27. september 2019

130. SVAL OG VAL BÆKUR NIC OG CAUVIN

SVEPPAGREIFINN er mikill aðdáandi bókanna um Sval og Val þó hann sé reyndar að sama skapi ekkert endilega mjög sérfróður um þær myndasögur. Aðdáun hans á bókunum má auðvitað að miklu leyti rekja til æskuáranna þegar sögur þeirra Franquin og Fournier voru hvað vinsælastar hér á landi og svo seinna með tvíeykinu Tome og Janry. Það hefur margoft komið fram hér á Hrakförum og heimskupörum að SVEPPAGREIFINN er alveg sérstaklega mikill aðdáandi belgíska listamannsins André Franquin en þá aðdáun má reyndar einnig tengja til hinna frábæru bóka um Viggó viðutan. Heldur minna þykir honum koma til Sval og Val bókanna eftir þá Jean-Claude Fournier og Tome og Janry en þó er þar auðvitað samt um algjört eðalefni að ræða. Bókaútgáfan Iðunn gaf sem sagt út allnokkrar bækur úr seríunni þegar SVEPPAGREIFINN var enn tiltölulega ungur að árum og áðurnefndir listamenn voru höfundar þeirra bóka. Franquin hafði teiknað þessar sögur í rúmlega tuttugu ár þegar Fournier tók við af honum árið 1969 og hann sá síðan um að teikna Sval og Val næstu tíu árin þar á eftir. Þó tæplega þrjátíu af þessum bókum hafi komið út hjá Iðunni á sínum tíma voru þetta þó ekki allar bækurnar í seríunni. Áður en þeir Tome og Janry tóku opinberlega við seríunni árið 1984 höfðu til dæmis komið út þrjár Sval og Val sögur í millitíðinni sem íslenskir myndasöguaðdáendur misstu algjörlega af. Þessar þrjár bækur hafa aldrei verið gefnar út á íslensku en þær voru eftir belgískt tvíeyki sem kölluðu sig Nic og Cauvin. 
Flestir harðir aðdáendur Svals og Vals vita það líklega að nöfnin Nic og Cauvin standa fyrir þá Nicolas Broca og Raoul Cauvin en þeir tóku við bókaflokknum árið 1980 eftir að Fournier hafði hætt nokkuð skyndilega með seríuna árið 1979. Reyndar höfðu þeir Tome og Janry, auk Yves Chaland, einnig verið valdir til að teikna Sval og Val í SPIROU tímaritið og nokkrar sögur teimanna þriggja skiptust á að birtast í blaðinu. En listamaðurinn Nic hafði unnið að teiknimyndagerð fyrir sjónvarp í mörg ár þegar hann söðlaði um og hóf að teikna myndasögur. Hann hafði komið að mörgum kunnum teiknimyndum, bæði fyrir Dupuis sem og Belvision Studios, og meðal verkefna hans má nefna fjölmargar teiknimyndir með Tinna, Ástríki, Lukku Láka og Strumpunum. Nicolas Broca lést af slysförum í febrúar árið 1993. Handritshöfundurinn Raoul Cauvin var öllu þekktari. Á 7. áratuginum hafði hann til að mynda unnið hjá Dupuis en eftir að hann hóf störf hjá SPIROU tímaritinu fóru hjólin heldur betur að snúast. Þar starfaði hann meðal annars að handritsgerð nýrra teiknimyndasagna Les Tuniques Bleues (Bláfrakkana), sem urðu gríðarlega vinsælar, auk þess sem hann samdi seinna sögurnar um félagana Samma og Kobba sem við Íslendingar þekkjum vel, L'Agent 212 og Cédric sem margir kannast einnig líka við. Þeir Raoul Cauvin og André Franquin höfðu starfað saman hjá SPIROU blaðinu og sá síðarnefndi úthlutaði Cauvin þar til dæmis hlutverki í tveimur bröndurum með Viggó viðutan árið 1972. Þessir tveir ágætu brandarar birtust einmitt í Viggó bókinni Hrakfarir og heimskupör frá árinu 1979, í þýðingu Jóns Gunnarssonar, og þar hlaut Raoul hið alíslenska gælunafn; Gvendur. En óneitanlega er sérstakt að sjá persónu í Viggó bók sem löngu seinna varð síðan handritshöfundur bókanna um Sval og Val.
