1. nóvember 2019

135. ÞEKKTIR EINSTAKLINGAR Í LUKKU LÁKA

Íslenskir myndasögulesendur þekkja vel sögurnar um Lukku Láka en á þessu ári fagnaði serían um kappann 70 ára afmælinu sínu. Belgíski listamaðurinn Morris (Maurice de Bevere) á mestan heiðurinn af kúrekanum knáa en hinn afkastamikli, franski handritshöfundur René Goscinny var hans helsta stoð og stytta um árabil. Saman gerðu þeir sögurnar um Lukku Láka að einni vinsælustu myndasöguseríu veraldar. Fyrstu tvo áratugina eða svo birtust sögurnar í belgíska myndasögublaðinu Le Journal de Spirou en á tímaritinu störfuðu margir af bestu listamönnum þess tíma úr belgísk/franska myndasöguheiminum. Og í mörgum af þeim myndasögum, sem birtust í blaðinu, mátti finna dæmi um einkahúmor eða innanhúsbrandara höfundanna þar sem þeir skutu á og teiknuðu skopmyndir af hvorum öðrum, inn í sögurnar, en einnig af þekktum persónum og þá helst frægum kvikmyndastjörnum. Auðvitað eru sögurnar líka fullar af þekktum persónum úr mannkynssögunni og ekki þarf nema að nefna fáar þeirra sem leika mjög stór hlutverk. Billy the kid (Billi barnungi), Roy Bean (Hrói Grænbaun), Sarah Bernhardt (Sara Beinharða) og Calamity Jane (Svala Sjana) eru dæmi um það, svo ekki sé minnst á sjálfa Daltón bræður. Einnig bregður öðrum kunnum samtíma persónum fyrir í sögunum í smærri hlutverkum en reyndar verður að taka fram að sögusvið Lukku Láka bókanna er svolítið teygjanlegt í tíma. En á meðal þessara persóna má til dæmis nefna Abraham Lincoln, Mark Twain, Gustave Eiffel og Scott Joplin.
Það var ekki bara Morris sem var duglegur við þessa iðju því eftir hans dag hafa seinni tíma höfundar seríunnar tekið hann sér til fyrirmyndar og viðhaldið þessari skemmtilegu hefð. Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að skoða fáein dæmi með kunnum einstaklingum sem hafa verið teiknaðir inn í sögurnar um Lukku Láka í gegnum tíðina. En það var strax í fyrstu sögunni La Mine d´or de Dick Digger (Gullnáman - 1979) frá árinu 1947 sem Morris bauð upp á kunnuglegt andlit. Þar var um að ræða gamlan vin og samstarfsmann hans, af SPIROU tímaritinu, listamanninn André Franquin. Sá var reyndar ekki orðinn neitt sérstaklega kunnur á þeim tíma en allt áhugafólk um belgísk/franska myndasöguheiminn þekkir í dag þennan frábæra listamann sem auðvitað er frægastur fyrir verk sín um Viggó viðutan og Sval og Val svo einhverjir séu nefndir. Í Gullnámunni fær Franquin hlutverk rómantísks söngvara sem í íslensku útgáfunni raular vögguvísuna Bí bí og blaka eftir Sveinbjörn Egilsson. Morris teiknaði marga fleiri vini sína af listasviðinu í nokkrum öðrum sögum um Lukku Láka en Franquin var þó líklega þeirra frægastur.
Í upprunalegu, frönsku útgáfunni af bókinni La Mine d´or de Dick Digger er önnur saga sem nefnist Le Sosie de Lucky Luke eða Tvífari Lukku Láka en sú saga hefur ekki komið út hér á landi. Í íslensku útgáfunni er hin saga bókarinnar Arizona (Arizóna) frá árinu 1951. En í Le Sosie de Lucky Luke kemur André Franquin aftur fyrir en þar er hann hins vegar í hlutverki frekar drykkfelds skerfara.
