20. desember 2019

142. JÓLASAGA MEÐ HINRIKI OG HAGBARÐI

Enn á ný nálgast óðfluga hin alræmda jólahátíð og það er því klárlega við hæfi að bjóða upp á efni í færslu dagsins sem hæfir þeim merku tímamótum. SVEPPAGREIFINN hefur fyrir undanfarin jól týnt til efni úr smiðju belgísku myndasögutímaritanna Le Journal de Spirou og Le Journal de Tintin og birt hér í tilefni hátíðarinnar og að þessu sinni verður þar lítil breyting á. En þann 19. desember árið 1957 kom út jólablað SPIROU tímaritsins og líkt og venjulega kenndi þar ýmissa skemmtilegra grasa. Á meðal fjölbreytts efnis þessa veglega 34ra blaðsíðna jólablaðs mátti til dæmis finna söguna um Jóla litla og Gorm sem SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um fyrir síðustu jól en þess utan mátti þar einnig finna hefðbundið efni eins og Sval og Val söguna Vacances sans histories (Viðburðarlítið sumarleyfi - 1978) og Le Juge (Rangláti dómarinn - 1979) með Lukku Láka. En í þessu SPIROU blaði mátti líka finna örstutta jólamyndasögu með þeim félögum Hinriki og Hagbarði. 
Sú myndasaga er efni þessarar færslu dagsins og fjallar um það er þeir Hinrik og Hagbarður eru á ferðinni í leiðinlegu veðri, að kvöldi aðfangadags, og koma við á afskekktum bóndabæ þar sem hópur fátækra systkina bíða ein í kotinu eftir foreldrum sínum. Þessi stutta saga er í sönnum jólaanda sjötta áratugs 20. aldarinnar en lesendur verða víst að leyfa þeim anda að vera söguþræðinum yfirsterkari. Peyo fékk bara tvær síður til að moða úr og sagan geldur töluvert fyrir það því talsvert er af lausum endum sem lesendur verða víst sjálfir að fylla upp í með hugmyndaflugi sínu. Af hinni alkunnu ósmekkvísi sinni hefur SVEPPAGREIFINN tekið þá ákvörðun að snúa texta myndasögunnar upp á alíslenskt og ylhýrt í tilefni jólanna. Stærsta hlutann við hina frönsku þýðingu á verkinu má þakka dyggri aðstoð Greifynjunnar en SVEPPAGREIFINN ber þó sjálfur alla ábyrgð á textanum sem hann aðlagaði einnig svolítið sjálfur að sínum eigin smekk.
Og seinni blaðsíðan ...
Og með þessari fallega teiknuðu jólasögu Peyo, um þá félaga Hinrik og Hagbarð, óskar SVEPPAGREIFINN lesendum, myndasögubloggsins Hrakfara og heimskupara, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Vonandi fá sem flestir einhverjar myndasögur í jólapakkann sinn.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir þennan pistil. Gleðileg jól til þín og þinna og takk fyrir alla pistlana á árinu.

    SvaraEyða
  2. Takk kærlega og sömuleiðis. Frábært hvað þú ert duglegur að fylgjast með og deila :)
    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!