26. apríl 2019

108. IGNEL IFIL BBÚLGROZ

Bókaflokkurinn um Sval og Val var gríðarlega vinsæll á Íslandi, á síðustu áratugum 20. aldarinnar, þegar SVEPPAGREIFINN var að alast upp og margir af hans kynslóð tóku miklu ástfóstri við þessum bókum. Fyrsta sagan kom út hér á landi, hjá bókaútgáfunni Iðunni, fyrir jólin 1977 og síðan voru þær gefnar út þetta ein til fjórar á ári allt til ársins 1992 þegar hlé var gert á útgáfu bókanna. Froskur útgáfa tók aftur upp þráðinn með seríuna árið 2013 og sögurnar hafa verið að koma út aftur síðustu árin en þó ekki jafn ört og hjá Iðunni á sínum tíma. En allir aðdáendur bókaflokksins um Sval og Val þekkja hinn undarlega og dularfulla karakter Zorglúbb sem kemur fyrir í nokkrum bókanna og er án nokkurs vafa í uppáhaldi hjá mörgum af lesendum seríunnar. SVEPPAGREIFINN ætlar að þessu sinni því aðeins að kíkja á Zorglúbb í færslu dagsins.
Zorglúbb er að mestu leyti sköpunarverk André Franquin en einnig mun belgíski listamaðurinn Greg (Michel Régnier) hafa átt einhvern þátt í sköpun hans. Útgefandinn Dupuis var reyndar ekkert sérstaklega hrifinn af því að fá Zorglúbb inn í seríuna. Sögurnar um Sval og Val væru engar vísindaskáldsögur og Dupuis taldi að Zorglúbb væri of ógnvekjandi fyrir hina ungu lesendur bókanna. Það breytti því þó ekki að Zorglúbb kom fyrst fyrir í sögunni Z fyrir Zorglúbb (Z comme Zorglub) frá árinu 1961 en sú bók er í rauninni fyrri hluti stærri sögu. Seinni hluti hennar heitir Með kveðju frá Z (L'ombre du Z) og kom fyrst út í bókarformi árið eftir. Báðar þessar bækur komu út á íslensku á sínum tíma í þýðingu þeirra Jóns Gunnarssonar og Bjarna Frímanns Karlssonar. Z fyrir Zorglúbb árið 1981 og Með kveðju frá Z árið 1982. Í raun kemur Zorglúbb aðeins fyrir í þremur af bókum Franquins (þriðja sagan var Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac frá árinu 1968)) en í minningunni hefði SVEPPAGREIFINN (sá sem þetta ritar) einhvern tímann verið þess fullviss um að bækur Franquins um Zorglúbb hefðu verið miklu fleiri. Í það minnsta eru allar þessar Sval og Val bækur í töluverðu uppáhaldi hjá honum. Þó þeir Svalur og Valur kynnist fyrst hinum bráðsnjalla Zorglúbb í fyrrnefndum Franquin bókum þá eiga þeir Sveppagreifinn sér nokkra forsögu saman sem fram kemur reyndar töluvert við sögu seinna í seríunni.
En þegar Jean-Claude Fournier tók við bókaflokknum af Franquin var Zorglúbb endurvakinn strax í hans fyrstu sögu Gullgerðarmanninum (Le faiseur d'or - 1970). Það var eðlilegt enda gerist sagan í beinu framhaldi af Svaðilför til Sveppaborgar og Zorglúbb enn gestkomandi hjá Sveppagreifanum. Zorglúbb kemur einnig fyrir í bókinni Tora Torapa, þremur sögum síðar, frá árinu 1973 en sú bók hefur ekki enn komið út á íslenskri þýðingu. Fournier gerði Zorglúbb því aldrei neitt mjög hátt undir höfði í sínum níu bókum en leyfði honum þó aðeins að vera með. Kannski bara svona rétt til að hann gleymdist ekki. Hann var jú orðinn ágætur vinur og samstarfsmaður Sveppagreifans og í sögunni Tora Torapa varð hlutverk hans öllu meira en í Gullgerðamanninum. Í Tora Torapa er Zorglúbb rænt af glæpasamtökunum Þríhyrningnum og því má segja að í sögunni hafi hann tekið fullan þátt í ævintýrum aðalsöguhetjanna. Síðan liðu þrettán ár þar til hann birtist næst í sögu um þá Sval og Val en þá gerðu þeir Tome og Janry bókina, Upprisa Z (Le réveil du Z - 1986), þar sem Zorglúbb sjálfur kemur reyndar lítillega við sögu en dvergvaxið barnabarn hans leikur hins vegar stærra hlutverk í bókinni. Þetta var eina bók þeirra Tome og Janry sem Zorglúbb kemur fyrir í en í sögunum þremur sem þeir Nic og Cauvin höfðu gert, á árunum 1983-84, birtist hann aldrei.
