14. júní 2019

115. Á VÍÐÁTTUM VESTURSINS

Árið 1977 varð einhvers konar sprenging í útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi og fjölmargir nýjir bókaflokkar litu dagsins ljós á stuttum tíma. Á árunum á undan höfðu eingöngu myndasögurnar um Tinna og Ástrík þótt þess verðugar að vera gefnar út hér á landi og í nokkur ár voru þessar myndasögur Fjölvaútgáfunnar því þær einu sem voru í boði á íslensku. Stóru forlögin í Belgíu og Frakklandi voru að gefa út vinsælustu myndasögurnar sínar í tugþúsunda vís og vegna þess hve markaðurinn hér var lítill þótti það ekki svara kostnaði að eltast við fáeinar bækur til útgáfu hér. Það var aðeins fyrir náð og miskunn að Tinna og Ástríks bækurnar fengust prentaðar í litlum upplögum í samfloti með forlögunum á hinum Norðurlöndunum. Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, fékk til dæmis ekkert um það ráðið hvaða Tinnabækur kæmu út og urðu því að sætta sig við að þurfa að eltast við það sem skandinavísku útgáfurnar voru að gefa út hverju sinni. Það var einmitt ástæða þess að Tinni bækurnar komu ekki út í réttri útgáfuröð á íslensku en við þökkum fyrir að hafa þó fengið að kynnast þessum bókum. Myndasögurnar með Tinna og Ástríki urðu gríðarlega vinsælar hér og kölluðu á frekari landvinninga af áhugaverðu efni fyrir íslensku útgefendurna. Enda höfðu myndasöguþyrst börn og unglingar nú komist á bragðið og kölluðu eftir meira slíku efni. Í kjölfarið hóf Iðunn einmitt að gefa út myndasögur með Hinum fjóru fræknu og Sval og Val árið 1977 og Fjölvi bætti meðal annars við nýjum seríum með Lukku Láka, Palla og Togga og bókaflokki sem nefndist Á víðáttum vestursins. Og ætli sé þá ekki kominn tími fyrir SVEPPAGREIFANN að fjalla aðeins um síðastnefndu myndasögurnar í færslu dagsins.
En það var fyrir jólin 1977 sem Fjölvi sendi frá sér tvær nýjar teiknimyndasögur í nýrri bókaseríu sem nefndist Á víðáttum vestursins og voru eftir hollenska listamanninn Hans G. Kresse. Þessar tvær bækur nefndust Meistarar þrumunnar (De Meesters van de Donder) sem þýdd var af Ólafi Ólafssyni og Erfingjar stormsins (De Kinderen van de Wind) sem Loftur Guðmundsson sá um að snara yfir á íslensku. Árið eftir komu út næstu tvær bækur, Illskeyttir aðkomumenn (De Gezellen van het Kwaad) og Sultarvæl sléttuúlfanna (De Zang van de Prairiewolven), sem báðar voru þýddar af Þorsteini sjálfum en ekki voru gefnar út fleiri sögur í seríunni á íslensku. Þær íslensku bókaútgáfur sem voru að gefa út myndasögur á þessum tíma voru nefnilega svolítið fyrir það að byrja að senda frá sér bækur í nýjum bókaflokkum en klára ekki. Þessar bækur, eins og aðrar myndasögur á Íslandi á þessum árum, voru gefnar út í samstarfi við bókaútgáfur á Norðurlöndunum en á sama tíma var serían til dæmis að hefja göngu sína hjá Carlsen í Danmörku. Allar þessar teiknimyndasögur voru þó prentaðar í Belgíu. Bækurnar fjórar voru í raun fyrstu fjórar sögurnar í upprunalegu seríunni en alls voru bækurnar í bókaflokknum tíu talsins. Og svo má þess líka geta að átta þeirra (þ.e. fyrstu átta) komu út í Danmörku á sínum tíma ef einhver hefði áhuga á að eignast þær á dönsku.
Þessi bókaflokkur var af svolítið öðrum toga en íslensk ungmenni höfðu áður kynnst úr heimi teiknimyndasagnanna og líklega hefur Þorsteinn hjá Fjölva talið sig renna svolítið blint í sjóinn með seríuna. Í það minnsta virðist hann hafa haft svolítinn vara á sér við útgáfuna og nefnir það sérstaklega á bakhlið bókanna að þær séu "afar vandaðar að allri gerð og mjög eftirsóttar af yngri kynslóðinni". Líklega hefur hann talið það vera góð meðmæli ef væntanlegum kaupendum hefði ekki litist nógu vel á bækurnar við fyrstu sýn. Þessar myndasögur voru nefnilega töluvert alvarlegri og í drungalegri tón en íslensku lesendurnir höfðu átt að venjast og teikningarnar í mun raunsærri stíl. Tinni og Ástríkur höfðu verið talsvert meira léttmeti og svo ekki sé talað um Lukku Láka bækurnar sem Fjölvi hafði byrjað að senda frá sér fáeinum mánuðum fyrr.
