27. maí 2022

206. ROBINSON LESTIN

SVEPPAGREIFINN hefur verið óvæginn, í gegnum tíðina, við að viða að sér belgísk/frönskum myndasögum víðs vegar að úr heiminum og á til að mynda töluvert safn bóka á frönsku þó hann tali ekki stakt orð í tungumálinu. Slík vandkvæði hefur hann reyndar alltaf álitið minniháttar og þau hafa svo sem ekki verið að aftra honum frá því að fylla enn betur upp í myndasöguhillurnar sínar enda er myndmálið sjálft í teiknimyndasögum auðvitað mikilvægasti hluti þessa sagnaforms. Myndasögurnar um Sval og Val hafa mjög lengi verið í uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og af þeirri sömu ástæðu lagði hann alltaf mikla áherslu á að loka hringnum og eignast allar þær bækur úr seríunni sem ekki komu út hérlendis á sínum tíma. Það tókst fyrir nokkrum árum síðan (og gott betur) en hann hefur löngum verið svo heppinn að hafa haft gott aðgengi að þessum myndasögum í fríum sínum í syðri hluta Evrópu á undanförnum árum. Flestar Sval og Val bóka hans (fyrir utan þær íslensku auðvitað) eru á þýsku, dönsku og frönsku en fjölbreytileikinn hefur þó einnig ráðið þar nokkuð för og SVEPPAGREIFANUM telst þannig til að hann eigi alls rúmlega hundrað bækur úr Sval og Val seríunni á sjö eða átta tungumálum.

Margir þekkja eflaust þykku Sval og Val safnbækurnar frábæru sem Dupuis hóf að gefa út árið 2006 en þessi hefti hafa einmitt einnig verið að koma út á dönsku hjá Egmont Serieforlaget. Þær bækur hefur SVEPPAGREIFINN verið að freistast til að kaupa á þýsku og hefur, þrátt fyrir að þær séu fokdýrar, ekki séð neitt eftir þeim kaupum. Að öllum líkindum hefur hann verið að borga milli fjögur og fimm þúsund kall fyrir hverja bók en til að byrja með verslaði hann þær aðeins í Sviss sem er auðvitað eitt allra dýrasta land í heimi. Í dag eru þær líklega orðnar ennþá dýrari þar og í seinni tíð hefur hann því keypt þessar bækur frá Þýskalandi þar sem þær eru heldur ódýrari. 

Það er Carlsen Comics sem gefur þær út á þýsku og hvert hefti er um 220-230 blaðsíður að lengd, milli tveir og þrír sentimetrar á þykkt, harðspjalda og afar vandaðar að allri gerð. Safnbækur þessar hafa að geyma nánast hvert einasta efni sem birtist um Sval og Val, í SPIROU tímaritinu, raðað upp í tímaröð og þá gildir einu hvort um er að ræða hinar hefðbundnu sögur úr bókaútgáfunni eða stuttar jólasögur, brandarar eða myndir sem hvergi birtust annars staðar. Í byrjun hvers heftis er um 20-50 blaðsíðna inngangur með fróðleik og myndefni úr blöðunum af margvíslegum toga. Þannig eru, í hverju hefti, birtar þrjár til fjórar sögur auk þess sem einnig er heilmikill texti með fróðleik á milli sagnanna. Fyrstu átta bækur þessarar safnseríu voru eingöngu með efni frá André Franquin en síðan komu næstu þrjár með sögum Fourniers, því næst tvær með efni þeirra Nic og Cauvin og svo koll af kolli. Heftin í frönsku útgáfunni eru öll númeruð þar sem fyrsta hefti Franquins er merkt númer 1 en einnig tilheyrir þessari safnseríu tvær bækur, þó þær séu ónúmeraðar, sem hafa að geyma forsöguna sem þeir Rob-Vel og Jijé unnu að. Sögurnar úr þeim heftum tilheyrðu aldrei hinni opinberu Sval og Val útgáfuseríu enda voru þær afar stuttar og viðvaningslegar á að líta þó þær séu auðvitað mjög merkilegar. Í skandinavísku útgáfunum (dönsku, norsku og sænsku) hefur þessum tveimur bókum verið skeitt saman í eina.

