10. júlí 2020

169. STIKLAÐ Á STÓRU UM GALDRA MORRIS

Eins og svo margir lesendur teiknimyndasagna á Íslandi, komst SVEPPAGREIFINN nokkuð snemma í tæri við myndasögurnar um Lukku Láka. Það tók hann reyndar líklega tvö eða þrjú ár að átta sig á því hve frábærar þessar bækur voru en það má rekja til þess hversu hann, ásamt bróður sínum, voru uppteknir við að lesa Tinna og Sval og Val til að byrja með. Fljótlega eftir það fóru Lukku Láka bækurnar þó að streyma, eftir því sem við átti, inn á heimili hinna ungu bræðra og þá var ekki aftur snúið. Hin íslenska útgáfuröð bókanna var mörgum lesendum reyndar svolítið umhugsunarefni. Mjög fljótlega áttaði SVEPPAGREIFINN sig á því að bækurnar kæmu alls ekkert út í upprunalegu útgáfuröðinni en það voru líklega fyrst og fremst bækurnar Rangláti dómarinn og Á meðal dóna og róna sem gáfu sterkustu vísbendinguna um það. Þessar sögur voru hrárri og klárlega eldri en hinar bækurnar sem þá voru þegar komnar út. Og þegar bókin Allt um Lukku Láka, var skoðuð, staðfesti hún það með lista yfir frönsku útgáfuröðina en sú röð var gjörólík þeirri íslensku. Sá listi hafði að geyma fjölda bóka fremst í röðinni sem enn var þá framandi íslensku myndasögulesendum en þær sögur sem fremstar höfðu verið í íslensku röðinni voru í raun þá með þeim yngri í þeirri upprunalegu. Allt um Lukku Láka er mjög fróðleg og skemmtileg bók. Í henni má til dæmis finna nokkuð ítarlegar kynningar á höfundunum, þeim Morris og Goscinny, en SVEPPAGREIFINN hefur aðeins fjallað um þann síðarnefnda hér á síðunni. Listamaðurinn Morris og teikningar hans eru hins vegar umfjöllunarefni dagsins á Hrakförum og heimskupörum.
Belgíski listamaðurinn Morris, sem réttu nafni hét Maurice de Bevere, gerði sögurnar um Lukku Láka að ævistarfi sínu og teiknaði kúrekann allt til dauðadags árið 2001. Eftir hann lágu heilar 72 sögur um Láka á 55 árum en hápunktur seríunnar er klárlega á þeim árum sem René Goscinny kom að handritsgerðinni. Morris hóf störf hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu rúmlega tvítugur að aldri og vann þar til að mynda með samlöndum sínum þeim Franquin og Jijé. Þeir höfðu áður kynnst hjá teiknimyndafyrirtækinu CBA í Brussel þar sem þeir störfuðu saman ásamt listmanninum Peyo sem seinna varð þekktur fyrir Strumpasögurnar. Lukku Láki birtist síðan fyrst í SPIROU tímaritinu, sem Dupuis gaf út, í byrjun desember árið 1946. Fyrstu sögurnar um hann voru frekar stuttar og einfaldar í sniðum en Morris vann stöðugt að þróun Láka og kúrekinn tók nokkrum breytingum á þessum þroskaárum höfundarins. Hann fór síðan til Bandaríkjanna árið 1948 ásamt félögum sínum, þeim Franquin, Jijé og Will, en saman námu þeir og störfuðu þar að myndasögum um skeið. Hópurinn var kallaður fjórmenningagengið og eru taldir helstu frumkvöðlar myndasögunnar í Evrópu eftir stríð. Morris dvaldist vestanhafs í sex ár og starfaði til að mynda um tíma hjá MAD tímaritinu sem þá var að hefja göngu sína. En í Bandaríkjunum notaði hann einnig tækifærið til að safna saman ýmsum heimildum um villta vestrið. Þar tók hann til dæmis mikið af ljósmyndum og vann einnig töluvert af skissugrunnum þar sem eyðimerkusléttur voru eitt helsta viðfangsefnið. Á tíma sínum vestanhafs var Morris einnig stöðugt að byggja upp og þróa teiknistíl sinn og útlit Lukku Láka fékk smán saman hina endanlegu ásýnd. Í fyrstu höfðu teikningar hans mest verið undir áhrifum annarra listamanna en með tímanum þróaði hann sinn eigin stíl. Dvöl hans í Bandaríkjunum nýttist honum því vel og hafði góð áhrif á teikniþroska hans og alla þróunarvinnu.
