boy-Scout Belge sem var helsta skátatímaritið í Belgíu og kom út mánaðarlega. Georges var líklega frekar ódæll á þessum árum og átti erfitt með að lúta eðlilegum kaþólskum siðum sem oftar en ekki einkenndust af boðum og bönnum. Hann þótti nokkuð svalur sem unglingur og það olli til dæmis foreldrum hans og skólayfirvöldum nokkrum áhyggjum að hann átti kærustu. Sá eini í vinahópnum.
Georges Remi hélt stöðugt áfram að teikna og myndskreytti reglulega greinar í tímaritinu en fékk þó aldrei neina formlega menntun í myndlist. Þegar hann var 17 ára var hann þegar orðinn ákveðinn í að skapa sér nafn sem myndlistamaður og tók sér þá listamannsnafnið Hergé. En það myndaði hann úr upphafsstöfum nafns síns G. R. en lesið aftur á bak R. G. og borið fram á franskan máta sem Hergé. Eftir að hafa lokið skólagöngu sinni hóf hann að leita sér að atvinnu og var, í október árið 1925, ráðinn á áskriftardeild dagblaðsins Le Vingtième Siècle (Tuttugasta öldin). Samhliða starfi sínu á Le Vingtième Siècle hélt Hergé þó áfram að teikna fyrir Le Boy-Scout Belge og árið 1926 fóru að birtast eftir hann myndasögur um ævintýri skátadrengsins Totor sem var foringi í skátadeildinni Les Hannetons. Þær sögur vöktu nokkra athygli. 
Á árunum 1927-28 sinnti Hergé herskyldu en að henni lokinni tók ritstjóri Le Vingtième Siècle, Abbé Norbert Walles, hann að sér og bauð honum að veita forstöðu nýs vikulegs barnablaðs, Le Petit Vingtième (Litla tuttugasta), sem til stóð að setja á laggirnar og átti að verða fylgiblað Le Vingtième Siècle. Þetta nýja blað hóf síðan göngu sína þann 1. nóvember árið 1928 undir ritstjórn Hergés en hann var einnig aðalmyndahöfundur blaðsins og var því tilneyddur að skapa nýtt efni. Fyrstu vikurnar fóru í að þróa efni blaðsins og Hergé gerði meðal annars tilraunir með myndasögur sem nefndust Ævintýri Flup, Nénesse, Poussette og Piglet en Walles hvatti hann til að skapa eitthvað alveg sérstakt. Að lokum, eftir að hafa setið þungt hugsi löngum stundum við skrifborð sitt á blaðinu, datt hann loks niður á hugmynd. Aðstaða erlendra fréttaritara Le Vingtième Siècle var í námunda við skrifborð Hergés en þaðan heyrði hann reglulega fræknar hetjusögur af dáðum blaðamannanna og hugmyndin um blaðamanninn Tinna varð til. Það var síðan þann 10. janúar árið 1929 sem fyrstu myndirnar í nýrri teiknimyndasögu birtust í blaðinu. Þetta var upphafið á Tinna í Sovétríkjunum eða Tintin au pays des Soviets eins og hún heitir á frummálinu.
Þessi saga sló í gegn og varð upphafið að tæplega 50 ára og 24ra bóka ævintýraseríu Hergés um blaðamanninn Tinna og hundinn hans Tobba í myndasöguformi. Það var ritstjórinn Walles sem stakk upp á að hundur fylgdi söguhetjunni en Hergé var annars aldrei mikið gefinn fyrir hunda. Hann var miklu meiri kattamaður. Hergé kallaði hundinn Milou en það heiti var gælunafn fyrstu kærustu Hergés á bernskuárum hans. Milou var því stytting á nafni, Marie-Louise Van Cutsem, en faðir hennar vildi hins vegar ekkert af hinum unga George Remi vita. Þannig að hinn karlkyns Tobbi er í rauninni skírður í höfuðið á stelpu! En sagan um Tinna birtist upp frá þessu vikulega, á tveimur blaðsíðum í Le Petit Vingtième sem kom í sölu á hverju miðvikudagskvöldi (kvöldið fyrir hvern opinberan útgáfudag), allt þar til henni lauk þann 8. maí árið 1930. Tinni var unglingur eða ungur maður sem var mjög einfaldur að allri gerð í fyrstu en Hergé þróaði hann að einhverju leyti úr skátanum Totor, litla bróður sínum Paul og sumir segja að einhverju leyti dönskum heimshornaflakkara og unglingi sem nefndist Palle Huld. Nafn Tinna er ráðgáta og það er jafnvel ekki einu sinni á hreinu hvort Tinni (Tintin) sé skírnar- eða ættarnafn hans. Sjálfur sagðist Hergé ekkert muna hvernig nafn hans var upphaflega til komið. Í fyrstu var Tinni vel til hafður og með hárið greitt snyrtilega fram á ennið en á 8. blaðsíðu sögunnar gerist það að að þeir Tobbi lenda í hröðum bílaeltingaleik á opnum sportbíl og hárið á Tinna ýfist og stendur upp í loftið. Eftir þessa bílferð breyttist hárgreiðsla hans ekki framar og næstu tuttugu og þrjár bækurnar hélst hártoppur Tinna í þeirri stöðu sem við þekkjum hann best.
Þessa fyrstu sögu, Tinni í Sovétríkjunum, setti Hergé upp þannig að Tinni væri fréttaritari hjá Le Petit Vingtième en væri á flakki um Sovétríkin og sendi vikulega pistla af ferðalagi sínu til blaðsins. Hergé teiknaði og samdi söguna jafnhliða því sem hann vann önnur störf tengdum blaðinu og að morgni þess miðvikudagkvölds sem blaðið átti að koma út var hann sjaldnast búinn að taka einhverjar ákvarðanir um hvert sagan ætti að stefna í það skiptið. Sem gerði það að verkum að Tinni í Sovétríkjunum, sem er mjög hröð, er frekar samhengis- og stefnulaus saga sem höfundurinn vildi seinna sem minnst vita af. Hergé var aðeins tuttugu og eins árs gamall þegar hún hóf göngu sína í blaðinu og ungæðislegar skoðanir hans (eða blaðsins) og róttæk pólitísk gagnrýni á sovéska stjórnkerfið koma augljóslega fram í henni. Í raun er bókin bara eitt allsherjar áróðursrit.
Þann 23. janúar árið 1930 bættist svo við ný sería eftir Hergé í Le Petit Vingtième en hún fjallaði um hrekkjalómana Quick og Flupke (Palla og Togga) sem vöktu einnig nokkra lukku á meðal lesenda blaðsins. Þeir urðu fastagestir á síðum blaðsins næstu árin. En strax í kjölfar þess að Tintin au pays des Soviets lauk var sagan gefin út í bókarformi í 10.000 eintökum en 500 af þeim bókum voru áritaðar. Hergé sá um að rita nafn Tinna en nýbyrjaður ritari Walles ritstjóra Le Vingtième Siècle, Germaine Kieckens, sá um að árita bókina fyrir Tobba hönd. Eftir að hafa verið samstarfsfólk við blaðið um hríð tóku þau Hergé og Germaine saman og giftust í Saint Roch kirkjunni í Brussel þann 20. júlí árið 1932. Þau Hergé og Germaine voru mjög samrýmd, áttu bæði þátt í sköpun Tinna og margar hugmyndir tengdar sögunum voru sameiginlegt verk þeirra. Hún átti til dæmis hugmyndina að nöfnunum á capitaine Haddock (Kolbeini kafteini) og Dupont og Dupond (Sköftunum) en síðarnefndu persónurnar eru byggðar á föður Hergés og tvíburabróður hans. Þá var Hergé duglegur við að teikna Germaine inn í sögurnar seinna líkt og hann gerði reyndar einnig um sjálfan sig. Á þessum áratugum málaði Hergé og teiknaði fjölmargar myndir af Germaine og þær hafa verið að seljast á uppboðum í seinni tíð fyrir stórfé.
