11. ágúst 2017

18. HANANÚ! - VIGGÓ VIÐUTAN 60 ÁRA

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum, sem hafa einhvern snefil af áhuga á teiknimyndasögum, að snillingurinn Viggó viðutan fagnar 60 ára afmæli á þessu ári. Margir áhugaverðir og skemmtilegir viðburðir hafa verið í boði vegna þessa merka áfanga og einnig hafa ýmsar framandi myndasöguútgáfur af kappanum verið dregnar fram og gefnar út í tilefni afmælisins. Það var þann 28. febrúar árið 1957 sem Viggó birtist í fyrsta sinn í tímaritinu SPIROU (blaði númer 985) sem einhvers konar aukapersóna sem notuð var til að fylla upp í tómarúm í blaðinu. Hugmyndin var að kynna þennan nafnlausa strák, smám saman fyrir lesendum, með þeim hætti að láta hann poppa upp á ýmsum stöðum á næstu vikum. Þannig birtist hann fyrst á einni mynd á óvæntum stað í myndasögutímaritinu, uppáklæddur og bara ægilega fínn.
Í næstu blöðum sást hann á sambærilegum stökum myndum og í frægu samtali við Sval, í einu blaðinu, gaf Viggó óljóst í skyn að sér hefði verið sagt að mæta þangað til vinnu. Hann vissi þó ekkert um hver það hafði verið sem boðaði hann á skrifstofu tímaritsins. Og í rauninni veit enginn hver réði hann á blaðið (sem kallast Tímaritið Svalur á íslensku) og enn síður við hvað hann starfar þar. Jú, hann fékk sitt eigið skrifborð og skrifstofu og hans helsta hlutverk virðist vera að flokka póst. Það var þó ekki fyrr en þann 13. júní árið 1957 sem hans fyrsta saga eða brandari birtist í tímaritinu. Viggó var því skyndilega orðinn að starfsmanni Tímaritsins Svals og undi sér þar vel á skrifstofu þess við flest annað en sem við kom daglegri starfsemi blaðsins. Hugmyndin með nærveru Viggós var sú að hann myndi brjóta upp hefðbundið og dauflegt skrifstofulífið hjá teiknimyndablaðinu og það átti hann sannarlega eftir að gera með uppátækjum sínum.
Belgíski listamaðurinn André Franquin hafði í nokkur ár séð um að teikna þá Sval og Val í SPIROU tímaritinu og það var hann sem fékk nú það kærkomna hlutverk að bæta Viggó við fjölbreytta flóru blaðsins. Franquin hafði teiknað Sval og Val frá árinu 1946 og var orðinn svolítið þreyttur á þeim og vildi fara að prófa eitthvað nýtt. Viggó viðutan, eða Gaston Lagaffe eins og hann heitir á frummálinu, sló auðvitað fljótlega í gegn með uppátækjum sínum enda Franquin algjör snillingur í allri sinni sköpun. Franquin hafði upp á eigin spýtur séð um að lyfta þeim Sval og Val upp á hærra plan, með sínum frábæru listamannshæfileikum, þegar hann tók við keflinu af Joseph Gillain (Jijé) en eftir að hann fékk tiltölulega frjálsar hendur við að skapa Viggó viðutan fengu fleiri hæfileikar hans að njóta sín. Persóna Viggós smellpassaði fyrir hinn rólega og hægverska húmorista Franquin, sem einnig var töluverður uppreisnarseggur og róttækur í sér. Með Viggó viðutan gat hann því leyft sér að sleppa svolítið fram af sér beislinu og gerði ýmislegt sem hann gat ekki gert í sögunum um Sval og Val. En með þessum auknu verkefnum og þroska hélt teiknistíll listamannsins áfram að þróast til algjörar fullkomnunar. Þarna fann höfundurinn líka sjálfan sig svolítið í Viggó og í kjölfarið urðu Viggó viðutan (og reyndar einnig Svalur og Valur) einhverjar stærstu og vinsælustu stjörnur myndasögusagnanna í heiminum. Þökk sé André Franquin.
