15. september 2017

23. KÖKUR FYRIR AÐDÁENDUR SVALS

Enn og aftur er SVEPPAGREIFINN á flakki um víðáttur Internetsins. En ferðalag hans að þessu sinni leiðir okkur að gullfallegri hugmynd um bakkelsi á aðalfundi aðdáendaklúbbs Svals og félaga. Við hljótum alla vega að reikna með að sú starfsemi hljóti að vera einhvers staðar til. Og ef ekki þá má alltaf búa til tilefni fyrir svo flott listaverk. Hér er sem sagt um að ræða köku í formi höfuðfats Svals. Ekki fylgir með uppskriftin að þessu góðgæti en vafalítið myndu einhverjir sæmilega laghentir í eldhúsinu ekki eiga í miklum erfiðleikum með að töfra fram nothæft innvols í gripinn. Þannig væri eflaust hægt að notast við einfalt skúffuköku- eða svampbotnsdeig til að forma útlínurnar en hentugt hráefni í útlit kökunnar má ábyggilega finna einhvers staðar á Netinu. Marsipan, matarlitur og suðusúkkulaði færu til dæmis örugglega langt með að klára hana. Útlitslega er einfaldleikinn í fyrirrúmi en bragðið ætti varla að skipta svo miklu máli.
Og það er meira í boði. Kakan hér fyrir neðan er líka með Svals-bóka þema og allar helstu upplýsingarnar um hana má nálgast á þessu kökubloggi hér. Þessi heimasíða er tilvalin fyrir forfallið áhugafólk um kökuskreytingar og þá alveg sérstaklega fyrir þá sem vilja ganga alla leið og nálgast viðfangsefnið á spænsku. Hugmyndin um bókaopnuna er alltaf svolítið skemmtileg og sígild en líklega hefði mátt ráða listamann, til að teikna myndirnar, sem hefði svolítið betra auga eða tilfinningu fyrir útliti Svals. En auðvitað er þetta alltaf bara spurning um smekksatriði. Kakan er að sjálfsögðu alveg ægilega fín.
Og enn fleiri skemmtilegar hugmyndir. Enn og aftur er Svalur viðfangsefnið en að þessu sinni er það litla útgáfan af honum. Franskt kökugerðarfólk er örugglega ekki af verri gerðinni og þessi vandaða útfærsla af Litla Sval myndi pottþétt sóma sér vel í hverju einasta barnaafmælispartý. Og líklega þyrfti það ekki einu sinni að vera barnaafmæli. SVEPPAGREIFINN væri alveg til í eina svona á fimmtugsafmælinu sínu! Eina vandamálið er bara hvernig á að skera hana niður í sneiðar! Nánari upplýsingar um þessa snilld má nálgast hér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!