Eftir að Tintin au pays des Soviets lauk hófst Hergé strax handa við næstu sögu og fyrstu blaðsíðurnar í Tintin au Congo (Tinni í Kongó) birtust í Le Petit Vingtième þann 5. júní árið 1930. Þessi saga var bara eðlilegt framhald af Tintin au pays des Soviets og Hergé hélt áfram að þróa bæði aðalpersónuna sem og myndræna uppsetningu þó enn væri hraði sögunnar eitt af einkennum hennar. Löngu seinna varð sagan afar umdeild vegna úreltra viðhorfa til nýlendustefnu Belga (og reyndar annarra evrópskra ríkja) en einnig vegna hreinna fordóma gagnvart þeldökkum íbúum Kongó. Þegar sagan var endurteiknuð og lituð fyrir nýja útgáfu árið 1946 tók Hergé reyndar töluvert til í henni en þó ekki meira en svo að enn þann dag í dag er Tintin au Congo talin sú umdeildasta. Jafnvel svo að hún hefur víða verið bönnuð og í Englandi fylgja til dæmis viðvaranir bókinni til að vara lesendur við innihaldi hennar. Heimssýnin var allt önnur á þessum árum og sagan er einfaldlega barn síns tíma en á samt fullan rétt á sér og ber því að taka henni eins og hún er en þó með gagnrýnum augum.
Þriðja sagan Tintin en Amérique (Tinni í Ameríku) hófst í Le Petit Vingtième í byrjun september 1931 og sem fyrr er góð keyrsla á söguþræði Hergés þó heldur sé atburðarásin orðin rólegri en í fyrri sögunum. Enn var Hergé á pólitísku nótunum og notaði tækifærið til að gagnrýna ameríska skyndimenningu þótt ekki hafi hann skotið alveg jafn fast og á Rússana tveimur árum fyrr. Í tímans rás fékk Tintin en Amérique einnig sinn skerf af gagnrýni fyrir kynþáttafordóma sem að þessu sinni beindust mest að indjánum. Þessar fyrstu bækur voru litaðar af einföldum skoðunum hins unga höfundar en sýn hans á heiminn fór smán saman að breytast með auknum þroska. Hergé fór að vanda sig betur við söguþráðinn og lagði sig fram um að byggja upp flóknari atburðarás en hann hafði gert fram til þessa. Í desember 1932 hóf Les Cigares du Pharaon (Vindlar Faraósgöngu sína í blaðinu og heldur fór nú Hergé að slaka á hraða atburðarásarinnar. Að þessu sinni er sagan ekki keyrð áfram af einhvers konar þjóðvegakeyrslu heldur er hún tiltölulega róleg og lágstemmd miðað við fyrri verk. Einhvers konar leyndardómsfullur andi ríkir yfir henni og þar er Hergé alveg á nýjum slóðum en sagan er innblásin af ævintýralegum fornleifarannsóknum í Egyptalandi áratuganna á undan. Les Cigares du Pharaon gerist að miklu leyti í Austurlöndum nær og þegar henni lauk lýsti Hergé því yfir að í næstu sögu færi Tinni enn austar í Asíuferðum sínum. Í kjölfarið komst hann í kynni við ábóta, Föður Gosset, sem þjónaði asískum nemum við kaþólska háskólann í Leuven og hvatti hann til að fara varlega með lýsingar sínar á kínverskri menningu og hefðum. Faðir Gösset lofaði að koma honum í kynnum við nema sem gæti frætt hann betur um kínverskt samfélag og þann 1. maí árið 1934 hitti Hergé kínverska stúdentinn Tchang Tchong-Jen. Með þeim kynnum urðu ekki aðeins ákveðin straumhvörf í sögunum um Tinna heldur einnig í lífi Hergés.
Í kjölfar þess varð hann einnig betur meðvitaður um mikilvægi þess að vanda vel uppbyggðan söguþráð og hann fór nú að hella sér meira út í ýmiskonar rannsóknarvinnu tengdum bakgrunni þess umhverfis sem sögurnar gerðust í. Hann fór að bera meiri ábyrgð á því sem hann lét frá sér og gerði sér ljóst að hann gat ekki skrifað hvað sem hann vildi. Á þessum tíma fór Hergé auk þess að afla sér heimilda í formi ljósmynda og fór nú að leggja sig fram um að vera nákvæmari í sinni vinnu. Með sögunni Le Lotus bleu (Blái lótusinn) sem hóf göngu sína í ágúst 1934 urðu því ákveðin þáttaskil sem sem gerðu það að verkum að Hergé fór að líta myndasögugerð alvarlegri augum. En þessi nákvæmni varð síðan helsta einkenni hans næstu áratugina. Kynni hans og vinátta við Tchang höfðu ekki aðeins opnað augu Hergés fyrir fjölbreytilegri austurlenskri menningu og listum heldur fékk Kínverjinn ungi líka stórt hlutverk í sögunni í einhvers konar virðingarskyni. Hergé gerði Kínverjum hátt undir höfði í Le Lotus bleu og árið 1939 var honum boðið til Kína en Seinni heimsstyrjöldin var þá yfirvofandi í Evrópu svo ekkert varð af þeirri heimsókn.
Næsta Tinna saga L'Oreille cassée (Skurðgoðið með skarð í eyra) hóf göngu sína 5. desember árið 1935 og enn leitaði Hergé á ný mið. Samhliða þessum fyrstu Tinna sögum voru þær allar líka jafnóðum gefnar út í bókarformi en Hergé hafði einnig haldið áfram að birta sögurnar um Palla og Togga í Le Petit Vingtième. Árið 1935 hafði þeim birtingum þó farið að fækka og á næstu fimm árum hurfu þær alveg. Vinna hans við myndasögurnar um Tinna jókst í samræmi við aukna vandvirkni en minni tími gafst til að sinna öðrum verkefnum. En fyrir tilstilli forsvarsmanns barnatímaritsins Coeurs Vaillants hóf Hergé þó að vinna að og birta nýja myndasöguseríu í Le Petit Vingtième um systkinin Jo og Zette og apann Jocko (Alla, Siggu og Simbó). Fyrstu blaðsíðurnar með þeim birtust í blaðinu í janúar 1936 og alls samdi Hergé þrjár sögur með ævintýrum þessa tríós. En Tinni var þó alltaf flaggskip Hergés og Le Petit VingtièmeL'Île Noire (Svaðilför í Surtsey) hóf að birtast í apríl árið 1937, Le sceptre d'Ottokar (Veldissproti Ottókars) byrjaði í ágúst 1938 og Síðari heimsstyrjöldin var nýhafin þegar Tintin au pays de l'or noir (Svarta gullið) hóf göngu sína í blaðinu í september árið 1939. Hergé fékk þó ekki tækifæri til að klára þá sögu að sinni vegna innrásar Þjóðverja í Belgíu þann 10. maí árið 1940 og sögunni lauk því í bili á blaðsíðu 26. Öll dagblöð (og fylgirit þeirra) í landinu voru umsvifalaust bönnuð og Le Petit Vingtième kom því ekki framar út. Frönskumælandi dagblaðið Le Soir fékk að halda áfram útgáfu sinni en var algjörlega undir hæl Nasista og Hergé, sem á einu augabragði hafði orðið atvinnulaus, gekk til liðs við blaðið eftir að hafa flúið til Parísar strax í kjölfar hernámsins. Hann kom aftur nokkrum vikum seinna og sá þá enga ástæðu til að vera iðjulaus og hóf að starfa fyrir hernámsliðið eins og hver annar iðnaðarmaður. Það fór ekki vel í Belga og Hergé fékk þann stimpil að vera hallur undir nasisma og var jafnvel kallaður föðurlandssvikari. Hergé starfaði fyrst við vikulegt aukablað Le Soir fyrir börn sem var sambærilegt við Le Petit Vingtième en það nefndist Le Soir-Jeunesse og sagan Le Crabe aux pinces d'or (Krabbinn með gylltu klærnar) hóf því að birtast í því blaði í október árið 1940.
