6. desember 2019

140. RENÉ GOSCINNY

Þennan föstudaginn er ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla um handritshöfundinn René Goscinny sem hvarf á vit feðra sinna langt fyrir aldur fram árið 1977. Goscinny var líklega kunnastur fyrir aðkomu sína að myndasögunum um þá Ástrík og Lukku Láka, sem við Íslendingar þekkjum ágætlega, en meðal annara skjólstæðinga hans má líka nefna þá Fláráð stórvesír og Oumpah-Pah.
En René Goscinny fæddist í París þann 14. ágúst árið 1926 (aðeins degi á eftir Fidel Castro!) sem þýðir að hann væri ekki nema rúmlega níræður í dag ef hann væri enn á lífi. Foreldrar hans, Stanislas Goscinny og Anna Beresniak, voru gyðingar, fædd í Póllandi og Úkraínu, en kynntust í París og giftu sig þar árið 1917. Faðir hans var efnafræðingur og vegna starfs hans flutti fjölskyldan fyrst Nígaragúa, þegar René var aðeins tveggja ára gamall, og síðan fljótlega upp úr því til Buenos Aires í Argentínu. Fjölskyldan fór þó á nokkurra ára fresti heim til Frakklands og dvaldi þar þá í allt að sex mánuði í senn en í þeim heimsóknum tengdist René Frakklandi sterkum böndum. Í Argentínu gekk hann í franskan skóla og byrjaði snemma að teikna undir áhrifum frá myndskreyttum ævintýrabókum eins og Tarzan, Superman og sögum tengdum Disney fyrirtækinu. René Goscinny, sem var alltaf mjög feiminn, fór fljótlega að endurskapa þessar sögur eftir eigin prakkaralegu höfði og færa sögusvið þeirra yfir til Parísar með það að markmiði að skemmta bekkjarfélögum sínum. Árið 1942, þegar hann var sextán ára gamall, lauk hann prófi í námi í myndlist en aðeins örfáum vikum síðar lést faðir hans af heilablóðfalli. Fljótlega fékk hann starf meðal annars við teiknivinnu á auglýsingastofu og eftir að hafa lokið herþjónustu í Frakklandi, árið 1946, flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann dreymdi um að verða listamaður hjá Disney fyrirtækinu. Ekki rættist sá draumur en hann fékk vinnu í litlu stúdíói í Brooklyn þar sem hann kynntist bandarísku listamönnunum Willy Elder, Harvey Kurtzman, John Severin og Jack Davis. Þeir urðu stuttu síðar hluti af því teymi sem kom MAD tímaritinu vinsæla á stokk árið 1952.
Fyrstu útgáfur MAD blaðsins höfðu gríðarleg áhrif á Goscinny. Á þessum tíma kynntist hann einnig belgísku listamönnunum Joseph Gillain (Jijé), André Franquin og Maurice de Bevere (Morris) en þeir störfuðu og stunduðu nám í Bandaríkjunum á sama tíma. Eftir að René hafði í fyrstu ætlað sér að verða myndasöguteiknari, og taldi sig geta náð langt sem listamaður, var það einmitt hinn hæfileikaríki Jijé sem ráðlagði honum að einbeita sér frekar að handritsskrifum. Og þar fann hann virkilega réttu hilluna sína. Goscinny gekk þó enn með sína háleitu listamannsdrauma. Hann náði að koma einhverjum af þessum teiknimyndasögum sínum á framfæri, um miðjan sjötta áratuginn, undir dulnefnunum René Maldecq, René Macaire og Jacob en á meðal þess efnis má til dæmis nefna myndasöguna Le Capitaine Bibobu og aðra um spæjarann Dick Dicks. Síðarnefnda myndasagan hóf að birtast í franska dagblaðinu La Wallonie árið 1955.
