19. janúar 2018

42. GRÚSK Í MYNDASÖGUHILLUNUM

SVEPPAGREIFINN hefur að undanförnu verið að dunda sér við að standsetja lítið herbergi í húsi þeirra Greifynjunnar og smíðað þar meðal annars bókahillur fyrir teiknimyndasögur í hentugu skoti. Smán saman hefur hann svo verið að tína myndasögurnar upp úr kössum, sem margar hverjar hafa verið þar jafnvel áratugum saman, og koma þeim fyrir í hillunum. En fyrir utan gömlu góðu bækurnar hefur hann á undanförnum árum líka verið duglegur við að versla það sem hann vissi að uppá vantaði, reynt að endurnýja gamlar og útslitnar bækur og auðvitað að kaupa forvitnilegar bækur erlendis sem ekki hafa komið út hér. Þetta er allt saman líklega sambærilegt við það sem annað áhugafólk um myndasögur kannast við. Það er því ansi gaman að sjá bækurnar verða sýnilegar á ný og að geta handfjatlað eins og eina og eina myndasögu án þess að þurfa að leita og róta í kössum. Eitt af því sem fylgir þessum tilfærslum öllum er að vera að fá í hendurnar aftur bækur sem SVEPPAGREIFINN hefur ekki skoðað í 20-25 ár eða vera jafnvel að lesa myndasögur sem hann hefur aldrei um ævina lesið. Dæmi um þetta er til dæmis sagan Kuldastríðið með njósnaranum 421. SVEPPAGREIFINN keypti þessa bók fyrir líklega einhverjum 20 árum og stóð í þeirri meiningu að hann hefði nú einhvern tímann skoðað hana á þeim tíma en kannast svo ekkert við efni eða persónur bókarinnar þegar hann fór að lesa hana núna.
En Kuldastríðið (Guerre Froide - 1984) er sem sagt fyrsta og jafnframt eina sagan sem kom út í þessum bókaflokki hjá Forlaginu. Sagan var gefin út í íslenskri þýðingu Þuríðar Baxter fyrir jólin árið 1985 og í fljótu bragði virðist sem þessi bók og bækurnar þrjár um Yoko Tsúnó séu einu teiknimyndasögurnar sem Forlagið hafi gefið út á þeim tíma. Til stóð að fleiri bækur úr seríunni um njósnarann 421 yrðu gefnar út hér á landi en lítið hefur þó orðið af því. Kuldastríðið fjallar um hinn harðsnúna breska leyniþjónustumann Jimmy Plant (sem er jú afbökun á nöfnum þeirra Jimmy Page og Roberts Plant úr hljómsveitinni Led Zeppelin) sem í daglegu tali er nefndur 421 og af þeim titli er nafn bókaflokksins dregið. En nótt eina er 421 vakinn upp af værum blundi við hlið elskunnar sinnar. Miskunnarlausir heimsvaldasinnar hyggja á heimsyfirráð og sprengja sprengjur sem hafa þau áhrif að skyndilega kólnar i heiminum. Kuldinn breiðist um allan heim eins og farsótt og 421 er sendur út í stórhríðina til að reyna að stöðva kuldastríðið.
Ekki getur nú SVEPPAGREIFINN sagt að hann hafi hoppað hæð sína af hrifningu yfir þessari myndasögu en hann hefur þó alla vega fullan skilning á af hverju Forlagið réðst ekki í útgáfu á fleiri sögum úr seríunni. Það bendir nefnilega allt til að almennur skortur á aðdáendum hafi komið í veg fyrir að bókin seldist meira hér á landi. Enda nær hún því að vera það slök að nokkuð öruggt er að oftast sé hægt sé að ganga að sögunni vísri í hillum bestu bókabúðarinnar í bænum - Góða hirðisins. Svo er Kuldastríðið ekki nema 48 síður að lengd og efni söguþráðarins rúmast engan veginn innan þess ramma, enda er atburðarrásin sett upp á einstaklega einfaldan hátt. Sem í staðinn gerir það að verkum að sagan verður samt flókin vegna þess að maður hefur það á tilfinningunni að það vanti ca. aðra hverja mynd! En hún er alla vega ágætlega teiknuð.