Nú forðaðist Hergé eins og heitan eldinn að sýna nokkra pólitíska afstöðu í sögunum af ótta við Gestapó. Þetta aukablað Le Soir-Jeunesse hætti að koma út í september 1941 vegna pappírskorts en Hergé fékk þó, eftir svolítið hlé, að halda áfram með söguna í aðal útgáfu Le Soir þar sem hann gat birt eina myndasögulínu á dag. Nokkru áður en stríðið hófst höfðu forsvarsmenn Casterman útgáfunnar í Belgíu nefnt þann möguleika við Hergé að hann myndi í náinni framtíð hafa sögurnar um Tinna styttri þar sem gera mætti ráð fyrir pappírsskorti vegna fyrirsjáanlegs stríðs en í staðinn bauðst útgáfan til að gefa þær úr í lit. Tilgangurinn var einnig sá að laga sögurnar að nýju formi en miklar framfarir höfðu orðið á prenttækninni árin á undan. Casterman útgáfan hafði yfirtekið Le Petit Vingtième árið 1934 en nú var prentun með nýjum offset vélum komin á það stig að tiltölulega auðvelt var að prenta myndasögubækur í góðum litgæðum. Hergé tók sér góðan tíma til að hugsa málið og þegar hann hóf vinnu við nýja sögu L'Étoile mystérieuse (Dularfulla stjarnan) hafði hann tekið ákvörðun um að slá til. L'Étoile mystérieuse hóf göngu sína 20. október 1941 í Le Soir og sagan varð síðan sú fyrsta sem gefin var út í bókarformi í lit og var 62 blaðsíður að lengd. Í L'Étoile mystérieuse þótti Hergé vera orðinn ansi hliðhollur Nasistunum og sú skömm fylgdi honum alla ævi. Einhverjar breytingar gerði Hergé þó á henni frá því hún birtist í Le Soir og þar til hún kom út í bókarformi en í grunninn er sagan eins. Og þegar hún var endurútgefin árið 1954 reyndi hann enn að breiða yfir þessi afglöp sín. Le Secret de la Licorne (Leyndardómur Einhyrningsins) hóf göngu sína í blaðinu í júní 1942 en þá sögu fannst Hergé vera sín uppáhalds og framhaldssagan Le Trésor de Rackam le Rouge (Fjársjóður Rögnvaldar rauða) byrjaði í febrúar 1943.
Þann 16. desember sama ár var svo komið að Les Sept boules de cristal (Sjö kraftmiklar kristallskúlur) sem þótti þá tímamótaverk enda sagan sú besta myndrænt fram að þessu. En þann 4. september 1944 dró til tíðinda í Belgíu. Brussel var þá frelsuð úr höndum Þjóðverja af Bandamönnum og Le Soir, áróðursútgáfa Nasistanna, var stöðvuð. Hergé, sem starfsmaður blaðsins og þar með þýska hernámsliðsins, fékk því ekki að halda áfram með söguna en hún endaði að sinni þar sem Tinni heimsækir sjúkrahúsið á blaðsíðu 49. Í lok stríðsins var Hergé nokkrum sinnum tekinn höndum og yfirheyrður af ýmsum hópum andspyrnuhreyfinga og fékk ekki að starfa við fjölmiðla um nokkurt skeið. Hann var lengi talinn óæskilegur og hann fékk hvergi vinnu eftir að stríðinu lauk og það tók Belga nokkuð langan tíma að taka Hergé aftur í sátt. Þannig beið Tinni á gólfinu á spítalanum í tvö ár með spurningarmerki yfir höfðinu á blaðsíðu 49. Á meðan á þessu stóð hafði Hergé því fremur hægt um sig og hóf undirbúning að því að endurteikna, stytta og lita elstu Tinna sögurnar fyrir nýju bókaútgáfuna hjá Casterman. En síðla árs 1945 tók útgefandinn Raymond Leblanc hann upp á arma sína og bauðst til að fjármagna nýtt myndasögutímarit, Le journal de Tintin (Tinna tímaritið), þar sem Hergé gæti fengið að láta ljós sitt skína á ný. Leblanc þessi hafði verið andspyrnuhetja í stríðinu og notfærði sér því þá nauð, sem Hergé var í, til að vinna fyrir sig. Þannig var samstarfssamningurinn í raun refsing Hergés fyrir að hafa teiknað Tinna fyrir Nasistana á Le Soir og verkefni hans á Le journal de Tintin voru miklu meiri en hann réð við. Hann var skipaður listrænn stjórnandi yfir blaðinu og helstu samstarfsmenn hann voru þeir Edgar P. Jacobs, Jacques Laudy og Paul Cuvelier. Belgar fyrirgáfu Hergé yfirsjónir hans í stríðinu þegar Tinna sögurnar fóru að birtast á ný en Le Temple du soleil (Fangarnir í Sólhofinu) hóf göngu sína í fyrsta blaðinu þann 26. september 1946. Sagan var framhald Les Sept boules de cristal sem hafði endað svo snögglega í Le Soir tveimur árum áður en þær blaðsíður sem upp á vantaði komu ekki fyrir sjónir lesenda fyrr en sagan kom út í bókarformi árið 1948. En fyrsta tölublaðið af Tinna tímaritinu sló algjörlega í gegn og á innan við 48 klukkustundum seldust nær öll 60.000 eintökin upp.
Smán saman gekk Hergé því í endurnýjum lífdaga með uppfærðum útgáfum á Tinna sögunum en auk þess var óvissu hans um framtíð sagnanna eytt með nýja Tinna tímaritinu. Það reyndi mikið á Hergé á þessum tíma. Hann hafði jafnvel tekið sér frí frá störfum vegna þunglyndis og tvisvar sinnum stakk hann hreinlega af. Þá hvarf hann í nokkrar vikur og gamli skátinn lét fyrirberast í indjánatjaldi í skóglendi nálægt Brussel. Með auknu álagi vegna vinnu hans við endurteiknun eldri sagnanna varð heldur ekki hjá því komist að lengri tími liði á milli nýrri sagna. Móðir hans, sem hafði glímt við geðræn vandamál stóran hluta ævi sinnar, hafði látist í apríl árið 1946 og Hergé mætti því áfalli með enn meiri vinnu. Hann kláraði loksins Tintin au pays de l'or noir (Svarta gullið) sem frestast hafði við innrás Þjóðverja árið 1940 og sú saga birtist nú frá grunni, endurteiknuð og í lit, í Le journal de Tintin þegar sögunni Le Temple du soleil lauk í september 1948. Á þessum tíma hafði útbreiðsla bókanna aukist mikið með tilkomu Casterman útgáfunnar og fyrstu milljón eintökin af Tinna bókunum voru seld. Hergé vann mikið og lagði gríðarlega á sig svo eitthvað hlaut undan að láta. Það voru fyrst og fremst endurprentanirnar á eldri bókunum sem íþyngdu honum og hann átti erfitt með að ljúka verkefnum sínum. Árið 1950 fékk Hergé einhvers konar taugaáfall af álaginu og sumir hafa viljað meina að pressan hafi komið frá eiginkonu hans, Germaine þó hún hafi reyndar alltaf stutt hann í þunglyndi sínu. Á þeim tíma var Hergé orðinn vel stæður og íhugaði jafnvel að draga sig algjörlega í hlé frá myndasögunum og snúa sér að listmálun. Það varð því úr að hann stofnaði fyrirtæki í Brussel sem hann nefndi Hergé Studios en hlutverk þess var fyrst og fremst að draga úr álaginu sem hvíldi á honum.
