17. janúar 2020

146. MAGNSTEINN MÚRARAMEISTARI OG FRÚ SLEGGJA

Eitt af einkennum teiknimyndasagna er hinn ýkti hetjuheimur aðalsöguhetjanna. Þær eru jú einu sinni myndasöguhetjur. Flestar þeirra hafa yfir að ráða hugdirfsku af einhverju tagi þar sem hetjuskapur þeirra nýtist í baráttu við misindismenn af ýmsu tagi og það er einnig einkennandi hversu oft þessar hetjur lenda aftur og aftur í sambærilegum ævintýrum. Tinni er til dæmis bara blaðamaður, sem hefur lent í rúmlega tuttugu mismunandi svaðilförum, en SVEPPAGREIFINN veit þó ekki um neinn annan blaðamann sem hefur sambærilega reynslu af slíkum ævintýrum. Svipaða sögu má segja um til dæmis þá Sval og Val, Steina sterka, Frank og Hin fjögur fræknu. Þetta eru hetjur sem ævintýrin bókstaflega elta. Aðrar myndasöguhetjur, eins og Ástríkur, Lukku Láki og Hinrik og Hagbarður, lifa hins vegar á aðeins víðsjárverðari tímum fortíðarinnar og því er eðlilegra að líta þannig á að ævintýramennska þeirra hetja sé á einhvern hátt réttlætanlegri. En í öllum teiknimyndasögum eru líka aðrar persónur sem eru nauðsynlegar til að skapa eðlilegan veruleika eða söguheim í kringum aðalsöguhetjurnar. Þar er SVEPPAGREIFINN ekki bara að tala um helstu aukapersónur bókanna sem ýmist fylgja aðalsöguhetjunum í hetjuskap sínum, tengjast þeim á einhvern hátt eða tilheyra jafnvel bófum- og illmennum sagnanna. Þarna er auðvitað verið að tala um einhvers konar uppfyllingapersónur sem fylla upp í heildarmynd sagnanna og hafa jafnvel líka einhver lítil en nauðsynleg hlutverk - eiginlega svona hvunndagshetjur teiknimyndasagnanna.
Í Tinna bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó (Les Bijoux de la Castafiore - 1963), sem Fjölva útgáfan sendi frá sér árið 1977, má til dæmis finna tvær slíkar hvunndagshetjur sem reyndar ætti að skilgreina sem tvíeyki eða par enda vinna þær diggilega saman gegn utanaðkomandi "hættum". Önnur þeirra er reyndar meira áberandi og í stærra hlutverki en hin er hins vegar meiri svona stuðningur eða bakhjarl. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um iðnaðarmanninn Magnstein múrarameistara og eiginkonu hans Sleggju. Allir Tinna aðdáendur þekkja auðvitað vel þessa rólegu og frekar hversdagslegu sögu og aðkoma Magnsteins að henni er líklega flestum kunn. En til að rifja aðeins upp söguna þá snýr Kolbeinn kafteinn sig, snemma í henni, illilega á ökklanum þegar hann hrasar í brotnu og lausu marmaraþrepi stóra stigans innan af anddyrinu á Myllusetri. Þrepið var þá þegar búið að vera brotið í nokkurn tíma (frá því nokkru áður en sagan um Vandræði Vaílu hefst) og Jósep var einnig nokkrum sinnum búinn að reyna að ná sambandi við múrarann rólynda til að biðja hann um að laga þrepið. Þegar Kolbeinn meiddi sig hafði hann sjálfur einnig verið búinn að hringja í Magnstein (auðvitað með því að hringja óvart fyrst í Bö slátrara í kjötbúðinni) og tjáir Jósepi sigri hrósandi eftir á hvernig best sé að taka af festu á slíkum kauðum. Af fenginni reynslu veit Jósep þó betur og tekur slíku tali með rétt mátulegum fyrirvara.