Nú liðu heil 22 ár þar til Zorglúbb sást aftur í seríunni um þá Sval og Val. Árið 2008 kom út sagan Aux sources du Z eftir þá Morvan og Munuera og í þeirri bók eru kynni þeirra Svals, Vals og Zorglúbbs endurvakin svo um munar. Reyndar var þessi 50. saga seríunnar síðasta bók fyrrnefndra höfunda en í næstu sögu Alerte aux Zorkons frá árinu 2010 er Zorglúbb aftur kominn til sögunnar og hefur nú endurheimt hið illa hlutverk sitt. Á þessum tímapunkti höfðu núverandi höfundar bókaflokksins þeir Yoann og Vehlmann tekið við seríunni og þeir héldu uppteknum hætti í næstu sögu á eftir. Framhaldssagan La Face cachée du Z var gefin út árið eftir en Zorglúbb hefur ekki komið að beinum hætti við sögu upprunalegu Sval og Val seríunnar eftir þá bók. Í sögunni Paris-sous-Seine frá árinu 2004 kemur að vísu að nokkru leyti fram forsaga þeirra félaga Zorglúbbs og Sveppagreifans án þess þó að sá fyrrnefndi komi fyrir í bókinni nema á gömlum ljósmyndum.
Það þarf ekki að taka það fram að engin af síðastnefndu bókunum hafa verið gefnar út á íslensku en alls kemur Zorglúbb fyrir í 10 af 55 bókum seríunnar. Og svo má ekki gleyma einni sögu sem reyndar kom aldrei út. Forsagan af því var sú að árið 1998 höfðu þeir Tome og Janry sent frá sér 46. söguna, Machine qui rêve (Draumavélin hefur hún verið þýdd á Wikipedia), en hún hefur verið nefnd umdeildasta bókin í allri Sval og Val seríunni. Sagan þótti mjög byltingarkennd að mörgu leyti og fékk því nokkuð blendnar viðtökur frá aðdáendum bókaflokksins. Jafnvel svo mjög að það hafði að einhverju leyti þau áhrif að þeir félagar Tome og Janry gerðu ekki fleiri sögur um Sval og Val og heil 6 ár liðu þar til næsta bók, Paris-sous-Seine, sem var eftir þá Morvan og Munuera kom út. Tome og Janry höfðu þó í raun hafið vinnu við nýja sögu í seríunni sem nefndist Zorglub à Cuba (Zorglúbb á Kúbu) og var í anda Machine qui rêve en bókin átti að verða sú 47. í röðinni. Átta síður úr sögunni voru tilbúnar en þær voru seinna litaðar og birtar í SPIROU myndasögublaðinu belgíska árið 2011. Að öðru leyti hefur lítið af efni sögunnar verið gert opinbert enda var svo sem ósköp lítið nema handritið af henni tilbúið þegar þeir gáfu verkið frá sér. Öðru hvoru kemur upp orðrómur um að Zorglub à Cuba muni verða gefin út í hliðarseríunni Série Le Spirou de… (Sérstök ævintýri Svals ...) en Tome og Janry hafa hvorki staðfest né neitað þeim sögusögnum.