SVEPPAGREIFANUM er ekki vel kunnugt um hversu vel þessar bækur seldust eða hve vinsælar þær voru hér en almennt virðast þær hafa skipst í tvo flokka hjá lesendum. Þ.e. annars vegar voru það þeir lesendur sem dýrkuðu þessar bækur og lásu upp til agna og hins vegar þeir sem fannst bækurnar alveg drepleiðinlegar. SVEPPAGREIFINN ætlar ekki að fara neitt í felur með það að hann tilheyrði klárlega síðarnefnda hópnum og fannst lítið til bókanna koma. Reyndar átti hann þessar sögur aldrei sjálfur í æsku. Þrátt fyrir að til hafi verið eitthvað vel á annað hundruð myndasögutitla á bernskuheimili hans þá náði serían, Á víðáttum vestursins, aldrei inn í bókahillurnar þar. SVEPPAGREIFINN gluggaði þó eitthvað í þessar sögur á sínum tíma, því einhverjir af æskufélögum hans áttu þessar myndasögur, og hann telur sig því alveg hafa getað dæmt bækurnar af sanngirni. Markhópur teiknimyndasagna á Íslandi á þessum árum voru fyrst og fremst börn og unglingar og líklega voru þessar sögur því of tormeltar og þungar fyrir þá.
En allt er breytingum háð. Eða ... SVEPPAGREIFINN tengdi það alla vega þroska að telja sig getað breytt viðhorfi sínu, gagnvart bókunum, með því einu að lesa þær aftur 40 árum seinna. Það væri auðvitað nauðsynlegt til að geta komið þessari færslu frá sér á tiltölulega eðlilegan og hlutlausan hátt. Hann byrjaði því að glugga aðeins í þessar myndasögur með það að markmiði að lesa allar bækurnar fjórar frá upphafi til enda með opnum huga. Það gekk reyndar ekkert sérstaklega vel. Hann náði að lesa fyrstu 9 blaðsíðurnar í fyrstu sögunni og svo þurfti hann þrjár tilraunir til að hafa sig út í það að klára bókina. Með svipuðum hætti náði hann að klára hinar bækurnar þrjár. En viðhorf hans til seríunnar hefur voðalega lítið breyst við þetta. SVEPPAGREIFINN náði aldrei þeirri einbeitningu við þann lestur sem nauðsynlegur er til að finnast sér ná einhverri eðlilegri tengingu við sögurnar. Bækurnar finnst honum alveg jafn þrautleiðinlegar og þegar hann las þær fyrir tæplega 40 árum síðan. En hann áttar sig samt á því að serían er í rauninni mjög vönduð og faglega unnin þó hún höfði ekki endilega til hans. Vandvirkni Kresse er einstök og drungalegur raunsæisstíllinn hentar fullkomlega fyrir persónurnar sem eru hver annarri ófrýnilegri. SVEPPAGREIFINN hvetur því fleiri fyrrverandi börn og unglinga (sem lásu teiknimyndasögur á 8. og 9. áratug síðustu aldar) eindregið til að lesa bækurnar aftur sér til gamans, hvort sem það er til að sjá þær í nýju og betra ljósi eða til að staðfesta gömlu skoðanirnar. Og í rauninni (þetta er ekki hæðni) dáist SVEPPAGREIFINN að þeim lesendum bókanna sem hafa ekki aðeins þraukað ítrekað gegnum lestur þessara myndasagna, í gegnum tíðina, heldur finnst þær í raun og veru skemmtilegar. Það er virkilega aðdáunarvert.
En árið 1972 hafði Hans G. Kresse gert samning við belgísku Casterman útgáfuna um að gera myndasöguröð sem myndi fjalla um sögu ættkvíslar Apache indjánanna í Ameríku á tímum spænsku innflytjendanna sem hófust á 16. öldinni. Þarna er fylgt eftir lífsbaráttu indjánanna á sléttunum í vestrinu, á milli Rio Grande og Pecos, þar sem almenn barátta þeirra um tilverurétt og landvinninga bættust við óblíð náttúruöflin í formi þurrka og hungursneyða. Í sögunum má meðal annars kynnast því hvernig Indjánarnir tóku hestinn í sína þjónustu og þurftu að berjast með boga, örvum og spjótum gegn nútímalegri vopnum Spánverjanna. Bókaflokkurinn fékk reyndar ekki neitt formlegt nafn en hún var aldrei kölluð neitt annað en Indianenreeks eða Indjánaserían af lesendum sínum. Á íslensku hefur bókaflokkurinn hins vegar hlotið titilinn Á víðáttum vestursins, eins og margoft hefur komið hér fram í færslunni, og efst á bókakápum íslensku útgáfanna má einmitt sjá þann titil. Almennt voru myndasögurnar í þessum bókaflokki ekki merktar seríunni á þennan sama hátt á framhliðinni og SVEPPAGREIFINN hefur aðeins rekist á sænsku útgáfuna (Indianserien), fyrir utan þá íslensku, sem þannig er háttað með. En eins og áður var nefnt urðu sögurnar í bókaflokknum alls tíu talsins og þær voru eftirfarandi:
