6. október 2017

26. SPIROU - DAGBÓK HREKKLEYSINGJA

SVEPPAGREIFINN varð sér úti um ansi áhugaverða myndasögu síðastliðið sumar en þar er um að ræða bók úr myndasöguflokknum Sérstök ævintýri Svals ... eða eins og hann heitir á frönsku, Série Le Spirou de… SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á þessa seríu en þarna erum við að tala um sérstakan hliðarbókaflokk þar sem aðrir aðilar en hinir eiginlegu Sval og Val teiknarar fá að spreyta sig. Þó eru reyndar undantekningar á því vegna þess að núverandi höfundar, þeir Fabien Vehlmann og Yoann Chivard, teiknuðu einmitt fyrstu söguna sem kom út í Sérstökum ævintýrum Svals … árið 2006. Þar tókst þeim svo vel upp að þeir voru fengnir til að gerast höfundar að aðal bókunum en þeir hafa nú samið síðustu fimm sögurnar í hinum hefðbundna Sval og Val bókaflokki. Í Sérstökum ævintýrum Svals ... hafa höfundarnir hins vegar fengið miklu meira frelsi. Listamennirnir geta þar leikið sér að vild, bæði með tíma og sögu, þar sem sögurnar hafa engin áhrif á heildarmynd hinna bókanna og það hefur til dæmis verið mjög vinsælt hjá höfundum þeirra að tengja Sérstök ævintýri Svals ... við Síðari heimsstyrjöldina. Þessar sögur hafa enn ekki verið gefnar út á íslensku og tilheyra, eins og fyrr segir, ekki hinum venjulegu bókum um Sval og Val en sýna þessar vinsælu bókmenntir á svolítið nýjan, framandi og skemmtilegan hátt.

SVEPPAGREIFINN hefur reynt að nálgast bækur úr þessum flokki á ferðum sínum erlendis og á orðið fjórar sögur um þessi Sérstöku ævintýri Svals ... Þrjár af bókunum hans eru á þýsku og þar nefnist þessi bókaflokkur einfaldlega Spezial en ein þeirra er frönsk og kemur úr upprunalega Série Le Spirou de ... bókaflokknum frá Dupuis. Og stefnan er auðvitað líka sú að nálgast sem mest af því sem til er af þessum sögum og um leið að eignast það sem kemur jafnóðum út.
En bók sú sem SVEPPAGREIFANN langaði aðeins að fjalla um að þessu sinni er sagan SPIROU - Le Journal d'un ingénu eins og hún heitir á frummálinu. Eða SVALUR - Dagbók hrekkleysingja eins og Wikipedia hefur þýtt hana á íslensku en bókin hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hún kom út árið 2007. Undirritaður varð sér úti um þýska útgáfu af bókinni (sem kemur þá úr Spezial flokknum þar) og þar hefur hún verið þýdd, SPIROU - Porträt eines Helden als junger Tor.
Sagan fjallar um Sval sem er munaðarlaus og bláfátækur vikapiltur á Moustic hótelinu í Brüssel sumarið 1939. Hann er saklaus og fáfróður um heimsmálin, þar sem Síðari heimsstyrjöldin er rétt handan við hornið. Svalur býr einn og við frekar rýran og einfaldan kost í skítugri herbergiskitru með Pésa íkornanum sínum. Á hótelinu, þar sem hann starfar, kynnist hann ungri þjónustustúlku sem heitir Kassandra Stahl og með þeim þróast góð vinátta. Hann verður ástfanginn af henni en seinna kemur reyndar í ljós að hún er ekki öll þar sem hún er séð. En á Hótel Moustic kynnist Svalur einnig slúðurblaðamanninum og spjátrunginum Val sem reynir að nýta sér hrekkleysi Svals til að afla sér upplýsinga um fræga fólkið sem gistir hótelið. Og í stuttu máli kemur Valur af stað Seinni heimsstyrjöldinni með snuðri sínu!

Höfundur bókarinnar, myndlistamaðurinn Émile Bravo, er ansi áhugaverður gaur. Hér má finna bloggsíðu sem hann heldur uppi. Hann er fæddur í Frakklandi árið 1964 en á reyndar spænska foreldra og ólst upp við hefðbundið belgískt/franskt myndasöguuppeldi. Hann teiknaði mikið sem barn og hans helstu fyrirmyndir í æsku voru þessir fransk/belgísku listamenn; Goscinny, Morris, Peyo og Hergé. Og þar af leiðandi er hann mikill aðdáandi Tinna og það kemur einmitt vel fram í þessari bók, Le Journal d'un ingénu. Söguna teiknar hann í þeim anda sem ríkti í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar og er því umvafin þessum hæfilega drungalega blæ eða andrúmslofti. Þótt SVEPPAGREIFINN hafi hvorki hæfileika né kunnáttu til að greina eða lesa í teiknistíl gömlu meistaranna, þá er eitthvað alveg svakalega fallegt, klassískt yfirbragð svífandi yfir þessari bók. Og þá virðist tónninn í litavalinu algjörlega vera sóttur til Rob-Vel, Jijé og fyrstu sögum Franquins. SVEPPAGREIFANUM finnst þessi bók vera algjört listaverk og hann vildi hreinlega óska þess að hún að hafi verið teiknuð á fjórða áratug síðustu aldar.