Þeir Tome og Janry höfðu mikinn hug á að koma Zorglúbb aftur inn í seríuna og í kjölfar hinnar umdeildu Machine qui rêve, þar sem stíll seríunnar hafði breyst meira til nútímalegrar raunsæisstefnu, átti að gera Zorglúbb að miklu meira illmenni en hann hafði hingað til verið þekktur fyrir. Það hefði eflaust verið fróðlegt að upplifa þá þróun og vonandi fær Zorglub à Cuba einhvern tímann tækifæri til birtingar í hliðarseríunni í fullri lengd. En talandi um hliðarseríuna Sérstök ævintýri Svals ... Þar hefur Zorglúbb líka aðeins fengið að njóta sín. Í 2. bók seríunnar, Les Marais du temps frá árinu 2007, leikur hann nokkuð stórt hlutverk og sömu sögu má segja um sögu númer 13 Fondation Z frá árinu 2018. Það er því alla vega ljóst að það er alveg pláss fyrir Zorglúbb hjá höfundum hliðarseríunnar vinsælu.
Hinn eftirminnilegi Zorglúbb er nokkuð margslunginn og flókinn karakter en í seinni tíð hefur hann jafnvel þróast í að verða svolítið ruglingslegur og því orðið erfiðara að átta sig á honum. Sú sýn felst líklega helst í því hversu margir höfundar hafa komið að því að móta hann í gegnum tíðina. Þannig er eiginlega hægt að upplifa Zorglúbb á ólíkan hátt eftir því hver hefur teiknað hann. Franquin skapaði hann auðvitað í byrjun og með frjóu hugmyndaflugi höfundarins festust við hann ákveðin karaktereinkenni sem bara að einhverju leyti hafa fengið að njóta sín áfram. Hann er auðvitað ýmist góður eða slæmur, með mikilmennskubrjálæði, kvikindislegur, hugmyndaríkur, einfaldur og flókinn. Jafnvel stundum allt í senn. En það eru þó ákveðin einkenni sem SVEPPAGREIFANUM  hefur ekki fundist hafa fylgt honum með ólíkum höfundum. Upphaflega hugmynd Franquins af Zorglúbb var innblásin af manni sem hann kannaðist við og starfaði sem deildarstjóri í stórri verslun í Brussel. Sá náungi var afskaplega ræðinn og kunnur fyrir sterkan hreim sem einkenndi orðagjálfur hans. Hann hafði sama stíl og Zorglúbb og var mjög "fyndinn maður" eins og Franquin lýsti honum sjálfur. Það er einmitt þetta "fyndna" við persónuleika Zorglúbbs sem SVEPPAGREIFANUM finnst svolítið skorta í seinni tíð. Það vantar orðið í hann allan þann ýkta fáránleika sem einkenndi hann í byrjun, klaufaganginn hans, biluðu græjurnar og svo framvegis. Í dag er hann orðinn ósköp flatur. Sumir myndasögufræðingar hafa jafnvel velt því fyrir sér hvort hin yngri útgáfa af Zorglúbb sé geðklofi. SVEPPAGREIFINN kunni því eiginlega alltaf betur við kallinn í meðförum Franquins. Þar var hægt að taka Zorglúbb svona hæfilega alvarlega en hann var þó líka afar hrekklaus og klaufskur.