Svona gengur þessi iðnaðamannabrandari nokkrum sinnum í gegnum alla söguna og reglulega poppa upp samskipti þeirra Kolbeins og Magnsteins á dauðum punktum í bókinni. Kafteinninn hringir, Magnsteinn lofar að koma, afsakar sig eitthvað og svo framvegis. Kolbeinn (og reyndar líka Jósep) reyna þannig reglulega að reka á eftir Magnsteini og alls eiga sér stað að minnsta kosti fimm slík símtöl í bókinni á milli Myllusetur og múrarameistarans eða konu hans. Þannig kemur iðnaðarmaðurinn fyrir í heilum tólf myndarömmum í sögunni en líklegt má telja að sagan gerist á um það bil fjórum til fimm vikum. Og miðað við þann fjölda tilvika þar sem einhver fellur í tröppunum í herragarðinum er augljóslega lífsnauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir, og laga þrepið, því alls fann SVEPPAGREIFINN tíu slík atvik í bókinni. En allt kemur fyrir ekki. Afsakanir Magnsteins eru af margvíslegum toga og oft jafnvel fleiri en ein í hverju símtali. Almennt sé mikið að gera hjá honum, í eitt sinn þurfti hann að ljúka við legstein, svo þurfti hann að fara bæði í brúðkaup og jarðarför, síðan var hann með kvef en besta afsökunin er þó (að mati SVEPPAGREIFANS) þegar hann þurfti, ásamt félögum sínum í múrarafélaginu, að fara í heimsókn til vinabæjar þeirra á Majorka. Það hlýtur að vera mjög eftirsótt að vera aðili að því félagi.
Aðalefni bókarinnar fjallar auðvitað um hina sjálfskipuðu heimsókn Vaílu Veinólínó á Myllusetrið en í miðri baráttu Kolbeins, fyrir viðgerð marmaraþrepsins, verður prófessor Vandráði á þau mistök að staðfesta óvart væntanlegt brúðkaup kafteinsins og Vaílu - sem auðvitað var enginn fótur fyrir. Fréttin berst fljótt út með aðstoð slúðurblaðs Múla og Péturs og heillaskeytin með árnaðaróskum vina og kunningja streyma til hjónaleysanna að Myllusetri. Kolbeini er ekki skemmt og ekki batnar skap hans þegar Lúðrasveitin að Myllufossi kemur í heimsókn og spilar viðeigandi tónlist turtildúfunum til heilla. Kafteinninn er jú frægur, mikils metinn óðalsbóndi í sveitinni og einn af fyrstu mönnunum til að fara til tunglsins. Stjórnandi lúðrasveitarinnar flytur ávarp honum til heiðurs í tilefni tímamótanna og Vaíla heimtar í kjölfarið að Kolbeinn bjóði meðlimum hennar upp á kampavín. Þær veigar fara þó full geyst ofan í mannskapinn og tónlistarflutningur sveitarinnar virðist ekki vera alveg jafn vandaður og fyrir veitingarnar.
Þegar að er gáð, og ekki er víst að allir hafi tekið eftir því, þá má einmitt sjá múrarameistarann Magnstein, innan um aðra meðlimi lúðrasveitarinnar, þar sem hann spilar á trompet. Augljóslega lítur iðnaðarmaðurinn þannig á að hið félagslega hlutverk tilverunnar sé öllu mikilvægara en starfsskyldur hans og hann skammast sín ekkert fyrir viðveru sína á staðnum. Það kemur reyndar ekki fram að Kolbeinn hafi áttað sig á að múrarameistarinn væri á meðal tónlistarmannanna en hann er hins vegar alfarið andvígur vínveitingunum og spurning hvort það tengist Magnsteini. Mótmæli hans hafa þó ekkert að segja og Vaíla fær sínu framgengt með hefðbundnum yfirgangi. En fleiri kunnuglega fýra má einnig finna í þessum hljómsveitarhóp. Stjórnandi lúðrasveitarinnar, sá sem flytur ávarpið kærleiksríka, er enginn annar en Bö kjötkaupmaður í Kjötbúðinni að Myllufossi. Bö slátrari (Achille Sanzot nefnist hann í upprunalegu bókunum) kemur fyrir fjórum Tinna bókum en einnig gerði Hergé ráð fyrir honum í hinni ókláruðu Tintin et l'Alph-Art.
