22. desember 2017

38. JÓL Í MYNDASÖGUM

Nú er orðið ansi stutt í að hin árlega jólahátíð bresti á með öllum sínum hátíðleik og því tilvalið að bjóða upp á einhvers konar jólatengingu í færslu vikunnar. Í öllum kimum dægurmenningarinnar, hvort sem það er í tónlist, kvikmyndum, bókmenntum eða bara fjölmiðlum má finna vettvanga sem reyna að fanga hátíðleikann og stemmninguna á þessum fallega árstíma. Myndasögur eru þar engin undantekning. Það er því ekki seinna vænna að fletta svolítið í gegnum þær teiknimyndasögur sem komið hafa út á íslensku og kanna hvort að þar fyrirfinnist ekki eitthvað sem tengist blessuðu jólaamstrinu.
Eftir að hafa blaðað eilítið í myndasögum heimilisins komst SVEPPAGREIFINN að því að ekki er nú beint um auðugan garð að gresja í bókunum hans um jólatengt efni. Kannski fór eitthvað fram hjá honum en í það minnsta virðist hafa verið lítið um jólaþema í þeim teiknimyndasögum sem komu út á Íslandi á sínum tíma. Það var helst að jólin birtust í einhverri mynd í hinum frábæru bókum um Viggó viðutan. Þær bækur hafa þá sérstöðu að vera byggðar upp á litlum hálfrar- eða einnar síðu bröndurum, sem komu fram í SPIROU tímaritinu, en ekki á heilum sögum. Þetta gerði það að verkum að hægt var að bjóða upp á mjög fjölbreytilega brandara sem hæfðu hverjum árstíma í stað þess að heil saga væri bundin ákveðnum tímaramma. Í bókunum um Sval og Val má einnig finna nokkur dæmi tengdum jólahátíðinni. Byrjum samt á að skoða aðeins hvernig jólaþema birtist í Viggó bókunum.

Í bókinni Skyssur og skammarstrik (Le Lourd Passé de Lagaffe - 1986), sem bókaútgáfan Iðunn gaf út árið 1987, má finna jólabrandara sem birtist í SPIROU blaðinu líklega á árunum 1958-59.
Kúnstir og klækjabrögð (Gare aux gaffes du gars gonflé - 1973) er Viggó bók sem kom út á íslensku hjá Iðunni árið 1988 og hefur að geyma samansafn úr nokkrum af seríunum sem birtust um kappann. Þar á meðal var að finna nokkra brandara þar sem lesendum SPIROU hafði verið gefinn kostur á að senda inn hugmyndir fyrir teiknarann André Franquin. Að minnsta kosti einn þeirra var tengdur jólahátíðinni.
Það má finna nokkra jólatengda brandara í viðbót í Viggó bókunum og í áðurnefndri Kúnstum og klækjabrögðum má finna að minnsta kosti annan jólabrandara til. Auk þess er töluvert jólaþema í gangi í Viggó á ferð og flugi (Un gaffeur sachant gaffer - 1969) en einnig koma fyrir fleiri sambærilegir brandarar í bókinni Viggó bregður á leik (Des gaffes et des dégâts - 1968).
En skoðum aðeins meira en Viggó viðutan. Í Sval og Val bókinni Furðulegar uppljóstranir (La Jeunesse de Spirou - 1987) eftir þá Tome og Janry, sem er einhvers konar samansafn 5 stuttra sagna um yngri ár Svals, má finna litla 6 blaðsíðna sögu sem heitir Einkaþjónn forsetans eða Le Groom du président á frönsku. Þessi saga fjallar um það þegar Svalur lendir í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að leysa forseta Bandaríkjanna (Ronald Reagan?) af þegar hann lokast inni á hóteli á Þorláksmessukvöldi.
Sagan er kannski ekki beint jólasaga en jólastressið er þó undirtónninn og hún birtist upphaflega í aukahefti sem fylgdi tímaritinu SPIROU fyrir jólin árið 1982.