Metnaður hans við vinnuna á Tinna sögunum hafði aukist með hverri bók og með Hergé Studios gat hann ráðið til sín fjölda listamanna sem hver um sig sinnti ákveðnum verkefnum tengdum sögunum. Þannig störfuðu sumir að bakgrunnsteikningum eins og landslagi eða borgarumhverfi, aðrir önnuðust flókna hluti sem tengdust tækni og vísindum og enn aðrir unnu að litun. Allt voru þetta hlutir sem Hergé hafði fram til þessa annast að mestu sjálfur. Fyrstu ellefu sögurnar teiknaði hann til dæmis nánast einn og óstuddur. Meðal þeirra listamanna sem störfuðu með honum á Hergé Studios voru þeir Edgar P. Jacobs, Jacques Martin, Bob De Moor og Roger Leloup en með tímanum tileinkuðu þeir sér tækni, stíl og vinnubrögð Hergés og urðu allir seinna vinsælir myndasöguhöfundar. Hergé var með allt að í fimmtíu manns í vinnu þegar mest var. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi létt mikið á vinnu Hergés þá héldu andleg veikindi hans enn áfram og þunglyndið jókst með tímanum. Einhverjir telja að upp frá þessu megi jafnvel greina áhrif þeirra í verkum hans. Næstu sögur Objectif Lune (Eldflaugastöðin) og On a marché sur la Lune (Í myrkum mánafjöllum) sem teiknaðar eru á árunum 1950-54 kölluðu á gríðarlega mikla vinnu en jafnframt jukust vinsældir Tinna bókanna um alla Evrópu. Vinnan við tunglferðabækurnar var augljóslega krefjandi því það var ekkert grín að koma Tinna á tunglið fimmtán árum á undan Neil Armstrong. Á Hergé Studios gerðu sérfróðir tæknimenn fullkomnar teikningar og líkan af eldflauginni og geimflaugasérfræðingar, sem yfirfóru teikningarnar, töldu í alvöru að þær hefðu verið nothæfar til að smíða geimflaug sem virkaði. 
Hergé átti augljóslega enn í mikilli andlegri kreppu og það voru þegar komnir brestir í hjónaband hans þegar Germaine eiginkona hans slasaðist alvarlega í bílslysi sem þau lentu í árið 1952. Hún varð fyrir varanlegum skaða, lenti í hjólastól um tíma en gekk seinna við staf og í kjölfarið fór hún að neyta áfengis í óhófi. Allt þetta varð aðeins til að auka á vanlíðan Hergés. Þeim Germaine hafði ekki orðið barna auðið en einhverjar heimildir kveða á um að þau hafi ættleitt sjö eða átta ára gamalt munaðarlaust barn frá "fjarlægu" landi í lok 4. áratugarins en Hergé hafi ekki getað getað borið þá ábyrgð lengur en tvær vikur. Og að lokum hafi vinafólk tekið barnið að sér. Árið 1956 hóf síðan ung kona Fanny Vlamynck störf við litun hjá Hergé Studios og fljótlega urðu þau Hergé mjög náin og hófu brátt ástarsamband þrátt fyrir 27 ára aldursmun. Á meðan Germaine hafði verið að pressa á Hergé um aukinn metnað og þar með enn meiri vinnu hafði Fanny meiri samúð með honum og skilning á hans stöðu. Í örvæntingu sinni yfir að vera að missa eiginmann sinn hellti Germaine sér í gamlar skræður um galdra og reyndi að halda í hann með særingarþulum. Það tók Hergé fjögur ár að yfirgefa Germaine fyrir Fanny en vegna belgískra laga tók skilnaðurinn reyndar ekki gildi fyrr en árið 1977. Einhverjir hafa verið með langsóttar kenningar um að Hergé hafi teiknað Germaine á afar neikvæðan hátt inn í söguna um Tinna og Pikkarónana (Dagga eiginkona Alkasars hershöfðingja) árið 1976 en það mun þó líklega ekki vera rétt. Germaine hafði átt stóran þátt í þroska og sköpun Tinna og Hergé talaði alltaf um hana á jákvæðan hátt.
SögurnaL'Affaire Tournesol (Leynivopnið) sem hóf göngu sín í Le journal de Tintin árið 1954 og Coke en stock (Kolafarmurinn) árið 1958 eru af Tinna-fræðingum taldar vera unnar á hátindi ferils listamannsins. Hann fór að vera enn nákvæmari í vinnu sinni og dvaldi til dæmis löngum stundum í Sviss við undirbúning L'Affaire Tournesol svo að sem mestrar nákvæmni gætti í sögunni en sagan gerist að mestu þar. Fyrir átti hann stórt ljósmyndasafn sem hann hafði notað við undirbúning og heimildir á fyrri sögum sínum en nú var hann farinn að ferðast meira og taka mikið af myndum sjálfur til að nota. Og svo var það Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) en sú saga hófst í Le journal de Tintin í september árið 1958 og er af mörgum talin ein sú allra besta. Hergé hefur sagt frá því hvernig hvítir draumar (snjór) eða martraðir höfðu verið að ofsækja hann um langt skeið og þá um leið hvernig hann teiknaði sig út úr þeim ofsóknum með sögunni. Tintin au Tibet var mjög frábrugðin fyrri sögum Hergés þar sem enginn glæpur er framinn en gamall vinur hans Tchang Tchong-Jen birtist á ný og töluvert er spilað inn á tilfinningar lesenda í sögunni. Á þessum tíma hafði Hergé ekkert heyrt frá Tchang síðan hann fór frá Evrópu árið 1935. En auk þess sem Tintin au Tibet er persónulegasta verk Hergés er sagan hreint listaverk sjónræntHenni lauk undir lok nóvember árið 1959 og sagan var gefin út í bókarformi í kjölfarið. Þau skötuhjúin Hergé og Fanny hófu á þessu tímabili nýtt líf saman og það virtist hafa góð áhrif á Hergé þótt veikindi hans fylgdu honum alla ævi. Því auk þess að hefja heilbrigðara líferni, þar sem hann hætti til dæmis að reykja (fór reyndar í staðinn að totta pípu), dró hann verulega úr vinnu sinni og var einnig duglegur að leita sér ráðgjafar hjá sálfræðingum og geðlæknum. Í einni slíkri meðferð var honum til dæmis eindregið ráðlagt, af svissneskum sálfræðingi, að hætta að vinna við Tintin au Tibet þegar hvítu martraðirnar hans voru í hámarki. Hergé tók hins vegar ekkert tillit til þeirra ráðlegginga en kláraði söguna og afraksturinn varð líklega hans besta bók.