Næsta dæmi, sem SVEPPAGREIFINN tekur fyrir, kemur úr bókinni Lucky Luke contre Joss Jamon (Óaldarflokkur Jússa Júmm) frá árinu 1958 en þar má finna tvo þekkta einstaklinga. Sá fyrri hét Jean Gabin og var þekktur franskur kvikmyndaleikari og svo sem engin ástæða til að vera að velta honum neitt meira fyrir sér en hinn var hins vegar sjálfur René Goscinny sem þarna hafði verið handritshöfundur að Lukku Láka í nokkrar bækur. Persónan sem Morris teiknaði sem Goscinny var einn af bófum Jússa Júmm og nefnist Pete I'lndécis.
Í sögunni Les Cousins Dalton (Daldónar, ógn og skelfing Vestursins - 1978), frá árinu 1958, má sjá einn af mörgum WANTED! dreifimiðum Lukku Láka bókanna þar sem auglýst er eftir eftirlýstum bófum og ræningjum villta vestursins. Á þessu tiltekna spjaldi er lýst eftir byssubófa sem nefnist Red Beard Yvan en þar má hins vegar sjá mynd af andliti handritshöfundarins og listamannsins Yvan Delporte. Hann var einna helst kunnur fyrir aðkomu sína að nokkuð mörgum af þekktustu sögupersónum teiknimyndablaðsins Le Journal de Spirou, eins og Viggó viðutan og Strumpunum, en auk þess gegndi hann hlutverki ritstjóra tímaritsins um langt skeið.
Sagan En remontant le Mississippi (Fúlspýt á Fúlalæk) birtist á síðum SPIROU á árinu 1959 og hefur að geyma að minnsta kosti eitt dæmi um þekkta persónu. Þarna er um að ræða hlutverk byssubófans Pistol Pete en reyndar eru ekki allir á eitt sáttir um hver sé fyrirmyndin að honum. Ýmist eru þeir báðir nefndir til sögunnar amerísku kvikmyndaleikararnir James Coburn og Lee Marvin en í bókinni Allt um Lukku Láka er Coburn einn nefndur. SVEPPAGREIFINN þekkir auðvitað báða þessa leikara en sjálfur er hann kunnur fyrir ómanngleggni sína og verður því að viðurkenna að hann treystir sér ekki til að meta um hvorn leikarann gæti verið að ræða.
Næsta skal nefna söguna Billy the kid (Billa barnunga) frá árinu 1961. Í þeirri sögu kemur fyrir ritstjóri nokkur er nefnist Valli Vamban (Josh Belly) og margir muna eftir en hann stýrir dagblaði Lumputanga sem kallast Lumpulúðurinn. Fyrirmyndin að Valla Vamban er enginn annar en Paul Dupuis hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu sem einmitt gaf út SPIROU blaðið sem sagan birtist fyrst í.
Í Lukku Láka sögunni Le 20e de cavalerie (20. riddaraliðssveitinni - 1977), sem birtist fyrst í SPIROU tímaritinu árið 1964, leikur hinn röggsami Skarpgeir ofursti (Colonel McStraggle) stórt og eftirminnilegt hlutverk eins og flestir muna, enda bókin í uppáhaldi hjá mörgum. En það er önnur saga. Skarpgeir mun vera skopstæling af bandaríska kvikmyndaleikaranum Randolph Scott sem lék meðal annars í fjölda vestrakvikmynda á fjórða, fimmta, og sjötta áratug síðustu aldar.