Þeir Jijé og Morris höfðu nokkru áður kynnt Goscinny fyrir Georges Troisfontaines, yfirmanni World's Presse umboðskrifstofunnar, sem sá meðal annars um dreifingu belgíska SPIROU myndasögutímaritsins. Fljótlega gerði Troisfontaines Goscinny að yfirmanni skrifstofu World's Presse í París og næstu árin var hann einnig með annan fótinn við störf fyrir fyrirtækið í Bandaríkjunum. En í París hitti hann, hinn ítalskættaða Frakka, Albert Uderzo í fyrsta sinn og þeir Goscinny náðu strax vel saman. Þeir félagarnir hófu fljótlega samstarf að ýmsum skemmtilegum verkefnum en fyrstu tilraunir þeirra með myndasögur snerust um indjánastrákinn Oumpah-Pah sem þeim tókst þó ekki að koma á framfæri að þessu sinni. Nokkrum árum seinna birtust þær fimm teiknimyndasögur, sem þeir höfðu gert um kappann, samt í belgíska myndasögutímaritinu Le Journal de Tintin án þess þó að frekara framhald yrði á þeim. Lesendur blaðsins kusu seríuna þá reyndar út úr blaðinu en auk þess var Hergé sjálfur aldrei neitt sérstaklega hrifinn af henni.
Árið 1946 hafði Morris skapað kúrekann Lukku Láka, eftir dvöl sína í Bandaríkjunum, og samið fyrstu átta sögurnar um hann sjálfur. En árið 1955 bað hann vin sinn Goscinny um að semja fyrir sig handrit að sögu sem fyrst birtist í SPIROU tímaritinu 25. ágúst. Sú saga nefndist Des rails sur la Prairie (Þverálfujárnbrautin - 1981) og varð upphafið að farsælu samstarfi þeirra með Lukku Láka sögurnar allt þar til Goscinny lést árið 1977. Í fyrstu þótti stjórnendum Dupuis útgáfunnar (þeirrar sem gaf út SPIROU blaðið) lítið til handrita Goscinny koma en Morris var á öndverðri skoðun og merkti jafnvel sögurnar með upphafsstöfum hans R.G. auk síns eigins nafns. Lukku Láka sögurnar voru þá orðnar níu ára gamlar og töluvert vinsælar og þeir hjá Dupuis voru hræddir um að breytingarnar yrðu of miklar í meðförum hins nýja handritshöfundar. En þetta fyrirkomulag hentaði Morris hins vegar vel því hann var sjálfur alltaf svolítið latur við handritsskrifin auk þess sem hann naut þess miklu betur að vinna eingöngu með teiknipennann. Þannig urðu afköstin líka miklu meiri. Eftir að Goscinny hóf að skrifa handrit Lukku Láka sagnanna tók það hann svolítinn tíma að þreifa sig áfram með efnið en með tímanum fóru þær að þróast í eðlilegri og mannlegri átt. Lukku Láki sjálfur tók líklega mestu breytingunum og varð fljótlega að þeirri persónu sem við þekkjum hann í dag. Þá kom Goscinny meðal annars með Daldónana, eins og við þekkjum þá sem frændur hinna eldri Daldóna, inn í seríuna auk þess sem hann átti hugmyndina að Mömmu Döggu og Rattata heimskasta hundi villta vestursins. Alls kom René Goscinny að handritsgerð þrjátíu og sjö sagna um Lukku Láka á tuttugu og tveimur árum en ellefu af þessum sögum fjalla um Daltón bræður. Óhætt er að segja að á þeim tíma sem hans naut við hafi verið blómatímabil seríunnar.
