3. nóvember 2017

30. STRÆTISVAGNINN Í BRETZELBORG

Neyðarkall frá Bretzelborg er frábær bók. Það er kannski rétt að taka það fram, fyrir þá sem ekki vita, að Neyðarkall frá Bretzelborg er úr bókaflokknum um Sval og Val og kom út í bókarformi árið 1966. Það var að sjálfsögðu snillingurinn André Franquin sem teiknaði þessa sögu og að mati SVEPPAGREIFANS er þetta klárlega ein af bestu sögunum sem út komu í þessum bókaflokki - algjört meistaraverk. Franquin var auðvitað einnig þekktur fyrir hinn stórskemmtilega Viggó viðutan og uppátæki hans en margir vilja meina að í Neyðarkalli frá Bretzelborg megi finna meiri samlíkingu með Viggó bókunum en í mörgum hinna Sval og Val bókanna. Hugmyndaflug Franquins fær að njóta sín til fullnustu í sögunni og sumir fullyrða að Neyðarkall frá Bretzelborg sé einmitt fyndnasta Sval og Val bókin. SVEPPAGREIFINN tekur fullkomlega undir þau orð. Sem er svolítið mótsagnakennt því Franquin glímdi við þunglyndi á meðan hann vann að þessari sögu. Meira að segja það mikið að hann átti í erfiðleikum með að klára hana og sagan birtist til að mynda með 15 mánaða löngu hléi, í tímaritinu SPIROU, á árunum 1961-63. Þarna var Franquin orðinn dauðþreyttur á Sval og Val. Enda voru þeir ekki hans sköpunarverk þótt hann hafi átt stærstan þátt í að móta þeirra persónur og stíl. Franquin vildi einbeita sér meira að Viggó og Gorminum sem hann hafði skapað sjálfur frá grunni.

Þótt sagan sé mjög skemmtileg og fyndin var hún líka ádeila. Bretzelborg var einskonar ýkt grínútgáfa af ógnarstjórninni í Austur Þýskalandi eða kannski Austur Berlín og Franquin var gagnrýninn og notaði tækifærið til að hæðast að Kalda stríðs-bröltinu sem var í algleymi á þessum tíma. Leyniþjónusta Bretzelborgar (Stasi?) er óvægin og grimm í aðgerðum sínum og meðlimir hennar eru líka þjálfaðir upp til að blístra í lögregluflautuna sína og öskra á sama tíma. Stórkostlegt alveg. En auðvitað er leyniþjónustan í Bretzelborg líka gerð seinheppin, hallærisleg og heimsk. Þökk sé Franquin. Og það gildir reyndar einnig um allt stjórnarfar í landinu. Bláfátækur og kúgaður almúginn berst svo í bökkum að hann neyðist til að ganga í jakkafötum gerðum úr dagblöðum. Og fátæktin er svo mikil að það er ekki til eldsneyti á almenningsvagnana, þar sem allir fjármunir ríkisins fara í "vopnaframleiðslu". Farþegarnir þurfa því sjálfir að hjóla strætisvagnana áfram með fótstigum.
Hugmyndaflug Franquins nýtur sín einstaklega vel í sögunni og á sér engin takmörk. Hver annar en höfundur Viggós viðutans hefði hreinlega haft hugsun á því að láta sér detta það í hug að búa til fótstigna strætisvagna? Þetta litla atriði sýnir svo einstaklega vel það frjóa ímyndunarafl sem André Franquin hafði yfir að ráða. Það eitt að hafa húmor fyrir því að fá þessa hugmynd um strætó með pedala í Bretzelborg er hreint frábær. Jú og auðvitað líka stórkostlega umhverfisvæn.
Fótstiginn strætisvagn er eitthvað sem Franquin hefði auðveldlega getað búið til góðan brandara (eða tvo) úr með Viggó viðutan. Bara þessi hugmynd, um strætisvagna með pedölum, er því eiginlega of fyndin til að eiga heima í Sval og Val bók.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!