Til marks um það hversu afkastamikill Raoul Cauvin var þá má geta þess að í sama blaði og fyrsta Sval og Val saga þeirra birtist var þá enn í fullum gangi ævintýri með þeim Samma og Kobba sem nefndist Ku-Klux-Klan og var sextánda saga Cauvin um þá félaga. Alls urðu Samma bækurnar fjörutíu talsins, þar sem sú síðasta kom út árið 2009, og Cauvin samdi handritið að þeim öllum. Þá skrifaði hann handrit að tuttugu og sex bókum um L'Agent 212, tuttugu og þrjú um Cédric og sextíu og tvö um Les Tuniques Bleues. En auk þess skrifaði hann einnig handrit að fjölda annarra þekktra myndasagna og af þeim má til dæmis nefna eina sögu um flugfreyjuna Natöchu sem margir þekkja. Af þessari upptalningu má ráða hversu gríðarlega afkastamikill handritshöfundur Cauvin hefur verið.
En fyrsta heila saga Nic og Cauvin um þá félagana Sval og Val hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 2276, þann 26. nóvember árið 1981, og nefnist La ceinture du grand froid eða Kuldakastið eins og hún hefur verið nefnd á íslensku Wikipedia síðunni um bókaflokkinn. Sögur þeirra félaga um Sval og Val hafa þá sérstöðu að höfundarnir guldu svolítið fyrir þá óvissu sem ríkti um réttindamál seríunnar og þeir Nic og Cauvin voru því töluverðum takmörkum bundnir. Sem gerði það að verkum að þeir gátu til dæmis ekki notað neinar af þeim persónum sem Fournier hafði skapað og enn var öðrum en Franquin óheimilt að nota Gorminn í sögum sínum. Sagan hefur því litla sem enga tengingu við þær Sval og Val sögur sem á undan höfðu komið. Það var því í höndum þeirra Nic og Cauvin að grípa tækifærið til að skapa sér einhvers konar sérstöðu og byrja með eitthvað alveg nýtt. Sem þeir gerðu reyndar en það mistókst hins vegar illilega. Hinum nýju höfundum seríunnar skorti kjark til að gera eitthvað mjög róttækt og djarft og sagan, sem kom síðan út í bókaformi árið 1983, er því óttalega litlaus og tilþrifalítil. En hún segir frá því er Valur kaupir gamlan bát sem þeir félagar gera upp í snarheitum og fara síðan í siglingu á honum. Fljótlega sigla þeir inn í undarlegu veðravíti með frosti og snjó um hásumar og komast að því að þar eru nokkrir vísindamenn að vinna að háleynilegu geimverkefni. Svo koma þar auðvitað bófar við sögu og þeir reyna að stela uppfinningum vísindamannanna en Svalur og Valur koma þeim til hjálpar.
Næsta saga nefnist La boîte noire (Svarti kassinn) og er beint framhald af La ceinture du grand froid. Aftur eru sömu bófarnir mættir og nú berst leikurinn alla leið til Afríku. En í sögunni smíðar Valur fljúgandi farartæki, í anda Zorglúbbs, eftir uppskrift vísindamannanna úr fyrri sögunni. Þetta var aðeins önnur bók þeirra Nic og Cauvin um Sval og Val en höfundarnir lágu strax orðið undir töluverðri gagnrýni fyrir slakar sögur og ófrumlegheit. Þessar tvær sögur ollu miklum vonbrigðum, gæði þeirra voru ekki í neinu samræmi við forvera þeirra og þær þóttu einfaldlega lélegar. Enn voru sömu bófarnir mættir í þriðju sögunni, sem heitir Les faiseurs de silence (Hljóðsugan), en þegar hún birtist fyrst í SPIROU tímaritinu kallaðist hún reyndar La boîte noire: deuxième partie (Svarti kassinn: seinni hluti). Viðbrögð lesenda einkenndust enn af vonbrigðum og nú voru aðdáendur bókaflokksins um Sval og Val búnir að fá nóg. Starfskrafta þeirra Nic og Cauvin, sem höfunda seríunnar, var ekki óskað framar. Sagan Aventure en Australie eftir þá Tome og Janry, sem nú tóku alfarið við seríunni, hóf göngu sína í næsta blaði á eftir en reyndar hafði Virus (Veiran) eftir sömu höfunda birst í SPIROU árið 1982. En það er allt önnur saga. 
