24. janúar 2020

147. BARA RÉTT AÐEINS UM NÝJA ZORGLÚBB SÖGU

Stutt og ódýr færsla í dag enda stuttir og ódýrir dagar svona veðurfarslega um þessar mundir og nennan ekki í hæstu hæðum á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á eina af uppáhalds persónum sínum úr bókunum um þá félaga Sval og Val en þar er hann að sjálfsögðu að tala um hinn misskilda sindamann Zorglúbb. Þessum snillingi hefur verið gert svo hátt undir höfði hér á Hrakförum og heimskupörum að hann hefur jafnvel fengið skrifaða nokkuð ítarlega færslu um sig hér. Zorglúbb birtist fyrst í Sval og Val sögunni Z comme Zorglub (Z fyrir Zorglúbb) þann 11. júní árið 1959, í SPIROU blaði númer 1104, en áður hafði reyndar sést óskýr skuggamynd af honum í blaðinu í sömu sögu um mánuði fyrr. Hann kemur fyrir í tíu af fimmtíu og fimm bókum seríunnar um Sval og Val en auk þess hefur Zorglúbb birst í tveimur af bókunum sextán (þeim fjölgar ört) í hliðarseríunni Série Le Spirou de… eða Sérstök ævintýri Svals ... eins og hún hefur verið nefnd á íslensku. SVEPPAGREIFINN hefur öðru hvoru aðeins minnst á sjálfstæðan bókaflokk um Zorglúbb, sem hóf nýlega göngu sína hjá Dupuis, og hefur lagt sig fram eftir föngum um að reyna að nálgast þær myndasögur á ferðum sínum erlendis. Þessar sögur eru eftir spænska listamanninn Jose-Luis Munuera en hann er að sjálfsögðu helmingur tvíeykisins Morvan og Munuera, sem sömdu fáeinar Sval og Val sögur á tíunda áratugnum, eins og allir vita.
Fyrstu tvær bækurnar í seríunni eru á góðum stað í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS en þær heita La Fille du Z (Dóttir Z) sem kom út í júní árið 2017 og í september 2018 kom síðan út sagan L'apprenti méchant (Vondur nemi). Bækurnar tvær eru á frönsku, enda báðar keyptar í svissnesku borginni Biel sem tilheyrir hinum franska hluta landsins, en það hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið að láta trufla sig neitt sérstaklega. Þetta er jú einu sinni Zorglúbb svo hann lætur sig hafa það að reyna að stauta sig í gegnum bækurnar á frönsku með diggri aðstoð hins einstaklega þolinmóða betri helmings síns. Annars á hann fjöldann allan af myndasögum á frönsku og þetta fyrirkomulag hefur gengið alveg ágætlega með Greifynjunni og Google Translate á sitthvorum kantinum. Annars væri voða gaman að sjá sem mest af þessum myndasögum öllum koma út á íslensku en ansi er nú ólíklegt að eitthvað slíkt sé að fara að gerast í náinni framtíð. Til þess erum við náttúrulega allt of fá en Froskur útgáfa á hrós skilið fyrir það sem þeir þó ná að áorka á hinum örsmáa myndasögumarkaði hér á landi. En í september síðastliðnum kom síðan þriðja bókin út í frönsku útgáfuseríunni um Zorglúbb. Sú saga nefnist Lady Z og verður væntanlega á óska- og innkaupalista SVEPPAGREIFANS næst þegar hann verður á þvælingi á suðlægari slóðum.
Þessi sería virðist vera að slá nokkuð í gegn og þriðja bókin á jafnmörgum árum segir töluvert til um vinsældir bókanna. En sem dæmi um það má nefna að verið er að gefa þessar sögur út bæði á norsku og dönsku. Fyrsta Zorglúbb bókin (Barn af Z) kom út hjá danska myndasöguútgefandanum Forlaget Zoom í byrjun ágúst í fyrra en gæti hafa verið orðið uppseld hjá útgefandanum núna fyrir jólin. Önnur bókin (Skurkens lærling) er væntanleg á dönsku núna í mars eða apríl og stefnt hefur verið á að gefa út þá nýjustu, hjá Forlaget Zoom, í október á þessu ári - svona rétt mátulega fyrir jólin. Það er því um að gera fyrir þá sem áhuga hafa á teiknimyndasögum að kippa með sér þessum sögum ef þeir rekast á þær á ferðum sínum um Norðurlöndin.

3 ummæli:

 1. Takk fyrir þetta, Zorglúbb er frábær karakter. Ég verð svo að gera athugasemd við þá athugasemd þína að þessar bækur mættu koma út hér á landi. Ég er nebbnilegga á móti því. Ástæðan er einföld, ég má hafa mig allan við að safna því sem Froskurinn gefur út plús það sem Iðunn/Forlagið er að gefa út. Ég einfaldlega ræð ekki við meira í augnablikinu og skilningur míns betri helmings er ekki eins víðáttuopinn sem þinn. Um jólin eyddi ég yfir 50 þúsund kalli í teiknimyndakaup enda ekki vanþörf á - og fékk tiltal um óráðssíu mína ;-)

  SvaraEyða
  Svör
  1. Kveðja. Villi Kristjans - frá Noregshreppi.

   Eyða
 2. Gleðilegan Zorglúbb!

  Haha... yfir 50 þúsund kall í myndasögukaup um jólin eru reyndar töluvert mikið afrek :) Held ég hafi mest eytt 17-18 þúsund á rúmlega tveimur vikum eitt sumarið í útlöndum og var með nagandi samviskubit yfir athæfinu. En ég skil þörfina fullkomlega og það má alveg réttlæta hana með ýmsum rökum. Þetta eru til dæmis aurar sem maður hefði alveg getað eytt í staðinn í óþarfa eins og tóbak, áfengi eða lottó miða - sem maður fengi aldrei vinning á.

  Ég er mjög heppinn hvað ég á skilningsríkan betri helming og þú ert eflaust jafn vel giftur og ég. Kannski eru það bara betri helmingar okkar sem eru ekki jafn vel giftir :D

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!