Og meira með þeim Sval og Val. Í bókinni Svörtu hattarnir (Les chapeaux noirs - 1950), sem Froskur gaf út árið 2015, má finna þrjár styttri sögur eftir André Franquin sem hann teiknaði á árunum 1949-50. Í einni þeirra, Svalur á Litlupattaeyju (Spirou chez les Pygmées - 1949), eru þeir félagar staddir inni í miðjum frumskógi um hánótt þegar undarlegur jólaandi hellist skyndilega yfir söguna á tveimur blaðsíðum. Þegar sagan hófst í myndasöguritinu SPIROU þann 25. júlí árið 1949 var upphaflega ekki gert ráð fyrir þessum óvænta útúrdúr.
En Charles Dupuis (einn eiganda blaðsins) var sannkristinn maður og óskaði eftir því að einhver jólatenging kæmi inn í söguna í jólablaði SPIROU (nr. 610) sem kom út þann 22. desember árið 1949. Franquin varð við þeirri bón og lét atvikið líta út fyrir að hafa verið draumur en fyrir vikið er þessi hluti sögunnar afskaplega skrítinn. Í sumum útgáfum bókarinnar er þessum tveimur blaðsíðum hreinlega sleppt en í öðrum ekki líkt og er í íslensku útgáfunni. 
Í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis - 1960) eftir Franquin, sem gefin var út á íslensku árið 1978, kom einnig fyrir sambærileg viðbót þegar sagan var birt upphaflega í SPIROU árið 1956. Margir muna eftir því snemma í sögunni þegar þeir Svalur og Valur mæta til bíósýningar Bitlu en eru svolítið seinir fyrir. Þegar þeir hafa komið sér fyrir í sætum sínum kynnir Bitla þá fyrir gestum salarins og uppsker lófaklapp fyrir. En í jólablaði SPIROU (nr. 975), sem kom út þann 20. desember árið 1956, tók sagan svolítið aðra stefnu.
Og enn um Sval og Val, því eina alvöru jólasagan sem komið hefur út á íslensku í myndasöguformi var úr þeim bókaflokki. Árið 1979 kom út á íslensku bókin Gullgerðarmaðurinn en sagan, sem er frá árinu 1969, var sú fyrsta sem franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier teiknaði eftir að André Franquin hætti með bókaflokkinn. Í lok bókarinnar um Gullgerðarmanninn fylgir með sex blaðsíðna jólasaga sem nefnist á íslensku Feluleikur á jólum eða Un Noël clandestin eins og hún heitir reyndar á frönsku. Þessa litlu sögu teiknaði Fournier fyrir jólin sama ár en hún var aðeins önnur í röðinni af þeim sem listamaðurinn gerði um þá Sval og Val.
Þeir félagar Svalur og Valur eru að vísu ekki beinlínis í aðalhlutverkum í jólasögunni Un Noël clandestin. Því sagan, sem gerist á einu kvöldi, segir í megindráttum frá Hinriki litla (Henri) en hann er sonur moldríkra foreldra sem halda hundleiðinlegt jólaboð á aðfangadagskvöld fyrir vini sína heldra fólkið. Hinrik litli er látinn algjörlega afskiptalaus og enginn tekur því eftir þegar hann stingur af úr veislunni, með risatertu í fanginu, og ákveður að kíkja í heimsókn til Jóa gamla bláfátæks og góðhjartaðs vinar síns sem býr einn í kofaræfli niðri við ána. 
Jói gamli (hann heitir Jean-Baptiste í frumútgáfunni) er afar ánægður með að fá Hinrik í heimsókn á aðfangadagskvöld og gefur honum fjarstýrðan bát í jólagjöf sem hann smíðaði sjálfur úr afgangsdóti. En tertan, sem Hinrik kom með, er allt of stór fyrir þá eina svo þeir grípa til þess ráðs að fara á flakk með tertuna til að reyna að deila henni með öðru fólki á aðfangadagskvöld. Þeir fá sér göngutúr í kvöldkyrrðinni og banka handahófskennt upp á hjá fólki í nágrenninu. Það gengur reyndar brösuglega, þar sem ekki eru allir tilbúnir til að fá ókunnuga í heimsókn á þessu kvöldi, þangað til að fyrir tilviljun þeir koma í heimsókn heim til Svals og Vals.
Skömmu áður höfðu þeir Svalur og Valur verið að opna jólagjafirnar sínar en þær höfðu meðal annars haft að geyma lítinn fjarstýrðan Zorbíl frá meistara Zorglúbb og nokkrar torkennilegar krukkur frá Sveppagreifanum. Krukkunum fylgdu ítarlegar leiðbeiningar Sveppagreifans um notkun þeirra um að ef þeim yrði hent í vatn, eftir að búið væri að opna þær, þá mynduðust fallegir flugeldar. Þeir fjórmenningar ákveða að skreppa út til að prófa bátinn í nálægri tjörn og þar gefst einnig tækifæri til að prófa flugeldana.
Un Noël clandestin birtist fyrst í SPIROU blaði númer 1652 þann 11. desember árið 1969 en það var 108 blaðsíðna veglegt jólablað.
GLEÐILEG JÓL

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!