3. maí 2019

109. STÆRSTA TINNA MYND Í HEIMI

Næstkomandi þriðjudag, þann 7. maí árið 2019, eru liðin tíu ár frá því að borgaryfirvöld í Brussel í Belgíu afhjúpuðu risastóra mynd af Tinna á Grand Place torginu í Brussel. Þarna var um að ræða stærstu Tinna mynd í heimi en tiltækið var hluti af árlegri borgarhátíð, Iris Festival, sem árið 2009 var þá haldin í tuttugasta sinn. Á svipuðum tíma var verið að halda upp á að myndasögurnar um Tinna áttu 80 ára afmæli en auk þess var þá einnig væntanleg Tinna bíómyndin The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn í kvikmyndahús. Það er því óhætt að segja að tilefnin hafi verið margvísleg. Þessi hátíð, Iris Festival, stendur einmitt líka yfir núna (þá væntanlega í þrítugasta skiptið) og hófst þann 1. maí en henni líkur sunnudaginn 5. maí. Ýmsir skemmtilegir menningaviðburðir eru í gangi alla dagana, svo sem tónleikar og sýningar ýmiskonar en megin þema hátíðarinnar í ár tengist 150 ára afmæli sporvagnakerfisins í Brussel. Mjög áhugavert eða þannig. Ekki er SVEPPAGREIFANUM kunnugt um hvort eitthvað stórt Tinna eða myndasöguþema sé í gangi að þessu sinni en í Brussel má reyndar alltaf finna aragrúa viðburða sem tengjast teiknimyndasögum á hverjum einasta tíma. Frítt er inn á alla viðburði borgarhátíðarinnar og Iris Festival er því einhvers konar Menningarnótt þeirra Brussel-búa og fer fram víðsvegar um stórbrusselska höfuðborgarsvæðið. Endilega að kíkja á þetta ef einhver er á ferðinni í Belgíu.
En þessi risastóra Tinna mynd sem SVEPPAGREIFINN minntist á í byrjun var afhjúpuð á Grand Place torginu við hátíðlega athöfn að viðstöddum nokkrum hundruð áhorfendum, helstu fyrirmennum svæðisins auk aðila frá Hergé Studios. Þarna mættu auðvitað þáverandi borgarstjóri í Brussel, Freddy Thielemans, forseti borgarstjórnar Brussel svæðisins, Charles Picque, en einnig var viðstödd ekkja Georges Remi (Hergé), Fanny og núverandi eiginmaður hennar Nick Rodwell. 
Venjulega er Grand Place torgið þakið litskrúðugum blómabreiðum en myndin úr Tinna bókinni var um 32 metrar á hæð og 21 metrar á breidd. Alls þakti hún því 672 fermetra af torginu. Myndin, sem vóg heil 350 kíló, var hulin svörtum dúk sem var auðvitað jafnstór myndinni en það var borgarstjórinn Freddy Thielemans sem gaf merki um að afhjúpa myndina og tók í raun dágóðan tíma að draga dúkinn af. Smán saman varð viðstöddum áhorfendum þó ljóst um hvaða teikningu var að ræða en það leyndarmál hafði verið ákaflega vel geymt. Til gamans má geta að myndin á torginu var um 30.000 sinnum stærri en frummyndin úr bókinni. 
Þarna var því um að ræða fræga heilsíðumynd á blaðsíðu 42 úr bókinni um Eldflaugastöðina (Objectif Lune - 1953) þar sem þeir félagar Tinni og Kolbeinn berja eldflaugina augum í fyrsta sinn. Ástæðu þess að teikning úr Eldflaugastöðinni var valin má rekja til þess að þá um sumarið voru liðin 40 ár frá því maðurinn steig fyrst fæti sínum á tunglið. Í sumar eru því einmitt komin heil 50 ár frá þeim eftirminnilega og merka atburði og SVEPPAGREIFINN mun, þegar að því kemur, klárlega fjalla ítarlega um þau helstu afrek Tinna sem tengjast framlagi hans til geimvísindanna. En þessi blaðsíða Hergés úr Eldflaugastöðinni er auðvitað hreint stórkostlegt listaverk og tilvalið að slík teikning hafi hlotið náð fyrir augum þeirra sem viðburðinum stjórnuðu og skipulögðu.
Nú er auðvitað löngu búið að fjarlægja þessa risamynd en hvergi hefur reyndar komið fram um hvað varð um hana. Ætli hún liggi ekki einhvers staðar upprúlluð inni í geymslu (rúmlega 21ns metra langri) sem áhaldahús Brussel-kaupstaðar hefur yfir að ráða.
En það er líklega við hæfi að enda þetta með því að fara aðeins í allt aðra átt. Í dag er nefnilega tilvalið að minna á hinn alþjóðlega Ókeypis myndasögudag (Free Comic Book Day) sem haldinn er fyrsta laugardag maí mánaðar ár hvert í Nexus. Hmmm... já það er einmitt á morgun!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!