Í Bandaríkjunum var Morris einnig mjög duglegur við að sækja kvikmyndahúsin heim þar sem hann stúderaði sjónarhorn með myndasögur í huga. Morris hafði í rauninni verið einn af fyrstu listamönnunum í Evrópu sem vann við teiknimyndir, þegar hann starfaði hjá CBA, og hafði alltaf stefnt að því að vinna við það form vestanhafs. Því hafði hann ákveðið forskot úr kvikmyndageiranum við að prófa sig áfram með þessi sjónarhorn. Í Bandaríkjunum freistaðist Morris einmitt, eins og svo margir, til að reyna að hljóta náð fyrir augum Disney fyrirtækisins fræga en þann draum tókst honum þó aldrei að láta rætast. Frá CBA nýtti hann sér hugmyndina um að byggja upp myndformið í rammanum út frá sama sjónarhorni og áhorfandinn í bíósal. Þessi kvikmyndasjónarhorn voru þó reyndar fleiri listamenn farnir að nýta sér í myndasöguforminu á þessum tíma og útlit teiknimyndasagnanna var óðum að breytast. Hergé var til dæmis farinn að þróa sinn stíl meira í þessa átt í Tinna sögunum og fleiri fylgdu í kjölfarið. Morris hafði reyndar strax í fyrstu Lukku Láka sögunni, Arísóna (Arizona -1880), nýtt sér þetta form og notaði þar raðir mynda til að sýna stuttar og snöggar atburðarásir, ramma fyrir ramma, líkt og í teiknimyndum.
En bíóferðirnar í Bandaríkjunum voru síðan notaðar til að þróa sambærilegar atburðarásir enn frekar. Smán saman komst Morris upp á lagið við að nota þessa formgerð og fljótlega fór hann einnig að þróa önnur sjónarhorn, bæði nærmyndir og víðari skot. Við víðari sjónarhornin fór hann til dæmis að nota miklu stærri myndaramma en lesendur áttu að venjast í frönsk/belgískum myndasögum. Þessar myndir gátu jafnvel tekið hálfa blaðsíðuna sem var algjör nýlunda á þeim tíma. Og aðrir listamenn, eins og til dæmis Franquin, tóku fljótlega einnig að nota svo stórar myndir í sínum sögum. Morris notaði þó alltaf frekar einfaldan og áhrifamikinn teiknistíl en þessir víðmyndarammar gáfu lesandanum kost á að sjá allt ytra umhverfi miklu betur. Þannig áttu þeir auðveldara með að átta sig betur á öðrum aðstæðum, þegar þurfa þótti, og setja þær í samhengi.
Morris var ekki aðeins duglegur við að leika sér með ný sjónarhorn heldur fór hann einnig að dunda sér við að föndra með ýmis sjónræn myndverk sem tengdust speglun eða jafnvel samhverfum. Árið 1951 fékk hann þá hugmynd að nota Dalton bræður sem sögupersónur í einni Lukku Láka bókanna (Eldri Daldónar (Hors la loi)) og skapaði þá á þann hátt að þeir hentuðu einmitt til slíks föndurs. Útgáfa Morris af þeim bræðrum var reyndar töluvert fyndnari en fyrirmyndirnar og hin sjónræna útfærsla þeirra var sérstaklega vel heppnuð. Hann lét alla Dalton bræðurna fjóra líta eins út, fyrir utan það að hæð þeirra var mismunandi eins og við þekkjum auðvitað öll. Hin stighækkandi hæð þeirra bauð upp á skemmtun þar sem Morris gafst endalaus tækifæri til að leika sér með útlitið á þeim. Eitthvað sem öðrum teiknurum hefði líklega ekki einu sinni dottið í hug. Slíkar útfærslur var hann alveg óhræddur við að tileinka sér og varð í raun frumkvöðull á því sviði í Evrópu. Reyndar áttaði hann sig á því að hann hafði gert þau mistök að láta þá bræður deyja í lok sögunnar. En með því að endurskapa Daldónana, í formi frænda þeirra, gafst Morris færi á að halda áfram að leika sér með þá enda birtust þeir seinna í fjölda Lukku Láka bóka. 
