1. maí 2020

164. ZORGLÚBB AUGLÝSIR BÍL

Best að bjóða upp á eina stopula færslu í léttari kantinum þann 1. maí enda ekkert annað í boði á svona notalegum degi. En þessi færsla er annars vegar tileinkuð hinum undarlega og vel til hafða vísindamanni Zorglúbb en hann er auðvitað þekktastur fyrir aðkomu sína að sögunum um Sval og Val auk þess sem hann hefur í seinni tíð eignast sinn eiginn bókaflokk. En hins vegar er þessi færsla tileinkuð frönsku bílategundinni Renault Dauphine Gordini sem framleidd var á árunum 1956-67. Þessi bíll var meðal annars mótsvar Renault bílaverksmiðjanna við smábílunum Volkswagen Bjöllu, Fiat 500 og Austin Mini sem voru vinsælustu og ódýrustu bílarnir á þeim tíma. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið gaman af að fletta í gegnum gömlu SPIROU teiknimyndablöðin og það var einmitt þar sem hann rakst á tengingu milli þessara tveggja ólíku hlutaðeigenda. Í SPIROU blaði númer 1160 sem kom út þann 7. júlí árið 1960 mátti nefnilega finna auglýsingu, í meðförum André Franquin, þar sem Dauphine Gordini og vísindamaðurinn Zorglúbb leiða saman hesta sína. 
Hér er Zorglúbb að vekja athygli lesenda SPIROU tímaritsins á leik sem blaðið stóð fyrir undir yfirskriftinni TOUTE LA FRANCE og myndi líklega þýðast sem FRAKKLAND ALLT á íslensku. Þessi leikur hóf göngu sína í tímaritinu fáeinum vikum áður og gekk út á það að þátttakendur hans þurftu að safna saman tíu vísbendingum sem birst höfðu í næstu tíu blöðum á undan. Þeir þurftu síðan svolítið að leggja höfuð sín í bleyti við það en saman áttu þessar vísbendingar að gefa ákveðna niðurstöðu sem gilti sem lokasvar sem þeir síðan sendu blaðinu. Leikurinn var afar flókinn og ekki á færi allra að finna út lausn hans og SVEPPAGREIFINN ætlar ekki að reyna að útskýra út á hvað hann gekk. En að lokum var síðan dregið úr sendum lausnum. Heildarverðmætin yfir vinninga þessa leiks námu yfir 35.000 frönkum en aðalvinningurinn var einmitt eintak af hinum áðurnefnda bíl Dauphine Gordini frá Renault. Í heildina voru vinningarnir yfir þúsund talsins en auk bílsins má þar nefna tíu stereo græjur, átta transitor útvörp og þrjátíu vindsængur. Hér fyrir ofan má sjá hvar Zorglúbb þrumar yfir lýðnum á zorsku og hvetur lesendur blaðsins til að taka þátt í leiknum - það sé ekki of seint. Fyrir neðan Zorglúbb stendur síðan Valur og tekur undir hvert orð hans. Með öðrum orðum má því eiginlega segja að Zorglúbb sé að auglýsa bíl! Helstu stjörnur SPIROU blaðsins voru dregnar fram til að auglýsa leikinn og Viggó viðutan var til dæmis á meðal þeirra. Hann var reyndar sjálfur ákveðinn í að taka þátt í þessum leik og hljóta bílinn í verðlaun en Valur var ekki jafn sannfærður, með hrakfarir hans í huga, um að það væri heppilegt.
En þessi bíll Dauphine Gordini var svo sem ekki merkilegt farartæki en hann var sparneytinn og eflaust nokkuð hagkvæmur kostur á sínum tíma þó erfitt sé að bera tegundina við smábíla dagsins í dag. Á þessum ellefu árum sem Dauphine Gordini var í framleiðslu seldust um tvær milljónir eintaka af bílnum en hann var einnig fáanlegur í eins konar lúxus- og sportútgáfum. Bíllnn var þriggja gíra, með vélina aftur í og hún var sko ekkert slor. Heil 38 hestöfl (reyndar undir lokin eftir nokkurra ára þróunarvinnu) og Dauphine Gordini var aðeins rúmlega þrjátíu sekúndur upp í 60 mílna hraða! Reyndar er alveg óhætt að taka undir það að smábíllinn Renault Dauphine Gordini verði seint talinn samboðinn hinum fágaða og nýtískulega stíl Zorglúbbs. Hans hugmyndafræði, gagnvart þeirra tíma farartækjum, var víst algjörlega á hinum enda skalans.
Annars eru áhrif hinnar illræmdu Kórónuveiru óðum að minnka hér uppi á Klakanum og senn hyllir undir langþráðar tilslakanir hinnar heilögu þrenningar Almannavarna. Reyndar virðast margir halda að þeir séu yfir það hafnir að fara eftir tilmælum yfirvalda og eru löngu byrjaðir að hunsa það sem flestir aðrir myndu flokka undir almenna skynsemi. En vonandi er þetta versta búið núna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!