Viggó viðutan var skapaður með það í huga að birtast á síðum blaðsins sem einnar síðu brandarar en einnig sáust hálfrar síðu brandarar með honum og jafnvel einn og einn stakur brandari með aðeins einni mynd. Og af því að Franquin átti svo stóran hlut í báðum þessum sköpunarverkum, Viggó annars vegar og Sval og Val hins vegar, var líka tilvalið að tvinna þessum viðfangsefnum svolítið saman. Blaðamaðurinn Valur starfaði auðvitað á Tímaritinu Sval eins og Viggó og því birtust þeir félagar Svalur og Valur reglulega í sögunum um Viggó. Og það var líka gagnkvæmt. Viggó birtist einnig öðru hvoru í sögunum um Sval og Val á meðan Franquin teiknaði þær. Viggó var algjörlega sköpunarverk Franquins og hann, líkt og Hergé með Tinna, leyfði ekki að aðrir myndu teikna hann eftir dauða sinn. Sem betur fer. Meira að segja Hergé sá strax hvaða hæfleika Franquin hafði að geyma og lofaði hann í hástert alla tíð.
Viggó viðutan er snillingur. Hann veit það auðvitað sjálfur en fáir aðrir. Það er helst að bestu vinir hans; Júlli í Skarnabæ og Berti blindi (sem heitir víst fullu nafni Albert Engilberts), sem og unnusta Viggós, fröken Jóka hafi sambærilega trú á hæfileikum hans. Eða eins og Jóka orðar það, "Þú finnur alltaf lausnina á hvaða vandamáli sem er, Viggó minn!" Þau þrjú eru öll einlægir aðdáendur hans. Og svo er líklegt að langflestir þeirra sem lesið hafa bækurnar um Viggó hafi einnig þessa sömu trú á snilligáfu hans og hæfileikum. SVEPPAGREIFINN, þ.e. sá sem þessa grein skrifar, er alla vega klárlega í þeim hópi. En þó Viggó sé snillingur er hann líklega ekki að sama skapi mjög skarpur. Hvernig svo sem það gengur upp. Hann er uppreisnarseggur og heimspekingur, ofvirkur og með athyglisbrest en umfram allt er hann uppátækjasamur og forvitinn. Viggó er ótrúlega kærulaus og latur, seinheppinn með eindæmum, viðkvæmur og ljóðrænn listamaður, jákvæður og örlátur iðjuleysingi og mikill dýravinur.
Náttúran er Viggó afar hugleikin og hann er umhverfisverndarinni, þó að líklega sé honum það ekki alveg ljóst sjálfum. Samt eru sennilega fá farartæki í heiminum sem menga jafn mikið og bíllinn hans, sem er gulur Fíat 509 árgerð 1925-29 og því ljóst að þar fer ekki alveg nýjasta tegund. Jafnan er olíuslóðin á eftir bílnum þar sem hann fer um og kolsvartur reykjarmökkur (sem stundum inniheldur einnig óvenju sterk litarefni), með fjölbreyttu blandi af hósti og sprengingum, kemur ýmist úr vélarúminu eða útblástursrörinu. Viggó er duglegur við að þróa kröftugar eldsneytisblöndur fyrir þann gula, með sérþarfir bílvélarinnar í huga. Hann hefur oft verið langt á undan sinni samtíð og breytt Fíatnum í rafmagnsbíl, sett í hann stálfjöður sem trekkt er upp eins og gamaldags klukka og að minnsta kosti einu sinni breytt bílnum á þá leið að hann gekk fyrir kolum. Bíllinn er síbilaður og í rauninni stórhættulegt, skaðræðis drápstól ef hreinskilnislega er til orða tekið. Enda veigra helstu samstarfsmenn Viggós sér við að fá far með honum, ýmist af ótta við að verða fyrir töfum vegna bilanna eða annara ófyrirsjánlegra orsaka. Bilanatíðni hans er reyndar ekki svo óeðlileg ef tillit er tekið til allra þeirra tilraunaverkefna og breytinga sem á þessa gömlu kerru er lagt, sem oftar en ekki hefur þau áhrif að för hennar endar einhverns staðar á óvæntan hátt á vegum úti. Og jafnvel með þeim afleiðingum að í eitt sinn þótti Njörður lögregluþjónn sig tilneyddan til að aflífa bílvélina til að hlífa henni við frekari kvölum.