Dalton bræðrum var þá oftast raðað upp í beinni línu en fljótlega fór hann einnig að nota þá með ýmiskonar fjarvíddaráhrifum þar sem hinn sjónræni þáttur myndaði einhvers konar kassalaga, rúmfræðilega þrívídd - hvernig sem á nú nákvæmlega að skilgreina það! Þá stillti hann bræðrunum upp í myndarammann, gjarnan með sjónarhorn lesandans ofan frá, á þann hátt að þeir mynduðu ákveðið form, þar sem þeir röðuðust upp, hver á móti öðrum í hring, ferning eða jafnvel kross. Rýmið fyrir slíkar útfærslur kallaði þó oftast á stóra myndaramma en þannig uppstillingar notaði Morris töluvert og náði frábærri leikni við að nota. Í mörgum Lukku Láka bókanna má finna fjölda dæma, með þeim Dalton bræðrunum, þar sem Morris notfærði sér þessa frábæru tækni.
Þá föndraði Morris á fleiri, mismunandi vegu með myndmálið og lék sér ýmsan hátt með sjónarhornin. Hann notaði líka einhvers konar fjarvíddaráhrif, á mjög áhrifaríkan hátt, til dæmis framan á bókinni um Langa Láka (Lucky Luke et Phil Defer) sem kom út í bókarformi árið 1956. Þarna stendur Langi Láki í forgrunninum með bakið að lesandanum en Lukku láki blasir hins vegar við á milli fóta hans. Sitt hvoru megin við Láka standa krárnar og mynda jafnvægi í bakgrunninum, auk þess sem Léttfeti stendur þar öðru megin til hliðar en hrægammarnir eru hinu megin. Morris endurtók þetta form á bókarkápu 20. riddaraliðssveitarinnar (Le 20e cavalerie - 1965) og það má til dæmis einnig finna á Kid Lucky bókinni Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy sem Achdé teiknaði árið 2011. En þessi bókarkápa af Langa Láka er af mörgum talin ein sú best heppnaðasta af öllum Lukku Láka bókunum og margir listamenn hafa síðan notað hana sem fyrirmynd að eigin verkum. Allir myndasögulesendur þekkja til dæmis útfærslu Tome og Janry á bókakápu Sval og Val sögunnar Vélmenni í veiðihug auk endalausra tilbrigða af uppstillingunni á kvikmyndaveggspjöldum.
Eitt af því sem Morris var ákaflega flínkur að vinna með voru skuggar. Strax í fyrstu sögunum lagði hann mikla áherslu á að nota skugga á áhrifaríkan hátt og ef grannt er skoðað er hægt að sjá nánast á hverjum einasta myndaramma bókanna hvernig ljós og skuggar hafa spilað stór hlutverk hjá honum. Morris var algjör sérfræðingur með svarta litinn og notaði þá ekki bara í útlínur eða til uppfyllingar á dökkum flötum. Svarti liturinn var mjög mikilvægur hjá honum til að draga fram skarpari skil á mikilvægum sjónrænum atvikum. Hann var til dæmis alveg sérstaklega flínkur við að nota svarta litinn til skyggingar í nætursenum í eldri sögunum.
Þegar Goscinny kom til sögunnar árið 1957, með Þverálfujárnbrautinni, breyttust sögurnar sjálfar töluvert til hins betra. Morris hafði aldrei verið mikið fyrir íþyngjandi og krefjandi handritsstörf og gat nú einbeitt sér að teiknivinnunni en Goscinny sá alfarið um sagnagerðina. Smán saman urðu Lukku Láka sögurnar því hreint frábærar, afköstin jukust og brátt urðu þessar myndasögur gríðarlega vinsælar. Á sama tíma hélt Morris enn áfram að fínstilla stílinn og þróa ýmis smáatriði eða skreytingar í teikningunum sjálfum sem þó fóru algjörlega framhjá lesendum. Með öðrum orðum, sögurnar urðu það góðar að fæstir tóku eftir því hvað teikningar Morris voru orðnar mikil listaverk. Áður hefur verið minnst á skuggana en hann hafði einnig alltaf verið duglegur við að leika sér með litina. Sjálfsagt hafa flestir lesendur til dæmis tekið eftir stökum myndarömmum, í bókunum, sem eingöngu hafa að geyma einn, tvo eða í mesta lagi þrjá liti.