Þarna var líf hans komið í jafnvægi á ný og hann fór að njóta þess betur. Hann tók því rólega næstu misserin en á næstu sögum hans má sjá ýmsar áherslubreytingar eða jafnvel uppgjör og Hergé fór að tjá sig öðruvísi í myndasögunum. Lengra varð nú á milli sagnanna og næsta saga hóf ekki göngu sína í Le journal de Tintin fyrr en um mitt ár árið 1961 þegar Les Bijoux de la Castafiore (Vandræði Vaílu Veinólínóbirtist á síðum tímaritsins. Hún kom síðan út í bókarformi árið 1963. Líkt og næsta saga á undan, Tintin au Tibet, var fátt um glæpsamlega atburði í sögunni og einhverjir hafa nefnt hana "bókina þar sem ekkert gerist". Eitthvað eru tilfinningar fólks gagnvart henni blendnar því að á meðan margir telja hana þá bestu vilja aðrir meina að hún sé sú leiðinlegasta. Á sínum tíma töldu þó "alvarlegir" bókmenntafræðingar (og gárungar) að það eina sem kom í veg fyrir að Hergé fengi Nóbelsverðlaunin fyrir bókina var að hún væri ekki nógu leiðinleg. Og enn leið lengri tími þar til næsta saga byrjaði í Le journal de Tintin en Vol 714 pour Sydney (Flugrás 714 til Sidney) hóf göngu sína í lok nóvember árið 1967 en í þeirri sögu fetar Hergé eilítið inn á yfirnáttúrulega hluti. Bókin var síðan gefin út árið 1968 og þar með liðu 5 ár á milli bóka. Og enn leið langur tími á milli sagna. Hergé tók þá meðvituðu ákvörðun að fara að hægja á sér og tók að ferðast og fór meðal annars til Ameríku og Asíu ásamt Fanny.
Faðir hans, klæðskerinn Alexis Remi, lést í júní árið 1970 en hann var þá orðinn 87 ára gamall en eftir að Hergé Studios var stofnað hafði hann starfað þar sem umsjónarmaður skjalasafnsins. Hergé var farinn að hafa áhuga á nútímalist og eignaðist svolítið af þess konar verkum auk þess sem hann málaði eitthvað sjálfur. Hann dáðist af verkum Andy Warhal og átti meira að segja verk eftir hann en nokkrum árum seinna gerði Warhal fjórar silkiþrykk myndir af Hergé í anda Marilyn Monroe myndanna sinna. En í síðustu sögunum, sérstaklega í Tintin et les Picaros (Tinni og Pikkarónarnir) og auðvitað Tintin et l'Alph-Art sem hann kláraði ekki, má sjá dæmi um nútímalist í bakgrunninum. Næsta saga, sem var einmitt Tintin et les Picaros, kom ekki út í bókarformi fyrr en árið 1976 en hún varð sú síðasta af fullkláruðum verkum Hergés. Hergé greindi sjálfur frá því í blaðaviðtali áður en sagan kom út að hann væri að skapa nýjan Tinna sem væri nær lesendum í tíma og rúmi. Hann færi meira að takast á við hversdagsleikann. Sagan þykir ekki merkileg og sýnir þess augljós merki að Hergé er farinn að reskjast enda var hann þarna orðinn rétt tæplega sjötugur. Þarna hefur hann augljóslega slakað á hugsjónum sínum og Tinni er orðinn svolítið þreyttur. Hergé er þó aðeins að reyna að fylgja tíðarandanum og lætur Tinna til dæmis bæði klæðast gallabuxum, stunda jóga og ferðast um á skellinöðru. Það að gallabuxnavæða Tinna var svolítið umdeilt en reyndar var hann búinn að birtast sjö árum áður í teiknimyndinni Tintin et le Temple du Soleil þannig til fara. Þá hafði verið gripið til mótmæla fyrir utan kvikmyndahús.
Hergé leitar reyndar aðeins á gömul mið, á kaldhæðnislegan hátt, í Tintin et les Picaros því hún er ekki bara pólitísk heldur má segja að Tinni sjálfur taki beinan pólitískan þátt í atburðarrásinni. Árið 1977 þegar Hergé hafði að endingu fengið löglegan skilnað frá Germaine gátu þau Fanny loksins gifst. Hergé var að mestu sestur í helgan stein en á svipuðum tíma hafði hann fyrir hreina tilviljun komist í samband við Tchang Tchong-Jen, sem hann hafði lengi reynt að hafa upp á, en ekki heyrt frá í rúmlega 40 ár. Hergé var búinn að gefa upp alla von og hélt að Tchang væri löngu látinn. Og þann 18. mars árið 1981 var komið að endurfundum sem reyndar einkenndust af fremur blendnum tilfinningum því fjölmiðlar gátu ekki staðist þá freistingu að þurfa að vera viðstaddir komu hans á flugvöllinn í Brussel. Hergé leið augljóslega óþægilega innan um myndavélarnar og hinn hægverski Tchang áttaði sig engan veginn á því að allur heimurinn þekkti hann í gegnum Tinna bækurnar. Þeir fengu þó seinna mörg tækifæri til að ræða saman og rifja upp gamla tíma. Fáeinum árum seinna flutti Tchang til Evrópu en hann lést, í nágrenni París, árið 1998 rúmlega níræður að aldri.
Eftir Tintin et les Picaros lagði Hergé fljótlega á ráðin með nýja sögu og líkt og með það fyrirkomulag sem hann var búinn að tileinka sér árin á undan gaf hann sér góðan tíma til undirbúnings. Til að byrja með fór hann af stað með hugmynd að nýrri Tinna sögu sem myndi eingöngu gerast á flugvelli en það breyttist og hann hóf vinnu við sögu þar sem þemað myndi tengjast nútímalist. Á þessum árum var heilsu Hergés þegar farið að hraka og næstu árin þurfti hann að fara í reglulegar blóðgjafir. Í febrúar árið 1983 var hann lagður inn á sjúkrastofnun í bænum Woluwe-Saint-Lambert þar sem honum hrakaði stöðugt. Hann lést að kvöldi þriðja mars árið 1983, 75 ára að aldri, eftir að hafa legið í dái í viku.
Aldrei var gefið út opinbert banamein Hergés en hvítblæði var nefnt sem líkleg orsök. Undir lokin mun hann hafa orðið sífellt veikari og máttfarari af fjölmörgum og endurteknum sýkingum sem drógu hann að lokum til dauða. Seinna hafa komið fram upplýsingar sem gefa til kynna að Hergé hafi látist af völdum HIV veirunnar sem hann hafi veikst af vegna sýktar blóðgjafar. Á þessum tíma voru rannsóknir á HIV enn á frumstigi og veiran ekki vel þekkt og skimun á sýktu blóði því enn frekar frumstæð. Dauði Hergés hafði djúp áhrif á margar kynslóðir um alla Evrópu og þá sérstaklega í hinum frönskumælandi heimi þar sem milljónir lutu höfði í sorg. Daginn eftir að hann lést þurftu stjórnmálamenn og stríð að víkja af forsíðum dagblaðanna fyrir fyrirsögninni; "Hergé er dáinn og Tinni er einn eftir." Þann dag voru allar myndir í dagblaðinu Liberation úr Tinna bókunum, hvort sem um var að ræða fréttamyndir eða auglýsingar. Sjálfur hafði Hergé sagt í einu af síðustu viðtölum sínum að eftir dauða hans gæti enginn haldið áfram að teikna Tinna. "Tinni, það er ég. Hann er augun mín, skynfæri mín, lungu mín og innyfli. Ég held að ég sé sá eini sem geti teiknað hann. Það er ævistarf mitt. Aðrir gætu tekið við og gert það betur, eða kannski ekki eins vel og þeir myndu gera það öðruvísi. Svo það væri ekki Tinni lengur. Tinni og ég erum eitt." Að ósk Hergé var hann jarðsettur í Dieweg kirkjugarðinum í Uccle í Brussel.
