3. mars 2023

221. ÍSLENSK TINNA BÓK Á BORÐUM HERGÉ

Í dag 3. mars árið 2023 eru liðin fjörtíu ár síðan Hergé, höfundur Tinna bókanna, lést. SVEPPAGREIFINN gerði því einhver skil í færslu hér fyrir margt löngu síðan og í annarri enn eldri færslu hans má einnig finna nokkuð ítarlegt æviágrip um listamanninn belgíska. Þessi tímamót (auk ábendinganna um greinarnar tvær) eru samt í sjálfu sér ekkert endalega tilefni færslu dagsins í dag, þó merkisatburður sé, heldur ljósmynd af Hergé sem síðuhafi rakst nýlega á. Á umræddri mynd, sem er frá árinu 1975, sést hvar Hergé stendur við borð þar sem verkum hans hefur verið raðað upp fyrir framan listamanninn. Þarna má meðal annars sjá nokkrar af Tinna bókunum á mismunandi tungumálum og ef glöggt er gáð má einmitt reka augu í hina íslensku Svaðilför í Surtsey (sem kom út á íslensku árið 1971) í bókaröðinni hægra megin.

Um mitt árið 1975 höfðu tíu Tinna bækur þegar verið komnar út á íslensku og fyrir jólin þetta ár bættust við fjórar teiknimyndasögur með kappanum í viðbót. Íslenska myndasöguútgáfan á árum áður var ekki stór á evrópskan mælikvarða og SVEPPAGREIFANUM finnst því nokkuð merkilegt að íslensk Tinna bók skuli hafa ratað beint inn á borð Hergé.

Gaman að þessu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!