29. desember 2017

39. JÓLABLÖÐIN HJÁ TINNA TÍMARITINU

Í tilefni jólahátíðarinnar er SVEPPAGREIFINN búinn að vera að dunda sér við það að undanförnu að kanna aðeins hvernig gömlu belgísku myndasögutímaritin (þessi stærstu voru auðvitað Le Journal de Spirou og Le Journal de Tintinfóru að því að koma jólastemningunni til skila hjá lesendum sínum. Í þetta sinn ætlum við því að skoða svolítið Le Journal de Tintin eða Tinna tímaritið eins og við myndum kalla það. En Le Journal de Tintin byrjaði fyrst að koma út í Belgíu í september árið 1946 og frá upphafi var þeirri útgáfu einnig dreift til franska málsvæðisins í Kanada. Stuttu síðar fengu Hollendingar líka sína útgáfu af blaðinu en í Hollandi kallaðist blaðið Kuifje. Fyrsta blöðin af frönsku útgáfunni hófu að koma út árið 1948 og þeim tímaritum var frá upphafi einnig dreift um franska hluta Sviss en frönsku og belgísku útgáfurnar voru í meginatriðum sama blaðið. Þó voru sitthvorar ritnefndirnar sem stýrðu blöðunum og útgáfunúmerin voru ekki þau sömu. Le Journal de Tintin kom út vikulega og þá ávallt á fimmtudögum en þegar mest var kom það út í um 300.000 eintökum á viku. Tinna myndasögutímaritið var að lokum lagt niður í nóvember árið 1988 og hætti þá að koma út. 
Jólaútgáfur þessara myndasögutímarita vöktu ætíð mikla athygli enda voru þau blöð yfirleitt veglegri en venja var og þau troðfull af skemmtilegu efni í tilefni jólahátíðarinnar. Forsíður þeirra voru sérstaklega vandaðar og mikið í þær lagt á fallegan hátt og með árunum hafa þessar glæsilegu jólaútgáfur tímaritanna orðið að eftirsóttum safngripum hjá myndasögunördum. SVEPPAGREIFINN ætlar aðeins að skoða örfáar af þessum forsíðum og um leið að bulla einhverja helvítis vitleysu í kringum þær.

En fyrsta jólablað hins belgíska Le Journal de Tintin (nr. 14/1946) kom fyrir sjónir lesenda sinna þann 26. desember árið 1946 og óhætt er að segja að þar hafi jólaandinn ráðið ríkjum á forsíðunni. Helstu persónurnar úr Tinna bókunum og auk þeirra; Alli, Sigga og Simbó, Blake og Mortimer, ævintýraunglingurinn Corentin og aðal persónurnar úr myndasögunum La légende des quatre fils Aymon, stilla sér á táknrænan hátt í kringum jötu Jesú barnsins og fylgjast þar með framvindu þeirra nafntoguðu viðburða. Það má því segja að Tinni hafi þannig verið viðstaddur tvo af merkilegri atburðum mannkynssögunnar. Hann stóð ekki bara í eldlínunni við að verða fyrsti maðurinn til að stíga fæti sínum á tunglið heldur var hann einnig viðstaddur fæðingu Sússa litla. Auðvitað...
Þessi jólaútgáfa af tímaritinu frá árinu 1946 kom einungis út í Belgíu þar sem franska útgáfan hóf ekki göngu sína fyrr en í lok október árið 1948.