Til að varðveita minningu Hergés (og þá um leið Tinna) hefur ekkja hans, Fanny, séð um að viðhalda og virða óskir hans um að ekki hafi verið teiknaðar fleiri Tinna sögur. Þó gaf hún leyfi fyrir því árið 1986 að sagan Tintin et l'Alph-Art (Tinni og leturlistin), sem Hergé hafði verið að vinna að þegar hann lést, yrði gefin út ókláruð og í því skyssuformi sem hún var þá. Þar er um að ræða fyrstu 42 síðurnar af frekar óljósum söguþræði og grófu rissi með skýringum.

Það er tilvalið að enda þetta á tveimur heimildarmyndum um Hergé. Annars vegar er um að ræða Tintin et moi (Tinni og ég), sem margir kannast eflaust við, eftir danska rithöfundinn og kvikmyndagerðarmanninn Anders Østergaard en myndina gerði hann árið 2003. Tintin et moi fjallar um feril Hergé og er að miklu leyti byggð á viðtölum sem franski myndasögusérfræðingurinn Numa Sadoul tók við hann árið 1975 en í henni má meðal annars sjá viðtöl við áðurnefndan Sadoul, Fanny Vlamynck (í dag Fanny Rodwell) og Michael Farr sem skrifað hefur margar bækur um Tinna og Hergé.
Hin heimildarmyndin, sem er frá árinu 2016, er upphaflega frönsk og heitir Hergé, à l'ombre de Tintin (Hergé, í skugga Tinna) og er eftir leikstjórann Hugues Nancy en hér má sjá hana í heild sinni með þýsku tali. Mjög fróðlegt allt saman.
Og svo er einnig tilvalið að minna á þætti Gísla Marteins Baldurssonar, Ævintýri Tinna, þar sem hann fer yfir sögu þessara frábæru myndasagna en svo eru ekki síðri styttri innlegg, um stakar Tinna bækur, í þættinum Lestinni í síðdegisútvarpinu á Rás 1. Tilvalið að kíkja á þetta efni allt saman á RÚV vefnum á meðan það er aðgengilegt.

16. mars 2018

50. TINNI, STING OG SVEPPAGREIFINN

SVEPPAGREIFINN hefur frá unglingsárunum verið nokkur aðdáandi tónlistarmannsins Sting eða Gordon Sumner eins og hann var nú víst skírður í æsku. Sting vakti fyrst athygli sem frontur breska tríósins Police og svo hóf hann sólóferil sem enn stendur þó eitthvað hafi hann haft hægt um sig á tónlistarsviðinu undanfarin árin. Við fyrstu sýn virðist sú staðreynd reyndar koma teiknimyndasögum hið minnsta við. Og þó ... Árið 1987 sendi hann frá sér breiðskífuna ...Nothing Like the Sun sem meðal annars hafði að geyma hið frábæra lag Englishman in New York en á plötunni var einnig lag sem nefnist We'll Be Together. Reyndar verður SVEPPAGREIFINN að viðurkenna að síðarnefnda lagið höfðar engan veginn til hans og er í huga hans því eina leiðinlega lagið sem hann man eftir með þessum frábæra tónlistarmanni. En myndbandið við We'll Be Together vakti hins vegar meira athygli SVEPPAGREIFANS, á sínum tíma, því að í því má sjá hann klæðast forláta Tinna peysu.
Þess háttar peysu, eða einhverja mjög sambærilega, var SVEPPAGREIFANN búið að langa töluvert mikið í síðan hann sá myndbandið fyrst seint á níunda áratug síðustu aldar.
Og þegar SVEPPAGREIFANN langar í eitthvað sérviskulegt þá kemur sér ansi vel að eiga góða og skilningsríka eiginkonu sem kann og getur allt.

Það var reyndar eilitlum erfiðleikum bundið að hefja vinnuna við verkefnið. Fyrst þurfti að finna út úr því hvernig best væri að standa að verkinu því það er víst ekkert sérstaklega heiglum hent (ferlegt þetta tungumál sem við eigum) að prjóna eins og eina Tinna peysu. Það hvernig staðið er að hönnun prjónapeysu, með mynd af Tinna framan á sér, er líklega ekki sterkasta hlið SVEPPAGREIFANS og því er ekki ætlunin að reyna að útskýra tækni- eða verklega hluta vinnunar. Hins vegar sá eiginkonan um það hönnunarferli á sinn einstaka hátt og þegar því var lokið þurfti að velja efni garnsins (sem í þessu tilfelli var hreinræktaður íslenskur rollulopi), liti og helsta útlit peysunnar. Þ.e. að taka ákvörðun um sídd hennar, hvers konar hálsmál átti að vera á henni osfrv. Eitthvað svona allskonar prjónatæknivesen tengt lopapeysum sem SVEPPAGREIFINN kann ekkert að skilgreina. Og síðast af öllu var svo auðvitað að ákveða hvaða mynd skyldi nota. Af tæknilegum ástæðum var tekin sú ákvörðun að myndin af Tinna skyldi vera sem einföldust og aðeins í einum svörtum lit, þ.e.a.s. þeim svarta lit sem sýndi þá aðeins útlínur myndarinnar.

Og þá var komið að ástkærri eiginkonunni að eyða einhverjum vikum (reyndar með hléum) við vinnu sem að miklu leyti snerist um að rekja upp, prjóna aftur, stytta eða lengja hluta peysunnar eftir þörfum, staðsetja Tinna og stækka hann eða minnka, allt eftir sérvisku, sérþörfum og þráhyggju SVEPPAGREIFANS. Auk þess sem þetta virkar allt miklu auðveldara en að framkvæma það. Allt hafðist það þó að lokum hjá eiginkonunni með ómetanlegri þolinmæði og þrautseigju. Og hér má sjá afraksturinn.
Og SVEPPAGREIFINN er svo ánægður með útkomuna að hann hefur sett stefnuna á aðra sambærilega peysu og þá líklega með mynd úr einhverri annarri myndasöguseríu. Hann er reyndar ennþá að velta því fyrir sér hvernig best sé að nefna þessa nýju hugmynd við sína ástkæru ...

9. mars 2018

49. VIGGÓ Í BÍÓ

Nú líður senn að því að bíómynd um Viggó viðutan komi í kvikmyndahús en áætlað er hún verði frumsýnd í Frakklandi þann 4. apríl næstkomandi. Myndin heitir einfaldlega Gaston Lagaffe og aðalhlutverk hennar er í höndum 18 ára stráks sem nefnist Théo Fernandez. Hann hefur leikið nokkur lítil atriði í fáeinum kvikmyndum en þetta mun þó vera frumraun hans á stóra sviðinu. Flestar af þeim persónum sem við könnumst við úr bókum Franquins munu koma við sögu í myndinni en þó mun Valur (og þá um leið væntanlega Svalur) verða vant við látnir enda önnur kvikmynd um þá félaga tiltölulega nýkomin í bíó. 
Það er víst ekki rétt að vera að skapa einhverjar væntingar fyrirfram um þessa Viggó mynd því það gerist til algjörra undantekninga ef slíkar væntingar standast. Það er ólíklegt að hún verði tekin til sýninga hér á landi en hvernig sem fer mun þessi bíómynd verða ómissandi hverjum aðdáanda bókanna um Viggó viðutan. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar stillur úr myndinni en sjónrænt virðist sem ætlunin hafi verið að reyna að ná sem mestu út úr myndasögunum. 
Auðvitað kemur ekki til greina að gera bíómynd um Viggó viðutan án þess að hinn frábæri guli Fíat 509 komi við sögu. Og að sjálfsögðu er það Eyjólfur sem er einhvers konar fórnarlamb í þessu atriði en hann leikur hinn franski Pierre-François Martin-Laval.
