18. október 2019

133. OUMPAH-PAH

Markmið SVEPPAGREIFANS með Hrakförum og heimskupörum hefur alltaf verið það að fjalla fyrst og fremst um þær teiknimyndasögur sem komu út á íslensku á síðustu áratugum 20. aldarinnar (og reyndar líka á síðustu árum) en einnig um annað efni sem tengjast þeim myndasögum á einhvern hátt. Þessum áhuga á áðurnefndum myndasögum deilir SVEPPAGREIFINN með þeim kynslóðum á Íslandi sem kynntust þessum bókum fyrst sem börn og unglingar og drukku þær í sig á þann hátt að margir eru enn að lesa þær sér til óbóta. Hann hefur því kosið að fara þá leið að einblína á þessar ákveðnu seríur en annað efni sem hann hefur röflað um hér tengjast þeim þó alltaf beint eða óbeint á einhvern hátt. SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum fengið skemmtilegar tillögur um efni til að fjalla um hér og það er frábært. Hann er alltaf nokkuð opinn fyrir góðum ábendingum sem samræmast hans eigin sérvisku, hugmyndum og stíl um síðuna. Dyggir lesendur hennar hafa til dæmis bent SVEPPAGREIFANUM á að skrifa um hinar frábæru bækur um indjánann Oumpah-Pah sem margir þekkja. Þær sögur falla klárlega undir það efni sem fjallað er um hér en þessar bækur eru eftir höfunda Ástríks bókanna þá Goscinny og Uderzo.
En bókunum um Oumpah-Pah og vinum hans kynntist SVEPPAGREIFINN fyrst fyrir um 20 árum þegar hann var að gramsa í hinni rómuðu myndasögubúð Faraos Cigarer í Kaupmannahöfn. Reyndar keypti hann þessar bækur aldrei á dönsku þegar hann droppaði þar við en vissi þó alltaf af þeim og fletti oft í gegnum þær þar. Á þessum árum var hann mest að einbeita sér að þeim bókum Franquins um Sval og Val sem ekki höfðu komið út á íslensku. Og eiginlega var SVEPPAGREIFINN búinn að gleyma bókunum um Oumpah-Pah þegar hann fékk ábendingarnar góðu um seríuna. Honum verður því vonandi fyrirgefið að hafa ekki einu sinni haft neina af þessum bókum við höndina þegar færslan var unnin. En upphafið að sögunum um Oumpah-Pah má rekja til þess er ítalski listamaðurinn Alberto Aleandro Uderzo hitti handritshöfundinn franska René Goscinny, í fyrsta sinn árið 1951, í París. Á þessum tíma voru þeir báðir í kringum 25 ára aldurinn og framtíð þeirra enn að mestu óráðin. Þeir Goscinny og Uderzo hófu fljótlega samstarf og unnu að ýmsum verkefnum áður en kom að fyrstu tilraunum þeirra að hugmyndum um indjánann unga. Þeir þróuðu smán saman ákveðinn grunn að sögusviði sagnanna og persónusköpun þeirra og fullunnu síðan sex gamansamar sögur um kappann og félaga hans. Þeim gekk hins vegar illa að finna útgefendur fyrir seríuna. Þeir fóru meira að segja til Bandaríkjanna, þar sem þeir dvöldu í nokkra mánuði, til að reyna að koma þessum myndasögum á framfæri en ekkert gekk. Að lokum var þeirri vinnu allri því hreinlega stungið ofan í skúffu og þeir Goscinny og Uderzo sneru sér aftur að öðrum mikilvægari verkefnum.
Snemma á árinu 1958 hafði André Fernez, þáverandi ritstjóri Tinna tímaritsins (Le Journal de Tintin), síðan samband við Goscinny og óskar eftir því að hann legði til handrit að sögum sem Uderzo yrði fenginn til að teikna. Þeir félagar notuðu þá tækifærið og drógu fram myndasögurnar um Oumpah-Pah, sem legið höfðu í gleymsku í nokkur ár, og fyrsta sagan Oumpah-pah le Peau-Rouge hóf að birtast, með svolítið breyttu sniði, í páskablaði Le Journal de Tintin þann 2. apríl árið 1958.
