12. janúar 2018

41. TINNI Í TÍBET Á ARABÍSKU

SVEPPAGREIFINN hefur í góðan tíma langað til að fjalla aðeins um hið óvenjulega form Tinna bókanna sem gefnar eru út í mörgum löndum Asíu. Hmmm... eða alla vega óvenjulega fyrir okkur, íbúa hins vestræna heims. Reyndar snýst þetta áðurnefnda óvenjulega form almennt um bækur á þessum slóðum og ekki bara um myndasögur en fyrir áhugafólk um myndasögur er málið sérstaklega snúið. Og eftir að SVEPPAGREIFINN festi kaup á bókinni Tinni í Tíbet á arabísku (jú, þið lásuð rétt!) var eiginlega ekki lengur hjá því komist að fjalla aðeins um málið. En hvað er svona öðruvísi við sumar af þessum asísku útgáfum? Sko, best að reyna að útskýra málið aðeins. Það þarf að vísu ekki nema að líta aðeins á þessa arabísku bókarkápu hér fyrir neðan til að átta sig á hinu óvenjulega. Myndin á bókarkápunni snýr öfugt við það sem við eigum að venjast og ekki nóg með það, hún er á baksíðunni! Sko ... eða ... baksíðunni eins og við þekkjum þær!
Skýringin lá auðvitað í augum uppi og SVEPPAGREIFINN hefði aldrei átt að þurfa að velta því neitt sérstaklega fyrir sér. Arabískt letur er lesið frá hægri til vinstri öfugt við það sem við eigum að venjast. Sem gerir það að verkum að bækur á arabísku eru lesnar öfugt við það sem við í hinum vestræna heimi þekkjum. Með öðrum orðum - þær eru lesnar afturábak. Þetta gildir auðvitað líka um myndasögur.
Og það er ekki nóg með að arabískar útgáfur af teiknimyndasögum snúa öfugt, heldur er myndmálið þá auðvitað líka speglað svo hægt sé að lesa frá hægri til vinstri. Það er miklu einfaldara fyrir útgefandann heldur en að hann þurfi að klippa niður og endurraða hvern einasta myndaramma í bókinni frá hægri til vinstri. Hér fyrir neðan má einmitt sjá muninn, á byrjun bókarinnar um Tinna í Tíbet, annars vegar á arabísku og hins vegar á íslensku.
Auðvitað er þetta fullkomlega eðlilegt og eitthvað sem hver einasti vitleysingur ætti að leiða hugann að vegna þess að hann veit að arabískt ritmál er lesið öfugt við það sem við eigum að venjast. En einhvern veginn hvarflaði það aldrei að SVEPPAGREIFANUM að þetta ætti að sjálfsögðu einnig við teiknimyndasögur.

Svona getur maður nú verið einfaldur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!