Í 8. heftinu, sem kom út árið 2010 og hefur að geyma síðasta efni Franquins, er að finna mjög óvenjulega sögu sem flestir Sval og Val áhangendur hafa án nokkurs vafa farið á mis við. Sagan heitir Les Robinsons du rail á frönsku en það myndi væntanlega vera þýtt sem Robinson lestin á íslensku. Þar segir af ansi snörpu ævintýri sem þeir vinnufélagarnir Svalur, Valur og Viggó viðutan lenda saman í en auk þeirra koma einnig við sögu fáeinar persónur af ritstjórnarskrifstofu SVALS og nokkrar aðrar aukapersónur. Það sem er óvenjulegast við þessa sögu að hún er ekki myndasaga, heldur myndskreytt saga, sem birtist í SPIROU tímaritinu í nokkrum hlutum, og þekur heilar 44 blaðsíður í þessu 8. safnhefti seríunnar. Franquin teiknaði auðvitað myndirnar sem fylgja sögunni en þær eru alls tuttugu og sex talsins. Yvan Delporte skrifaði sjálfa söguna, sem er algjörlega í anda Franquin, en Jidéhem teiknaði bakgrunnsmyndirnar. Sagan var gefin út í bókarformi af Dupuis árið 2013 með aukaefni, í tilefni af 75 ára afmæli Svals, en hún hafði aðeins þrisvar sinnum áður verið gefin út í Belgíu og þá af öðrum útgáfum. Þær útgáfur (1981,1987 og 1993), sem voru þó aldrei hluti af upprunalegu útgáfuröðinni, voru samt takmarkaðar á ýmsan hátt og höfðu til að mynda ekki að geyma allar myndirnar sem birtust upphaflega í tímaritinu. Hér má sjá kápu Les Robinsons du rail frá Atelier editions bókaútgáfunni sem gefin var út árið 1981.

En það var upp úr 1960 sem ýmis fyrirtæki og stofnanir í Frakklandi fóru að átta sig á að hægt var að nýta sér myndasögur og myndasöguhetjur í markaðsskyni. Ástríkur hafði riðið svolítið á vaðið í þeim efnum og auglýsingaherferð með honum hafði þá þegar vakið verðskuldaða athygli þar á slóðum. Þetta var að sjálfsögðu löngu fyrir tíma þeirra auglýsinga- og markaðsafla sem við þekkjum í dag. Franska Ríkisjárnbrautafélagið SNCF voru búin að átta sig á því að með breyttum og fjölbreytilegri ferðamátum höfðu lestarsamgöngur dregist aftur úr með aukinni samkeppni á vegum úti og úr lofti. Á þessum árum þótti orðið gamaldags og lúðalegt að ferðast með lest og því vildu þeir breyta. Það var því fyrir tilstilli George Troisfontaines, yfirmanns á alþjóðlegri auglýsingastofu, að Dupuis komst í samband við SNCF árið 1962 en hann var einnig ábyrgðarmaður fyrir birtingu auglýsinga hjá útgáfufélaginu. Með nýstárlegri auglýsingaherferð var ætlun SNCF að vekja athygli ungra myndasögulesenda sem fyrirtækið myndi síðan nota til að komast að foreldrum þeirra. Hugmyndin fólst í útgáfu á teiknimyndasögu, með þekktum myndasöguhetjum, þar sem lestir og lestarsamgöngur skyldu leika stór hlutverk. Fyrst leituðu SNCF reyndar til Hergés en hann hafnaði boðinu og það var því þá sem Troisfontaines greip inn í og bauð fram krafta Dupuis útgáfunnar. Myndasaga með Sval og Val skyldi það verða, með spennandi ævintýrum, sem hefðu eitthvað með lestarsamgöngur að gera. Þetta gat varla verið meira skothelt til að komast inn að hjörtum ungra lestarfarþega! En fyrir André Franquin kom þetta tilboð á versta mögulega tímapunkti. Hann hafði þá um nokkurt skeið barist við þunglyndi eins og stopul vinna hans við Sval og Val sögurnar á þessum tíma gaf til kynna. Yvan Delporte tók því að sér að semja handrit að sögu en hafði síðan samband við Jidéhem, og leitaði eftir hans aðstoð, enda Franquin óvinnufær á löngum köflum. Verkið tafðist því töluvert og SNCF menn fóru að verða ansi óþolinmóðir með seinkunina. Í staðinn var Delporte, sem á þessum árum var reyndar aðalritstjóri SPIROU blaðsins, skyndilega búinn að skrifa litla skáldsögu upp úr efninu.