Viggó viðutan er tónlistarmaður. Hann spilar til að mynda á gítar, þó ekki komi nú reyndar vel fram í bókunum hversu góður gítarleikari hann sé. Á skrifstofunni má sjá nokkuð af blásturshljóðfærum frá honum og í einum brandaranum spilar hann til dæmis á fiðlu fyrir Val. Ja, reyndar með þeim afleiðingum að framkalla algjöran stjarfa á líkama þess síðarnefnda. Mjög fróðlegt allt saman... En Viggó smíðaði og hannaði stórkostlega áhugavert strengjahljóðfæri sem kallast ýmist Viggófónninn eða Steinaldarharpan en strangt til tekið telst hljóðfærið líklega banvænt vopn miðað við þær hljóðbylgjur sem það nær að framkalla. Þetta er eitt flaggskipa uppfinninga kappans. Hljóðbylgjur Viggófónsins hafa komið af stað snjóflóði, valdið brotlendingu á herþotu, framkallað ótímabært barrnálafall á grenitrjám og valdið því að gólfið á háalofti Tímaritsins Svals hafi fallið niður á sjöttu hæð - svo eitthvað sé nefnt. 
Viggó er alltaf eins. Hann hefur verið eins klæddur í 60 ár. Gallabuxur, strigaskór og græna alltof litla ullarpeysan hans eru hans einkenni en það er allt í lagi. Lukku Láki, Ástríkur og jafnvel Strumparnir falla í sama flokk. Hann er meðalmaður á hæð, einhvers staðar í kringum tvítugt, oft svolítið ósnyrtilegur um hárið en honum vex ekki skegg. Viggó reykir eitthvað og drekkur alveg en er alls ekki óreglumaður. Hann er mikill dýravinur. Hann á skapvondan og þunglyndan máv sem gæludýr en einnig kelinn og kvikindislegan kött sem reyndar heitir ekki neitt en er oft kallaður brjálaði kötturinn af skrifstofuliðinu. Og svo á Viggó líka bæði litla mús og gullfisk sem kallast Gulli.
Á skrifstofunni á blaðinu, sem er aðal umgjörð bókanna, starfa margir bæði sérkennilegir og kunnuglegir karakterar. En nánast allt samstarfsfólk Viggós á tímaritinu eiga það sameiginlegt að vera líka fórnarlömb hans. Blaðamaðurinn Valur er þar auðvitað fremstur í flokki en sem yfirmaður Viggós er Valur í einna mestum samskiptum við hann. Og eitthvað erindi á Svalur líka reglulega á skrifstofuna en svolítið er viðvera hans þarna óljós, þó hann hafi greinilega eitthverju hlutverki þar að gegna öðru hvoru. Þegar Fournier hóf að teikna sögurnar um Sval og Val árið 1969 hætti Valur reyndar á Tímaritinu Sval. Franquin fannst það ekki ganga upp að Valur væri til í tveimur mismunandi útgáfum í tveimur mismunandi teiknimyndasögum á sama tíma. Eyjólfur var lengi vel í aukahlutverki en tók svolítið við af Val, þegar hann hætti, sem helsta fórnarlamb Viggós í uppátækjum hans. Eyjólfur, sem sjaldan sést öðruvísi en tottandi pípuna sína, virkar heldur rólegri og slakari sem yfirmaður. En svo er þó alls ekki. Ef eitthvað er þá er Eyjólfur ennþá pirraðri og taugaveiklaðri í viðurvist Viggós en Valur var. En hvorki Valur né Eyjólfur sjá þó nokkurn tímann ástæðu til að reka Viggó. Snjólfur starfar á teiknistofu tímaritsins og er afar skipulagður og fær listamaður en í hæfileikum hans sjá einmitt margir sjálfan Franquin. Hann er svolítið upp á kvenhöndina og daðrar reglulega við kvenfólkið á skrifstofunni en þeir