24. maí 2019

112. HINN DANSKI PALLE HULD

Það þekkja allir unnendur teiknimyndasagnanna listamanninn Hergé, eða Georges Remi eins og hann hét reyndar, og verk hans um Tinna. Lífi Hergés hefur meðal annars verið gerð svolítil skil hér á Hrakförum og heimskupörum og ýmsu því er varðar sögu Tinna. En SVEPPAGREIFINN hefur þó ekki mikið fjallað um það á hvaða hátt persónan sjálf Tinni var sköpuð. Sumt um uppruna Tinna er reyndar frekar óljóst en þó er vitað að forveri hans skátinn Totor, sem var söguhetja sem Hergé hafði skapað skömmu áður, hefði að nokkru leyti verið fyrirmyndin að honum. Myndasaga um Totor birtist fyrst í skátablaðinu Le Boy-Scout Belge árið 1926 en þá var Hergé aðeins 19 ára gamall. Árið 1925 hafði hann fengið starf á áskriftardeild dagblaðsins Le Vingtième Siècle en í nóvember árið 1928 fékk hann það verkefni að halda utan um og stýra nýju aukablaði dagblaðsins, sem nefndist Le Petit Vingtième, auk þess að sinna allri þeirri mynda- og teiknivinnu sem því fylgdi. Le Petit Vingtième kom út vikulega og var ætlað börnum og unglingum en Hergé hóf strax að reyna að skapa einhverjar nýjar myndasöguseríur fyrir blaðið því honum varð fljótlega ljóst að skátinn Totor hentaði ekki fyrir verkefnið. Eftir nokkrar tilraunir með efni sem honum fannst ekki ganga datt hann niður á hugmynd um blaða- og ævintýramanninn Tintin (sem við þekkjum auðvitað sem Tinna) en hann var eins og áður segir að einhverju leyti byggður á fyrrnefndum Totor.
En Totor var líklega ekki alveg eina fyrirmyndin að Tinna. Paul Remi, bróðir Hergés sem var fimm árum yngri, er einnig talinn hafa að einhverju leyti verið innblástur hans að þessari nýju söguhetju. Og sömu sögu má líka segja um danskan dreng, Palle Huld, sem nú stendur til að fjalla aðeins um í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum
Forsöguna að þessu öllu saman má rekja til samkeppni sem danska dagblaðið Politiken stóð fyrir seint í febrúar árið 1928 í tilefni af hundrað ára afmæli franska rithöfundarins Jules Verne sem allir kannast auðvitað við. Hann samdi til að mynda söguna Le Tour du monde en quatre-vingts jours (Umhverfis jörðina á 80 dögum) og Voyage au centre de la Terre (Leyndardómur Snæfellsjökuls) sem hinir sömu allir hafa auðvitað líka lesið. En titillinn að fyrrnefndu sögunni tengist einmitt þessari samkeppni Politiken. Hátt á fjórða hundrað ungra pilta tóku þátt í henni og að lokum var það hinn rauðhærði 15 ára gamli Palle Huld sem var valinn úr hópnum til að fara í heimsreisu sem taka skyldi ekki meira en 46 daga. Styrktaraðili tók það að sér að kosta ferðina fyrir blaðið og helstu skilyrðin fyrir þátttöku voru þau að viðkomandi skyldi vera hraustur, á aldrinum 15 - 17 ára, vera vel talandi á þýsku og ensku, hafa leyfi foreldra sinna til fararinnar og helst að vera skáti. Í dag vekur það helst athygli að samkeppni þessi var eingöngu ætluð piltum en í Danmörku árið 1928 þótti það ekki einu sinni umræðunar virði að bjóða stúlkum að vera með. Vinnufélagi Palle, sem augljóslega hafði mikla trú á honum, sýndi honum grein um samkeppnina í Politiken og hvatti hann til að taka þátt. Palle sýndi þessu strax mikinn áhuga enda uppfyllti hann öll þau skilyrði sem krafist var eftir að hafa fengið leyfi foreldra sinna. Þau veittu honum leyfið auðfúslega enda áttu þau ekki neina von á því að drengurinn félli svo vel að þeim skilyrðum