9. febrúar 2018

45.TINNI OG GÍSLI MARTEINN

SVEPPAGREIFINN vill endilega benda á þætti á Rás 1 um teiknimyndahetjuna Tinna sem eiga að hefjast laugardaginn 10. febrúar. Aðallega er um að ræða fjóra þætti, sem nefnast einfaldlega Ævintýri Tinna, í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar. En ætlunin er líka að þeim muni fylgja nokkrir styttri þættir sem verði líklega einnig fluttir á Rás 1 eða í það minnsta aðgengilegir á Hlaðvarpinu. Í þessum styttri þáttum er hugmyndin að Gísli Marteinn fái til sín góða gesti að spjalla við og einstakar bækur eða dúlógíur úr seríunni verði umræðuefnið í þeim þáttum. 
Á vef Ríkisútvarpsins má lesa eftirfarandi kynningu: Fjórir þættir um belgísku teiknimyndahetjuna Tinna. Hverjar eru pólitískar skoðanir hans? Er Tinni rasisti? Eða mannvinur sem vill öllum vel? Af hverju er miðaldra drykkfelldur sjómaður besti vinur hans? Í þessum þáttum mun Gísli Marteinn Baldursson kafa ofan í sköpunarverk Hergés og velta fyrir sér hvaða straumar og stefnur tuttugustu aldarinnar leynast á bakvið þroskasögu Tinna.
SVEPPAGREIFINN er fullur tilhlökkunar og það er enginn vafi á að Tinna sérfræðingurinn Gísli Marteinn muni ná að gera sér mat úr þessu skemmtilega og áhugaverða efni. Þættirnir verða á dagskrá á laugardagsmorgnum klukkan 10:15 á Rás 1 eins og áður segir og fyrsti þátturinn verður þann 10. febrúar.

Uppfært.
Eitthvað hefur dagskrá Ríkisútvarpsins riðlast frá upphaflega auglýstri dagskrá því nú er gert ráð fyrir fyrsta þætti laugardaginn 17. febrúar. Þá er bara enn meiri ástæða til að hlakka til.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!