Af búnaðnum á þaki gula Fíatsins að dæma og angistarsvip farþega hans má ætla að hér sé á ferðinni sena þar sem einhver af uppfinningum Viggós, tengd vélbúnaði bílsins, komi við sögu. Viggó sjálfur er einbeittur við stýrið en Júlli í Skarnabæ og Berti blindi eiga við einhver örvæntingarfull vandamál að stríða.
Viggó er dýravinur og það þarf ekki að koma á óvart að í myndinni sé atriði þar sem ferfætlingur á borð við kýr kemur við sögu. Ungfrú Jóka er ekki langt undan en hlutverk hennar er í höndum leikkonu sem nefnist Allison Wheeler og er nokkuð þekkt í Frakklandi. 
Í þessu atriði er Viggó í kunnuglegum samskiptum við lögregluþjóninn Njörð en að líkum lætur er sá síðarnefndi þarna í þráhyggju sinni að reyna að sekta Viggó í enn eitt skiptið fyrir ólöglegt athæfi. 
Þetta er ekki alveg í fyrsta skiptið sem Viggó viðutan birtist á hvíta tjaldinu því að í apríl árið 1981 var frumsýnd gamanmyndin Fais gaffe à la gaffe sem reyndar sló ekki í gegn. Myndin var frönsk og André Franquin hafði ekki gefið samþykki sitt fyrir notkun á persónum hennar en leyfði þó að brandarar myndasagnanna og helsta umhverfi yrði notað í myndinni. Persónur hennar fengu því ekki að heita sömu nöfnum og í myndaseríunni þannig að þær fengu allar ný heiti sem sum þó minntu eða vísuðu í upprunalegu nöfnin þeirra. Viggó er þannig nefndur "G" (fyrir Gaston)  og er ekki hafður í sinni hefðbundnu grænu peysu heldur í ljósgulri peysu merktri með "G". Eyjólfur heitir "Prunus" (Prunelle í upprunalegu sögunum), ungfrú Jóka "Penelope" (miss Jeanne) og herra Seðlan nefnist "Mercantilos" (De Mesmaeker). Myndin er illfáanleg og hefur til dæmis aldrei verið gefin út á dvd en enn eru einhvers staðar VHS eintök til á meðal hörðustu aðdáenda Viggós. Einhver af gagnrýnendunum sagði einmitt að það eina góða við myndina væri hve erfitt væri að nálgast eintak af henni og annar sagði að jafnvel bíllinn hans "G" (Viggós) hefði leikið illa.

Hér má sjá myndina Fais gaffe à la gaffe í fullri lengd fyrir þá sem langar að spreyta sig á frönskunni eða hafa ríka þörf fyrir að drepa tímann á leiðinlegan hátt næstu tvær klukkustundirnar.

2. mars 2018

48. HINN ÓLÁNSAMI PRÓFESSOR SPRTSCHK

Teiknimyndasögurnar um þá Sval og Val nutu ómældra vinsælda hjá íslenskum myndasöguaðdáendum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en á sínum tíma voru gefnar út samtals 29 Sval og Val bækur hjá bókaútgáfunni Iðunni. Síðasta bókin sem Iðunn sendi frá sér, Seinheppinn syndaselur, kom út árið 1992 en síðan liðu árin og það var ekki fyrr en árið 2013 sem næsta saga kom út. Þá var það Froskur útgáfa sem hafði veg og vanda um að hefja á ný útgáfu teiknimyndasagna á íslensku en Arfurinn/Vitskerti prófessorinn var fyrsta Sval og Val bókin til að koma út á íslensku í rúmlega 20 ár. Alls hafa nú komið út 33 sögur á íslensku af 55 úr opinberu bókaröðinni en svolítið ósamræmi er þó á milli þessara útgáfa þar sem elstu sögunum er raðað á misjafnan hátt í bækurnar.
Ein af þeim Sval og Val bókum sem enn á eftir á koma út í íslenskri þýðingu er Franquin bókin Le voyageur du Mésozoïque sem kölluð hefur verið Fornaldareggið þegar vitnað hefur verið í hana (Veiran, bls 15 - 1984) í íslensku útgáfunum. Eins og aðrar Sval og Val sögur birtist hún fyrst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU en hún hóf göngu sína í tölublaði númer 992 þann 2. maí árið 1957. Sagan kom síðan fyrst út í bókaformi árið 1960 og er í seríunni innan um helstu gullmola Franquins. Hún er næsta bók á eftir Sval og górilluöpunum - 1978 (Le gorille a bonne mine - 1959) og Gormahreiðrinu - 1978 (Le nid des Marsupilamis - 1960) en á undan Fanganum í styttunni - 1981 (Le prisonnier du Bouddha - 1960) og Z fyrir Zorglúbb - 1981 (Z comme Zorglub - 1961). Á þessum árum var listamaðurinn gríðarlega afkastamikill og frjór og þessar sögur voru líklega allar teiknaðar á hápunkti ferils hans. Það er því synd að hin frumlega Le voyageur du Mésozoïque hafi ekki komið út á íslensku í samfloti með áðurnefndum bókum en reyndar hefur sagan af sumum verið talin ein af hinum slakari frá André Franquin. Persónulega er SVEPPAGREIFINN reyndar mjög hrifinn af þeim bókum Franquins sem gerast í Sveppaborg og nágrenni hennar. Núna eru aðeins fjórar bækur eftir André Franquin óútgefnar á íslensku.
En í fljótu bragði segir sagan frá því þegar Sveppagreifinn finnur 50 milljóna ára gamalt risaeðluegg á Suðurskautslandinu sem hann flytur heim í kastalann í Sveppaborg til rannsóknar. Þegar heim er komið nýtur hann aðstoðar þeirra Svals og Vals, auk lítins hóp vísindamanna, við að hjálpa sér við að klekja út egginu og það tekst svo vel til að fljótlega lítur lítill og vinalegur risaeðluungi dagsins ljós. En fyrir einstakan klaufagang og brussuskap Gorms, auk hraðvaxtarsveppablöndu Sveppagreifans, verður risaeðluunginn fullvaxta á einni nóttu og þá er ekki að sökum að spyrja. Afgangur sögunnar gengur svo út á að reyna að hemja risaeðluna og koma í veg fyrir stórfelldar eyðileggingar á Sveppaborg og nágrenni af völdum hennar.
Í hópnum á meðal vísindamannanna fjögurra, sem aðstoða Sveppagreifann með eggið, kennir ýmissa grasa. Kunnuglegir fýrar eins og þeir Durtur og Surtur (Dr. Schwartz og Dr. Black) koma við sögu og eru á meðal hjálparkokka Sveppagreifans en þeir félagar hafa unnið að ýmsum verkefnum með greifanum. Þeir Durtur og Surtur eru gamlir vinir Sveppagreifans og við munum til dæmis eftir þeim í bókinni Burt með harðstjórann þar sem þeir aðstoðuðu hann við að útbúa og þróa hæfilega litlar sprengjur og skothylki til að dreifa Metómól gasi Sveppagreifans gegn her Palombíu. En svo koma þeir einnig fyrir í sögunni Vikapiltur á vígaslóð (Le Groom de Sniper Alley - 2014) sem Froskur útgáfa sendi frá sér í íslenskri þýðingu árið 2015. Samkvæmt Spirou-Wikia er sá minni, Durtur (Dr. Schwartz), breskur vísindamaður en sá hávaxni, Surtur (Dr. Black) er hins vegar þýskur. Miðað við nöfn þeirra ætti því þó kannski frekar að vera öfugt farið. Þeir félagar eru nánast óaðskiljanlegir og einhverjir Sval og Val nördar hafa haft þá undarlegu þörf að þurfa að velta því fyrir sér hvort þeir séu í raun konur og séu því lesbískt par. Að öðru leyti hefur ekki komið fram mikið meira af upplýsingum um þessa kappa.