En Zorglúbb er gamall vinur Sveppagreifans frá háskólaárunum í Brussel. Þeir tveir ásamt æskuást þeirra beggja, frú Flanner, höfðu unnið saman að ýmsum vísindarannsóknum löngu áður en þeir Svalur og Valur komu til sögunnar. Síðan slitnaði upp úr vinskap þeirra. Þegar Zorglúbb birtist fyrst í bókinni Z fyrir Zorglúbb kemur þar fram að þeir Sveppagreifinn hafi ekki hist síðan greifinn fékk hann rekinn úr háskólanum. Zorglúbb hafði þá unnið að tilraunum með geisla til að draga tunglið nær jörðinni svo geimfarar yrðu ekki jafn lengi á leiðinni. Hann varð ekki bara að athlægi með hugmyndum sínum heldur kom líka seinna kom í ljós að hann hefði einnig gengið vel á fjárráð háskólans með þessum tilraunum sínum. Í Z fyrir Zorglúbb stefnir hann hins vegar á alheimsyfirráð og reynir með öllum ráðum að fá Sveppagreifann, með alla sína snilligáfu í vísindum, í lið með sér. Þrátt fyrir hið mikla sjálfstraust Zorglúbbs og óumdeilanlegar gáfur hans þá leynist líka svolítið brothætt mynd á bak við snillinginn. Þegar Sveppagreifinn skaut upp í hann lítilli pillu sem leiddi af sér mikla sektarkennd og sálarkvalir þá komu ýmsir brestir í ljós. Zorglúbb reyndist vera bljúg, auðmjúk og einmana sál sem þráði ekki heitar en viðurkenningu hins gamla vinar síns Sveppagreifans. 
Í kjölfar mikils hnekkis sem hann hlaut, við það að lenda fyrir eigin Zorgeislum (Með kveðju frá Z og Svaðilför til Sveppaborgar) og verða að smábarni á ný, gerðist hann síðan vinur og bandamaður aðalsögupersónanna. Hann varð að einhverju leyti blíðari og stórmennskudraumar hans milduðust - í bili að minnsta kosti. Einhvern tímann lýsti Franquin Zorglúbb einmitt sem snillingi með mikilmennskubrjálæði á háu stigi og með gríðarlegt sjálfstraust. Svo miklu reyndar að hann talaði til dæmis ætíð um sjálfan sig í þriðju persónu. Á sama hátt hefur hann gríðarlega mikla þörf fyrir að koma nafni sínu að öllum hans verkum og borgirnar hans Zorumbía, Zorcity, Zorborg, Zorville, Zorkaupstaður, Zornes og Zorvogur bera þess allar merki. Einnig má nefna Zormenn (hermenn Zorglúbbs), Zorgeisla, Zorbílinn, Zorþyrluna og Zorflaugina en tungumálið sem þeir tala nefnist einfaldlega zorska. Og sem dæmi um hina ýktu sjálfhverfu Zorglúbbs má nefna lag hans "Yndislegi Zorglúbb minn" sem hann lætur lúðrasveit sína leika á hátíðarstundum. Zorglúbb hefur alla þá hæfileika sem snillingur á vísindasviðinu þarfnast og gat nýtt þá til góðs fyrir allt mannkynið en einhverra hluta vegna var hann of upptekinn í byrjun af eigin verðleikum og kaus því frekar að nýta hæfileikana til vafasamra og illra athafna. Þó var Zorglúbb ekki illri en svo að hann gætti þess jafnan að enginn skaðaðist og aldrei dó neinn af hans völdum. Hann varð jú einnig að hugsa um heiður sinn. Þeim Sval, Val og Sveppagreifanum tókst þó að koma í veg fyrir hinar illu fyrirætlanir en eins hjálpaði honum ekki hinn meðfæddi, barnslegi fáránleiki hans sem oftar en ekki kallar á taugaveiklislegar, klaufalegar og fljótfærnislegar yfirsjónir. Hin illu áform Zorglúbbs breyttust því á stuttum tíma úr ógnvekjandi alheimsyfirráðum í leikhús fáránleikans.
Í þeim yngri ævintýrum seríunnar þar sem Zorglúbb kemur við sögu fá þó vísindahæfileikar hans betur að njóta sín. Hann gerir auðvitað sín fljótfærnislegu mistök en snilli hans hefur þó gert honum kleift að koma sér upp leynilegri bækistöð á bakhlið tunglsins þar sem hann hefur enn drauma um heimsyfirráð. Með öðrum orðum, hann virðist aftur vera orðinn illur. Og þannig er staða hans í dag út frá upprunalegu Sval og Val seríunni.