SVEPPAGREIFINN man sjálfur alveg eftir þessum myndarömmum úr Lukku Láka bókunum í æsku en velti þeim þó sjaldnast neitt fyrir sér. En hann minnist þess samt að hafa fundist þessir rammar truflandi eða ódýrir á einhvern hátt. Hann man jafnvel eftir því að hafa velt því fyrir sér hvort listamaðurinn hafi hreinlega ekki nennt að lita myndina til fulls og ætlað sér að sleppa með hana svona einlita og vitlausa. En hér var aðeins um að ræða aðferð hjá Morris til að vekja athygli á ákveðnum þáttum í sögunni hverju sinni eða auka áhrif þeirra. Í sumum myndarammanna virtist hann velja liti eins og bleika, bláa eða rauða fullkomlega tilviljunarkennt en litunum er þó ætlað að leggja áherslur á einstök atriði í myndarammanum. Litirnir gátu því táknað þá stemmningu, sem var í gangi hverju sinni, eða tilfinningar sögupersónanna án þess að þurfa að eyða einu orði í texta til útskýringar. Og í mörgum tilfellum vissi lesandinn því ekki einu sinni almennilega á hvað hann var að horfa þó undirmeðvitund hans hafi hugsanlega vitað það.
Á þessum árum var prenttæknin enn nokkuð vanþróuð og ýmsum takmörkum háð hvað varðar litagæði. Offset tæknin var að byrja að ryðja sér til rúms en var enn dýr og framfarir í prentiðnaðinum takmörkuðust við dýrari bókmenntir. Markaður var kominn fyrir teiknimyndasögur í góðum gæðum en sambærilegar prentanir fyrir ódýr myndasögublöð voru á þessum tíma hins vegar enn allt of dýrar. Ef einhver naut góðs af þessum takmörkunum var það einmitt Morris með hina litasnauðu myndasögur sínar. Margir listamenn hafa síðan nýtt sér þessa tækni hans með litaáhrifin en upprunalega hugmyndin mun þó alltaf vera kennd við Morris.
SVEPPAGREIFINN var svo heppinn, síðastliðið sumar, að fá tækifæri til að glugga aðeins og fletta í gegnum frábæra bók sem nefnist L’Art de Morris og sýnir á mjög skemmtilegan hátt margt af því sem fram hefur komið í þessari færslu. Þetta er um tveggja kílóa dorðantur, í þykku broti sem er á stærð við vínilplötu, með rúmlega 300 blaðsíðum af greiningum, leyndardómum og útskýringum á mörgum af listaverkum Morris úr Lukku Láka bókunum. L’Art de Morris kom út árið 2015 og er eftir þá  Stéphane Beaujean og Jean-Pierre Mercier en þrátt fyrir að bókin hafi verið á frönsku dauðsér SVEPPAGREIFINN eftir því að hafa ekki látið það eftir sér að fjárfesta í gripnum. Þær eru víst orðnar nokkuð margar bækurnar, tengdar teiknimyndasögum, sem SVEPPAGREIFINN hefur séð eftir að hafa ekki verslað og bíða því enn eftir að komast í myndasöguhillurnar hans.

2 ummæli:

  1. Frábær pistill. Ég tengi mikið við Lukku Láka og man að pabbi gaf okkur bræðrum fyrstu tvær sem komu út. Kalla Keisara og 20. riddarasveitina. Fannst hann alltaf skemmtilegri en Svalur og Valur. Man líka eftir því að á mínu æskuheimili var horft á allar kúrekamyndir sem RÚV sýndi. Einnig var voru kúrekaleikir vinsælir hjá okkur. Sé mikið eftir að hafa tapað öllu Lone-ranger leikfangasafninu mínu en er byrjaður að safna því á nýjan leik. Fannst Allt um Lukku Láka alltaf virkilega fræðandi og gamana að sjá þróunina hjá Morris. Takk aftur fyrir frábæran pistil.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér😊
    Maður byrjaði auðvitað allt of seint að hella sér í Lukku Láka og það var ekki fyrr en maður var orðinn fullorðinn þegar maður uppgötvaði hve Morris var frábær listamaður.
    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!