23. febrúar 2018

47. BLAND Í POKA MEÐ PALLA OG TOGGA

Flest okkar sem voru að lesa teiknimyndasögur á Íslandi síðasta hluta 20. aldarinnar muna eftir bókunum um Palla og Togga. Alls voru gefnar út níu bækur með þeim kumpánum hjá bókaútgáfunni Fjölva en þær voru eftir höfund Tinna bókanna, sjálfan belgíumanninn Georges Remi eða Hergé eins og hann nefndi sig. Bækurnar voru þýddar af Ingunni Thorarensen, dóttur Þorsteins Thorarensen hjá Fjölva, en hún var ekki nema rétt rúmlega tvítug þegar fyrstu tvær bækurnar komu út haustið 1977. Myndasögurnar um Palla og Togga eru ekki eiginlegar sögur, heldur brandarar eða sketsar sem hver um sig telur heila opnu í bókunum.
Vinirnir Palli og Toggi eru svona hefðbundnir uppátækjasamir prakkarar sem lenda í ýmsum ævintýrum á götum Marolles hverfisins í Brüssel á millistríðsárunum en það er á einum af æskuslóðum Hergés. Helsta einkenni Palla er rauða peysan hans og svarta alpahúfan sem ávallt er dregin niður fyrir eyru en Toggi klæðist jafnan grænum jakka og sést ekki öðruvísi en með trefil. Báðir voru þeir byggðir á fyrirmyndum úr umhverfi Hergé. Fyrirmyndin að Palla var samstarfsmaður Hergé hjá dagblaðinu Le Vingtième Siècle,  Paul Kerrie, en hann var yfirmaður íþróttasviðs blaðsins. Toggi var hins vegar einn af vinum Hergé, Philippe Gerard. Þeir Palli og Toggi eru auðvitað aðalpersónur seríunnar og reyndar eru engar aðrar fastar persónur í bröndurunum utan lögregluþjóns nr. 15. Sá er þeirra helsti andstæðingur (og stundum reyndar samstarfsaðili) og á ættir sínar augljóslega að rekja til Skaftanna úr smiðju Hergés. Áðurnefnd ættartengsl gilda þar jafnt um útlit og vitsmuni.

SVEPPAGREIFINN er á því að bækurnar um Palla og Togga séu kannski ekki bestu myndasögur í heimi en af þeirri einni ástæðu að vera hugarfóstur Hergé teljast þær vera harla merkilegar. Á frummálinu nefnast þeir félagar Quick og Flupke en það var þann 23. janúar árið 1930 sem Quick (Palli) sást í fyrsta sinn á forsíðu barnatímaritsins Le Petit Vingtième (sem var vikulegt aukablað hjá dagblaðinu Le Vingtième Siècle) og fyrsti myndasögubrandarinn um hann birtist inn í þessu sama blaði. 
Le Petit Vingtième var auðvitað tímaritið sem fyrsta Tinna sagan birtist í og Tinni í Sovétríkjunum (Tintin au pays des Soviets) var raunar enn í fullum gangi þar á þessum tíma. Flupke (Toggi) birtist hins vegar ekki fyrr en í þriðja brandaranum, í blaði sem kom út þann 13. febrúar, og þar gekk hann undir nafninu Sus. Strax í næsta blaði á eftir fékk hann hins vegar sitt varanlega nafn. Saman mynduðu þeir síðan þetta þekkta tvíeyki prakkarastrika og hrekkja sem belgískur ungdómur skemmti sér yfir á næstu árum.

