5. maí 2023

224. STOLNAR SPÆNSKAR MYNDASÖGUR

Emile Bravo er listamaður sem SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á hér á Hrakförum og heimskupörum í þessum myndasöguskrifum sínum og er ákaflega hrifinn af því sem hann hefur fram að færa. Bravo þessi er spænsk-ættaður Frakki og er einna helst kunnur fyrir teiknimyndasögur sínar í hliðarbókaflokknum Série Le Spirou de… (Sérstök ævintýri Svals ...) sem fjalla jú einmitt um þá Sval og Val. Bækurnar, sem eru fimm talsins, fjalla um þá félaga í Síðari heimsstyrjöldinni og baráttu þeirra, með Andspyrnuhreyfingu Belga, gegn þýsku Nasistunum. Það er þó ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla um þær bækur hér, að þessu sinni, en áður hefur verið minnst á fyrstu bókina um það efni hér á síðunni. Viðfangsefni dagsins er svolítið annað.

Emile Bravo fæddist í París árið 1964 og ólst upp við hina sígildu fransk/belgísku myndasöguhefð eins og svo mörg ungmenni þessara landa gerðu. Hann lærði því snemma að meta Tinna og Ástrík og að sjálfsögðu sögurnar um þá Sval og Val. Í framhaldi af því setti hann sér þau markmið að láta drauma sína rætast og gerast sjálfur myndasöguhöfundur. Bravo gerði æsku sinni einmitt ágæt skil í örstuttri myndasögu sem birtist í SPIROU tímaritinu árið 2008 og þar kemur nokkuð vel fram hvernig þessar myndasögur allar höfðu áhrif á hann sem ungan pilt. SVEPPAGREIFINN leyfði sér að snara þessari sögu Bravos (ansi illa og hroðvirknislega) úr frönsku yfir á íslensku og birta hana hér. Þetta er að sjálfsögðu allt saman í boði hússins og auðvitað í algjöru óleyfi - sorrý.

Með þessari stuttu teiknimyndasögu, eða samantekt um bernsku Emile Bravo, notaði hann tækifærið til að kynna sig svolítið fyrir lesendum SPIROU áður en fyrsta sagan Journal d'un ingénu hæfi göngu sína í tímaritinu. Í þessari bernskusamantekt kemur fram athyglisverður punktur sem SVEPPAGREIFANUM þótti ótækt annað en að skoða svolítið og fjalla aðeins um. Þar minnist Bravo á afar vinsæla, spænska teiknimyndapersónu sem nefnist El Botones Sacarino, og skapaður var af teiknarann Francisco Ibáñez, en SVEPPAGREIFINN játar reyndar fúslega að hafa aldrei nokkurn tímann heyrt minnst á þessar sögur eða höfund þeirra. Líklegt verður þó að teljast að einhverjir íslenskir Spánarfarar þekki þessar teiknimyndasögur þó síðuhafi kunni ekki á þeim nein skil.


En eins og fram kemur í myndasögunni hér fyrir ofan virðist sem persónan Sacarino hafi fengið lánað einhvers konar skrumskælt útlit sem samanstendur af persónum þeirra Svals og Viggós viðutan. Höfundurinn viðurkenndi reyndar alveg að Sacarino væri innblásinn af Viggó en óhætt er að segja að sögupersónan sé miklu meira en það. Með öðrum orðum er hún augljóslega þrælstolin úr belgísku SPIROU blöðunum. Karakterinn sjálfur er hrein eftirlíking af Viggó, utan þess að hann er klæddur eins og Svalur. El Botones Sacarino birtist fyrst í spænska myndasögublaðinu El DDT á árunum 1963 til '66 en á þeim árum var Viggó viðutan alveg óþekktur á Spáni. Á þessum tíma þekktu spænskir teiknimyndasögulesendur aðeins Tinna, Ástrík og Lukku Láka af fransk/belgíska myndasögusvæðinu en Viggó og Svalur komu seinna til sögunnar á þeim slóðum.

