12. júní 2020

167. AF HOLLENSKUM BRÆÐRUM OG DAÐRI SNJÓLFS

Bækurnar með Viggó viðutan eru að mati SVEPPAGREIFANS hreint stórkostlegar teiknimyndasögur og þar á framlag listamannsins André Franquin að sjálfsögðu stærstan hlut að máli. Hinir stuttu myndabrandarar um uppátæki og uppákomur snillinginn knáa eru ekki bara skemmtilegir sem fyndnir brandarar heldur kemur svo ótrúlega margt fleira við sögu sem gerir þessar bækur svo mannlegar - jafnvel þótt flestar sögupersónurnar séu mjög ýktar. Það er nefnilega svo mikill karakter í þeim. Öll þessi litlu smáatriði og nákvæmni í teikningunum gera manni svo auðvelt að upplifa svo mikinn raunveruleika í sögusviðinu. Í Tinnabókunum er þessu til dæmis allt öðruvísi farið þar sem hlutirnir eru allir miklu stífari og uppstilltari, þó svo að fullkomnunin og nákvæmni séu þar reyndar líka til staðar. Munurinn liggur auðvitað helst í hinum mismunandi teiknistílum en svo skiptir karakter höfundanna sjálfra líka augljóslega meginmáli.
Stór hluti þeirrar ástæðu, sem gerir SVEPPAGREIFANN svo hrifinn af í Viggó bókunum, er hversu vel ritstjórnarskrifstofan á SVAL er skipuð. Þar ægir ekki öllu saman af einhverju óþarfa fólki heldur er skrifstofan það hæfilega vel mönnuð að maður á auðvelt með að átta sig á karakter hvers einasta starfsmanns. Auðvitað spilar þar mest inn í útlit persónanna og þær hafa allar þannig einkenni að maður á auðvelt með að muna eftir þeim. Hér kemur einn helsti styrkur Franquins til sögunnar. Þannig er hver einasta persóna einnig nokkuð sterkur karakter út á við og nánast enginn starfsmaður er það flatur eða óþarfur að maður muni ekki eftir honum eða rugli saman við einhvern annan. Í fljótu bragði man hinn ómannglöggi SVEPPAGREIFI aðeins eftir gaurunum tveimur sem hinir íslensku þýðendur hjá Iðunni rugluðu gjarnan líka einnig saman.
Sá brúnhærði með yfirvaraskeggið (þessi til hægri) heitir Bertje van Schrijfboek í upprunalegu útgáfunni og var (eins og nafnið gefur nokkuð sterklega til kynna) af hollenskum ættum. Hann var oftast kallaður Berti í íslensku bókunum en nafnið Gunnar kemur líka að minnsta kosti einu sinni við sögu. Hann er fransk/hollenskur og starfar sem þýðandi hjá tímaritinu SVAL. Hinn, þessi rauðhærði vinstra megin, (það er reyndar svolítið erfitt að greina litamismuninn á þessari mynd) hefur hins vegar hlotið nafnið Guðni í bókunum hér á landi en hefur einnig verið kallaður Berti líka í einhverjum tilfellum. Báðir eru þeir einhvern veginn svo venjulegir í útliti og um leið töluvert líkir svo að auðvelt er að rugla þeim saman. En nú hefur SVEPPAGREIFINN hins vegar fundið eðlilega skýringu á því. Hann hafði alltaf staðið í þeirri meiningu að sá rauðhærði væri nafnlaus í upprunalegu útgáfunni og alveg fundið heimildir fyrir því en nú hefur sem sagt komið í ljós að þeir eru í raun bræður og heita Bertje van Schrijfboek og Jef van Schrijfboek. Og svo því sé haldið til haga þá þýðir Schrijfboek auðvitað skrifblokk eða glósubók á hollensku! 
Ef vel er að gáð sést ættarsvipur þeirra nokkuð vel á þessari mynd og skyldleikinn er því augljós. En það er varla hægt að skilja við þá van Schrijfboek bræður án þess að minnast einnig á náunga nokkurn sem bregður einstaka sinnum fyrir í seríunni. Þessi maður starfar reyndar ekki á skrifstofunni en honum svipar mjög til hinna hollensk-ættuðu bræðra og SVEPPAGREIFINN taldi hann lengi annan hvorn þeirra. Þessi óvenjulega persóna fékk þó aldrei nafn frá Franquin en hann birtist öðru hverju á ritstjórnarskrifstofunni með teikningar í möppu sem hann reynir að heilla Dupuis með. Hann hefur reyndar aldrei haft erindi sem erfiði með þau verk en þeir Viggó spjalla þó stundum saman. Þeir virðast vera ágætir kunningjar og hafa jafnvel dundað sér saman við ýmis verkefni. Á að minnsta kosti tveimur stöðum í íslensku útgáfunum er hann kallaður Palli.