Þessar þrjár sögur Nic og Cauvin eru eiginlega stök heild, innan seríunnar, sem afmarkast ekki bara af nöfnum höfundanna og teiknistíl heldur tilheyra þær einhvern veginn allt öðrum Sval og Val heimi. Eina tengingin við eldri sögurnar er þegar Svalur droppar einu sinni eða tvisvar við á skrifstofu tímaritsins SVALS og spjallar við bláókunna símastúlkuna í afgreiðslunni. Það verður að taka það fram að líklega hefur ekki verið neitt sérstaklega öfundsvert að þurfa að feta í fótspor þeirra Franquin og Fournier. Auðvitað vantar mikið þegar Gormurinn, Sveppagreifinn og Zorglúbb eru víðs fjarri en það er fleira sem einnig má nefna. Íkorninn Pési kemur reyndar fyrir í þessum þremur sögum en sambandi þeirra Vals er öðruvísi háttað og stirðara en lesendur bókanna höfðu átt að venjast fram til þessa. Þeir Nic og Cauvin virðast nefnilega hafa ákveðið að fara þá leið að Val gera mjög klaufskan gagnvart Pésa og grimmileg viðbrögð íkornans eru því eðlilega í samræmi við það. Þá er Valur einnig gerður töluvert meira pirrandi en fyrri höfundar höfðu haft hann í sínum sögum. Engin sérstök skýring er gefin á þessari stefnu höfundanna en þeim Val og Pésa hafði fram til þessa alltaf komið ágætlega saman í eldri sögunum. 
Þeir Svalur og Valur koma aldrei heim til sín í fyrstu sögunni, La ceinture du grand froid, en í hinum bókunum tveimur búa þeir ekki einu sinni saman. Valur virðist búa einn í húsinu, sem við þekkjum úr eldri sögunum, en aðkoman að þessu þekkta húsi og innviðir eru nokkuð frábrugðir því sem við eigum að venjast. Það eru jafnvel komnir nágrannar. Þó þetta sé sama húsið þá er þetta samt ekki sama húsið. Svalur býr hins vegar í blokkaríbúð inni í borginni. Þeir félagar aka nú aðeins um á venjulegum bílum eins og þeir gerðu reyndar að miklu leyti í tíð Fourniers. Í sumum sögum hans ferðuðust þeir reyndar um á gulum Lotus Europa sportbíl en í bókum Nic og Cauvin keyra þeir um á nauðaómerkilegum Citroen Visa. Bílaskipti eru auðvitað eðlileg og þeir Svalur og Valur höfðu stundað þau nokkrum sinnum áður en það var samt alltaf mesti stíllinn yfir Túrbot bílunum í teiknitíð Franquins. Svalur ekur einnig um á mótorhjóli, bæði í sögunni La boîte noire og Les faiseurs de silence, en á slíku farartæki hafði hann ekki sést í bókunum áður. Í síðarnefndu bókinni keyrir hann hjólið reyndar í klessu strax í byrjun sögunnar þannig að það sést ekki meira í bókunum.
