13. apríl 2018

54. ÞAÐ NÝJASTA Í HILLUM SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN var á faraldsfæti með fjölskyldunni í mið- og suðurhluta Evrópu um páskana og á slíku flandri á hann það oft til að freistast til að versla sér svolítið af forvitnilegum teiknimyndasögum. Og þessa páskana var lítið um undantekningar frá þeirri reglu. Til að byrja með var hann reyndar tiltölulega rólegur og slakur, í eftirgrennslan sinni, enda fjölskyldan í fyrirrúmi. Hugmyndin var þó sú sama og undanfarin ár. Að kíkja aðeins á einhverja flóamarkaði, bókabúðir og sölustaði blaða- og tímarita en þó ekki til að gera nein stórinnkaup - frekar en venjulega. Ástæða þess var auðvitað fyrst og fremst sú að ætlunin var að vera svolítið meira á ferðinni en oft áður. Því mætti gera ráð fyrir að bæði pláss- og tímaskortur kæmu í veg fyrir frekari aðföng. Reyndar hafði eiginkona SVEPPAGREIFANS, Greifynjan, haft fullan hug á að bæta einhverjum teiknimyndasögum á ítölsku (líklega helst Tinna eða Ástríki) í myndasögubókahillurnar sem myndu nýtast henni sem kennslugögn við ítölskunám sitt. Þvi þótt undarlegt megi virðast er þar ekki að finna eina einustu myndasögu (af hátt í 600 bókum) á ítölsku. Lítið varð þó um myndasögufjárfestingar á Ítalíu að þessu sinni. Slökun SVEPPAGREIFANS varð augljóslega töluvert meiri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir og það var ekki fyrr en í frönsku borginni Marseille sem loks fór eitthvað vitrænt að gerast. En þar rakst hann á svolítinn teiknimyndasögurekka á götumarkaði nálægt hafnarsvæðinu og fyrir 14 evrur bættust í myndasögusafnið fjórar bækur.
Þarna var um að ræða fyrstu tvær sögurnar (La villa Sans-souci og Le trésor d'Alaric) í bókaflokknum um Tif og Tondu, sem voru mjög vinsælar í Belgíu og Frakklandi seinni hluta síðustu aldar, ein bók (La Machination Voronov) úr seríunni um Blake og Mortimer og síðast en ekki síst var það Sval og Val bókin La corne de rhinoceros (Horn nashyrningsins er hún nefnd á Wikipedia) frá árinu 1955 eftir André Franquin en hana hefur sárlega vantað í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS. Allt frekar sígilt efni og allar fjórar bækurnar voru að sjálfsögðu á frummálinu frönsku.
Næst var haldið til Barcelona og þaðan lá leiðin aftur til Ítalíu en það var ekki fyrr en í Nice í Frakklandi sem næstu innkaup voru gerð. Fyrst var fjárfest í bókinni Le triomphe de Zorglub (2018) sem er eins konar aukabók um þá Sval og Val og tilheyrir hvorki upprunalegu myndasöguröðinni né bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals ... Bókin er nefnilega einhvers konar frjálsleg myndasöguútgáfa af sögu sem gerist meðfram (og er innblásin af) bíómyndinni Les Aventures de Spirou et Fantasio sem frumsýnd var nú í febrúar. Flókið? Einfalda útskýringin er sú að Le triomphe de Zorglub er ekki myndasöguútgáfa af bíómyndinni. Sagan er unnin af þeim B. Cossu, A. Sentenac og O. Bocquet. Bókin er ekkert tímamótaverk en þó bráðnauðsynlegt innlegg í safn þeirra sem hafa myndasögurnar um Sval og Val að áhugamáli.
Það sama má segja um bókina Les folles aventures de Spirou (2017) sem er safn styttri myndasagna um þá félaga og eru eftir Yoann og Vehlmann. Hún tilheyrir ekki heldur hinum seríunum tveimur og er algjörlega óháð öðru efni sem komið hefur út um Sval og Val. Sögurnar, sem birtust á sínum tíma í SPIROU tímaritinu, eru sex talsins, teiknaðar á árunum 2008-2016 og eru mjög óhefðbundnar svo ekki sé meira sagt. Höfundarnir fara langt út fyrir tíma og rúm upprunalegu Sval og Val myndasagnanna og sem dæmi um frumleikann má nefna að sjálfur Batman kemur við sögu í einni þeirra. Elstu smásögurnar voru í raun teiknaðar áður en þeir Yoann og Vehlmann tóku yfir venjulegu bókaröðina en þó eftir að þeir teiknuðu fyrstu söguna í Sérstökum ævintýrum Svals ... árið 2006. 