Le Journal d'un ingénu segir eiginlega frá uppruna Svals eða frá árunum áður en ævintýri þeirra Svals og Vals hófust. Í bókinni kemur fram fullt af svörum við spurningum sem margir hafa spurt sig um - eða jafnvel spurningum sem enginn hefur velt fyrir sér! Af hverju er Pési svona klár? Hvernig hittust eða kynntust Svalur og Valur fyrst? Af hverju klæddist Svalur alltaf rauða hótelgallanum í Sval og Val bókunum? Hvers vegna hefur Svalur alltaf verið svona áhugalaus og rólegur gagnvart hinu kyninu? Auðvitað er þetta ekki alvöru Sval og Val saga og svörin við spurningunum því ekki rétt en pælingarnar eru samt sem áður áhugaverðar. Aftast í bókinni er svo aukasaga úr bernsku Svals þar sem fram kemur hvernig það æxlaðist að honum var komið fyrir í þessari vist á hótelinu. Le Journal d'un ingénu er því ekki einungis áhugaverð og skemmtileg, heldur leikur Émile Bravo sér líka með fullt af bæði tilvísunum og tilvitnunum í Tinna bækurnar ef vel er að gáð. Og reyndar þarf ekki einu sinni að gá vel! Í flestum hinna bókanna úr þessari seríu af Sérstökum ævintýrum Svals ..., eftir aðra höfunda seríunnar, má einnig finna alveg aragrúa af tilvísunum úr Tinna bókunum. Í þeim bókum úr þessum flokki, sem SVEPPAGREIFINN hefur eignast, er fullt af reyndar misjafnlega áberandi dæmum um það. En skoðum nokkur atriði úr þessari bók, Le Journal d'un ingénu. Á blaðsíðu 20 er þjónustustúlkan Kassandra á hótel Moustic að átta sig á því hversu lítt fróður Svalur er um það sem er að gerast í heimsmálunum sumarið 1939 og hann viðurkennir að það eina sem hann lesi sé Le Petit Vingtième. En það er auðvitað, eins og allir vita, myndasögublaðið þar sem Tinni kom fyrst fram á sjónarsviðið.
Á blaðsíðu 26 undirbýr Svalur sig við að fara á stefnumót með Kassöndru og er að klæða sig upp í tilefni þess. Ekki er beint um auðugan garð að gresja í fataskápnum hjá Sval en hann klæðir sig þó í gula skyrtu, sem Valur færði honum, og í brúnar pokabuxur sem hann fékk ódýrt. Og þar með er Svalur orðinn klæddur eins og Tinni sjálfur sést í nokkrum bókanna um hann. Eitt af því fáa sem sést í fátæklegum hillum hans eru bækurnar Tinni í Sovétríkjunum og Sjö kraftmiklar kristallskúlur.
Og á leiðinni á stefnumótið, einni blaðsíðu seinna, kemur Svalur þannig klæddur við hjá ungum vinum sínum sem eru með öllu óvanir að sjá hann klæddan án rauða hótelgalla síns. Þeir reka upp stór augu þegar Svalur birtist og gera stólpagrín að honum, enda klæddur eins og Tinni.
Svalur er að byrja að opna augun fyrir stöðu heimsmála og ógnum í aðdraganda Seinni heimstyrjaldarinnar í kjölfar þess að vinkona hans, þjónustustúlkan Kassandra, upplýsir hann um margvíslegan gang lífsins og heimsmálanna. Hann kemur við á ótrúlega kunnuglegum flóamarkaði, á blaðsíðu 35, þar sem hann finnur heimsatlas sem hann borgar reyndar fyrir með buxunum sínum. Flóamarkaðurinn í Brüssel er algjörlega klipptur úr Leyndardómi Einhyrningsins og þarna sést meira að segja skipið sem Tinni, Sigmundur Sakkarín og náungi sem nefnist Brandur börðust við að bjóða í. Svalur hefur því verið töluvert á undan Tinna á ferðinni vegna þess að Leyndardómur Einhyrningsins var reyndar ekki teiknuð fyrr en á árunum 1942-43. Líklega er þessi flóamarkaður því eins og Kolaportið þar sem sama draslið er til sölu árum saman.
Svolítið seinna í sögunni kemur Valur á hótelið, til fréttaöflunar, dulbúinn sem gömul kona og yfirgefur það eftir stutta stund akandi í leigubíl. Svalur sér eitthvað grunsamlegt en um leið kunnuglegt við þessa gömlu konu og á blaðsíðu 43 eltir hann Val með því að taka sér far með leigubílnum á varadekki hans. Og sjálfur vitnar hann í Tinna hangandi utan á bílnum.
Ansi kunnuglegt atvik, enda beint úr Bláa lótusnum. Meira að segja bíltegundin er sú sama.
Það væri hægt að benda á fullt af fleirum dæmum um Tinna tengingar í bókinni en SVEPPAGREIFINN ætlar að láta þetta duga að sinni. Honum finnst einnig nauðsynlegt að minna á að þessi bók er ekki Sval og Val bók, heldur hliðarverkefni ótengd upprunalegu sögunum. Og í raun fannst SVEPPAGREIFANUM Le Journal d'un ingénu á köflum eiginlega líkari Tinna sögu heldur en Sval og Val bók. Líklega er það bara einhvern veginn andinn í sögunni. En heilt á litið er Le Journal d'un ingénu algjörlega frábær myndasaga og vonandi telst grundvöllur fyrir því að gefa hana út, hjá Froski útgáfu í íslenskri þýðingu, í komandi framtíð. SVEPPAGREIFINN hvetur að minnsta kosti alla sanna aðdáendur Svals og Vals til að verða sér úti um eintak af bókinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!