sem Politiken setti. Seinna var það upplýst að móðir hans hefði vart getað sofið af áhyggjum yfir ferðalagi hins 15 ára gamla son hennar og læknar ávísuðu henni svefntöflur allan þan tíma sem hann var í burtu. Strax í byrjun duttu margir af drengjunum út en Palle fór nokkuð auðveldlega í gegnum fyrstu nálaraugun. Að endingu voru tveir drengir eftir, sem reyndar voru báðir skátar, og eftir skriflegt próf var að lokum dregið um hvor þeirra skyldi hreppa hnossið. Palle Huld hafði þar betur og mótherji hans Halfdan Børresen tók ósigrinum með mestu sæmd.
Samkeppnin var auðvitað í tilefni af afmæli Jules Verne en hugmyndin með þessari heimsreisu gekk út á það að kanna hversu miklu hraðar var hægt orðið að ferðast kringum jörðina heldur en þegar söguhetjan Phileas Fogg í bók Verne gerði það þegar Umhverfis jörðina á 80 dögum var samin árið 1872. En aðrar reglur ferðatilhögunarinnar voru einfaldar. Palle skyldi ferðast alveg einn og óstuddur, sem mest í anda þeirra aðstæðna sem í boði voru árið 1872 en samt með nánast hvaða farartækjum sem var. Hann mátti þó ekki ferðast með neinum flugvélum. Fyrirvarinn var mjög stuttur. Brottför var áætluð aðeins viku eftir að úrslit lágu fyrir og fimmtudaginn 1. mars 1928 skyldi lagt af stað frá Kaupmannahöfn. SVEPPAGREIFANUM finnst reyndar ákveðinn húmor í að á nákvæmlega sama tíma var amma hans að læra kjólsaum í Kaupmannahöfn en hins vegar verður aldrei hægt að komast að því hvort að hún hafi eitthvað orðið vör við þá athygli sem ferðalag Palle Huld fékk. En ferðalag Palle hófst á lestarstöðinni í Kaupmannahöfn snemma morguns þann 1. mars og nokkur fjöldi fólks fylgdi honum. Fyrsti áfangi ferðarinnar var með lest til Esbjerg á vesturströnd Jótlands þaðan sem hann fór með skipi yfir Norðursjó til Harwich í Bretlandi.
Þaðan var sett stefnan á Glasgow í Skotlandi þar sem tekið yrði gufuskip vestur yfir Atlandshafið til Kanada. En áður en til Skotlands var haldið var viðkoma í London á dagskránni og þangað var hann kominn strax næsta dag föstudaginn 2. mars. Það er því ljóst að samgöngur á þessum tíma hafa þá þegar verið orðnar nokkuð reglulegar og öruggar þó flugferðir hafi verið á bannlista heimsreisunnar. Ein af skyldum Palle, gagnvart þeim sem stóðu að ferðinni, var að senda dagblaðinu Politiken reglulegan póst um ferðalag sitt og fyrsta pistilinn sendi hann einmitt frá London. Það bréf tók reyndar fáeina daga að berast til Danmerkur og birtist því ekki fyrr en nokkrum dögum seinna á síðum Politiken.
En frá Glasgow var síðan stefnan tekin á St. Johns á austurströnd Kanada og þar lá leiðin með lest þvert í gegnum ýmist Kanada eða Norður Ameríku. Reyndar var hann næstum því búinn að klúðra allri ferðinni þarna útaf einhverju stelpuveseni en hann náði þó lest sem að lokum skilaði honum til Montréal og síðan stórslysalaust alla leið til Vancouver á vesturströndinni. Frá Vancouver var aftur tekið gufuskip alla leið yfir Kyrrahafið til Yokohama í Japan og svo þaðan til Tókýo. Þegar til Japans kom ríkti svolítil óvissa um framhaldið. Politiken hafði hvorki upplýst þátttakendur samkeppninnar né lesendur blaðsins um vandamál sem hugsanlega kynni að koma upp þar. Á hinu stríðshrjáða svæði Manchuria, sem í dag tilheyrir norðaustur hluta Kína, börðust Japanir og Sovétmenn um yfirráð en þar var vægast sagt eldfimt ástand. Þetta stríðsástand setti töluvert strik í