Aðrar persónur bókanna er hins vegar nokkuð auðvelt að sjá fyrir sér sem ákveðnar týpur. Þarna er að sjálfsögðu verið að tala um karaktera eins og Eyjólf, Gvend bókara og ungfrú Jóku svo dæmi séu tekin. Þau hafa öll sín sterku persónueinkenni og það er mjög auðvelt að átta sig á hinum félagslegu hlutverkum þeirra á sögusviðinu. Og svo ekki sé minnst á teiknarann og listamanninn Snjólf. Sá náungi var í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM í æsku þótt erfitt sé fyrir hann í dag að átta sig á því hvers vegna svo var. Það skal tekið fram að í fyrstu Viggó bókinni sem kom út á íslensku (Viggó hinn óviðjafnanlegi) nefndist hann Lárus en í öllum hinum bókunum heitir hann Snjólfur. Reyndar las SVEPPAGREIFINN nafn Snjólfs alltaf sem Snjó-ólfur og áttaði sig ekki á hinu rétta nafni hans fyrr en hann var kominn nokkuð á unglingsaldurinn. Snjólfur á töluvert meiri samleið með Viggó en margir af öðrum starfsmönnum SVALS. Hann á til dæmis ekki jafn erfitt með að hemja skap sitt og þeir Valur og Eyjólfur þó oft hafi hann samt ástæðu til þess. Yfirleitt er hann frekar léttur í lund og á því á köflum ágæta samleið með Viggó sem er reyndar fínn vinur hans. Þeir eiga það jafnvel til að sprella svolítið saman. Snjólfur nefnist á frummálinu Yves Lebrac en hann hét þó Yvon Lebrac til að byrja með í seríunni. Hann er helsti útlitshönnuður tímaritsins og kom fyrst til sögunnar, árið 1962, í sama brandara og Eyjólfur í SPIROU blaði númer 1266.
Snjólfur er grannur og hávaxinn, með frekar langt nef og dökkt hár sem var styttra fyrstu árin en varð seinna meir í síðari kantinum. Og á tímabili skartaði hann jafnvel allmyndarlegum börtum. Hann er jafnan klæddur gallabuxum en eitt af hans helstu einkennum eru þykkar og víðar peysur sem eru reyndar í mörgum mismunandi litum. Seinna sást hann vera farinn að klæðast skyrtum í meira mæli en víðu peysurnar voru þó aldrei langt undan. Franquin sjálfur nefndi það stundum að Snjólfur væri sú persóna á ritstjórnarskrifstofunni sem hann samsvaraði sér best með þó að ætlunin hefði að vísu aldrei verið teikna sjálfan sig inn í seríuna. Snjólfur er mjög fær listamaður, líkt og Franquin var sjálfur, og í einhverjum af bröndurunum er jafnvel hægt að sjá sum af þeim verkum sem hann er að vinna við hverju sinni. Hann er afar vandvirkur og nákvæmur og þarf oft að vinna undir pressu yfirmanna sinna. Þess vegna er hann frekar viðkvæmur fyrir truflunum og því þegar teikningar hans verða fyrir skemmdum en það gerist reyndar nokkuð oft. Sérstaklega er Snjólfi uppsigað við gæludýr Viggós sem hafa alveg einstakt lag á að pirra hann.
Eitt af því sem einkennir viðveru Snjólfs í mörgum af bröndurum seríunnar er undirliggjandi daður hans gagnvart einum af riturum skrifstofunnar og hve duglegur hann er við að gera hosur sínar grænar fyrir henni. Ritarinn sem um ræðir er reyndar nafnlaus í upprunalegu seríunni en á íslensku var hún nefnd Sigrún í einhverjum af þeim Viggó bókum sem Iðunn var að gefa út á sínum tíma. Hvergi er reyndar minnst á þessar ástarumleitanir Snjólfs gagnvart Sigrúnu beinum orðum í bókunum en þær má þó auðveldlega greina og lesa á milli línanna við ýmis tækifæri.
