7. febrúar 2020

149. GAMLIR VERÐMIÐAR Á TEIKNIMYNDASÖGUM

SVEPPAGREIFINN hefur oft minnst á það að hann sé í skemmtilegri grúbbu á Facebook sem nefnist einfaldlega Teiknimyndasögur og þar poppa stundum upp áhugaverðar umræður um hin athyglisverðustu mál. Einhvern tímann fyrir nokkuð löngu síðan urðu þar til dæmis töluverðar umræður um hvernig nytjamarkaðurinn Góði hirðirinn verðmerkti þær myndasögur sem þar væru á boðstólum. Þarna er SVEPPAGREIFINN ekki að tala um verðlagninguna heldur sjálfa verðmerkinguna. Miðarnir sem límdir eru á þær vörur sem í boði eru í þeim Góða eru áberandi skærgrænir og með alveg sérstaklega sterku og hvimleiðu lími sem ákaflega erfitt er að ná af án þess að hreinlega stórsjái á blessuðum myndasögunum. Í það minnsta á SVEPPAGREIFINN oft í hinum mestu vandræðum með að losa þessa miða af þannig að ekki sjáist einhver merki eftir þá.
En nákvæmlega þetta var reyndar ekki það efni sem ætlunin var að röfla um í færslu dagsins. SVEPPAGREIFINN á langstærstan hluta þeirra myndasagna sem komið hefur út á íslensku og á nokkrum þeirra má enn sjá hina upprunalegu verðmiða bókanna. Hér er hann auðvitað að tala um þá verðmiða sem límdir voru á bækurnar í þeirri verslun sem seldi þær glænýjar. Nú er það svo að þó SVEPPAGREIFINN leggi mikla áherslu á að plokka hina eiturgrænu Góða hirðis miða af þeim bókum sem hann verslar þar þá hefur hann ekki lagt alveg sömu áhersluna á upprunalegu verðmerkingarnar. Auðvitað vill hann að myndasögurnar sínar líti sem snyrtilegastar og upprunalegastar út, og án allra aukamerkinga, en þessir gömlu miðar hafa bara eitthvert allt annað gildi. Og ekki er sjarminn minni ef þeir eru merktir einhverjum ákveðnum bókabúðum eða verslunum sem draga fram gamlar minningar nostalgíuformi. En helsta ástæðan er samt auðvitað sú að ennþá erfiðara er að ná þessum gömlu límmiðum af heldur en grænu Góða hirðis miðunum. 
Eitthvað var SVEPPAGREIFINN að fletta í gegnum myndasöguhillurnar sínar á dögunum og rak þá augun í fáeina af þessum gömlu verðmiðum á bókunum. Þarna er væntanlega um að ræða, í flestum tilfellum, upprunalega verðið og hann fór því að velta fyrir sér hvað þessar bækur hefðu kostað nýjar. Í æsku minnist hann Tinna bókanna sem kostuðu, eftir því sem hann best man, 719 krónur (nokkrum árum fyrir gjaldmiðilsbreytinguna 1981) í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Þetta er ein af fyrstu minningum hans af teiknimyndasögum en hvergi hefur hann þó rekist á gamla verðmiða með þeim tölum á Tinna bókunum sínum í dag. Reyndar er engin af Tinna bókum SVEPPAGREIFANS með verðmiða á sér. Þau verð sem hann fann í þessu slembiúrtaki voru af margvíslegum toga en öll áttu þau það þó sammerkt að hafa verið á bókunum eftir áðurnefnda gjaldmiðilsbreytingu þegar tveimur núllum var kippt aftan af gjaldmiðlinum og um leið og ný tegund peningaseðla var tekin í notkum hér á landi. 
Það er svolítið gaman að rýna í þessa gömlu verðmiða en fyrsta myndasagan sem SVEPPAGREIFINN skoðar í þessu samhengi er strumpabókin Strumpasúpan sem kom út árið 1979. Í byrjun árs 1981 kostaði Strumpasúpan 38 krónur (nýkrónur) og 30 aura sem hefur þá væntanlega verið á pari við 3830 krónur fyrir jólin 1980. Sem er næstum því sama upphæð og teiknimyndasögur kosta (til dæmis úr Penninum/Eymundsson) í dag. Hmmm... og ef þessi blessaða gjaldmiðilsbreyting hefði ekki átt sér stað á sínum tíma og núllin tvö hefðu fengið að standa áfram þá myndi Strumpasúpan í versluninni VEDU kosta 383.000 krónur í dag ef hún væri í boði! Sem er auðvitað alveg marklaust bull. Veit einhver annars hvar verslunin VEDA var/er?
Svipaða sögu má segja um strumpabókina Strumpastríð (1980), sem verðmerkt er í bókahillum SVEPPAGREIFANS, á 38.65 krónur en sú bók fékkst á Bókhlöðunni á Laugaveginum. Þessar tvær bækur eru þær "ódýrustu" sem síðuhafi fann úr slembiúrtakinu sínu en myndasögurnar Álagaeyjan (1981), úr seríunni um Alex, Hin fjögur fræknu og harðstjórinn (1979) og Tígrisklóin (1979), úr bókaflokknum um Benna flugmann, hafa allar kostuð 48.15. Þetta hefur því verið hið eðlilega verð á myndasögum strax upp úr áramótunum 1980-81 en Galdrateppi (1980) Fláráðs stórvesírs kostaði 48.17 krónur. En upp úr þessu fer verðið á teiknimyndasögunum snögglega hækkandi enda var hinn óútreiknanlegi verðbólgudraugur heldur betur í essinu sínu á Íslandi á þessum árum.