Þriðji vísindamaðurinn er líffræðingur og er með myndarlegt og ákaflega virðulegt hvítt skegg en nafn hans kemur þó aldrei fyrir í upprunalegu sögunum. Í dönsku útgáfunni (þ.e. Ægget fra fortiden), sem fer reyndar óvenju frjálslega með þýðingu bókarinnar, hefur hann þó hlotið nafnið Clausen. Í bókinni er aukasaga sem nefnisLa Peur au bout du fil (1959) og þar kemur kappinn einnig fyrir. En líffræðingi þessum bregður líka fyrir í bókunum Le rayon noir (1993), sem hefur ekki komið út á íslensku, og í áðurnefndri Vikapilti á vígaslóð þar sem hann aðstoðar þá Durt, Surt og Sveppagreifann við flókið verkefni. Þá birtist hann í einni af bókunum í Série Le Spirou de…  (Sérstæð ævintýri Svals...) sem nefnist Les Géants pétrifés og er frá árinu 2006. Og alltaf er líffræðingurinn með síða skeggið jafn nafnlaus.
Sá fjórði og síðasti af þeim sem aðstoða Sveppagreifann við verkefnið er nokkuð annars hugar vísindamaður sem ber hið óvenjulega og frekar óþjála nafn, prófessor Sprtschk. SVEPPAGREIFINN (þ.e. sá sem er að rita þessa færslu) hefur alltaf haft húmor fyrir nöfnum sem eru eingöngu byggð upp á samhljóðum. Hann minnist í því samhengi fremur ófríðs fyrrum leikmanns fótboltafélags í Everton-borg sem nefndist Skrtl eða eitthvað svoleiðis (borið fram sem "skrölt") og var mjög gjarn á að sparka boltanum í netið hjá eigin liði. En það er önnur saga.
Prófessor Sprtschk er kjarnorkueðlisfræðingur sem augljóslega býr yfir mikilli snilligáfu en hlutverk hans við risaeðluverkefni Sveppagreifans er reyndar ekki mjög ljóst. Hann virkar mjög afundinn og er engan veginn með hugann við sameiginlegt verk hinna vísindamannanna en virðist hins vegar mjög gagntekinn af eigin hugleiðingum. Að því leyti er hann eiginlega alveg í sínum heimi. Svo upptekinn er prófessor Sprtschk af hugarefnum sínum að hann hugsar í eðlisfræðiformúlum og er því engan veginn viðbúinn þegar risaeðlan gleypir hann með húð og hári í einum munnbita. Og reyndar með bæði bekk og trjárunna sem ábæti.
Það skal reyndar tekið fram að almennt var þessi risaeðlutegund grænmetisæta. En í aðdraganda munnbita risaeðlunnar má reyndar alveg greina viðhorf Franquins til þessarar persónu og það var augljóslega ætlun listamannsins að sýna afstöðu Sveppagreifans gagnvart prófessors Sprtschk. Hann lætur vísindamanninn verða fyrir smávægilegum slysum en einnig virðist sem Sveppagreifinn bregði fyrir honum fæti og hrindi honum jafnvel um koll - að því er virðist viljandi. Það lítur því út fyrir að Sveppagreifinn hafi einhver horn í síðu prófessor Sprtschk og sé ekkert um hann gefið. Af hverju er ekki alveg ljóst í byrjun en það kemur síðar í ljós.
Á því augnabliki sem risaeðlan gleypir prófessorinn virðist sem hann hafi nefnilega loksins fundið lausn á þeim reikniformúlum sem hann var búinn að liggja yfir blaðsíðurnar á undan. Það er því einnig ljóst að með þessum matarbita skepnunnar hafi niðurstaða formúlanna horfið yfir móðuna miklu með eiganda sínum. Í fyrstu verður flestum samstarfsmönnum hans ansi hverft við að sjá prófessor Sprtschk étinn í einum munnbita af risaeðlu en eftir að Sveppagreifinn upplýsir viðstadda um að eðlisfræðingurinn hafi verið að leggja lokahönd á nýja og enn ógnvænlegri kjarnorkusprengju láta þeir sér fátt um finnast og taka gleði sína á ný.
Og það er ekkert verið að hafa fyrir því að láta einhverja eftirmála verða af þeim málum. Kjarnorkueðlisfræðingur er étinn af risaeðlu og málið er dautt! Þannig er ljóst að Sveppagreifinn (og reyndar einnig Franquin) eru augljóslega lítt gefnir fyrir kjarnorkubrölt hvers konar. Það má reyndar líka sjá á seinni tíma verkum Franquins að bæði mannréttinda- og umhverfismál voru honum afar hugleikin. Svo má auðvitað alls ekki gleyma endurkomu prófessors Sprtschks í bókaflokknum um Sérstök ævintýri um Sval... þar sem hann birtist á ný í bókinni Panique en Atlantique (2010) en sú sería á vonandi einhvern tímann eftir að koma út í íslenskri þýðingu.
En það eru líklega ekki margir sem átta sig á því að prófessor Sprtschk átti sér fyrirmynd. Það var fransk/pólski vísindamaðurinn og rithöfundurinn Jacques Bergier sem var nokkuð kunnur fræðimaður en einnig sérfræðingur um yfirskilvitsleg fyrirbæri. En auk þess stofnaði hann tímaritið Planète með vini sínum Louis Pauwels. Ævi Bergier var afar viðburðarík en auk þess að lenda í fangabúðum Nasista í Seinni heimsstyrjöldinni vann hann einnig að merkum uppfinningum tengdu þungu vatni og starfaði við njósnir. Jacques Bergier var vel liðinn og þekktur meðal listamanna belgísk/franska myndasöguelítunnar og var til að mynda stjórnarmaður í þekktum myndasöguklúbbi í byrjun sjöunda áratugarins. Og til marks um vinsældir hans voru miklu fleiri en bara Franquin sem hann gaf innblástur og úthlutuðu honum hlutverk í myndasögum sínum. Meira að segja sjálfur Hergé færði Bergier stórt hlutverk í virðingarskyni í einni af sínum sögum, Flugrás 714 til Sidney árið 1968. Þar var hann fyrirmyndin að geimveru- og stjörnufræðingnum Sigmiðli Transvaldurr sem margir muna eflaust eftir en Bergier var alltaf stoltur yfir því að hafa verið gert svo hátt undir höfði hjá Hergé og að hafa fengið ódauðlegt hlutverk í Tinnabók. Bergier hafði einnig starfað við ráðgjöf varðandi einhver vísindaleg efni í bíómyndinni Tintin et les oranges bleues (Tinni og bláu appelsínurnar) árið 1964.
Og svo má ekki gleyma einu mikilvægu og merkilegu atriði í viðbót úr þessari Sval og Val sögu, Le voyageur du Mésozoïque, sem er þó með öllu ótengt hinum ólánsama prófessor Sprtschk. Í Fornaldaregginu bregður nefnilega Viggó viðutan fyrir í fyrsta sinn í myndasögu um Sval og Val en hann átti eftir að birtast all oft á blaðsíðum þeirra bóka. Áður höfðu þeir félagar Svalur og Valur reyndar birst í bröndurunum um Viggó en þetta var í fyrsta sinn sem Viggó skrapp út fyrir sína seríu.