reikninginn og nokkrar tafir urðu þar á ferðalagi Palle á meðan leitað var lausna. Forsvarsmenn Politiken gátu síðan aftur varpað öndinni léttar þegar örugg leið var fundin og Palle Huld slapp óskaddaður frá Manchuria. Frá Japan fór hann upp á Kóreuskagann og þaðan þvert yfir til Kína. Á ferðum sínum í gegnum Asíu naut Palle mikillar velvildar skátahreyfingarinnar þar um slóðir sem greiddu götu hans eins og unnt var. Frá Kína var ferðinni heitið til Sovétríkjanna og við tók langt ferðalag með Síberíu hraðlestinni til Moskvu. Þangað kom hann snemma að morgni og lenti í töluverðum vandræðum vegna þess að enginn kom til að taka á móti honum. Í örvæntingu sinni fór hann sjálfur að leita að dönsku ræðismannsskrifstofunni og ráfaði í óratíma um borgina með hestvagni. Að lokum rambaði hann inn á hótel þar sem starfsfólk þess gat hringt fyrir hann í ræðismannsskrifstofuna. Í rauninni var hann heppinn því að á þessum tíma gátu útlendingar auðveldlega verið handteknir í borginni fyrir það eitt að vera án fylgdar.
Frá Moskvu var ekki svo langt til Póllands sem var næsti áfangastaður og óneitanlega farið að styttast heim. Þaðan lá leiðin til Berlínar og þegar heim var komið, sunnudaginn 15. apríl, tóku um 20.000 ungmenni á móti honum á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn og hylltu hann sem hetju. Þá hafði ferðalag hans tekið nákvæmlega 44 daga, 13 klukkustundir og 53 mínútur en upphaflega takmarkið var auðvitað 46 dagar. Eftir 32.200 kílómetra langt ferðalag voru það þó síðustu 50 metrarnir sem urðu Palle hvað erfiðastir. Slíkur var mannfjöldinn á Ráðhústorginu að tvo stælta lögreglumenn þurfti til að bera hann síðustu metrana.
Þegar heim var komið fékk Palle litla hvíld. Hans beið fjöldi verkefna sem tengdust heimsreisunni og næstu vikur og mánuðir fóru einnig í ýmis ferðalög til uppfylla skyldur hans gagnvart styrktaraðilum sínum. Hann fór meðal annars að fara til Stokkhólms þar sem hann þurfti til dæmis að hitta yngstu meðlimi sænsku konungsfjölskyldunnar sem fylgst höfðu af áhuga með ferðalagi hans um heiminn. Þá þurfti Palle að fara aftur til Lundúna til að hitta forsvarsmenn Canadian Pacific en stóran hluta heimsreisunnar hafði hann ferðast með skipum og lestum fyrirtækisins. Og í þeirri sömu ferð var hann heiðraður í höfuðstöðvum breskra skáta þar sem hann hitti til að mynda hinn kunna stofnanda skátahreyfingarinnar - Sir Baden-Powell. Í kjölfarið fór hann einnig til Parísar þar sem hann hitti meðal annars sonarson Jules Verne og lagði blómakrans að gröf hins þekkta franska rithöfundar. Þegar um hægðist tók Palle sig til og safnaði saman dagbókalýsingum sínum úr ferðalaginu en úr þeim vann hann heildarfrásögn af þessari heimsreisu sem var skömmu síðar gefin út í frægri bók. Hún nefndist Jorden rundt i 44 Dage af Palle og var síðar þýdd á ellefu tungumálum en áðurnefnt barnabarn Jules Verne skrifaði formála bókarinnar. Bókin var endurútgefin í Danmörku í ágúst 2012 í tilefni hundrað ára afmælis Palle Huld.