  1. De Meesters van de Donder - 1973 (Meistarar þrumunnar - 1977)
  2. De Kinderen van de Wind - 1973 (Erfingjar stormsins - 1977)
  3. De Gezellen van het Kwaad - 1974 (Illskeyttir aðkomumenn - 1978)
  4. De Zang van de Prairiewolven - 1974 (Sultarvæl sléttuúlfanna - 1978)
  5. De Weg van de Wraak - 1975
  6. De Welp en de Wolf - 1976
  7. De Gierenjagers - 1978
  8. De Prijs van de Vrijheid - 1979
  9. De Eer van een Krijger - 1982
  10. De Lokroep van Quivera - 2001
Reyndar voru bækurnar í seríunni ekki nema níu því að Kresse kláraði í rauninni aldrei síðustu söguna. Sjón hans hafði farið hríðversnandi og árið 1982 þurfti hann að fara í augnaðgerð sem skilaði þó litlum árangri. Fljótlega upp úr því þurfti hann alveg að hætta vinnu við listsköpun sína en sagan var þó gefin út í bókaformi að honum látnum árið 2001. Alls var serían gefin út að einhverju leyti (þ.e. misjafnlega margar bækur) á tólf mismunandi tungumálum og þar með talið á öllum Norðurlöndunum en bækurnar virðast þó hvergi hafa selst mjög vel.
Hans Georg Kresse fæddist í Amsterdam árið 1921 og sautján ára gamall fékk hann birta sína fyrstu myndasögu í De Verkenner en hún fjallaði um sjálfan Tarzan apabróður. Kresse var fyrsti Hollendingurinn til að nema myndasögugerð en mikill uppgangur var í þessari listgrein á árunum í kringum Síðari heimsstyrjöldina og þá sérstaklega í nágrannalöndunum Belgíu og Frakklandi. Faðir hans var reyndar þýskur en sá hafði yfirgefið fjölskylduna þegar Hans var mjög ungur og samkvæmt eldgömlum hollenskum lögum varð móðir hans (og reyndar öll fjölskyldan) við það sjálfkrafa þýsk. Sem gerði það að verkum að sem þýskum ríkisborgara bar Hans að gegna herskyldu fyrir þýsku Nasistana sem nú höfðu hernumið Holland. Hann slapp fyrir horn með því að gera sér upp andleg veikindi og eftir að hafa starfað meðal annars að kvikmyndagerð gerði hann teikningu að ævistarfi sínu. Myndasögur af ýmsu tagi voru hans helstu verkefni en einnig myndskreytingar í blöð, tímarit og bókakápur, auglýsingar og bæklingar. Kresse þótti nokkuð sérlundaður maður og með skapgerðabresti sem gerði hann erfiðan í samstarfi en líklega var hann ekki með mikið sjálfstraust því hann taldi sig ekki hafa mikla hæfileika sem listamann. Sem var náttúrulega alrangt. Hann var mjög heimakær og ekki mjög félagslyndur sem gerði það að verkum að hann var ekki mikið fyrir það að hitta aðdáendur sína. Hans Kresse lést úr lungnakrabbameini í mars árið 1992.
Hans Kresse er líklega með þekktustu myndasöguhöfundum sem Holland hefur gefið af sér en fyrir utan títtnefnda indjánaseríu, Á víðáttum vestursins, var hann líklega kunnastur fyrir myndasögurnar um Eric de Noorman sem hann teiknaði á árunum 1946-64 og fjölluðu um hinn ljóshærða víkingakonung Eric. En svo má til gamans geta þess að sögurnar um Eric de Noorman birtust daglega á íslensku í Tímanum á árunum 1957-63 og þar nefndust þær Eiríkur víðförli.

2 ummæli:

  1. Eg las þessar bækur nokkuð og þótti bara ágætar. Spurning um smekk, býst ég við.

    SvaraEyða
  2. Já, algjörlega og sem betur fer er hann misjafn hjá fólki. Væri lítið spennandi ef allir væru eins :)

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!