Líklega hefði maður þurft að fá fleiri sögur úr bókaflokknum til að geta myndað sér einhverja almennilega og marktæka skoðun en þessi eina bók Kuldastríðið náði alla vega ekki að heilla SVEPPAGREIFANN. Og þótt ekki hafi allt verið gæðaefni sem gefið var út hér á landi á sínum tíma þá er samt líklega óréttlátt að dæma það sem eitthvað rusl. Fleiri bækur úr sumum af þessum seríum hefðu gefið eðlilegri mynd af þeim. Smæðin á markaðnum hér hefur alltaf háð útgáfu myndasagna á Íslandi og það sem gefið hefur verið út hér var oftar en ekki hugsjónaverk bjartsýnna manna. Eflaust hefði fjöldi útgefinna bóka orðið töluvert meiri ef hægt hefði verið að treysta á meiri sölu. Hver veit nema allar bækurnar úr bókaflokknum um 421 hefðu þá verið gefnar út og lesendur hér hefðu fengið betri heildarmynd af sögunum. Ein bók segir afskaplega lítið um heilan bókaflokk.
Sögurnar um 421 urðu alls tíu talsins og sú fyrsta kom út í bókarformi hjá Dupuis í Belgíu árið 1984 en síðasta bókin í flokknum kom út árið 1992. Reyndar kom út ein saga árið 1983 en sú bók er almennt ekki talin til bókaraðarinnar. Höfundar þessarar myndasöguseríu eru teiknarinn Eric Maltaite og handritshöfundurinn Stephen Desberg en þeir eru báðir belgískir. Faðir Erics, Willy Maltaite (þekktur sem Will), var kunnur teiknari á árum áður og teiknaði til dæmis vinsælar myndasögur sem nefndust Tif og Tondu. Einnig vann hann með mörgum af kunnustu listamönnum Belga við myndasögugerð hjá SPIROU blaðinu. Hann starfaði til að mynda með Franquin að Sval og Val sögunni Hrakfallaferð til Feluborgar árið 1955 og með Peyo að Steina sterka sögunni um Grímhildi góðu árið 1963. Eric Maltaite hefur því ekki þurft að leita langt eftir hæfileikum sínum. Stephen Desberg vann einnig við handritsgerð að Tif og Tondu (einmitt með föður Erics) en líka að Bill the Cat, sögum sem margir kannast við og hafa meðal annars komið út á dönsku. 
Þessar sögur um Jimmy Plant virðast hafa verið nokkuð vinsælar í Belgíu á sínum tíma en þær hófu að birtast í belgíska myndasögublaðinu SPIROU í byrjun árs 1980. Síðustu sögunni lauk í september árið 1992 en þá hét tímaritið orðið SPIROU Magaziiiine. Bækurnar um 421 eru einskonar léttari útgáfa af James Bond og voru í byrjun nánast grínsögur en þær þróuðust þó fljótlega í alvörugefnara og raunhæfara efni. Hetjan er að sjálfsögðu umvafin hasar, hraðskreiðum bílum, tæknigræjum ýmiskonar og fögru kvenfólki hvar sem hann fer. Og oftar en ekki starfa fögru konurnar einnig á vegum ýmissa leyniþjónusta um allan heim. 
Gaman fyrir SVEPPAGREIFANN að geta loksins aðeins farið að grúska eitthvað í teiknimyndasögunum sínum aftur og auðvitað er stefnan sett á að nýta Hrakfarir og heimskupör til að miðla eilitlu af því sem honum verður áskynja. Kuldastríðið er aðeins ein af þessum stöku teiknimyndasögum sem voru að koma út í íslenskri þýðingu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og eflaust verður eitthvað meira týnt fram úr nýju myndasöguhillunum til að fjalla um hér.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir pistilinn. Alltaf gaman af þessu.

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir innlitið, alltaf gaman að sjá að ég er ekki einn að lesa þetta :) Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!