Í viðtali löngu seinna greindi Hergé frá innblæstrinum að því hvernig hugmyndin að þessu atriði hafði orðið til. Þau hjónin hefðu verið stödd á sumardvalarstað í nágrenni Brussel þegar þau fengu óvænta heimsókn. Þar hefði verið á ferð fámennt lúðraband sem verið hafði á ráfi á milli lítilla veitinga- og kaffihúsa í miðbæ staðarins á milli þess sem þeir gæddu sér á veigum áfengisgyðjunnar. Að endingu komu þeir við á dvalarstað Hergé þar sem þeir stilltu sér upp með hljóðfærin sín og fluttu honum vandaðar útgáfur af fallegri og angurværri blásturstónlist. Í beinu framhaldi af því hófst einnig í miklu magni frekari bjórinntaka hópsins (hún var að sögn ekki eins falleg og tónlistin) sem endaði með hefðbundinni heiðursræðu stjórnandans. Ræðumaðurinn lauk tölu sinni með hinum þvoglumæltu orðum; Og nú, kæru vinir, skulum við lyfta glasi og skála fyrir herra Remi og hrópa allir sem einn, LENGI LIFI SPIROU! En aftur að sögunni. Eftir lúðrasveitabröltið heldur stríð þeirra Kolbeins og Magnsteins samt áfram í bókinni. Frú Sleggja lætur heldur ekki sitt eftir liggja í baráttunni við óþolinmóða viðskiptavini eiginmanns síns og styður hann heilshugar, með hæfilegri meðvirkni, gegn þessum óvinveittu öflum. Hún tekur málsstað iðnaðarmannsins í einu og öllu og er jafnvel tilbúin til að ljúga Kolbein fullan til að verja bónda sinn fyrir árásum óðalsbóndans að Myllusetri. Í bakgrunninum má þó sjá hvar Magnsteinn sjálfur situr slakur, tottandi pípu og flettir rólegur í gegnum hið útbreidda slúðurrit Múla og Péturs.
Þessi vinalegu hjón, Magnsteinn og kona hans, búa í þorpinu Myllufossi sem er spölkorn frá Myllusetrinu heimili þeirra Kolbeins kafteins og prófessor Vandráðs. Hann er múrarameistari þorpsins, ekur um á rauðu VW rúgbrauði og heitir, í upprunalegu belgísku útgáfunni, Isidore Boullu. Hann virkar sem frekar viðkunnalegur náungi og þau hjónin eru jafnvel svo almennileg að í miðju stríði Magnsteins við Kolbein senda þau honum heillaskeyti í tilefni af meintri trúlofun hans með Vaílu. Við þýðingu bókarinnar hafa þeir Loftur Guðmundsson og Þorsteinn Thorarensen farið þá leið að nefna manninn Magnstein múrarameistara og sú tilhögun er að mati SVEPPAGREIFANS einstaklega vel heppnuð. Í beinu framhaldi af því fór SVEPPAGREIFINN þó að velta fyrir sér fleiri nafngiftum á múrarameistaranum og hvort hugsanlega hefði verið hægt að gera enn betur í þeim efnum. Upp í huga hans komu nöfn eins og Legsteinn, Bergsteinn eða jafnvel Steinbergur en að endingu hljómar Magnsteinn múrarameistari þó líklega alltaf best. Þá má kannski einnig geta þess að á dönsku nefnist hann murermester Sten og frú Sleggja, fru Sten. Dönsku þýðendurnir voru því augljóslega ekki jafn frumlegir og hinir íslensku kollegar þeirra. En svona í framhjáhlaupi má líka alveg minnast á að fyrir margt löngu síðan starfaði SVEPPAGREIFINN með manni einum sem Hafsteinn hét og var líklega sá latasti náungi sem hann hefur á ævi sinni hitt. Sá var fyrir vikið ekkert sérlega vel liðinn á meðal samstarfsfólks síns og fékk fljótlega viðurnefnið Legsteinn og síðan í kjölfarið (í samræmi við afköst hans) Kumlið. Það eina sem hann var duglegur við var að koma sér undan verkum og hefði því líkast til getað orðið alveg fyrirmyndar iðnaðarmaður. 