Og það þarf ekki nema að renna snögglega yfir framhliðar þessara þriggja bóka til að fara að velta því fyrir sér hvaða skilaboð felist í því að svipur aðalpersónanna tveggja er nákvæmlega eins á öllum forsíðunum. Voru höfundarnir að reyna að segja lesendum eitthvað eða skinu ófrumlegheitin bara svo í gegn að það var ekki einu sinni hægt að finna önnur svipbrigði á kappana? Afskaplega einkennilegt. Þá tóku höfundarnir einnig til þess gamalkunnuga bragðs að troða sjálfum sér inn í söguna La boîte noire. Myndasöguhöfundar hafa svo sem alveg gert það áður en þá yfirleitt farið heldur laumulegra að. Hergé teiknaði bæði sjálfan sig og vini sína á lítt áberandi stöðum í fáeinum Tinna sögum og það tók lesendur bókanna áratugi að uppgötva þá brandara. Og sömu sögu má einnig segja um margar bækur André Franquin. En þeir Nic og Cauven tóku hins vegar fullan þátt í atburðarásinni og áttu til dæmis gott spjall við Sval snemma í bókinni sem þeir voru ekkert að fela. Þeir eru reyndar hvergi nafngreindir í sögunni en það fer ekki fram hjá alvöru myndasögufræðingum um hverja er hér að ræða.
Hver ástæða þess er að sögurnar voru svona slakar hjá Nic og Cauvin er erfitt að segja en sjálfsagt eru þær margþættar. Áðurnefndar takmarkanir á persónum forvera þeirra höfðu klárlega áhrif en að hluta til má skýringuna væntanlega einnig finna í ákveðnu metnaðarleysi höfundanna og þá aðallega Cauvin. Raoul Cauvin var afskaplega afkastamikill handritshöfundur, eins og áður hefur komið fram í þessari færslu, og á löngum köflum á ferli hans sinnti hann störfum sínum mjög formúlukennt. Svona eins og hverjum öðrum iðnaðarverkefnum. Þar sem magn frekar en gæði réðu ríkjum. Sennilega hefur Cauvin því vanmetið seríuna um Sval og Val og engan veginn áttað sig á hversu miklar kröfur væru gerðar til hennar af lesendum SPIROU tímaritsins. Nic og Cauvin voru nokkuð óvænt kynntir fyrir verkefnið en val þeirra var sagt örvæntingarfull og fljótfærnisleg ákvörðun tengd innanbúðarátökum hjá Dupuis. En svo segir sagan líka að Dupuis sjálfur hafi óskað eftir því við þá höfundana að sögurnar um Sval og Val yrðu einfaldaðar og ef svo er þá hefur sú krafa eflaust verið hluti klúðursins. Þessar sögur eru frekar einfaldar þar sem hröð keyrsla og eltingarleikur ganga út í gegn en samt er einhvern veginn ekkert að gerast.
Teikningar listamannsins Nic Broca eru hinsvegar þokkalegar á köflum og ganga svo sem ágætlega upp með anda Sval og Val sagnanna þó sumir vilji meina að það vanti alla sál í teikningarnar. Það má ekki gleyma því að Nic hafði áður eingöngu starfað við teiknimyndagerð en þetta var frumraun hans við myndasögur. Hvað teiknistílinn varðar er svolítið erfitt að staðsetja þessar sögur. Enda svo sem engin þörf á því að vera að velta sér upp úr því - þetta eru sögur þeirra Nic og Cauvin. En eitthvað við teikningarnar minna þó á bækur Fourniers (líklega að einhverju leyti litavalið) og margir vilja líka meina að áhrifa Franquins gæti þar. Fyrst og fremst hefði því líklega verið nóg að skipta út handritshöfundinum og gefa Nic Broca tækifæri til að þróa áfram sinn stíl. Með tímanum hefði serían því hugsanlega þannig getað þróast aðeins meira í átt að anda Franquins og Fournier en sögur Tome og Janry voru svo sem líka alveg ágætar.