Stuttu eftir að Goscinny hóf að skrifa handritin fyrir Morris byrjaði hann einnig að vinna með Franquin að skemmtilegum sögum um Modeste og Pompon en þær birtust í Le Journal de Tintin líkt og Oumpah-Pah gerði. Þeir Goscinny og Greg (Michel Régnier) komu að handritsvinnu þeirra sagna, sem Franquin teiknaði, en þetta samstarf stóð þó ekki mjög lengi yfir. Því lauk árið 1958 og aðrir listamenn tóku þá við seríunni enda þeir félagarnir allir með nóg af öðrum verkefnum á sinni könnu. Þá vann Goscinny meðal annars að handritum fyrir Berck (þann sem teiknaði Samma og félaga), Bob De Moor og  listamanninum Jean-Jacques Sempé en saman gerðu þeir tveir nokkrar barnabækur um Le Petit Nicolas (Lási litli), á árunum 1956-65, sem urðu mjög vinsælar. Með þeim sögum gat Goscinny reyndar með fullum rétti kallað sig rithöfund, þar sem hér var um að ræða hreinræktaðar barnabækur með texta, sem Sempé einungis myndskreytti. Hugmyndirnar að þessum skemmtilegu sögum fékk hann að miklu leyti í dvöl sinni í Bandaríkjunum, nokkrum árum áður, þar sem tíðar heimsóknir hans í kvikmyndahús höfðu veitt honum ríkan innblástur. Þessar bækur eru fullar af hlýju, kærleik og húmor og eru í raun löngu orðnar sígildar sem barnabókmenntir í Frakklandi en hafa einnig verið nýttar til frönskukennslu út um allan heim og þar með talið hér á Íslandi. Eitthvað af þessum bókum komu einmitt út í íslenskri þýðingu Ingunnar Thorarensen (dóttur Þorsteins hjá Fjölva útgáfunni) og margir muna örugglega eftir tveimur stórskemmtilegum kvikmyndum, Le petit Nicolas (Nikulás litli) og Les vacances du petit Nicolas (Nikulás litli á sumarfríi) sem gerðar voru eftir sögum úr þessum bókaflokki fyrir nokkrum árum. 
Árið 1959 stofnuðu þeir Uderzo og Goscinny ásamt nokkrum félögum sínum unglingablaðið Pilote, sem samanstóð að mestu af myndasögum og auglýsingum, og starfaði í fjöldamörg ár. Pilote var af mörgum kallað hið franska MAD tímarit þegar það hóf göngu sína. Þetta blað gekk reyndar ekki vel fjárhagslega og var seinna tekið yfir af Dargaud útgáfufyrirtækinu en Goscinny var þó viðriðinn blaðið í mörg ár á eftir og var til dæmis lengi ritstjóri þess. En það var einmitt í fyrsta tölublaðinu af Pilote sem teiknimyndasögurnar um Ástrík birtust fyrst í. Sagan, Astérix le Gaulois (Ástríkur gallvaski - 1974), hóf göngu sína í blaðinu þann 29. október árið 1959 og sló í gegn en þetta fyrsta tölublað, með Ástrík á forsíðunni, seldist í um 300.000 eintökum sem þótti bara gott.
Þessar sögur urðu því strax mjög vinsælar og gengu mun betur heldur en Oumpah-Pah sögurnar sem þeir höfðu áður reynt að koma á framfæri. Seríurnar tvær voru mjög líkar og sambærilegar að uppbyggingu, þó þær gerist reyndar á nokkuð ólíkum tímum, en Oumpah-Pah hefur oft verið kallaður stóri bróðir Ástríks. Þessi sería, með Ástríki og félögum, varð til með þeim hætti að þeir Uderzo og Goscinny sátu saman í lítilli íbúðarholu þess fyrrnefnda eitt síðdegið og voru að bögglast á örvæntingafulla hátt við að reyna að setja saman eitthvað áhugavert efni fyrir hið nýja blað þeirra. Goscinny spurði eitthvað á þá leið á hvaða tíma Frakkland hefði orðið "franskt" og Uderzo hló við og svaraði, "líklega forsögulegum tíma ... eða", bætti hann svo við, "á tímum Gaulverja". Goscinny greip boltann á lofti og á innan við kortéri voru þeir búnir að skapa heildamyndina á hinni nýju myndasöguseríu. Uderzo og Goscinny sömdu alls tuttugu og fjórar sögur saman um Ástrík og félaga en sá fyrrnefndi hélt einn áfram með seríuna eftir að Goscinny féll frá og skrifaði þá sjálfur handritið að þeim. Þær sögur eru þó almennt taldar standa hinum eldri nokkuð að baki og sömu sögu má reyndar einnig segja um Lukku Láka bækurnar.