Sval og Val bókin Móri (1982) kostaði allt í einu 98.80 og Ástríkur og grautarpotturinn (1981) 155 krónur en hugsanlega hefur síðarnefnda bókin verið keypt löngu seinna á útsölu. SVEPPAGREIFINN á annað eintak af þessari sögu og af einhverri undarlegri ástæðu er sú bók verðmerkt á 438 krónur. Sama verð er einnig að finna á bók hans Ástríkur á hringveginum (1982). Enn rauk verðið á myndasögunum upp og verðbólgan náði sögulegum hæðum fyrri hluta árs 1983. Með kveðju frá Z (1983) kostaði 197.60 og sömuleiðis Stríðið um lindirnar sjö (1983), með Hinriki og Hagbarði, en Viggó á ferð og flugi (1982) kostaði þó ekki nema 197 krónur.
Þarna tók því greinilega ekkert lengur að vera eitthvað að eltast við aurana fyrir aftan kommuna. Þeir voru þó ekki aflagðir með lögum fyrr en árið 2003 en þá voru hvort eð'er allir fyrir mörgum árum löngu hættir að eltast við slíka smámuni. Verðmiðinn á Viggó bókinni býr reyndar yfir nokkurri nostalgíu því hann er ekki aðeins kirfilega merktur stórmarkaðnum Miklagarði, sem var opnaður í Holtagörðum árið 1983, heldur er bókaskiptimiði með sömu merkingu einnig á bókinni.
Aftur kemur Bókhlaðan við sögu og að þessu sinni með myndasöguna um Hin fjögur fræknu og tímavélina (1985) en sú bók var reyndar merkt Bókhlöðunni í Glæsibæ og kostaði þar 468 krónur. Kuldastríðið (1985) úr seríunni um 421 fékkst í Hagkaup á 375 krónur og Flugvélaránið (1986) úr bókaflokknum um Frank var merkt Eymundsson og kostaði 548 krónur. Alls fann SVEPPAGREIFINN, á þessari snöggu yfirreið sinni um myndasöguhillur sínar, líklega vel á þriðja tug teiknimyndasagna sem höfðu að geyma slíka límmiða af eldri gerðinni.
Verst þykir þó SVEPPAGREIFANUM verðmerkingin á yngri bókum sínum um þá félaga Samma og Kobba. Ef minni hans svíkur ekki keypti hann nokkrar af þeim myndasögum á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni á fyrri hluta tíunda áratug 20. aldarinnar. Þessar bækur voru allar merktar með flennistórum (um fimm sentimetra breiðum), appelsínugulum límmiðum sem nánast útilokað er að ná af án þess að stórskaða bókakápurnar. Slík meðferð á teiknimyndasögum jaðrar við helgispjöll og SVEPPAGREIFINN íhugar af alvöru að fara með málið til Mannréttindadómstól Evrópu og sækja það af fullum þunga.
Á þessum sama bókamarkaði (þó það hafi reyndar ekki verið sama ár) keypti SVEPPAGREIFINN einnig stærsta hluta sinn af Lukku Láka bókunum en þær kostuðu þar allar 350 krónur stykkið. Á þeim tíma var hann einmitt að byrja að hefja vinnu að því að fullkoma myndasögusafnið sitt og vantaði þá enn nokkrar Lukku Láka bækur í safnið. Þetta var eins og áður segir á árunum upp úr 1990 og reikna má með að hér hafi verið um að ræða afgangana, af upplaginu frá útgefandanum, af þeim Lukku Láka bókum sem þá voru enn til nýjar. SVEPPAGREIFINN var svo heppinn að eignast líklega tólf til fimmtán af þessum bókum þar en hann notaði þá ekki aðeins tækifærið til að fylla upp í það sem upp á vantaði í safnið heldur endurnýjaði hann í leiðinni þónokkur lúin eintök af eldri bókunum sínum. Enn þann dag eru allar þessar Lukku Láka bækur eins og nýjar í myndasöguhillunum en 350 króna verðmiðinn er enn á mörgum þessara bóka.
Það má kannski geta þess til gamans að á meðal þessara myndasagna var hin eftirsótta Á léttum fótum - Spes tilboð (1982) en á bókamarkaðnum var bunki með nokkrum eintökum af bókinni á 300 krónur. SVEPPAGREIFINN er ennþá að naga sig í handakrikann yfir að hafa ekki hreinlega hreinsað upp öll eintökin af bókinni af borðinu til að eiga til betri tíma handa safnþyrstu áhugafólki um myndasögur

En annars er þetta líklega versta færsla SVEPPAGREIFANS frá upphafi!

4 ummæli:

 1. Mér finnst það skemmtilegra ef bækurnar mínar hafa á sér gamla límmiða, eykur aðeins við sögu þeirra.

  SvaraEyða
 2. Algjörlega, segir sögu þeirra og ég tala nú ekki um ef þær koma frá verslunum sem maður þekkir.

  Það sem truflar helst eru hálfrifnir miðar sem einhver hefur byrjað að reyna að rífa af en ekki tekist. Með tímanum setjast síðan óhreinindi í límið af þeim og þá verða þeir svolítið subbulegir :)

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 3. Ég fékk bók í jólagjöf með skilamiða frá Kjörbúðinni, ég ætla sko að passa mjög vel uppá hann (þó að ég hati Kjörbúðina). Takk fyrir skemmtilegt blogg kæri Sveppagreifi :)

  SvaraEyða
 4. Takk kærlega, Anna Karen og endilega haltu áfram að fylgjast með. Það er mjög hvetjandi að fá svona komment :)

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!