Þegar til kom urðu örlög sögunnar önnur en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að SNCF hafði takmarkaðan áhuga á að vera viðriðið hasarsögu þar sem kjarnorkuknúin tímasprengja í formi hraðlestar þýtur stjórnlaust í gegnum alla Evrópu. Það samræmdist ekki beint ímynd hinna fjölskylduvænu ferðakosti hraðlesta sem þeir höfðu í huga. Síðan var þessi saga skrifuð sem útvarpssaga eða einhvers konar útvarpssápuópera, undir heitinu Svalur í Frakklandi, og var meðal annars flutt á belgísku útvarpsstöðinni RTB í október árið 1963 en þær upptökur hafa þó ekki varðveist. En árið eftir birtist sagan í nokkrum hlutum og myndskreytt af Franquin og Jijéhem í SPIROU tímaritinu. Fyrsti hluti hennar birtist í páskablaðinu, tölublaði númer 1354 sem kom út þann 26. mars 1964, og síðan vikulega þar til henni lauk í tölublaði 1363 þann 28. maí. Á þessum tíma var Franquin í mikilli andlegri lægð og var búinn að vera að taka sér hlé frá vinnu við hinar hefðbundnu myndsögur um Sval og Val en þessi saga var gerð aðeins fjórum árum áður en hann teiknaði sína síðustu sögu úr seríunni. Jean-Claude Fournier tók síðan við Sval og Val árið 1969.

En Les Robinsons du rail segir í meginatriðum frá því að Valur er sendur út af örkinni, af tímaritinu Sval, til að fjalla um glænýja, kjarnorkuknúna hraðlest sem til stendur að vígja og er tilbúin á lestarstöðinni til að leggja af stað í jómfrúarferð sína. Vegna manneklu á ritstjórnarskrifstofunni neyðist Valur til að taka Viggó með, sér til aðstoðar, en á lestarstöðinni er múgur og margmenni ásamt ýmsum fyrirmennum sem ætla að vera viðstaddir vígsluathöfnina. Þar sem Viggó er viðstaddur atburðinn tekst honum fyrir slysni að sjálfsögðu óvart að gangsetja háþróaða eimreiðina. Lestin brunar því stjórnlaust af stað og þvælist þvers og kruss um alla Evrópu. Um borð eru, auk þeirra Vals og Viggós, samgöngumálaráðherra Frakklands, venjulegur lestarvörður og þjónn. Stjórnklefinn er rammlega lokaður og læstur með öflugu öryggiskerfi og það er engin leið fyrir þá sem um borð eru að stöðva lestina. Hraðinn eykst jafnt og þétt í samræmi við aukna spennu og hinni takmarkalausu framleiðslu á orku sem knúið getur lestina endalaust áfram. 

