20. júlí 2018

68. TINNI Á FRAMANDI TUNGUM

SVEPPAGREIFINN hefur verið að dunda sér við að uppgötva að Tinna bækurnar eru töluvert víðförlari en hann hafði grunað. Við þekkjum það hvernig Tinni barst til Íslands árið 1971 og að bækurnar hafa verið að koma út á hinum Norðurlöndunum allt frá því í byrjun sjöunda áratug síðustu aldar. En Færeyingar hafa líka gefið út Tinna. Þeir eyjaskeggjar búa svo sem ekki yfir mikilli myndasöguútgáfuhefð en af því sem við Íslendingar helst þekkjum, og þeir voru að gefa út, má nefna þá Rasmus Tøppur (Rassmus Klump), Valiant prinsur (Prins Valíant) og Valhøll (Goðheimabækurnar). Bókaforlagið Dropin var reyndar ekkert sérstaklega stórtækt með Upplivingar Tintins á færeyska myndasögumarkaðnum en gáfu þó út tvær bækur. Hin gátuføra stjørnan (Dularfulla stjarnan) kom út árið 1987 og Tignarstavur Ottokars (Veldissproti Ottokars) 1988 en bækurnar voru þýddar úr dönsku af þeim Dánjal Jákup Jørgensen og Eyðun Svabo Samuelsen.
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekki kynnst sér það neitt rækilega en leiða má líkum að því að færeyska upplagið (bara þessi eina útgáfa) sé eitt það allra minnsta sem gefið hefur verið út af Tinna enda eru eyjaskeggjar ekki nema rétt rúmlega 50.000 talsins. Í það minnsta hljóta færeysk eintök af Tinna bókunum að vera gríðarlega eftirsótt af söfnurum út um allan heim. Og úr því að SVEPPAGREIFINN er að grúska aðeins í Skandinaviskum teiknimyndasögum er ekki úr vegi að kíkja aðeins á finnsku útgáfurnar af Tinna en þar má finna nokkuð skemmtilega og framandi tungubrjóta. Eldflaugastöðin er gott dæmi um slíkt en á finnsku heitir bókin hvorki meira né minna en Päämääränä kuu. Ansi mörg ä þarna. Það er líklega ekki á allra færi að lesa þennan titil skammlaust án tilhlýðilegrar leiðsagnar. En myndrænt lítur hann alveg hreint frábærlega út á bókarkápunni. 
Fyrir flesta er Päämääränä kuu titillinn því væntanlega gjörsamlega óskiljanlegur en samkvæmt upplýsingum SVEPPAGREIFANS mun nafn bókarinnar á finnsku þýða Ferðin til tunglsins (sem er reyndar meira í ætt við bók Jules Verne) og er miklu nær upprunalega titlinum Objectif Lune. Á sama hátt má telja líklegt að íslensku titlarnir á Tinna bókunum séu einnig afskaplega framandlegir í augum þeirra sem ekki þekkja. Annars er gaman að geta þess að Tinna bækurnar eru mjög vinsælar í Finnlandi og þar er heilmikið af vel fróðum Tinnafræðingum sem láta ljós sitt skína á hinum ýmsu spjall- og vefsíðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!