Svo er kannski rétt svona í lokin að minnast aðeins á tvær aðrar stuttar sögur um þá Sval og Val, eftir Nic og Cauvin, sem birtust í SPIROU tímaritinu en komu aldrei út í bókaformi í upprunalegu seríunni. Fyrri sagan nefnist Le Fantacoptère solaire (sem gæti verið þýtt sem Sólarþyrla Vals á íslensku), er níu blaðsíður að lengd og var í raun það fyrsta sem sást opinberlega eftir þá Nic og Cauvin um Sval og Val. Sagan birtist í SPIROU blaði númer 2217, sem kom út þann 9. október árið 1980, segir frá því er Valur þróar nýja sólarorkuútfærslu af þyrlunni sinni (úr bókinni Baráttan um arfinn) en missir stjórn á henni með ýmsum skondnum afleiðingum. Áðurnefnd þyrla Vals, Sveppagreifinn, styttan af borgarstjóranum í Sveppaborg og metómól Sveppagreifans koma meðal annars við sögu Le Fantacoptère solaire en þarna virðast höfundaréttaratriði seríunnar ekki hafa verið jafn ströng þegar hinar þrjár sögur Nic og Cauvin voru gerðar. 
Hin sagan er 27 blaðsíðna fótboltasaga sem heitir Allez Champignac (Áfram Sveppaborg) og birtist í sérblaði SPIROU Festival sem gefið var út þann 15. júní árið 1981. Sagan fjallar um það þegar knattspyrnulið Sveppaborgar, undir stjórn Sveppagreifans, spilar bikarúrslitaleik gegn illgjörnu liði nágrannaborgar þeirra sem ríkur kaupsýslumaður rekur. Ýmsir erfiðleikar verða á vegi Sveppaborgarliðsins í aðdraganda leiksins og Greifinn fær þá Sval og Val til að leggja sér lið. Í úrslitaleiknum er Svalur fyrirliði liðsins og framherji en Valur stendur hins vegar í markinu. Raoul Cauvin hefur reyndar enga aðkomu að sögu Allez Champignac en Nic Broca teiknaði hana og Alain De Kuyssche, sem er aðalritstjóri SPIROU blaðsins í dag, er sagður hafa samið handritið að henni. SVEPPAGREIFINN stefnir að því að fjalla betur um Allez Champignac þegar næsta góða knattspyrnutækifæri gefst. Það verður vonandi þegar íslenska landsliðið hefur leik á EM 2020.

2 ummæli:

 1. Ég komst einunsinni fyrir löngu í Sænskt safn af Sval og Val og las þá allar bækur sem þá höfðu komið út. Mig minnir að sagan um kuldakastið hafi verið þar á meðal, fannst hú amk ekki svo slæm. Svíar hafa verið duglegir í myndasöguútgáfu (og mér bauðst eitt sinn að gerast félagi í sænskum Tinna klúbb, sé soldið eftir því að hafa ekki gerst félagi). En um Spirou á sænsku má lesa hér; https://sv.wikipedia.org/wiki/Spirou en einnig hér; https://seriewikin.serieframjandet.se/index.php/Spirou. Hér er svo listi yfir Spirou bækur á sænsku; https://seriewikin.serieframjandet.se/index.php/Spirous_%C3%A4ventyr. Bækurnar eftir þá Nic og Cauvin heita þar; Den isande köldens bälte, Den svarta lådan og Ljudslukaren.

  SvaraEyða
 2. Ég náði að fullnægja hinni undarlegu þráhyggju minni að verða að eignast allar Sval og Val bækurnar og tvær af bókum Nic og Cauvin voru á meðal þeirra sem lengi vantaði. Mínar bækur um Svarta kassann og Hljóðsuguna eru á þýsku og Kuldakastið á hollensku en óþolinmæðin gerði það að verkum að ég gat ekki beðið eftir að eignast sögurnar á tungumáli sem ég get lesið sæmilega. Ég hef stautað mig í gegnum þessar þýsku, með dyggri aðstoð Greifynjunnar í verstu sköflunum, en sú hollenska er öllu erfiðari. Átta mig þó á að gæði þessara bóka eru ekki í samræmi við eldri sögurnar.

  Maður þarf að vera miklu duglegri við að nálgast þessar myndasögur allar á skandinavísku málunum.

  Takk fyrir þessa linka, mjög fróðlegt.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!