4. maí 2018

57. HINIR LÁGVÖXNU

SVEPPAGREIFINN er svo lánsamur að vera einn af þeim sem fengu teiknimyndasögurnar svolítið með móðurmjólkinni eða getað í það minnsta sagt að hann sé af þeim kynslóðum sem aldir eru upp af þessum bókmenntum. Bækurnar með Tinna, Ástríki, Lukku Láka, Sval og Val og Viggó viðutan voru gríðarlega vinsælar hér á landi á 8. og 9. áratug 20. aldarinnar en með auknu aðgengi að öðru spennandi efni fóru vinsældir myndasagnanna að dala þegar nær dró aldamótunum. Þetta gerðist ekki bara hér á landi heldur út um allan heim. Til að vinna gegn þessum hrakandi vinsældum, og um leið einnig til að laða að nýja og yngri lesendur, tóku útgefendur meðal annars til þess ráðs að hefja útgáfu á nýjum seríum. Þarna var í einhverjum tilfella um að ræða einhvers konar hliðarseríur þar sem lesendur fengu að kynnast bernskubrekum gömlu hetjanna sinna. 

Fyrsta serían sem fékk þessa uppfærslu voru myndasögurnar um Sval. Litli Svalur (Le Petit Spirou) leit í fyrsta sinn dagsins ljós árið 1987 í bók, eftir þá Tome og Janry, sem tilheyrði reyndar upprunalegu Sval og Val seríunni. Við Íslendingar þekkjum þessa bók sem Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou) en hún kom út hjá Iðunni sama ár. Bókin samanstendur af fáeinum stuttum sögum um Sval og Val en sú fyrsta, Æskuár Svals sem var einungis 8 blaðsíður að lengd, fjallaði um bernsku þess fyrrnefnda. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að gera sjálfstæða seríu sem eingöngu skyldi geyma einnar til sex blaðsíðna sögur eða brandara um bernskubrek litla Svals. Í sögunni sem birtist í Furðulegum uppljóstrunum koma þeir fyrir báðir félagarnir, Svalur og Valur, en auk þess bregður fyrir þeim Bitlu, Sveppagreifanum og Samma frænda. Ekkert af þeim (ekki einu sinni Valur) kemur fyrir í sjálfstæðu seríunni um Litla Sval. En fyrsta bókin í þeim flokki hét Dis bonjour à la dame og kom út hjá Dupuis árið 1990. Hún kom út hér á landi sama ár og nefndist hér Heilsaðu frúnni
Aðeins hafa verið gefnar út tvær bækur úr flokknum á íslensku, Heilsaðu frúnni (1990) og Ekki bora í nefið (1991) en í heildina hafa alls komið út 18 bækur um Litla Sval. Þar af er ein bók sem telst til sérstakrar útgáfu en síðasta bókin í seríunni kom út árið 2015. Tome og Janry áttu einir heiðurinn af fyrstu sögunum en seinna komu þeir Bruno Gazzotti og Dan Verlinden til aðstoðar við teiknivinnuna. 
Í kjölfar þeirrar velgengni sem Litli Svalur naut var blásið til sóknar með fleirum tilraunum af yngri útfærslum hetjanna. Árið 1989 var komið að þeim félögum Ástríki og Steinríki að láta ljós sitt skína í einni bók sem gerist á unga aldri þeirra. Forsagan er sú að þann 20. maí árið 1965 birtist í franska myndasögutímaritinu Pilote (blað númer 291) grein af kunnuglegri frásögn sem segir frá því er Steinríkur var lítill og datt í pottinn hans Sjóðríks með kjarnaseiðinu. Með greininni, sem var eftir höfundinn René Goscinny, fylgdu þrjár stakar myndir, eftir snillinginn Uderzo, af þeim félögum Ástríki og Steinríki ungum.
Og árið 1989 var svo loksins komið að því að setja söguna í myndasöguform og þannig birtist hún á 32 blaðsíðum í bókinni Comment Obélix est tombé dans la marmite du druide quand il était petitSagan tilheyrir ekki upprunalegu seríunni með Ástríks bókunum og virðist vera sú eina sem fjallar um æsku hinna hugdjörfu Galla. Þegar bókin var endurútgefin 20 árum seinna var kápa hennar endurnýjuð með hinu ódauðlega augnabliki Steinríks.
Árið 2011 var svo komið að yngja upp Viggó viðutan. En þó ekki alveg. Því þarna er nefnilega um að ræða ungan frænda Viggós sem er í aðalhlutverkinu. Höfundurinn, André Franquin, sem lést árið 1997 hafði aldrei verið hrifinn af því að uppáhaldið sitt hann Viggó fengi framhaldslíf (og hvað þá fortíð) og því var brugðið á það ráð að setja nafnlausan frænda hans í hlutverkið. Í nýju seríunni hlaut frændinn nafnið Gastoon (ekki Gaston) en hann hafði reyndar komið fyrir í þremur Viggó bröndurum sem Franquin hafði gert í auglýsingaskini árið 1973. Þessa brandara má einmitt sjá í Viggó bókinni Kúnstir og klækjabrögð (á blaðsíðum 17, 20 og 21) sem Iðunn gaf út árið 1988.
