5. október 2018

79. TINNI OG TATTÚ AF ÝMSUM GERÐUM

Aðdáendur Tinna bókanna leynast víða. Flestir þeirra láta sér líklega nægja að eiga bækurnar í hæfilegu magni, vera með eins og eina eða tvær myndir af honum upp á vegg eða kaupa minjagripi tengdum söguhetjunni, honum til heiðurs. Svo eru það líka nördarnir eða Tinna fræðingarnir sem eru sumir hverjir tilbúnir til að ganga aðeins lengra en við hin. Margir þeirra hafa yfirgengilega söfnunaráráttu með einhvers konar þráhyggjuívafi og hreinlega verða að eignast virkilega ALLT sem hægt er að nálgast með Tinna. Þessi aðilar fórna jafnvel háum fjármunum í eins konar Tinna lífsstíl. Allt er það sjálfsagt gott og blessað. En svo eru það þau sem hafa virkilega fyrir því að leggja sig fram um að votta Tinna virðingu sína. Þau sem eru tilbúin að marka líf sitt varanlegri minningu um þessa vinsælu teiknimyndafígúru. Þarna erum við að sjálfsögðu að tala um þá sem fá sér Tinna tattú.
Og auðvitað fór SVEPPAGREIFINN af stað í ferðalag um netheima til að leita að slíkum listaverkum. Reyndar verður að taka það fram að vandvirkni eða gæði þessara húðflúra (jú, það heitir þetta víst á íslensku) eru ákaflega misjöfn. Og það má setja spurningarmerki við hversu mikla virðingu eigendur þeirra bera fyrir hetjunni þegar gæðin eru ekki meiri en þau sem sjást á myndinni hér fyrir ofan. SVEPPAGREIFINN er alla vega á þeirri skoðun að þarna hefði alveg mátt vanda betur til verka á ýmsum sviðum myndarinnar. Þetta er þó reyndar alls ekki versta Tinna tattúið sem SVEPPAGREIFINN fann á ferðum sínum um víðáttur Internetsins. En þegar svo varanleg mynd er sett á áberandi stað þá hljóta menn þó að gera eilitla kröfu um vandvirkni. Hér er annað dæmi um tattú af frekar óvandaðri gerðinni.
Kolbeinn kafteinn er einmitt frekar vinsæll hjá þeim sem fá sér tattú úr Tinna bókunum og því má líklega helst þakka hið groddalega yfirbragð hans. Það er líklega alltaf svolítið töff að vera á einhvern hátt sjómannstengdur. Hér áður fyrr var það kannski aðallega sjóarastéttin sem var helst kunnust fyrir að vera með tattú og þeir voru ófáir íslensku sjómennirnir sem þeir létu flúra einhverja vitleysu á upphandleggsvöðva sína í fjarlægum höfnum. Og þar kemur auðvitað kafteinninn sterkur til leiks.
En tattúin með Kolbeini eru reyndar misjafnlega harðneskju- eða groddaleg enda, oft á tíðum, bæði myndavalið og gæði þeirra misjöfn. Það er því stundum svolítið óvíst hversu alvarlega beri að taka hreysti eigenda þeirra. Menn hafa nefnilega ekki alltaf tilfinningu fyrir slíku. Myndin hér fyrir neðan á til dæmis augljóslega frekar lítið erindi á harðneskjulegan mótorhjólatöffara en ætti eiginlega betur heima á dollu utan af ódýrum bjór.
Sem betur fer eru þó sumir sem eru betur meðvitaðir um að groddaleg tattú eigi ekki alltaf við þá sem þau bera. Þá er eðlilegra að finna mynd sem hæfir eiganda sínum. Litlar, einfaldar og krúttlegar myndir eru nefnilega líka tiltölulega algengar. Þar á ferðinni er líklega fólk sem ekki er fyrir mjög sársaukafull viðfangsefni og óskar frekar eftir því að fá eitthvað lítið og sætt sem hæfir frekar persónuleika þeirra. Og þá er oftar en ekki Tobbi tilvalinn í aðalhlutverkið.
Tobbi er einmitt tilvalinn fyrir þá aðdáendur Tinna bókanna sem vilja heiðra hetjurnar sínar en vill gera það á sem látlausastan hátt og á sem minnst áberandi stað. Þar eru krúttlegheitin náttúrulega algjörlega allsráðandi.
En oftast eru þeir félagar, Tinni og Tobbi, samt saman á mynd þar sem þeir hafa komið sér fyrir á góðum stað. Staðaval tattúanna er þó ekki alltaf vel heppnað. Stundum er þeim skellt niður á tiltölulega látlausan og lítt áberandi stað og stundum ekki. Staðsetningin á þessu tattúi hér fyrir neðan er til dæmis ekkert sérstaklega að gera sig. Ja, hreinskilnislega er hún reyndar alveg ömurleg!
En Tinni, Tobbi og Kolbeinn kafteinn eru ekki alveg einir um hituna hjá aðdáendum myndasagnanna um Tinna. Prófessor Vandráður, Skaftarnir, skurðgoðið og jafnvel heilu framhliðarnar af Tinna bókunum dúkka upp í tattúformi á Netinu ef vel er að gáð. Eldflaugin úr tunglbókunum er til dæmis líka frekar vinsæl og á Vefnum má finna hinar ýmsu útfærslur af henni. 
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem aldrei velt því fyrir sér að fá sér tattú og enn síður eitthvað tengt Tinna bókunum. En við vinnslu þessarar færslu hvarflaði þó að honum að það gæti verið húmor í því að fá sér tattúið af merki hins alþjóðlega glæpafélags Kih-Oskh Faraós sem Rassópúlos er með á vinstri handleggnum og sést í bókinni um Bláa lótusinn.
En auðvitað var einhver fyrir löngu búinn að fá þessa sömu hugmynd.
Og ekki nóg með það. Þessi færsla var búin að vera tilbúin í nokkrar vikur þegar SVEPPAGREIFINN rak augun í samtal um sambærilegt efni á hinni stórskemmtilegu Facebook grúbbu, Teiknimyndasögur, sem hann hefur áður minnst á hér. Þar, í færslu sem reyndar tengist uppáhalds Tinna bókinni, mátti meðal annars finna fróðlegar upplýsingar um ofanvert Kih-Oskh Faraós tattú. Þarna sýnir einn alvöru Tinna maður áðurnefnt tattú á handlegg sínum og í kjölfarið upplýsti Stefán Pálsson, sagn- og myndasögufræðingur, að hann þekki persónulega tvo aðila sem beri slíkt merki. Algjör snilld og frábært að sjá að SVEPPAGREIFINN er ekki einn með slíkar hugleiðingar tengdar myndasögum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!