4. september 2020

173. HERRA SEÐLAN HITTIR GORM

SVEPPAGREIFINN hefur stundum gert sér það að leik að grafa upp stuttar myndasögur eða brandara úr belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU og birt hér á Hrakförum og heimskupörum. Oftast er þetta efni sem ekki hefur birst í þeim myndasögum sem komið hafa út hér á landi og getur verið af ýmsum toga. Sem dæmi um þetta má nefna stakan myndabrandara með Viggó viðutan og herra Seðlan, stutta jólamyndasögu og einnig stutta sögu með þeim Sval og Val.
En fimmtudaginn 9. júlí árið 1970 kom út blað númer 1682, af hinu áðurnefnda SPIROU tímariti, en þetta tölublað markaði þau tímamót að vera upphafsblað þrítugasta og þriðja árgangs myndasögublaðsins kunna. Blaðið var heilar 132 blaðsíður að lengd í þetta sinn og uppfullt af ýmsu skemmtilegu efni, tileinkað þessu óvenjulega tilefni, auk hinna hefðbundnu vikulegu myndasagna og greina. Á meðal þess efnis sem þetta tölublað hafði fram að færa voru til dæmis framhaldssögur með flugfreyjunni ævintýragjörnu Natöchu, franska einkaspæjarann Gil Jourdan, Tif og Tondu og byrjunin á Samma sögunni Des Mômes et des gorilles svo eitthvað sé nefnt. Sú saga hefur ekki komið út hérlendis. Þá mátti þar auðvitað finna hefðbundinn Viggó brandara og fyrstu fjórar blaðsíðurnar úr Sval og Val sögunni Sprengisveppnum, eftir Jean-Claude Fournier, en sú byrjun er reyndar svolítið öðruvísi en við eigum að venjast úr bókinni. En það er annað mál og verður kannski krufið hér betur seinna. Af hinu óhefðbundna efni, sem birt var í tilefni tímamótanna, mátti til dæmis finna þriggja og hálfs blaðsíðna Strumpasögu með auðum talblöðrum þar sem lesendum blaðsins gafst kostur á að taka þátt í að fylla upp í blöðrurnar og stutta myndasögu um Sval, eftir Rob-Vel, þar sem Pési verður ósýnilegur fyrir slysni. Í blaðinu birtist einnig aukabrandari um Viggó, sem margir muna eftir, og segir frá því þegar hann fyllir slökkvitæki af rjóma til að slökkva kertin á afmælistertu SPIROU tímaritsins. En í blaðinu birtust líka nokkrir stuttir myndasögubrandarar sem unnir voru sameiginlega af listamönnum tímaritsins. Þar rugla saman reitum sínum margar af sögupersónum blaðsins og sameinast á ritstjórnarskrifstofunni. En efni það sem SVEPPAGREIFINN ætlar að birta í færslu dagsins tengist einmitt nokkrum af þeim persónum sem kíkja þar í heimsókn. Þetta er brandari eftir Fournier og sýnir hina óvenjulegu samsetningu; Val, Sveppagreifann, Gorm og herra Seðlan. Brandarinn birtist á neðri hlutum blaðsíðna númer 113 og 114 í blaðinu en SVEPPAGREIFINN hefur snarað honum, með aðstoð Greifynjunnar sinnar, yfir á íslensku og vonandi fyrirgefst honum það.
Það telst harla óvenjulegt að sjá herra Seðlan teiknaðan af Fournier en hvað Gorm varðar er nú líklegt að eitthvað hafi André Franquin átt þar einhvern hlut að máli.

2 ummæli:

Út með sprokið!