Í upphaflegu útgáfunni hafði indjánastrákurinn Oumpah-Pah tilheyrt Pied Plat ættbálknum, ásamt foreldrum sínum, sem bjó í grennd við nútíma siðmenningu 6. áratugarins en í nýju endurbættu útgáfunni gerast sögurnar hins vegar á 18. öldinni, á nýlendum Frakka í Norður Ameríku (Kanada), þar sem þorp þeirra tilheyrir Shavashava ættbálknum. Að öðru leyti voru þetta í grunninn alveg sömu sögurnar. Myndasögurnar um Oumpah-Pah nutu svolitla vinsælda hjá lesendum Le Journal de Tintin og á næstu þremur árum birtust fimm af sögunum sex í blaðinu en hver þeirra var um 30 blaðsíður að lengd. Þeir Goscinny og Uderzo höfðu hins vegar einnig haft önnur verkefni á prjónunum og meðal þeirra var ný sería sem átti heldur betur eftir að slá í gegn. Fyrsta Ástríks sagan, Astérix le Gaulois (Ástríkur Gallvaski),  leit dagsins ljós í fyrsta tölublaði Pilot myndasögutímaritsins þann 29. október árið 1959 en þeir Goscinny og Uderzo höfðu einnig báðir komið að stofnun þess blaðs. Þegar fimmtu sögunni með Oumpa-Pa lauk, í Le Journal de Tintin í júní árið 1962, var einmitt í gangi skoðanakönnun á meðal lesenda blaðsins þar sem þeim gafst kostur á að hafa áhrif á hvaða tíu vinsælustu seríur tímaritsins fengju áframhaldandi birtingu í blaðinu. Myndasögurnar um Oumpah-Pah lentu í ellefta sætinu og það voru því töluverð vonbrigði fyrir þá Goscinny og Uderzo að fá ekki tækifæri til að gera fleiri sögur fyrir blaðið. Líklega voru þó verkefni þeirra við Pilot blaðið, auk vaxandi vinsældir sagnanna um Ástrík, yfirdrifin nóg og með auknu álagi helguðu þeir sig með tímanum alfarið þeim myndasögum. Með þeirri tilhögun tóku þeir þá ákvörðun að leggja Oumpah-Pah endanlega til hliðar og sögurnar urðu því ekki fleiri.
En þessar fimm fyrstu sögur Goscinny og Uderzo um Oumpah-Pah voru síðan gefnar út í bókaformi, eftir að hafa birst í Le Journal de Tintin, hjá Dargaud útgáfunni í Frakklandi og Le Lombard í Belgíu en síðarnefnda bókaforlagið annaðist útgáfu á mestu af því efni sem birtist í tímaritinu á þessum tíma. Sögurnar fimm, sem samtals voru um hundrað og fimmtíu blaðsíður að lengd, voru gefnar út í þremur bókum en bækurnar þrjár voru eftirfarandi:
 1. Oumpah-Pah le Peau-Rouge ásamt sögunni Oumpah-Pah sur le sentier de la querre - 1961
 2. Oumpah-Pah et les Pirates ásamt sögunni Mission secréte - 1962
 3. Oumpah-Pah contre Foie-Malade - 1967
Það kom SVEPPAGREIFANUM töluvert á óvart, við vinnslu færslunnar, þegar hann uppgötvaði að bækurnar um indjánann Oumpa-Pa hefðu í raun ekki verið fleiri. Einhvern veginn hefði honum fundist miklu eðlilegra að þær væru orðnar í það minnsta fimmtán til tuttugu talsins og væru jafnvel ennþá að koma út. Líklega má þar kenna um mismunandi útgáfur bókakápa seríunnar í Faraos Cigarer á sínum tíma. Alls hafa bækurnar þrjár nefnilega verið gefnar út þrisvar sinnum á dönsku og með átta mismunandi bókakápum en sá hringlandaháttur er óþarflega hvimleiður.