Sigrún birtist fyrst í SPIROU blaði númer 1443 árið 1965 en frumraun hennar má þó reyndar ekki finna í brandara um Viggó viðutan heldur í Sval og Val sögunni Bravo les Brothers sem við þekkjum að sjálfsögðu sem Aparnir hans Nóa og birtist í bókinni Svaðilför til Sveppaborgar. Þá var hún augljóslega nýbyrjuð á ritstjórnarskrifstofunni og fyrsta innslag hennar tengdist hinum frábæra vélritunarbrandara "zefklop, zefklop, zefklop ..." sem allir muna auðvitað eftir. Hún kom síðan fyrir í fyrsta skipti í brandara með Viggó um mitt árið 1966 í SPIROU blaði númer 1463 og birtist upp frá því reglulega á síðum tímaritsins. En ritarinn Sigrún er hávaxin og grönn, alltaf mjög létt og glaðlynd og góð vinkona Viggós. Fatastíll hennar tekur svolitlum breytingum í gegnum bókaflokkinn en í fyrstu var fataval hennar nokkuð klassískt. Seinna gerðist hún töluvert frjálslyndari, og í samræmi við tíðarandann, og klæddist þá gjarnan nokkuð hippalegum fötum.
Eins og áður var minnst á er samband þeirra skötuhjúanna nokkuð nánara en margir gera sér grein fyrir. Í mörgum bröndurum Viggó bókanna, þar sem Snjólfur og Sigrún koma bæði við sögu, má sjá þau ýmist stinga saman nefjum í bakgrunninum eða í það minnsta sækjast eftir því að vera í návist hvors annars. Á ögurstundum, sem koma reyndar æði oft fyrir á vettvangi Viggós, hefur Sigrún jafnvel sést vera komin upp í fangið á Snjólfi þegar mikið liggur við. Og svona miðað við svipbrigði hans og viðbrögð virðist sem honum hafi ekki verið það neitt sérstaklega á móti skapi þótt aðstæðurnar bjóði reyndar ekki beint upp á einhverja rómantík.
Ekki kemur þó skýrt fram í bókunum hvort þetta daður Snjólfs beri einhvern árangur en stúlkan er að minnsta kosti nokkuð vel meðvituð um hinn meinta áhuga hans. Þó Sigrún viti af honum lætur hún þær tilraunir þó oftast í léttu rúmi liggja og leyfir honum jafnvel að ganga svolítið á eftir sér.
Af því kvenfólki sem vinnur á ritstjórnarskrifstofunni var þessi tiltekna snót í mestu uppáhaldi hjá André Franquin sjálfum. Hún var alltaf nafnlaus en hann vildi hins vegar ekki gefa henni nafn fyrr en hann finndi eitthvað sem hentaði og passaði almennilega við hana útlitslega. Á gömlu rissblaði frá Franquin, með skissuteikningum af Sigrúnu, má sjá hvar hann hefur skrifað nokkrar tillögur að nöfnum á henni sem þó hlutu aldrei náð fyrir augum hans. Á þessu blaði má meðal annars finna nöfnin Virginie, Geneviève, Sylvie, Delphine og Clemence en Virginie var reyndar skrifað á tveimur stöðum á blaðið og strikað rækilega undir það á öðrum þeirra. En ekki virtist hann þó hafa verið alveg sáttur við þær hugmyndir. Einn góðan veðurdag fann Franquin síðan hið fullkomna heiti fyrir hana en gleymdi að skrifa það niður hjá sér og svo óheppilega vildi til að hann mundi það ekki þegar til kom. Hún hlaut því aldrei nafn í seríunni og þar við sat. 
En hvað öllum tilraunum Snjólfs, við að ná athygli ritarans nafnlausa, varðar er ljóst að þær umleitanir virðast að endingu hafa borið einhvern árangur. Aftast í Viggó bókinni La Saga des gaffes (1982), sem SVEPPAGREIFINN lumar svo heppilega á í myndasöguhillunum sínum, má sjá þessa skemmtilegu hópmynd af helstu skötuhjúum bókaflokksins. Á henni stilla þau sér upp Snjólfur og Sigrún, Viggó og Jóka og vinirnir Berti blindi og Júlli í Skarnabæ á sitt hvorum endanum. Af teikningunni að dæma virðist sem þau Snjólfur og Sigrún hafi að endingu náð saman en myndin staðfestir einnig að samband þeirra Viggós og Jóku hafi verið nánara en áður gefið hafði verið í skyn. Þessu hefur reyndar áður verið gerð svolítil skil hér á Hrakförum og heimskupörum utan dagskrár og ku ekki vera að finna í neinum af bókunum um Viggó viðutan.

2 ummæli:

  1. Flottur pistill. Ég get tekið undir með að Snjólfur var í einhverju óútskýranlegu uppáhaldi hjá mér í gamla daga.

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir :)

    Ég held að þetta með Snjólf tengist því að maður vorkenndi honum svo mikið. Hann var ekki eins styggur í skapinu og aðrir á skrifstofunni og því upplifði maður hann miklu meira sem fórnarlamb.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!