En ekki er nafngift þeirra Lofts og Þorsteins á eiginkonu Magnsteins síðri því frú Sleggja er hreint út sagt frábært og með ólíkindum að nafn hennar hafi ekki hlotið almenna útbreiðslu í kjölfar útgáfu þessarar bókar hér á landi. Sleggja fellur klárlega undir ákvæði Mannanafnanefndar um eðlilega eignafallsendingu, hefur unnið sér hefð í íslensku máli og brýtur ekki í bág við íslensk málkerfi. En reyndar er þar einnig tekið fram að huga skuli að því að nöfn geti ekki orðið eigendum þeirra til ama og líklega er það eina ástæðan fyrir því að Sleggja varð ekki að helsta tískunafni ársins á sínum tíma. Það hafa örugglega verri nöfn sprottið fram í sviðsljósið síðan.
Höfundur Tinna bókanna Hergé (George Remi) þekkti, af eigin reynslu, múrarameistara með þessu sama nafni, Isidore Boullu, sem var í raun nánast ómögulegt að ná í. Forsöguna að því má rekja til þess að árið 1949 festi hann, og þáverandi eiginkona hans Germaine, kaup á gömlu sveitagistihúsi í spænskum stíl við Céroux-Mousty í Walloon Brabant héraðinu í Belgíu. Þau nefndu húsið La Ferrièresem og hófu þá þegar viðamiklar endurbætur á því enda byggingin orðið hrörleg og léleg eftir margra ára viðhaldsleysi og niðurníðslu. Þrátt fyrir alla þá vinnu gátu þau hjónin þó flutt inn í hluta hússins árið 1953. Endurbyggingin tók samt langan tíma, heilt yfir um tíu ár, en ástæðu þess mátti meðal annars rekja til hins áðurnefnda iðnaðarmanns. Isidore Boullu var nánast útilokað að ná í og í þau fáu skipti sem hann birtist vann hann aðeins í fáeinar mínútur áður en hann hvarf á ný. Í bréfi til vinar síns, tiltölulega fljótlega í ferli endurbótanna, minntist Hergé á að auðveldlega væri hægt að skrifa langa skáldsögu um viðgerðirnar og uppgerðina á húsinu. Það kæmi honum á óvart að húsið væri ekki enn hrunið en verktakinn, hinn títtnefndi Isidore Boullu, hefði fullvissað hann um að þessi vinna tæki ekki nema um 6 vikur. Nú væri hins vegar næstum liðið heilt ár. Hergé hefndi sín á Isidore Boullu löngu seinna með því að úthluta honum þessu vanþakkláta hlutverki í Vandræðum Vaílu og um leið að skjóta svolítið á hinn dæmigerða iðnaðarmann sem hann hafði augljóslega ekki miklar mætur á. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN svo sem að taka neitt sérstaklega undir þennan dóm Hergés um iðnaðarmenn almennt en verður þó að viðurkenna sambærilega baráttu við rafvirkja einn sem hann er búinn að bíða eftir í næstum því ár. Munurinn á SVEPPAGREIFANUM og Hergé er þó líklega í megindráttum sá að hinn fyrrnefndi er íslenskur og kemur að öllum líkindum til með að redda sér bara sjálfur.
Annars er líklega sniðugt, fyrst maður er á annað borð að fjalla um Tinna í færslu dagsins, að benda á að Tinna myndin The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn er sýnd á RUV annað kvöld klukkan 20:20. Gísli Marteinn Baldursson mun tjá sig um þessa mynd í þættinum Bíóást sem sýndur verður á undan henni. Gaman að því.

2 ummæli:

Út með sprokið!