Sögurnar fimm hafa auðvitað verið endurútgefnar nokkrum sinnum aftur í gegnum tíðina á frönsku og þá ýmist í sama þriggja bóka forminu, allar í sitt hvorri bókinni eða jafnvel allar saman í einu safnhefti. Á síðasta ári var til dæmis gefin út vegleg afmælisútgáfa af sögunum, í tilefni af 60 ára afmæli seríunnar, þar sem finna mátti allar sögurnar fimm í einu riti auk nokkurs aukaefnis. Þar á meðal var átta blaðsíðna byrjun á sögu um Oumpah-Pah sem aldrei hafði áður komið fyrir sjónir lesenda og sextán blaðsíður af ýmsum upprunalegum teikningum og skjölum úr fórum þeirra Goscinny og Uderzo. Auk þess rits var einnig gefin út sérstök viðhafnarútgáfa af sömu bók með 250 tölusettum eintökum, á 150 evrur stykkið, ef einhver hefði áhuga á því. En teiknimyndasögurnar um Oumpah-Pah hafa alls verið gefnar út í þrettán löndum og meðal tungumálanna má nefna ensku, þýsku og auðvitað dönsku eins og áður hefur verið nefnt. Raunar komu þær út á öllum Norðurlöndunum, á sínum tíma, nema á íslensku og sænsku. Vegna tenginga þessara sagna við Ástríks bækurnar hafa þær oft verið nefndar sem einhvers konar frumgerð eða forveri Ástríks og Oumpah-Pah sjálfur hefur jafnvel stundum verið kallaður stóri bróðir hans. Í sögunum um Ástrík má finna margar vísanir að hugmyndum sem koma beint úr Oumpah-Pah.
En þessi sería fjallar sem sagt um hinn unga og hugrakka indjána Oumpah-Pah sem hugsanlega yrði íslenskað sem Úmpa-Pa ef svo ólíklega vildi til að bækurnar yrðu einhvern tímann gefnar út hér á landi. Hann heitir einmitt Umpa-pa á dönsku, Ompa-Pa á norsku og Umpah-pah á finnsku. Oumpah-Pah tilheyrir, eins og áður hefur verið vikið að, ættbálki indjána sem nefnist Shavashava og hefst við einhvers staðar í Norður Ameríku nálægt ströndinni þar sem nýlenduveldi frá Evrópu (væntanlega þá Frakkar) reynir að sölsu undir sig lönd hinna innfæddu frumbyggja. Oumpah-Pah er stór, sterkur og snöggur og elskar að borða Pemmican en það ku víst vera einhvers konar fitu- og próteinrík buffklessa, unnin úr hverju því kjöti sem í boði var hjá frumbyggjum Norður Ameríku, berjum og fleiru. Oumpah-Pah er heiðarleg, hugrökk og áreiðanleg hetja, mjög sambærilegur við það sem Ástríkur varð síðar þekktur fyrir. Hann er eldfljótur að nota boga, getur jafnvel skotið með honum nánast blindandi og er mesta stríðshetja ættbálksins. Í fyrstu sögunni um Oumpa-Pa kemur til sögunnar virðulegur franskur herforingi Hubert de la Pâte Feuilletée (sem yrði þá væntanlega bara kallaður Húbert á íslensku) en hann tilheyrir í fyrstu hópi hinna hrokafullu, evrópskru landnema sem taka land á slóðum Shavashava. Oumpah-Pah ræðst á hann og tekur til fanga en eftir að ættbálkurinn hefur haft hann í haldi um tíma vingast þeir félagar, ganga í fóstbræðralag og Húbert gengur alfarið til liðs við indjánana.
Húbert gerist því bandamaður þeirra og tekur að sér mikilvægt sáttasemjarahlutverk milli evrópsku landnemanna og hinna innfæddu frumbyggja. Þó þeir Oumpa-Pa nái vel saman er Húbert ekki mjög hugrakkur og Oumpa-Pa sjálfur á einnig í nokkrum vandræðum með að venjast framandi venjum og siðum innrásaaðilanna. Ekki síst þegar hann tekst á við ferðalag með Húbert til Evrópu. Og líkt og í bókunum um Ástrík má í sögunum, um Oumpah-Pah, einnig finna hóp hugrakkra meðferðasveina sem hafa það hlutverk að fylgja aðalsöguhetjunum eftir. Þarna má finna aukapersónur sem vinna að hefðbundnum indjánastörfum en á meðal þeirra má til