Aðeins nokkrum mánuðum eftir heimkomu Palle Huld (og útgáfu bókar hans) birtist Tinni í fyrsta sinn á síðum blaðsins Le Petit Vingtième eða nánar tiltekið þann 10. janúar árið 1929. Sagan Tintin au pays des Soviets eða Tinni í Sovétríkjunum segir einmitt frá blaðamanninum Tinna sem ferðast um á svipaðan hátt og Palle Huld gerði. En eins og áður hefur verið vikið að telja margir Danann unga hafa að einhverju leyti hafa verið fyrirmyndina að Tinna. Kenningar um það komu fyrst fram árið 1988 en Hergé sjálfur lést árið 1983. Þegar þetta var borið undir Palle sjálfan sagðist hann ekki þekkja Tinna neitt og hefði í raun aldrei lesið myndasögur. Skiptar skoðanir eru reyndar um þetta efni. Ýmsir Tinna fræðingar hafa lýst yfir efasemdum sínum yfir þessum hugmyndum og aðilar nákomnir Hergé hafa sagt þetta af og frá. Þeir telja blaðamanninn og ljósmyndarann Robert Sexe hafa verið helstu fyrirmynd listamannsins að Tinna en sá mun hafa ferðast á mótorhjóli til Rússlands, Kongó og Bandaríkjanna. Tinni fór einmitt til þessara sömu landa í fyrst þremur sögunum og meira að segja í sömu röð. Ekki er vitað til þess að Hergé sjálfur hafi nefnt að Palle Huld hafi að einhverju leyti verið fyrirmynd hans. Forsvarsmenn heimasíðu Tinna í Belgíu hafa þó tekið undir að líkindin séu heilmikil. Ekkert hefur þó fundist í skjalasafni Hergé Studios sem styður þá kenningu.
Nokkuð líklegt er talið að Hergé hafi lesið bók Palle Huld, Jorden rundt i 44 Dage af Palle, en hún var meðal annars gefin út í Belgíu og Frakklandi strax árið 1928. En auk þess hefur verið staðfest að minnsta kosti ein grein um ferðalag Palle Huld hafi birst í Le Petit Vingtième á meðan ferð hans stóð. Og þá birtust einnig reglulega frásagnir af honum öðru hvoru í öðrum belgískum blöðum á sama tíma. Þó er ekki víst að Hergé hafi nokkurn tímann haft neina hugmynd um tilvist Palle Huld. Abbé Norbert Walles sem var yfirmaður Hergés á Le Petit Vingtième blaðinu gæti líka alveg hafa lesið um Palle Huld og hugsanlega hafa gaukað hugmyndinni, um nákvæmlega þessa persónu, að listamanninum án þess að nefna fyrirmynd hennar. Það er vitað að Walles átti stóran hlut að máli þegar kom að hugmyndum af efni í Le Petit Vingtième. Hann átti til dæmis hugmyndina að Tobba. Það er alla vega ljóst að heilmikil líkindi eru á milli þeirra Tinna og Palle Huld hvort sem það er tilviljun eða ekki. Þeir voru á svipuðum aldri, báðir rauðhærðir og klæðnaður þeirra er óneitanlega nokkuð sambærilegur. Hvernig ferðalag Tinna hófst með lestarferð, bæði í Tinna í Sovétríkjunum og Tinna í Kongó, er algjörlega á pari við hvernig ferðalag Palle Huld hófst. Svo ekki sé talað um hvernig það endaði, þar sem í báðum sögunum var þeim fagnað sem hetjum af mannfjöldanum í lok ferðar. 
Annars var Palle Huld nokkuð merkilegur maður. Hann vakti athygli seinna fyrir ýmis sambærileg verkefni en gerðist síðan leikari og varð nokkuð þekktur í Danmörku. Þó hann hafi leikið í yfir 40 sjónvarps- og bíómyndum, auk fjölda sjónvarpsþátta, veit SVEPPAGREIFINN samt ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann séð mynd með honum. Hann lék til að mynda hlutverk bæði í sjónvarpsseríunni Matador og einni mynd með Olsen genginu sem margir kannast við. Þá var hann sögumaður í dönsku útgáfunni af Disney myndinni um fílinn Dumbó. Palle var fæddur þann 2. ágúst árið 1912 og lést þann 26. nóvember 2010, þá 98 ára að aldri.

2 ummæli:

  1. Gaman af þessu. Virkilega fróðlegt.

    SvaraEyða
  2. Takk :) Sé að ég hef alveg gleymt að minnast á grein sem birtist á hinum skemmtilega vef Lemúrsins og fjallar um þetta sama efni.

    http://lemurinn.is/2014/06/04/palle-huld-danski-drengurinn-sem-ferdadist-umhverfis-jordina-og-var-fyrirmyndin-ad-tinna/

    SvaraEyða

Út með sprokið!