Og svo má ekki gleyma litlu gullfallegu tímariti (Spip Magazine) sem fylgir bókinni og er einhvers konar aukaefni en þar fær íkorninn Pési (Spip) loksins sitt eigið tímarit eftir um 80 ára sögu í skugga Svals. Þetta 16 blaðsíðna frumlega fylgirit er í litlu broti (12x17 sentimetrar að stærð) sem er auðvitað í fullu samræmi við smæð Pésa gagnvart öðrum persónum bókanna. Einhverra hluta vegna fylgdi Spip Magazine bókinni (Les folles aventures de Spirou) en samkvæmt upplýsingum SVEPPAGREIFANS þá voru aðeins prentuð 100.000 eintök af þessu litla fylgiriti en hann hélt að þau ættu eingöngu að fylgja með SPIROU tímaritinu og þá aðeins þeim sem seld voru í áskrift. SVEPPAGREIFINN er því augljóslega alltaf að græða.
En í Nice verslaði SVEPPAGREIFINN tvær myndasögur í viðbót. Þar fékk hann bókina Suivez la fleche með Lukku Láka hinum unga (Kid Lucky) sem er sú nýjasta úr bókaflokknum og kom út árið 2017. Bókin er sú sjötta um Kid Lucky en telst reyndar vera númer 4 í upprunalega Kid Lucky bókaflokknum því að fyrstu tvær sögurnar tilheyra hefðbundnu Lukku Láka seríunni.
Og þá má alls ekki gleyma hreinræktuðum gullmola frá Dupuis útgáfunni, La galerie des Gaffes, sem er einhvers konar heiðursbókaútgáfa í tilefni af 60 ára afmæli Viggós viðutan. Vegna áranna 60 fá því 60 kunnir teiknarar og myndasöguhöfundar að spreyta sig á mismunandi hátt með bröndurum um Viggó. Flestir höfundanna fá hver eina blaðsíðu til verksins og 60 mismunandi brandarar með 60 mismunandi teiknistílum prýða því bókina. Eins og gefur að skilja tekst listamönnunum misvel að koma efninu frá sér og margir brandaranna eru ágætir en aðrir síðri. Persónulega er SVEPPAGREIFINN svo íhaldssamur að hann er hrifnastur af þeim listamönnum sem best ná stíl Franquins. Þar tekst fransk/kanadíska teiknaranum Marc Delafontaine, eða Delaf eins og hann kallar sig, best til þó hans persónulegi stíll sé nokkuð ólíkur. Delaf er líklega kunnastur hér á landi fyrir myndasögurnar Skvísur sem Froskur útgáfa er byrjuð að gefa út.
Ein blaðsíða úr La galerie des Gaffes hefur einmitt ratað hingað inn á Hrakfarir & heimskupör SVEPPAGREIFANS áður. En listamaðurinn Obion teiknaði brandara sem SVEPPAGREIFINN stalst til að birta neðst á færslu um herra Seðlan og finna má hér. Nokkrir aðrir kunnir póstar koma við sögu þessarar heiðursútgáfu og má helst nefna listamenn sem eitthvað hafa áður komið nálægt myndasögunum um þá Sval og Val. Þar má geta þeirra Yoann og Vehlmann, sem eru auðvitað núverandi höfundar seríunnar, José-Luis Munuera og svo Oliver Schwartz, Fabrice Tarrin, Benoit Feroumont, Frank Pé og Lewis Trondheim sem allir hafa til dæmis teiknað bækur í hinum áhugaverða hliðarbókaflokki Sérstök ævintýri Svals ... Schwartz er einmitt sá sem teiknað hefur myndasögurnar í Sérstökum ævintýrum Svals ... sem gerast í Síðari heimstyrjöldinni og birtust til dæmis eitthvað í teiknimyndablaðinu Neo Blek. SVEPPAGREIFINN saknar þess þó reyndar eilítið að fá ekki að sjá Émile Bravo fá tækifæri til að gæða Viggó nýju lífi. Það hefði án efa orðið athyglisverð nálgun. 

En eins og svo oft áður var það í Basel sem hlutirnir tóku að gerast í einhverri alvöru. Þar er SVEPPAGREIFINN vanur að láta svolítið til sín taka og fáeinar bækur bættust í ferðatöskurnar á þeim sólarhring sem fékkst þar áður en flogið var heim. Þetta voru Sval og Val bækurnar Flut über Paris (á frummálinu Paris-sous-Seine - 2004) og Der mann, der nicht sterben Wollte (L'Homme qui ne voulait pas mourir - 2005) en þær eru myndasögur númer 47 og 48 í upprunalega röðinni og eru báðar eftir þá Morvan og Munuera. Eins og lesa má af titlunum hér að framan eru þær á þýsku en hvorugar þeirra hafa enn komið út á íslensku.
Hið sama má segja um tvær aðrar Sval og Val bækur sem koma reyndar úr seríunni um hin Sérstöku ævintýri Svals ... eða Spezial seríunni eins og hún nefnist á þýsku. Þetta eru sögurnar Die Sümpfe der Zeit (Les Marais du temps - 2007) eftir Frank Le Gall og Panik im Atlantik (Panique en Atlantique - 2010) eftir þá Trondheim og Parme. Síðastnefndu bækurnar greip SVEPPAGREIFINN með sér úr sinni uppáhalds COMIX SHOP í Basel.
Annars var SVEPPAGREIFNN bara tiltölulega slakur í kaupum sínum að þessu sinni ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!