27. júlí 2018

69. STEINI STERKI

SVEPPAGREIFINN hefur reynt að fjalla á fjölbreytilegan hátt um sem mest af því efni sem þessi heimasíða stendur fyrir þótt óneitanlega fái vinsælustu myndasögurnar líklega alltaf mestu athyglina. Ein af þeim seríum sem svolítið hafa setið á hakanum eru sögurnar um Steina sterka, þó SVEPPAGREIFINN hafi reyndar aðeins minnst á þær myndasögur, en nú er ætlunin að gera svolitla bragabót á því með færslu vikunnar.
En það var þann 15. desember árið 1960 sem ný myndasögusería, er fjallaði um um það bil tíu ára gamlan skólastrák, hóf göngu sína í jólablaði belgíska teiknimyndatímaritsins SPIROU. Þetta var á gullaldartímabili belgísk/frönsku myndasögublaðanna og það var belgíski listamaðurinn Peyo (Pierre Culliford) sem skapaði þessa nýju teiknimyndapersónu. Peyo var þá þegar orðinn vel kunnur fyrir seríurnar um Hinrik og Hagbarð (Johan og Pirlouit) og Strumpana (Les Schtroumpfs) sem í fyrstu voru reyndar aukapersónur í sögunum um Hinrik og Hagbarð. Strákurinn í þessari nýja seríu nefndist Benoît Brisefer á frönsku en þegar bækurnar um hann hófu að koma út á íslensku fékk hann þann virðulega titil, Steini sterki. 
Steini (ætli hann heiti ekki bara Þorsteinn?) er auðvitað algjör fyrirmyndarpiltur og með sterka réttlætiskennd. Hann er duglegur í skólanum, hjálpsamur, greiðvikinn, kurteis, heiðarlegur og mikill dýravinur og svo er hann nánast óeðlilega hjálplegur við að aðstoða gamlar konur. Steini sterki er því augljóslega ákaflega vel upp alinn en samt er það mjög einkennilegt að hann virðist búa aleinn og á ekki neina fjölskyldu. Þó má í einhverjum bókanna sjá raddir í talblöðrum tjá sig við hann heima við en eigendur þeirra radda sjást þó aldrei og ekki kemur þar fram hvort að um sé að ræða föður hans, móður eða einhvern annan. Af ættmennum Steina virðist aðeins Bjössi frændi hans koma við sögu í bókunum. Steini sterki er alltaf eins klæddur og þá er alveg sama hvort það sé við hversdagslega iðju, við störf í sirkus eða til að taka við einkunum og verðlaunum á skólaviðburðum. Blái trefillinn hans og alpahúfan eru hans helstu einkenni. En að sögn Peyo má rekja húfuna til spænska leikarans og óperusöngvarans Luis Mariano sem var mjög frægur í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Steini sterki býr í litla þorpinu sínu Stóru Sólvík (á frönsku heitir það Vivejoie-la-Grande) og er ósköp venjulegur strákur að öllu leyti nema því að hann býr yfir alveg óendanlegum kröftum, getur hlaupið gríðarlega hratt og stokkið ótrúlega hátt. Nema náttúrulega þegar hann kvefast.
Þá missir hann alla sína krafta og verður ekkert öðruvísi en aðrir venjulegir skólastrákar. Það er reyndar svolítið einkennandi fyrir Steina sterka að hann á það til að kvefast í hverri einustu sögu en þá gerist það iðulega á frekar óheppilegum og viðkvæmum ögurstundum. Sögurnar ganga út á baráttu Steina við ýmsa bófa og glæpamenn en oft á tíðum er hann í slagtogi með Marteini leigubílstjóra vini sínum sem þó hefur enga vitneskju um ofurkrafta Steina. Það gildir reyndar einnig um fleiri því mjög fáir fullorðnir verða nokkurn tíma vitni að kröftum hans og trúa því aldrei þegar Steini reynir að sýna styrk sinn. Það eru helst bófarnir í sögunum sem eiga kost á því að vitna um krafta hans þegar þeir verða fyrir barðinu á Steina. Í rauninni er Steini svo sterkur að stundum gleymir hann sér hreinlega við einföldustu hluti. Hann hefur nefnilega ekki alveg fullkomna stjórn á kröftum sínum og á, af þeim sökum, það því til að skemma hluti óvart.
Steini virðist ekki eiga neina fasta vini á svipuðum aldri í Stóru Sólvík aðra en bekkjarfélaga sína og enginn þeirra kemur reglulega fyrir í þessum bókum. Í sögunum kemur fyrir gömul og góð kona sem kallast Grímhildur en hún á líka einhvers konar tvífara sem reyndar er vélmenni og er virkilega andstæða við hina góðu Grímhildi. Það var uppfinningamaðurinn Valdimar (í upprunalegu sögunum heitir hann hvorki meira né minna en Serge Vladlavodka) sem skapaði þetta vélmenni og þau þrjú koma öll fyrir í bókunum oftar en einu sinni. Þá kemur áðurnefndur Bjössi frændi hans einnig nokkrum sinnum við sögu í sögunum en hann býr einhvers staðar úti á landi og starfar sem lífvörður hjá Vandamáladeild útlendingaeftirlitsins. Ævintýri Steina sterka tengjast einmitt oft þessu starfi Bjössa frænda.
