Í dag er boðið upp á frekar snöggsoðna og ódýra færslu. En SVEPPAGREIFINN hefur iðulega alla anga úti, eftir því sem tími og næði gefast til, við að reyna að hafa upp á áhugaverðu efni til birtingar hér á Hrakförum hans og heimskupörum. Hann gramsar gjarnan á hinu svokallaða Interneti, grúskar í bókum og blöðum og fylgir hinum ýmsum grúbbum á Facebook með það að markmiði að finna eitthvað til að punkta hjá sér. Stundum verður þetta grúsk hans til að færsla fæðist hér á síðunni en oftar gerist mest lítið. Og þó ... á einum ónefndum stað, á öllu þessu flakki sínu, rak hann samt nýlega augun í merkilegt myndasafn sem samanstendur af litlum myndarömmum af blaðsíðu 34 úr Tinna bókinni Svaðilför í Surtsey. Í þessu myndasafni má sjá hvar Tinni kallar reiðilega nafn Tobba enda hefur hundspottið laumast til að fá sér svolítið í staupinu. Þarna hafa sem sagt verið týndar til nokkrar útgáfur af myndinni þar sem nafn Tobba kemur fyrir á 24 mismunandi og ólíkum tungumálum. Samkvæmt Wikipedia hafa Tinna bækurnar verið þýddar á yfir 70 tungumálum svo hér er alls ekki um tæmandi lista að ræða og glöggir lesendur átta sig þó auðvitað strax á því að inn í þetta safn vantar íslensku útgáfuna af myndarammanum.
Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM auðvitað hin mesta hneisa og þótti því ekki tilhlýðilegt annað en að bæta aðeins úr þeim Tobba-skorti hið snarasta. Hann tók sér því það bessaleyfi að birta í þessari færslu hina upprunalegu íslensku útgáfu af þessum margbreytilega myndaramma.
Nokkru síðar rakst SVEPPAGREIFINN síðan á aðra sambærilega mynd sem að þessu sinni er af Kolbeini kafteini og kemur fyrir ofarlega á blaðsíðu 53 í bókinni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða. Í þessari myndasultu allri sést kafteinninn öskra reiðilega á Skaftana, eins og hans er reyndar von og vísa, einnig á talsverðum fjölda ólíkra tungumála. Að þessu sinni er um að ræða 22 mismunandi tungumál og enn á ný hefur þeim aðila, sem safnaði þessum myndarömmum saman, láðst að hafa íslensku útgáfuna með. Þessi frammistaða er náttúrulega til háborinnar skammar.
Þessi íslensku-skortur er að sjálfsögðu fyrir neðan allar hellur (er ekki alltaf notaður sandur þar?) og SVEPPAGREIFINN birtir hér einnig myndarammann góða, á hinu ylhýra, til samanburðar.
Látum þetta gott heita í dag ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!