Goscinny kom að mörgum öðrum myndasöguseríum á sínum ferli, sem ekki eru alveg jafn þekktar og sögurnar um Ástrík og Lukku Láka, enda var hann óhemju afkastamikill handritshöfundur. Við Íslendingar þekkjum þó ágætlega seríu sem hann gerði í samstarfi við franska listamanninn Jean Tabary og gerist á tímum 1001 nætur. Þessi sería birtist fyrst í myndasögutímaritinu Record í byrjun árs 1962 og fjallaði reyndar upphaflega um kalífann Harún í Bagdad. Eða eins og bókaflokkurinn heitir upp á íslensku, Ævintýri Harúns hins milda. En fljótlega færðist hlutverk aðalsöguhetjunnar, þjóðarleiðtogans Harúns, yfir á hinn illgjarna og valdasjúka stórvesír hans, Fláráð. Sá hefur fátt annað fram að færa en óþverraskap af öllu tagi og ýmislegt sem honum fylgir. Fláráð dreymir nefnilega um það eitt að verða kalífi í stað Harúns og frasi hans, "Ég vil verða kalífi í stað kalífans" er almennt löngu orðinn þekktur sem orðatiltæki yfir metnað í Frakklandi. Alls hafa komið út þrjátíu bækur í þessari seríu en Goscinny kom, með handritsgerð sinni, fyrstu sautján bókunum áður en hann lést. SVEPPAGREIFINN á enn eftir að fjalla um þessa frábæru seríu hér á Hrakförum og heimskupörum en þess verður vonandi ekki langt að bíða.
René Goscinny er algjör goðsögn í evrópskri myndasögumenningu. Þær þrjár seríur sem hann gerði vinsælastar með handritsgerð sinni, Ástríkur, Lukku Láki og Fláráður stórvesír, eru allar á meðal vinsælustu myndasagna álfunnar. Þeir listamenn sem unnu að þessum seríum höfðu hver sinn teiknistíl og ólíku sögusvið til að vinna úr og það sýnir einnig um leið hversu frjór og hugmyndaríkur Goscinny var. En það sem einkennir sögurnar helst er hinn einstaki húmor og svo nálgun hans á hinn sagnfræðilega hluta þeirra. Þar á Goscinny stóran hlut að máli. Þeir Morris, Uderzo og Tabary unnu allir mjög náið með handritshöfundinum og sameiginleg vinna þeirra að verkunum skópu hinar frábæru heildarmyndir sagnanna. Þá mátti, þökk sé Goscinny, á köflum einnig finna í þeim töluvert pólítískan tón sem var á köflum afar háðskur og jaðraði jafnvel við ádeilu. Hann var því brautryðjandi á því sviði að hefja teiknimyndasögur upp stall þar sem þær höfðuðu til eldri lesenda en þess háttar bókmenntir höfðu áður að mestu verið ætlaðar fyrir börn. Hinn geðþekki Goscinny var afar virtur og vinsæll á meðal kollega sinna, og alltaf í góðu sambandi við þá, enda líklega leitun að ljúfari samstarfsmanni en honum. Þessi rándýra ljósmynd, frá því snemma á áttunda áratug síðustu aldar, sýnir einmitt nokkra af dáðustu listamönnum belgísk/franska myndasöguelítunnar leiða saman krafta sína af einhverju góðu tilefni. Frá vinstri í efri röð; Goscinny, Roba og Franquin og í neðri röð; Morris, Uderzo og Peyo.