Ekki gat SVEPPAGREIFINN í fljótu bragði fundið neinar heimildir fyrir því að stuldur þessi hafi haft nokkrar afleiðingar eða eftirmála fyrir hinn spænska Francisco Ibáñez eða blað hans en líkindin eru óyggjandi. Árið 1966 höfðu þessi líkindi persónanna og sagnanna þó breyst nokkuð og hugsanlega má rekja þær breytingar til athugasemda eða hótanna frá Dupuis útgáfunni í Belgíu. Það er hætt við að höfundarréttalögregla dagsins í dag myndi ekki láta slíka hluti viðgangast athugasemdalaust. Hér var ekki aðeins um að ræða beinan stuld á útliti og karakter Viggós heldur voru bæði myndarammar úr myndasögunum og jafnvel heilu brandararnir stolnir. Í heildina má finna hátt í fjörtíu Sacarino brandara sem teiknaðir voru nánast beint upp eftir Viggó bröndurunum úr SPIROU blöðunum. André Franquin, sem teiknaði Viggó viðutan, gerði aðspurður sjálfur frekar lítið úr þessum eftiröpunum. Hann sagðist telja að allir listamenn sæktu sér áhrif frá öðrum listamönnum og notuðu þau til að þróa sinn eigin stíl eða hæfileika. Honum sjálfum virtist alla vega ekki finnast taka því að vera að gera eitthvað stórmál úr þessu.

Eftir svolítið grams gróf SVEPPAGREIFINN upp fáein dæmi um hina stolnu brandara en af nægu er að taka og lesendur þekkja án nokkurs vafa flesta þessa brandara. Fyrsta dæmið birtist til dæmis í SPIROU blaði númer 1205, sem kom út þann 18. maí árið 1961 en á íslensku kom brandarinn fyrir á blaðsíðu 27 í Viggó bókinni Braukað og bramlað sem Froskur útgáfa gaf út árið 2016.

Næsta dæmi birtist í SPIROU blaði númer 1305 sem kom út 18. apríl árið 1963. Á íslensku kom brandarinn fyrst fyrir, á blaðsíðu 35, í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur sendi frá sér 2015.

Myndaramminn sem næstur er tekinn fyrir birtist í sérstöku afmælisriti (tölublaði númer 1303) sem gefið var út í tilefni af 25 ára afmæli SPIROU tímaritsins þann 4. apríl árið 1963. Brandarinn birtist síðan á blaðsíðu 34 í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2015.

Næst kemur fyrir sígildur brandari sem kom fyrir í tölublaði númer 1283, sem gefið var út þann 15. nóvember árið 1962, en íslenska útgáfan af honum birtist á blaðsíðu 24 í bókinni Gengið af göflunum frá árinu 2015. Þess má geta að það glittir einmitt í nákvæmlega þennan sama brandara í myndasögu Emile Bravo hér ofar á síðunni.

Þá er komið að dæmi úr SPIROU blaði númer 1364 frá 4. júní árið 1964. Þessi brandari birtist fyrst á íslensku í Viggó bókinni Skyssur og skammarstrik (blaðsíðu 36) sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1987 en hann kemur einnig fyrir á blaðsíðu 23 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur útgáfa gaf út árið 2017. Myndarammarnir hér fyrir neðan koma einmitt úr þeirri útgáfu.

Næsta myndaramma fá finna úr Viggó brandara sem birtist í SPIROU tímaritinu, þann 7. nóvember 1963, í tölublaði númer 1334 en hann má einnig finna á blaðsíðu 6 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem kom út á íslensku árið 2017.
 

Síðasta dæmið um stuld hins spænska Ibáñez, af bröndurunum um Viggó viðutan, kemur úr SPIROU blaði númer 1328 sem gefið var út þann 26. september árið 1963. Þennan sama brandara má finna á blaðsíðu 3 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur sendi frá sér árið 2017.

Þess má geta að Francisco Ibáñez þessi skapaði einnig aðra seríu sem fjallaði um þá félaga Mortadelo og Filemon (sem líka er minnst á í myndasögu Bravos) en þar hafði hann svipaðan háttinn á. Þær myndasögur hafa einnig mjög sterka vísun í Viggó viðutan en auk þess eru heilu myndarammarnir þar líka þrælstolnir úr sögunum um Sval og Val. Ekki nennir SVEPPAGREIFINN að fara að sökkva sér ofan í þau fræði einnig en einhverjir kannast eflaust við þennan myndaramma úr bókinni Tembó Tabú eftir Franquin.

2 ummæli:

  1. Virkilega fróðlegt. Takk kærlega fyrir skemmtilegan pistil.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér, Rúnar.

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!