En útlitslega er Zorglúbb í raun sannkallað fagurfræðilegt glæsimenni. Klæðnaður hans er til dæmis að öllu leyti óaðfinnanlegur og samræmist fullkomlega klæðaburði þeirra helstu fyrirmenna sem báru af á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar. Hann er ósjaldan í vönduðum, bláum jakkafötum sem fara honum afar vel og oftar en ekki klæddur svartri, hvít skinnfóðrari slá eða skikkju yfir og með hanska. Ákaflega vel til hafður alltaf. Zorglúbb er líklega um 180 sentimetrar á hæð, beinn í herðum og samsvarar sér afar vel í vexti. Hann er um 45 til 50 ára gamall, með svartar svipsterkar augabrúnir og snyrtilegan skeggkraga í sama lit. Hann er sköllóttur yfir háhöfuðið en með svartan hárflóka aftan til á hnakkanum. Zorglúbb er svolítið langleitur í andliti, hann hefur langt nef og er stundum eilítið dapurlegur til augnanna. Í seinni tíð hefur hann gjarnan sést reykjandi og þá iðulega með vandað munnstykki. Hann er smekkmaður á bíla og notar gjarnan svartar glæsibifreiðar á borð við Citroen DS við störf sín. Það hefur aldrei komið fram hvort nafn Zorglúbbs sé skírnarnafn hans eða ættarnafn. Sjálfur sagði Franquin, þegar hann var spurður, að hann vissi það í raun ekki. Það væri ekki vandamál sem þeir Greg hefðu nokkurn tímann velt sér upp úr eða rætt eitthvað. Zorglúbb hét bara Zorglúbb. 
Og nú er svo komið að Zorglúbb þykir orðið það merkilegt fyrirbæri að hann er kominn með sinn eigin bókaflokk. Í júní 2017 kom nefnilega út fyrsta sagan í nýrri sjálfstæðri seríu sem nefnist La Fille du Z (Dóttir Z) og fjallar einmitt um, eins og nafn bókarinnar gefur nefnilega sterka vísbendingu um, dóttur Zorglúbbs. Sú er reyndar dóttir þeirra Zorglúbbs og frú Flanner sem minnst var á fyrr í þessari færslu. Höfundur bókarinnar er Spánverjinn Jose-Luis Munuera sem var auðvitað helmingur tvíeykisins Morvan og Munuera sem gerðu fjórar sögur í upprunalegu Sval og Val seríunni á árunum 2004-08. En sagan La Fille du Z segir frá því hvernig Zorglúbb reynir með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Zandra, hin sextán ára dóttir hans, hitti kærasta sinn hinn sárasaklausa André. Zorglúbb hikar ekki við að senda vélmenni sín til að vernda dóttur sína en eins og gefur að skilja fellur slík afskiptasemi í frekar grýttan jarðveg hjá Zöndru. Inn í söguna fléttast svo hefðbundin mikilmennskubrjálæðisbarátta og vísindaskáldsagnaboðskapur í anda Zorglúbbs. La Fille du Z er því annars vegar einhvers konar sambland af daglegu og hversdagslegu lífi Zorglúbbs sem föðurs og hins vegar saga tengd önnum hans við alheimsyfirráð.
Önnur bókin í þessari seríu kom síðan út í september árið 2018 en hún nefnist L'apprenti méchant sem myndi líklega vera þýtt sem Vondur nemi eða eitthvað á þá leið á íslensku. En þó að þessi Zorglúbb sé kominn svolítið langt frá Zorglúbbi Franquins virðist nýja serían samt vera mjög áhugaverð og fær almennt lofsamlega dóma. Þar er hlutur höfundarins Munuera auðvitað stærstur og þessi nýja sýn hans á hinum dularfulla Zorglúbb er virkilega vel heppnuð. Alla vega ... SVEPPAGREIFINN eignaðist La Fille du Z þegar hún kom út fyrir tæplega tveimur árum og getur ekki beðið eftir að fjárfesta í L'apprenti méchant.

2 ummæli:

Út með sprokið!