En árið 1958 kom jólablaðið (nr. 51/1958) út þann 17. desember í Belgíu og degi seinna í Frakklandi (nr. 530) en á þeirri forsíðu var heldur betur jólalegt um að litast. Líklega er þetta ein allra sígildasta jólaforsíða Tinna tímaritsins og óhætt er að segja fallegri og hlýlegri verða þær varla. Tinni og Kolbeinn sjást skiptast á jólagjöfum fyrir innan glugga (væntanlega Mylluseturs) en prófessor Vandráður og Skaftarnir sinna sambærilegum hlutverkum í bakgrunninum. Tobbi man eftir smáfuglunum enda beinist athygli hans út um gluggann þar sem rauðbrystingur nartar í matarbita á kuldalegri gluggasillunni. Stofan er ríkulega skreytt og jólatréð setur eins konar punkt yfir i-ið. Afskaplega notalegt allt saman.
Hér er síðan jólablað ársins 1964 (nr. 844) úr frönsku útgáfunni en þessi mynd birtist reyndar einnig framan á kápu bæði franska (nr. 269) og belgíska (nr. 51/1953) jólablaðsins árið 1953 í eilítið öðruvísi útfærslu. Útgáfa belgíska jólablaðsins árið 1964 var hins vegar ekki eins og sú franska í það skiptið. Á myndinni má sjá þá félaga Tinna og Tobba, Kolbein kaftein, prófessor Vandráð og Skaftana á göngu, líklega einhvers staðar í sveitunum nálægt Myllufossi, en ekki kemur þó neitt sérstaklega fram á hvaða ferðalagi þeir eru. Hugsanlega eru þeir á leiðinni heim af helgileiknum frá forsíðunni hér á undan og Tinni hefur gripið með sér lamb úr fjárhúsinu til að hafa í jólamatinn en Kolbeinn einbeitir sér meira að drykkjarföngunum þó hann reyni reyndar að beina athyglinni frá þeim með brauðinu. Tobbi er með jólapakka í kjaftinum (örugglega belgískt konfekt), Vandráður er með allan hugann við dingulinn sinn og Skaftarnir hugsa bara um að standa í lappirnar - eða réttara sagt, að standa í fæturnar.
Og svona í framhjáhlaupi í lokin má SVEPPAGREIFINN líka til með að koma með aðra útgáfu, svona upp á grínið, af nákvæmlega þessari sömu forsíðu. En hana gerði svissneski skopteiknarinn Alain Delaloye og endurbætti 45 árum seinna eða árið 2009. Þarna eru Skaftarnir reyndar týndir en Tinni hefur mestar áhyggjur af því hvort Jósep sé búinn að kveikja á ofninum!
Tobbi er líka nokkuð góður.

En látum þetta gott heita í dag og GLEÐILEGT ÁR ...

2 ummæli:

  1. Þýðingar Lofts eru í raun ekkert minna en lítið bókmenntaafrek.
    Hann virðist hafa látist 1978. Þýddi hann ekki allar bækurnar ?
    Loftur Guðmundsson (6. júní 1906 – 29. ágúst 1978) er best þekktur fyrir störf sín sem þýðandi og söngtextahöfundur. Hann þýddi meðal annars bækur Hergé um Tinna (Tintin) og gerði texta við mörg sönglög Oddgeirs Kristjánssonar. Loftur stundaði einnig önnur ritstörf og samdi meðal annars leikritið Brimhljóð, kvikmyndasöguna Síðasti bærinn í dalnum eftir samnefndri kvikmynd og nokkrar barnabækur. Eins var Loftur leikhúsgagnrýnandi dagblaðsins Vísis um tíma.

    SvaraEyða
  2. Já ég er sammála því að að þýðingar hans voru mjög vandaðar. Ég veit ekki betur en að Loftur hafi þýtt allar Tinnabækurnar en hef svo sem ekki skoðað það til fullnustu. En í alla vega einhverjum af seinni útgáfum bókanna (2. og 3. útg.) eru þeir Þorsteinn Thorarensen skrifaðir báðir saman fyrir þýðingunum. Mig rámar eitthvað í að hafa heyrt talað um að Þorsteinn eigi til dæmis blótsyrði Kolbeins. Sel það þó ekki dýrara en ég keypti ;)
    En skemmtileg tilviljun með textann þinn um Loft. Ég var einmitt að gúggla hann í gær af allt annarri ástæðu og rakst þá einmitt á þetta sama ágrip.
    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!