dæmis finna töfralækninn Y-Pleuh, sem á afskaplega auðvelt með að klúðra regndansinum. Og svo má auðvitað ekki gleyma hinum venjubundnu indánanöfnum sem við þekkum svo vel úr Lukku Láka bókunum en eins og allir vita þá kom Goscinny sjálfur að handritum stórum hluta þeirra sagna. Hinn friðelskandi indjánahöfðingi ættbálksins nefnist Gros Bison (Feiti Buffali) en hann á þó sjálfur í mesta stríðinu við eiginkonu sína. Það mun vera á sambærilegan hátt og til dæmis Aðalríkur Allsgáði höfðingi Gaulverja í Ástríks bókunum. Og svo má nefna tvo aðila sem líklega bera lengstu nöfn belgísk/frönsku myndasagnanna. Þar er um að ræða elsta indjána ættbálksins sem ber í fyrstu nafnið N’A-Qu’Une-Dent (Bara-ein-tönn) en nafn hans breytist síðar í, N’A-Qu’Une-Dent-Mais-Elle-Est-Tombée-Alors-Maintenant-N’En-A-Plus (Bara-ein-tönn-sem-er-nú-farin-og-kemur-ekki-aftur) af augljósum ástæðum. Hinn aðilinn er hins vegar prússneskur riddari að nafni Franz Katzenblummerswishundwagenplaftembomm og SVEPPAGREIFINN ætlar ekkert að vera að hafa fyrir því að reyna að þýða það neitt sérstaklega. En Goscinny sjálfur var hins vegar alltaf stoltur yfir því að geta sagt nafn hans í einni lotu án þess að fipast.
Sögurnar eru töluvert í anda Ástríks bókanna og þá sérstaklega hvað húmor og léttleika þeirra varðar en heilmikla samsvörun má finna með þessum tveimur seríunum ef að er gáð. Tvíeykið Úmpa-Pa og Húbert eru alveg á pari við þá Ástrík og Steinrík hvað hetjuskap varðar en reyndar eru þau líklega frekar ólík á annan hátt. Hvorugur þeirra fyrrnefndu hafa til dæmis yfir að ráða gáfnafari Steinríks og hinir síðarnefndu þurfa hvorugur að díla við hugleysi Húberts. Óvinunum er einnig stillt upp á svipaðan hátt í seríunum þar sem þeir hyggja á landvinninga hjá aðalsöguhetjunum með yfirgangi og frekju. Og þá hafa hinir evrópsku landnemar (úr Oumpah-Pah) og svo rómverjarnir (úr Ástrík) yfir svipuðum vitsmunum að ráða og hræðast hugkænsku og afl heimamanna. Í seinni tíð hafa margir myndasögusérfræðingar því bent á hve þessar seríur eru í rauninni líkar og tilviljun ein hafi ráðið því að Ástríkur sló í gegn á sínum tíma en Oumpah-Pah ekki. Miðað við gæði hinna síðarnefndu hefði það allt eins getað orðið öfugt. Oumpah-Pah sögurnar virðast því enn vera svolítið falinn fjársjóður sem fólk er þó aðeins að byrja að uppgötva.
En í lok þessarar hroðvirkislega unnu færslu má einnig geta þess að Oumpah-Pah kemur, eitt augnablik, fyrir í teiknimyndinni Les Douze travaux d'Astérix (Ástríkur og þrautirnar 12) frá árinu 1976 þrátt fyrir að tímalega gangi það alls ekki upp. Sögurnar um Ástrík gerast á tímum Rómverja um árið 50 fyrir Krist en sögurnar um Oumpah-Pah gerast á 18. öldinni.

4 ummæli:

 1. Takk fyrir skemmtilegan pistil. Þetta var mjög fræðandi.

  SvaraEyða
 2. Ég á þær á dönsku, danski textinn er meinfyndinn.

  SvaraEyða
 3. Vilmundur Kristjansson19. okt. 2019, 09:19:00

  Eg á eitthvað af þessum bókum á ensku, þar kallar Ompa-pa Húbert alltaf Brother Twoscalp. Virkilega góðar sögur.

  SvaraEyða
 4. Ég sé að ég þarf virkilega að fara að nálgast þessar bækur og þá sérstaklega með það í huga hversu mikið þær eru í anda Ástríks bókanna.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!