Í einni af seinni bókum seríunnar (Le Secret d'Églantine - 1999) kemur til sögunnar rauðhærð stelpa, á svipuðum aldri og Steini, sem heitir Églantine og hefur yfir að ráða sambærilegum ofurkröftum. En þá öðlaðist hún eftir að hafa fyrir slysni gleypt blöndu af eiturefnum á verkstæði föður síns. Líkt og hjá Steina hefur hún þann galla að geta misst mátt sinn við ákveðnar aðstæður en hjá Églantine er það hvorki meira né minna en rósailmur sem veldur kraftleysinu. Aldrei hefur komið fram í sögunum hver sé ástæða þess að Steini sterki búi yfir sínum kröftum eða hvort ofurkraftar hans séu til komnir af svipuðum orsökum og hjá Églantine.
Stíllinn í myndasögunum um Steina sterka er frekar einfaldur eins og Peyo var tamt en það má einnig sjá bæði í Strumpasögunum og bókunum um Hinrik og Hagbarð. Peyo taldi sig aldrei góðan listamann og hafði reyndar góðan samanburð við þá bestu því þeir André Franquin, höfundur bókannna um Viggó og Sval og Val, voru góðir vinir. Myndasögur Peyos voru þó alltaf mjög vinsælar og þess má geta að sögurnar um Steina sterka voru sérstaklega vinsælar hjá stelpum. Og svo má líka nefna að allt frá upphafi hafa sögurnar um Steina sterka verið teiknaðar í anda 7. áratugarins alveg eins og þær birtust í fyrstu sögunni árið 1960.
Steini sterki kom fyrst til Íslands árið 1980 þegar bókin Steini sterki og Bjössi frændi (Tonton Placide - 1968) kom út hjá bókaútgáfunni Setberg í þýðingu Vilborgar Sigurðardóttur. Þarna var þó reyndar um fjórðu bókina að ræða í upprunalega bókaútgáfunni en sú næsta, Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni - 1969) í íslensku röðinni var í rauninni númer fimm í þeirri belgísku. Alls komu út sex bækur um Steina sterka hjá Setberg á árunum 1980-83 og þær tilheyrðu reyndar allar fyrstu sex sögunum úr upprunalegu seríunni þó röðin væri ekki alveg eins. Í íslensku bókaröðinni voru bækurnar gefnar út í þessari röð:
 • Steini sterki og Bjössi frændi - 1980 (4. Tonton Placide - 1968)
 • Sirkusævintýrið - 1980 (5. Le Cirque Bodoni - 1969)
 • Steini sterki vinnur 12 afrek - 1980 (3. Les Douze travaux de Benoît Brisefer - 1966)
 • Steini sterki og Grímhildur góða - 1981 (2. Madame Adolphine - 1963)
 • Steini sterki og Grímhildur grimma - 1982 (6. Lady d’Olphine - 1972)
 • Rauðu leigubílarnir - 1983 (1. Les Taxis rouges - 1960
Árið 1983 lauk því útgáfu þessa bóka á íslensku en sögurnar um Steina sterka voru einu teiknimyndasögurnar sem bókaútgáfan Setberg gaf út en þau Vilborg og Hörður Haraldsson skiptu með sér þýðingunum. Þegar þarna var komið sögu voru enn tvær bækur óútgefnar úr upprunalegu bókaröðinni eftir Peyo en hann lést á aðfangadag jóla árið 1992. Ástæða þess að hann hafði ekki haldið áfram með sögurnar um Steina sterka var fyrst og fremst tímaskortur vegna velgengni Strumpanna. Árið eftir að Peyo lést tók sonur hans Thierry Culliford því við keflinu, líkt og hann gerði einnig með Strumpasögurnar, og teiknaði sjö sögur um Steina sterka í viðbót. Þær Steina sterka bækur sem komu ekki út á íslensku eru:
 • Pas de joie pour Noël (Peyo) - 1976
 • Le Fétiche (Peyo) - 1978
 • Hold-up sur pellicule (Thierry Culliford) - 1993
 • L'île de la désunion (Thierry Culliford) - 1995
 • La Route du sud (Thierry Culliford) - 1997
 • Le Secret d'Églantine (Thierry Culliford) - 1999
 • Chocolats et coups fourrés (Thierry Culliford) - 2002
 • John-John (Thierry Culliford) - 2004
 • Sur les traces du gorille blanc (Thierry Culliford) - 2015
Þarna er reyndar ein bók, Pas de joie pour Noëlsem ekki telst til opinberu Steina sterka seríunnar en hún fær þó að fljóta með hér á þessum lista. Töluvert hlé varð á útgáfu bókanna eftir 2004 en þar sem síðasta bókin um Steina sterka, Sur les traces du gorille blanc, kom út árið 2015 má reikna með að fleiri sögur eigi enn eftir að birtast í seríunni.
Í desember 2014 var frumsýnd bíómynd um Steina sterka, sem gerð var eftir fyrstu sögunni Les Taxis rouges, í leikstjórn Manuel Pradal en hún er í sama 7. áratugs stíl og bækurnar. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki enn orðið sér úti um eintak af þessari mynd en fjallaði aðeins um hana í færslu sem finna má hér.

2 ummæli:

Út með sprokið!