Frændinn Gastoon, sem lítur nákvæmlega eins og út og Viggó hefði gert á sama aldri, fékk því sinn eigin bókaflokk. Nokkrar af helstu persónum Viggó bókanna koma við sögu en listamaðurinn Simon Léturgie sá um að teikna brandarana. Höfundarnir Jean Léturgie og Yann, sem einnig er kunnur fyrir hluta sagnanna um Gorminn, annaðist handritsskrifin. Aðdáendur Viggó urðu ekki hrifnir og hugmyndin var reyndar skotin niður strax og fréttist af útgáfunni og fyrstu myndirnar birtust af kápu bókarinnar, Gaffe au neveu !. Sömu sögu má segja um gagnrýnendur sem töldu þessa seríu svik við Franquin og eingöngu sett fram af græðgi og viðskiptalegum ástæðum. Brandarar bókanna þykja ófrumlegir og misjafnir og almennt er þarna ekki talað um gæðavöru. Afraksturinn varð því aðeins tvær bækur í seríunni en útgáfu þriðju bókarinnar var sjálfhætt þrátt fyrir að vera langt á veg komin.
Þetta sama ár var einnig hleypt af stokkunum nýrri seríu með Lukku Láka hinum unga eða Kid Lucky eins og hann nefnist á frummálinu. Reyndar höfðu áður komið út tvær stakar Lukku Láka sögur sem tilheyrðu upprunalegu seríunni og fjölluðu um Láka á sínum yngri árum en þær höfðu að geyma heilar sögur. Þegar Kid Lucky fékk sína eigin seríu árið 2011 voru þær bækur hins vegar byggðar upp á stuttum bröndurum líkt og flestar þær seríur sem minnst hefur verið á hér á undan. Fyrsta bókin í Lucky Kid seríunni hét L'Apprenti cow-boy en alls hafa nú komið út fjórar bækur (sú nýjasta árið 2017) og heilt yfir virðist bókaflokkurinn vera nokkuð vinsæll. 
Af allt öðrum toga má nefna skáldsöguna L'écume de l'aube eftir Roger Leloup, frá árinu 1991, sem fjallar um hluta af bernsku Yoko Tsúnó. Bókin er að einhverju leyti byggð á 14. sögunni úr upprunalegu myndasöguseríunni um Yoko Tsúnó en er þó töluvert ítarlegra efni eins og gefur að skilja. Saga þessi inniheldur nokkrar teikningar eftir Leloup sem sem sýna Yoko á nokkrum stigum æsku hennar en þær eru þó í hefðbundnum stíl en ekki myndasöguformi. Hugmyndin með skáldsögunni var að gefa aðdáendum bókaflokksins kost á að fá dýpri mynd af hugarheimi aðalpersónunnar en auk þess að stoppa upp í þau göt eða tómarúm sem myndasögurnar hafa ekki náð að fylla.
Og að lokum er kannski rétt að minnast aðeins á Tinna í þessu samhengi. Auðvitað er ekki hjá því komist að nefna hann þegar yngri útgáfur þekktustu myndasöguhetja 20. aldarinnar er gefið líf. En það er ekki alveg svo einfalt með Tinna greyið. Þegar höfundur Tinna bókanna, Hergé, lést árið 1983 kom það strax skýrt fram að hann hefði ekki óskað eftir því að haldið yrði áfram að gefa út sögur með ævintýrum Tinna. Í kjölfarið var þó ítrekað óskað eftir því við Fanny Remi (í dag Fanny Rodwell) ekkju hans um að hún tæki ákvörðun um að Hergé Studios héldi áfram framleiðslu á Tinna sögunum, líkt og raunin hefur verið með margar aðrar seríur eftir dauða höfunda þeirra, en hún hafnaði því. Núverandi eigna- og höfundarréttur gildir því til ársins 2053 og SVEPPAGREIFINN þarf enn að bíða í 35 ár eftir að sjá nýja Tinna sögu. Sú bið gildir væntanlega einnig um hugsanlegar bækur um litla Tinna. Sem betur fer. Þetta Tinna bann hefur að mestu verið virt þótt auðvitað hafi ýmsir drátthagir (eða ekki) aðilar freistast til að teikna og gefa út misfrumlegar og ólöglegar útgáfur í gegnum tíðina með kappanum. Og þótt ekki sé endilega enn búið að framkvæma þá hugmynd að gefa út bók um Le Petit Tintin þá hafa þó ýmsir leikið sér að því að láta sér detta í hug hvernig kápur þeirra bóka gætu litið út. Einn þeirra, listamaðurinn MOV (Michel Movet), teiknaði til dæmis þessa útfærslu af bókarkápu um litla Tinna.
Það virðist vera mörgum aðdáendum Tinna bókanna nokkuð hugðarefni hvernig Tobbi kom til sögunnar og MOV hefur augljóslega haft það til hliðsjónar. Og annar listamaður sem nefnist Andy Santoso sér hinn krúttlega litla Tinna hins vegar fyrir sér með þessum augum.
Tinni og Kolbeinn eru þarna strax í æsku orðnir góðir vinir og Myllusetrið skammt undan en ansi stangast það á við fyrri tíma útgáfur. Þó að SVEPPAGREIFINN sé alveg laus við það að vera trúaður eða að hafa þörf fyrir að tilbiðja Almættið þá biður hann innilega til Guðs að þessar útgáfur af Tinna eigi aldrei eftir að verða að veruleika.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!