Chasseur de primes (Mannaveiðarinn) var fyrsta Lukku Láka sagan sem birtist í franska myndasögutímaritinu Pilote en hún var gefin út í bókaformi árið 1972. Andi spagettívestranna svífur yfir vötnum í bókinni og það var því vel við hæfi að bandaríski leikarinn Lee Van Cleef fengi stórt hlutverk í sögunni sem hinn ísmeygilegi mannaveiðari Elliot Belt. Hann var, ásamt Clint Eastwood, holdgervingur þessara tegunda kúrekamynda sem oftar en ekki höfðu yfir að ráða miklum hetjum sem gjarnan klæddust skósíðum og skítugum frökkum.
Sagan Calamity Jane (Svala Sjana - 1978), sem fyrst birtist í SPIROU tímaritinu á árunum 1965-66, hefur að geyma fyrirmyndir að tveimur frábærum kvikmyndaleikurum. Þar skal fyrst nefna mjög skemmtilega persónu sem nefnist Róbert Geiroddssen (Robert Gainsborough) og er siðameistari sem Lukku Láki fær að láni frá mannasiðaháskólanum í Houston (Hóstaborg) til að kenna Sjönu heldri kvenna siði. En Róbert er eftirmynd breska leikarans David Niven sem allir muna auðvitað eftir og er reyndar alveg sniðinn fyrir hlutverkið. Hinn leikarinn, sem teiknaður er inn í söguna, mun vera sjálfur Sean Connery en hann tekur að sér hlutverk kráareigandans og vopnasalans Ágústs Ostran (August Oyster) sem ku reyndar vera aðal bófinn í bókinni.
Næsta skal nefna söguna La Diligence (Póstvagninn), sem hefur því miður ekki enn komið út á íslensku, en í henni kennir ýmissa grasa. Þar kemur fyrir bandaríski leikarinn John Carradine, en hann er fyrirmyndin að fjárhættuspilaranum Cat Thumbs í sögunni, og svo bregður fyrir Alfred Hitchcock á tveimur myndarömmum þar sem hann tekur að sér hlutverk barþjóns. 
Árið 1986 kom út bókin Le Ranch maudit sem hefur að geyma fjórar styttri sögur um Lukku Láka en titilsagan er eftir franska listamanninn Michel Janvier. Þessi saga hefur að geyma nokkrar persónur sem þekktar fyrirmyndir eru af. Breski leikarinn Christopher Lee tekur að sér hlutverk fasteignasala, Groucho Marx (einn Marx bræðra) er veiðimaðurinn "Crazy" Buffalo, aftur er Alfred Hitchcoch í hlutverki barþjóns og að síðustu skal nefna franska söngvarann og kyntröllið Serge Gainsbourg sem timbraða fyllibyttu. Hér á landi var Gainsbourg einna þekktastur fyrir stunulagið fræga, Je t'aime… moi non plus, sem hann "flutti" ásamt bresku söngkonunni Jane Birkin.
Í bókinni La Belle Province, sem var fyrsta Lukku Láka sagan sem listamaðurinn Achdé (Hervé Darmenton) teiknaði, má finna fyrirmynd sem tengja má betur við nútímann. Það er eðlilegt enda kom þessi bók út á árinu 2004. Þarna er um að ræða kanadísku söngkonuna Céline Dion sem fær reyndar svolítið á baukinn í sögunni en einnig kemur þar fyrir hinn (miklu eldri) moldríki eiginmaður hennar og umboðsmaður, René Angélil, sem lést árið 2016.
Og að lokum skal nefna söguna La Corde au cou sem kom út árið 2006 en í þeirri bók er aftur leitað í smiðju gömlu kvikmyndastjarnanna og þar koma reyndar engar smá stjörnur við sögu. Í afturhvarfi til gömlu vestramyndanna má finna þá Kirk Douglas og John Wayne í hlutverki vagnekla peningavagns og þar spila þeir félagar bara nokkuð stóra rullu. Í þessari sömu sögu bregður leikkonunni frægu Elizabeth Taylor einnig fyrir á einum myndaramma. 