Þeir félagar, Palli og Toggi, birtust reyndar einnig á öðrum vettvangi í Le Petit Vingtième stuttu síðar. Eða nánar tiltekið þegar Tinna saga númer tvö, Tinni í Kongó (Tintin au Congo), hóf göngu sína í blaðinu þann 5. júní árið 1930. Þar sjást þeir félagar strax á fyrstu mynd sögunnar þegar Tinni stendur á lestarstöðinni í Brüssel og er að kveðja vini sína umkringdur blaða- og fréttamönnum. Þar má líka sjá teiknimyndapersónurnaFlup, Nénesse, Poussette og Piglet sem Hergé skapaði snemma á sínum ferli, og birtust meðal annars eitthvað í Le Petit Vingtième, og skátann Totor sem hann teiknaði nokkrar sögur um á árunum 1926-28. Totor var eins konar forveri Tinna en það er önnur saga sem SVEPPAGREIFINN á örugglega eftir að þvaðra eitthvað um í framtíðinni.
Og þegar Tinni í Kongó var endurteiknaður og litaður árið 1946 fékk mannskapurinn á upphafsmyndinni einnig uppfærslu. Palli og Toggi héldu sínum stöðum og það sama gilti einnig um skátann Totor en til gamans má geta þess að þetta var í fyrsta skiptið sem Totor sást í lit. Í stað einhverra blaðamannanna eru hins vegar komnir nokkrir nýjir póstar. Þannig tók Hergé Alfred Hitchcock (sem var duglegur að birtast sjálfur í myndum sínum) sér til fyrirmyndar og teiknaði sjálfan sig á brautarpallinn. Hergé stendur við hlið fréttamannsins með hattinn en sá dökkhærði fyrir aftan hann er Edgar Pierre Jacobs og lengst til hægri með gleraugun er Jacques Van Melkebeke. Þessi þrír miklu hæfileikamenn unnu saman að því að endurvinna og lita þessa sögu (Tinna í Kongó) en helsta markmiðið með þeirri vinnu fólst þó í því að nútímavæða sögurnar og aðlaga þær að breyttum og þróuðum stíl Hergé. Þeir samstarfsfélagar birtust nokkrum sinnum til viðbótar, faldir á víð og dreif, í Tinna bókunum næstu áratugina. Í stað lestavarðanna tveggja, lengst til hægri, eru nú komnir frekar óvænt þeir Skafti og Skapti en í upprunalegu bókaröðinni birtust þeir ekki fyrr en í fjórðu sögunni, Vindlum Faraós (Les Cigares du Pharaon -1934).
Palli og Toggi urðu fastagestir á síðum Le Petit Vingtième en á árunum 1930-35 birtist tvíeykið þar í 277 bröndurum auk nokkurra mynda í viðbót á forsíðum blaðsins. Þetta voru blómatímar þeirra félaga en á árunum 1935 til 1940 dró heldur úr viðveru þeirra og þeir komu fram í aðeins 32 bröndurum til viðbótar í blaðinu. Birtingu þeirra var reyndar sjálfhætt þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Belgíu þann 8. maí árið 1940 og bæði dagblaðið Le Vingtième Siècle og Le Petit Vingtième tímaritið voru lögð niður og bönnuð af Nasistum líkt og flest önnur dagblöð í Belgíu. En ástæða þess að bröndurum Palla og Togga fækkaði í blaðinu fyrir stríð var líklega fyrst og fremst vegna velgengi Tinna sem Hergé lagði eðlilega meiri áherslu á. Palli og Toggi voru miklu fremur aukaverkefni til uppfyllingar í Le Petit Vingtième og með tímanum voru þeir því settir meira til hliðar vegna tímaskorts og áhugaleysis listamannsins. Eitthvað sáust þeir þó á síðum Le Journal de Tintin eftir að það tímarit hóf göngu sína árið 1946. Alls voru því gerðir hátt í 400 brandarar með Palla og Togga en þeir hafa reyndar ekki allir verið endurunnir og litaðir. Þeir félagar voru þó ekki alveg lagðir til hliðar því þeir komu líka fyrir á einni mynd í Tinna sögunni Dularfullu stjörnunni (L'Étoile mystérieuse - 1942) sem birtist fyrst í dagblaðinu Le Soir (sem var hliðholt Nasistum) á árunum 1941-42.
En Hergé hélt áfram að troða sjálfum sér inn í myndasögurnar sínar og Tinna sögurnar voru ekki eina skotmarkið. Hann notaði svolítið brandarana um Palla og Togga til að leika sér við að vera í einhvers konar gagnvirkum samskiptum við persónurnar þar sem hann tók sjálfur fullan þátt í brandaranum sem teiknari hans. Eða kannski var þetta bara einhvers konar aðferð hjá honum til að beina athyglinni frá skort á frumleika eða jafnvel áhugaleysi hans á seríunni. Líklega bara eins konar flótti. Palli og Toggi voru svolítið takmarkaðir við götur Brüssel en Hergé gat flakkað með Tinna út um allan heim ef svo bar undir. Tinni átti hug hans allan og Palli og Toggi þurftu svolítið að gjalda fyrir það. En einnar síðu brandarinn hér fyrir neðan sýnir þó að Hergé hafði alveg yfir meiri húmor að ráða en þeim sem tengdist bara Kolbein kafteini eða Sköftunum.
Og það eru fleiri svipaðir brandarar til. Sá sem sést hér fyrir neðan birtist upphaflega í Le Petit Vingtième þann 2. mars árið 1933 og var að sjálfsögðu upprunalega í svart/hvítu. Starfsfólk Hergé Studios litaði og endurteiknaði brandarann fyrir yngri útgáfur en opnan hér fyrir neðan kemur úr ensku þýðingunni, af bókinni Fasten Your Seatbelts (Attachez Vos Centures) - 2009, frá Egmont útgáfunni.
Og einn í viðbót sem birtist í Le Journal de Tintin þann 21. ágúst árið 1952 og er því á frönsku. Í megin dráttum fjallar brandarinn um það að Toggi er hundleiður yfir einhverju sem Palli reynir að draga upp úr honum. Að endingu fær Palli þau svör að Toggi sé fúll út í Hergé vegna þess að hann teiknar hann alltaf með trefilinn um hálsinn. Jafnvel þótt komið sé hásumar.
Og svo kemur það eiginlega svolítið á óvart hve Palli og Toggi hafa komið víða við. Þó Tinni hafi alltaf verið mest áberandi af verkum Hergé þá hafa vörur tengdar myndasögunum um Palla og Togga augljóslega líka verið markaðsettir í gegnum tíðina til að auka á vinsældir þeirra. Þetta hefðbundna eins og bækurnar, spil, dúkkur, bolir og plaggöt koma í sjálfu sér ekki á óvart en það gerir hins vegar hljómplata. Það gæti verið fróðlegt að heyra hvernig tónlistin á þessari vínilplötu hljómar.
SVEPPAGREIFINN verður að viðurkenna að það kom honum líka svolítið í opna skjöldu þegar hann uppgötvaði fyrir nokkrum árum að til væru teiknimyndir um Palla og Togga. Það þarf svo sem ekki að koma mikið á óvart miðað við þá miklu starfsemi sem fram fór í Hergé Studios. Þetta voru stuttir brandarar fyrir sjónvarp, framleiddir árið 1985, hver fyrir sig um eina mínútu að lengd og yfirleitt tengdir saman í fimm mínútna þætti. Alls voru framleiddir 260 einnar mínútna þættir um þá félaga og árið 2005 var hluti af þessum bröndurum gefnir út í Frakklandi á þremur dvd safndiskum. Þættina vann Johan De Moor (sonur Bob De Moor) og eins og með svo margt er að sjálfsögðu hægt að finna þetta allt saman á YouTube.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!