Hann var alltaf mikill áhugamaður um kvikmyndir og skrifaði bæði sjónvarps- og kvikmyndahandrit auk þess sem hann kom að handritsgerðum fyrir fyrstu teiknimyndirnar sem gerðar voru um bæði Ástrík og Lukku Láka. Þær myndir eru allar taldar á meðal þeirra bestu sem gerðar hafa verið um söguhetjur þeirra sería. Á áttunda áratugnum hafði Goscinny skrifað kvikmyndahandrit í gamansömum tón, sem hann nefndi Le Maître du Monde, og sendi framleiðanda með Peter Sellers í aðalhlutverki í huga. Hann fékk aldrei nein svör en árið 1976 kom myndin The Pink Panther Strikes Again í bíóhús og söguþráður hennar þótti grunsamlega líkur þessu handriti Goscinnys. Hann áætlaði að lögsækja framleiðandann en lést áður en af þeim áformum gat orðið. Nokkru fyrir andlát hans höfðu þeir Uderzo einmitt stofnað og lagt grunninn að kvikmyndafyrirtæki sem ætlað var að einbeita sér að teiknimyndagerð og kallaðist Studio Idéfix. En þá skyndilega hrundi allt. Að morgni laugardagsins 5. nóvember árið 1977 var René Goscinny í hefðbundnu þrekprófi hjá lækni sínum í París, þar er hann glímdi við smávægileg hjartavandamál, þegar hann kvartaði skyndilega undan sárum verkjum í brjóstholi og handleggjum. Læknirinn bað hann um að halda aðeins áfram í nokkrar sekúndur í viðbót en þá féll René í gólfið og var látinn skömmu síðar. Goscinny var aðeins fimmtíu og eins árs að aldri er hann lést svo sviplega og fráfall hans var mikið áfall fyrir alla þá sem að teikimyndasöguheiminum komu, ekki bara samstarfmenn hans og vini heldur einnig dyggra lesenda og unnenda myndasagna um heim allan.
Þegar René Goscinny lést var Lukku Láka sagan Le Fil qui chante (Söngvírinn) tilbúin en þá reyndar rétt ókomin út í bókarformi. Á þessum tíma var hann í miðjum klíðum við vinnu að Ástríks bókinni Astérix chez les Belges (Ástríkur í Belgíu - sem hefur ekki ennþá komið út í íslenskri þýðingu) en þá var blaðsíða þrjátíu og tvö hálfkláruð, á töflu upp á vegg, í vinnustofunni hjá þeim Uderzo í París. Sá kláraði söguna því einsamall en handrit Goscinnys var þá tilbúið fyrir nokkru og fjarvera hans kom þannig séð ekki að sök. Til minningar um hinn fallna vin sinn lét Uderzo, á táknrænan hátt, fara að rigna á blaðsíðu þrjátíu og tvö og það sem eftir er sögunnar einkennist af gráum, þungbúnum og drungalegum undirtón sem er mjög óvenjulegt fyrir Ástríksbók. Neðst, til vinstri, á síðastu mynd sögunnar má síðan sjá grátandi kanínu horfa með sorgmæddum augum á nafn meistarans en Goscinny kallaði Gilberte eiginkonu sína aldrei neitt annað en kanínuna sína.

4 ummæli:

 1. Takk fyrir þennan pistil. Einn af þínum allra bestu. Eftir að ég byrjaði markvisst að safna teiknimyndasögum uppgötvaði maður hvað þetta var mikill snillingur. Hefur verið einstakur húmoristi. Mjög gleðilegt að sjá að ég á sama afmælisdag og þessi meistari.

  SvaraEyða
 2. Takk kærlega.
  Goscinny var mikill snillingur og það er sérlega sorglegt hve snemma hann fór. Það má eiginlega segja að hann hafi verið fórnarlamb samtímans því hann reykti eins og strompur og eflaust hefur það haft einhver áhrif á ótímabært fráfall hans. Eflaust hefði betri vitund um heilbrigðari lífsstíl gefið heiminum ómetanleg 20 til 30 ár í viðbót af frábærum sögum.
  Það er heiður fyrir ykkur Fidel að deila afmælisdeginum með Goscinny 😊

  Kv.SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 3. Takk fyrir mjög fræðandi og vel skrifaðan pistil - já, og hina pistlana líka; þessi lýsing á líka við um þá.

  SvaraEyða
 4. Þakka þér sömuleiðis fyrir að lesa þetta, endilega haltu því áfram.

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!