Viggó eru ágætir vinir og þeim kemur oft vel saman. Snjólfur lendir þó stundum í því að verða fórnarlamb óreiðunnar sem fylgir Viggó en hann er sjaldan langrækinn og er yfirleitt fljótur að gleyma yfirsjónum hans. Gvendur bókari starfar einnig á blaðinu og það er kannski hann sem hefur mest horn í síðu Viggós. Gvendur er þessi alvarlega, gamaldags týpa sem er illa við allt óþarfa bruðl og vesen unga fólksins en það er hann sem sér um að borga út launin hjá fyrirtækinu. Þó Viggó sé líklega neðst skrifaður á launaþrepum alls starfsfólksins er hann samt líklega þó sá aðili sem kallar á mestu útgjöldin. Skemmdir á húsnæði, húsbúnaði, viðgerðir á raf- og vatnslögnum og ýmislegt fleira sem kemur til, kostar Tímaritið Sval óhemju fjármuni og meta má það tjón í milljónum. Og það er Gvendur bókari ekki ánægður með. Af öðru samstarfsfólki Viggós á skrifstofunni má nefna áðurnefnda Jóku en hún starfar sem ritari forstjórans. Hún er yfir sig ástfangin og heilluð af Viggó og fullkomlega meðvirk með öllum hans gjörðum. Forstjórinn herra Dupuis sést aldrei í mynd en birtist alltaf næstum því í sögunum og þá ávallt á röngum augnablikum fyrir alla aðra en Viggó. Þá má ekki gleyma herra Seðlan. Hann er einhvers konar kaupsýslumaður eða fjárfestir sem mætir reglulega á skrifstofuna til að skrifa undir mikilvægan viðskiptasamning. Þrátt fyrir einbeittan vilja samstarfsmannanna tekst Viggó alltaf á einhvern óskiljanlegan hátt að eyðileggja þá undirskrift og undantekningalaust algjörlega óviljandi. Það ferli er svolítið gegnumgangandi í bókunum.
Viggó kom fyrst fyrir sjónir Íslendinga fyrir jólin árið 1978 þegar bókin Viggó hinn óviðjafnanlegi kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni í þýðingu Jóns Gunnarssonar. Næstu tíu árin komu út 11 bækur í viðbót en síðan varð langt hlé á útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi og það var ekki fyrr en árin 2015 og 16 sem næstu tvær bækur með Viggó viðutan voru gefnar út hér á landi af Froski Útgáfu. Og til stendur að Froskur haldi áfram að gefa út bækurnar um Viggó og vonandi uns yfir lýkur.

Hér má lesa skemmtilega grein eftir Frey Eyjólfsson, af Kjarnanum, í tilefni 60 ára afmælis Viggós en Freyr hefur látið hafa eftir sér að Viggó viðutan sé andlegur leiðtogi sinn. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt því að Franquin er með Viggó bók á lista Le Monde yfir 100 minnisstæðustu bækur 20. aldarinnar. Þar er hann í góðum félagsskap Franz Kafka, Samuel Beckett, George Orwell, James Joyce og fleiri sambærilegra snillinga. Og ef einhver hefur áhuga á að nálgast stórskemmtilega (og rándýran) heildarpakka, með alls konar aukaefni, af verkum um Viggó viðutan þá má finna hann hér. Aðeins 5000 pakkar í boði og verðinu er ekki alveg stillt í hóf. 299 evrur kostar pakkinn en það gera rétt rúmlega 37 þúsund krónur að staðartíma!
Og svo má auðvitað einnig skoða í fleiri afmælispakka til að sjá út á hvað þetta gengur allt saman. Þessi er líka spennandi...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!