Svalur kemst í talstöðvarsamband við þá sem um borð eru og saman vinna þeir að því, ásamt verkfræðingnum Molette sem er einn helsti hönnuður þessarar byltingarkennda grips, að reyna að ná stöðva stjórnlausa lestina. En auk þess þarf auðvitað að sjá tímanlega til þess að teinarnir, sem óstöðvandi lestin brunar um, séu auðir og án allrar óþarfa fyrirtöðu. Það tekst svona að mestu leyti. Inn í söguna eru síðan fléttaðar ýmsar spaugilegar uppákomur, eins og eðlilegt er þar sem Viggó kemur við sögu, og afar skemmtilega sýn eða sjónarhorn á samtöl þeirra Vals og Viggós. Lesendur þekkja auðvitað og eru vanir frekar einföldum samskiptum þeirra félaga í textablöðrum myndasöguformsins en fjölbreytilegri samræður þeirra í almennu textaformi eru sjaldgæfari. Sjálf lestarferðin ófyrirsjáanlega tekur virkilega á enda full af krefjandi uppákomum og auðvitað óvæntum vandræðum. En að endingu er það reyndar Viggó sjálfur sem finnur loksins einfalda lausn til að stöðva þessa tortímingavænu för hinnar kjarnorkuknúnu hraðlestar.

Strangt til tekið er þetta ekki ævintýri um Sval og Val, enda söguformið ólíkt því sem við eigum að venjast, en engu að síður má hafa nokkuð gaman að henni og fyrir SVEPPAGREIFANN eru það fyrst og fremst myndskreytingar Franquins sem vekja mestan áhuga hans. Þessar Sval og Val myndir listamannsins frábæra voru auðvitað teiknaðar sérstaklega fyrir Les Robinsons du rail og komu ekki fyrir sjónir aðdáenda seríunnar í áraraðir. Margar þessara mynda eru algjör listaverk. Þær eru einnig óvenjulegar að því leiti að þó þær tilheyri myndskreytingu með sögu í textaformi þá eru þær samt margar hverjar með talblöðrum líkt og um myndasögu væri að ræða. Sumar myndanna eru litlar en aðrar þöktu heilu síðurnar í SPIROU tímaritinu á sínum tíma. Fyrir útgáfu sögunnar í safnhefti 8 voru myndirnar unnar og litaðar upp á nýtt. Það var Frédéric Jannin sem gerði það en þá útfærslu er einnig að finna í afmælisútgáfunni sem kom út í bókaformi árið 2013. 

Það hefði kannski líka verið áhugavert að sjá söguna í myndasöguformi en sennilega hefði hún hentað best fyrir dæmigerðan einnar blaðsíðna Viggó brandara sem hefði síðan endað þegar lestin þaut af stað. Þótt sagan þætti eflaust ekki merkileg í dag má ekki gleyma að því að að henni stóð þrír frábærir listamenn sem allir voru stórtækir á afurðum Dupuis útgáfunnar til langs tíma. Venjulegir myndasögulesendur hafa líklega lítinn áhuga á þessari sögu jafnvel þeir sem eru aðdáendur Svals og Vals, nema fyrir myndskreytingarnar, en fyrir safnara er þetta mikilvæg og eiginlega bara skyldueign. Fáir vita af sögunni enda hefur hún yfirleitt ekki verið týnd til þegar afrek þeirra Svals og Vals eru tíunduð. SVEPPAGREIFINN hafði til að mynda ekki hugmynd um tilurð sögunnar fyrr en hann fann hana fyrir tilviljun í einhverju af gramsi sínu í SPIROU tímaritunum fyrir nokkrum árum. En það er alla vega komið að enn einni myndasögubókinni (þó þetta sé reyndar ekki teiknimyndasaga) sem gaman væri að finna og stilla upp í bókahillunum inn á milli allra hinna Sval og Val bókanna.

Og það er kannski rétt að bæta því við þessa færslu (þar sem hún var skrifuð fyrir mörgum mánuðum) að sagan Les Robinsons du rail verður væntanlega komin í hillur SVEPPAGREIFANS innan örfárra daga ásamt einhverju fleiru myndasögulegu góðgæti sem von er á í pósti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!