8 ummæli:

 1. Enn einn skemmtilegur pistill. Lukku Láki var í miklu uppáhaldi hjá mér í æsku. Man að RÚV sýndi oft gamlar svart hvítar kúrekamyndir og horfðum við fjölskyldan saman á þetta. Svo þegar fyrstu tvær Lukku Láka bækurnar komu þá keypti pabbi þær handa okkur bræðrum. Þær tvær kann ég eiginlega utan að enn þann dag í dag. Kalli Keisari og 20. riddaraliðssveitin.

  SvaraEyða
 2. Ég er um þessar mundir að lesa mig í gegnum allan staflann. Þessi pistill er kærkomin viðbót við þá ánægju. Ég áttaði mig ekki á nærri öllum þessum karakterum. Fannst einkum furðulegt hve Valli Vamban er líkur Mugga hafnarstjóra á Ísafirði.

  SvaraEyða
 3. Mér finnst enn að 20. riddaralissveitin vera með þeim bestu. Hún er amk alger snilld. Skarpgeir og sonur eru fáumm líkir.

  SvaraEyða
 4. Ég uppgötvaði ekki Lukku Láka almennilega fyrr en árið 1979 liklega, þegar ég fékk mína fyrstu LL bók í jólagjöf. Minnir að það hafi verið Allt í sóma í Oklahóma og það tók mig enn nokkur ár að byrja að lesa þær reglulega og þá um leið að safna þeim. Tinni og Svalur og Valur gengu fyrir fram að því.

  Í dag eru þessar myndasögur klárlega í uppáhaldi og ég verð endilega að taka góða törn í að lesa mig í gegnum minn stafla. Þessar þekktu persónur úr Lukku Láka bókunum eru í raun miklu fleiri. Í þessari færslu voru bara teknar fyrir þær helstu. Íslensku Wikipedia síðurnar um Lukku Láka eru mjög ítarlegar og fróðlegar og þar má finna mikið af frábæru efni. Held að Lukku Láka sérfræðingurinn Sverrir Örn Björnsson haldi utan um þann fróðleik af sínum einstaka myndarskap.

  Annars er ótrúlega mikið af karakterum í þessum bókum sem minna á fólk sem maður þekkir persónulega eða kannast við úr fjölmiðlum. Einhvern tímann er stefnan sett á að birta færslu með slíkum hugleiðingum og samanburði.

  Er sammála þessu, Villi. 20. riddaraliðssveitin er í miklu uppáhaldi ásamt fáeinum öðrum sögum úr seríunni.

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 5. Ég þakka hólið Sveppagreifi. Gaman að sjá myndasamanburðinn á fyrirmynd og stælingu, nú er ég endanlega sannfærður um að Coburn er fyrirmynd Pístólu-Péturs en ekki Lee Marvin. Mér finnst nýji teiknarinn Achde ekki nærri eins góður í skopstælingunum og meistarinn var, t.d. er þessi kona þarna líkari Krókódíla-Dundee en Celine Dion :-(

  Kv. Sverrir Örn.

  SvaraEyða
 6. Haha... já, ég er sammála þér þar. Céline Dion er ekki mjög sannfærandi. Það er voðalega erfitt fyrir aðra listamenn að reyna að fara í skó Morris og Achdé hefur eiginlega aldrei heillað mig nægilega.

  Ég er svo ómannglöggur að ég get ekki dæmt almennilega hvorum Pístólu-Pétur líkist meira. Lee Marvin poppar til dæmis alltaf upp í hausnum á mér úr myndinni Paint Your Wagon þar sem hann syngur lagið Wandering Star. Þar er hann líklega ekkert líkur honum!

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 7. Ég sé hann alltaf fyrir mér blindfullann á hestbaki í Cat Ballou sem ég sá í Bæjarbíó í Hafnarfirði á sínum tíma. En Coburn lék byssubófa í The Magnificent Seven stuttu áður en LL-bókin kom út sem bendir líka til að hann sé fyrirmyndin. Maður veit svo sem aldrei :-)

  Kv. Sverrir

  SvaraEyða

Út með sprokið!