SVEPPAGREIFINN er af þeirri kynslóð sem ólst að miklu leyti upp við Frank og Jóa, Bob Moran, hinn danska Jonna og félaga hans og bækurnar eftir Enid Blyton. Reyndar jöfnum höndum með þeim myndasögum sem hann er að býsnast við reyna að mæra hér á þessari síðu. Það var hins vegar ekki fyrr en töluvert seinna sem hann áttaði sig á því að sögurnar um Bob Moran væru einnig til í myndasöguformi á frönsku. Þar heitir hann auðvitað Bob Morane. Það var aðeins fyrir tilverknað þeirra myndasagna sem SVEPPAGREIFINN eignaðist á öðrum tungumálum að hann uppgötvaði þessar sögur. Þar voru þær bækur sem komnar voru út hjá útgáfunni tíundaðar aftast í bókunum.
Um 80 bækur hafa komið út á frummálinu en SVEPPAGREIFINN minnist þess þó ekki að hafa flett eða handfjatlað þessar myndasögur í gegnum árin. Enda svo sem ekkert við því að búast þar sem þær bækur komu aldrei út í því formi hér á landi eða hafa verið hér til sölu. Jafnvel þó SVEPPAGREIFINN hafi verið ansi duglegur við að gramsa í þeim aragrúa af myndasögustöflum sem hann hefur komist höndum yfir á ferðum sínum, hefur hann einhvern veginn aldrei munað eftir eða haft rænu á því að kíkja eftir þeim til skoðunar eða kaups.
En Bob Moran kom fyrst fyrir sjónir íslenskra unglinga árið 1960 þegar bókaútgáfan Leiftur sendi frá sér fyrstu bókina, Ungur ofurhugi en alls gaf Leiftur út 28 bækur með kappanum. Þá síðustu árið 1975. Bækurnar voru eftir belgíska rithöfundinn Charles-Henri-Jean Dewisme sem tók sér höfundanafnið Henri Vernes en meira en 200 sögur hafa verið skrifaðar um kempuna í nafni Vernes frá árinu 1953. Henri Vernes er reyndar enn á lífi orðinn rétt tæplega 99 ára gamall.
En árið 1960 kom Bob Morane ekki bara fyrir sjónir Íslendinga í fyrsta sinn heldur fengu íbúar belgísk/franska svæðisins að sjá hann í fyrsta sinn í teiknimyndaformi í myndasögublöðunum Femmes d'Aujourd'hui, Pilote magazine og Het Laatste Nieuws. Og seinna birtist hann meira að segja í Tintin Magazine. Auðvitað kom þetta líka allt út í bókaformi eins og venja var með vinsælustu myndasögurnar í Belgíu. Fyrst um sinn var það ítalski listamaðurinn Dino Attanasino sem teiknaði Bob Morane en alls eru það fimm teiknarar sem hafa séð um að túlka þessar myndasögur í um 80 bókum alls. Það eru jú töluvert margar bækur.
SVEPPAGREIFINN komst nýverið loksins aðeins í færi við kappann í myndasöguforminu og rýndi eilítið í fáeinar bækur. Og eins og með svo margar myndasögur sem lifa í gegnum áratugi, þá breytist mikið með tímanum. Við þekkjum það til dæmis vel í gegnum bækurnar með Sval og Val þar sem mismunandi höfundar með ólíkan stíl hafa fengið að spreyta sig í gegnum árin. Einnig væri líka hægt að nefna myndirnar um James Bond sem dæmi. Þannig er það augljóslega líka með myndasögurnar um Bob Morane. Nýjasta bókin á fátt sammerkt með þeim myndasögum sem komu út með kappanum á 8. eða 9. áratug síðustu aldar og er auðvitað enn lengra frá bókunum sem Leiftur gaf út og SVEPPAGREIFINN las sem gutti.
SVEPPAGREIFINN komst nýverið loksins aðeins í færi við kappann í myndasöguforminu og rýndi eilítið í fáeinar bækur. Og eins og með svo margar myndasögur sem lifa í gegnum áratugi, þá breytist mikið með tímanum. Við þekkjum það til dæmis vel í gegnum bækurnar með Sval og Val þar sem mismunandi höfundar með ólíkan stíl hafa fengið að spreyta sig í gegnum árin. Einnig væri líka hægt að nefna myndirnar um James Bond sem dæmi. Þannig er það augljóslega líka með myndasögurnar um Bob Morane. Nýjasta bókin á fátt sammerkt með þeim myndasögum sem komu út með kappanum á 8. eða 9. áratug síðustu aldar og er auðvitað enn lengra frá bókunum sem Leiftur gaf út og SVEPPAGREIFINN las sem gutti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!